Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

05.07.2011 22:12

Hneikslaður

Ég er hneikslaður.  Ég ætla því að brjóta svolítið mína eigin reglu og segja hvað mér finnst um fréttafluttning hér á þessu skeri okkar.  Ég hef það fyrir reglu að reyna að vera ekki með nein leiðindi en núna verð ég.

Dagana 25. júní - 4. júlí hafa verið í gangi Special Olympics í Aþenu Grikklandi.  Þarna hafa krakkar frá Íslandi verið að keppa og staðið sig frábærlega.  Þau eru að koma heim í kvöld hlaðin verðlaunum.

  
Merki og lukkudýr leikanna

Það sem ég er hneikslaður yfir eru fréttir af þessari keppni.  Ég man eftir einni lítilli frétt um að hópurinn væri að fara á Special Olympics.  Ekkert annað.  Ég veit ekki hvað það er við fréttamenn á íslandi, blöð, sjónvarp, útvarp.  Af hverju ekki að fylgjast með þessum íþróttaviðburði eins og öllum öðrum?  Er það vegna þess að þessir krakkar eru fatlaðir?  Er fólk dregið í dilka?  Höfum það hugfast að það er sama í hvaða íþróttagrein er keppt, í þeim öllum eru menn að keppa við jafnoka sína. 

Síðast var það silfur í handbolta á ólympíuleikum og þeir fengu fálkaorðina fyrir. 
En hvernig er það með krakkana á Special Olympics.  Ég fann síðu með verðlaunin hjá Íslanska liðinu en ég veit að þetta er ekki allt, verðlaunin eru á þessa leið: 17 gull, 17 silfur, 22 brons - samtals 56 verðlaun.  Þess má geta að flest þessi verlaun eru fyrir einstaklingsgreinar.  Þá vann íslanska liðið silfur í sjö manna fótbolta, þau eru ekki í þessari tölu.
Nú bíð ég eftir því að allir þessir krakkar fái fálkaorðuna eins og handboltaliðið okkar sem vann silfur.  Af hverju ekki þessi hópur eins og þeir?

Hér á þessari slóð getiði séð alla keppendurna og verðalunin sem þeir fengu - http://www.athens2011.org/en/soi-results.asp
Hér getiði séð ljósmyndir frá Special Olympics 2011 - http://if.123.is/home/

Af hverju er ég að tuða þetta?  Jú, við þekkjum eina sunddrottninguna, Elsu Sigvaldadóttur.  Hún kemur heim með gull, silfur og tvö brons.  Frábær árangur hjá henni og við erum stolt að þekkja hana.  Við höfum aðeins fylgst með í gegnum heimasíðu Special lympics


Elsa stingur sér til sunds í Aþenu.  Mynd úr myndasafni Íþróttasamband fatlaðra.

Ekki meira í bili.  Vona að þið fyrirgefið þetta en mér fannst ég þurfa að koma þessu frá mér.  Þó fáir skoði þessa síðu mína þá er spurning hvort þetta vekur einhverja umræðu.

03.07.2011 17:42

Ekki bara bátamyndir:)

Eftir þetta sumarfrí sem ég hef verið í þá er úr miklu að moða og þarf ég að skoða vel á þriðja þúsund myndir.  Ég mun setja þær inn smátt og smátt.  Ég setti inn myndir hér að framan frá Bátadögum 2011.  Það eru ekki bara myndir af bátum í þessu fríi heldur tók ég myndir af öllu ef svo má segja.  Hér eru tvær myndir af teistu og óðinshana sem ég tók í Flatey á Breiðafirði.


Teista


Óðinshani

03.07.2011 15:09

Úr siglingunni á Bátadögum 2011

Hásetinn á Rúnu ÍS, Teddi, sendi mér þessar tvær myndir sem hann tók úr ferðinni.  Svo verður hægt að sjá ferðasögu Tedda á þessari slóð, http://blogg.visir.is/tengill/ fljótlega en ferðasagan er í smíðum.  Ég þakka Tedda fyrir lánið á myndunum.


Þytur siglir upp ölduskaflana.  Ljósmynd: Teddi


Gunnlaugur Valdimarsson einbeittur á svip.  Ljósmynd: Teddi

03.07.2011 02:33

Bátadagar 2011

Kominn úr sumarfríi og nú er eitthvað efni sem ég hef til að setja inn.  Byrjum á Bátadögum 2011 sem haldnir eru þessa helgina, 2. - 3. júlí 2011.

Kom úr Flatey á Breiðafirði á föstudagskvöldið og var því staddur í Stykkishólmi þegar Bátadagar 2011 hófust.  Hópur báta, eða sex talsins lögðu af stað klukkan rúmlega 09:00 þann 02. júlí áleiðis í Rauðseyjar og Rúfeyjar.  Einn fylgdarbátur var með í hópnum.  Hér fyrir neðan má sjá alla bátana áður en þeir lögðu af stað í átt að Rauðseyjum og Rúfeyjum.  Öllum bátum siglt fyrir eigin vélarafli nema Farsæll sem er án vélar og var hann hafður í spotta aftan í Freydísi. 

Ef við skoðum þetta aðeins nánar þá var meiningin að sigla frá Stykkishólmi og Reykhólum og ætluðu hóparnir að mætast við Rúfeyjar og Rauðseyjar.  Eftir því sem ég heyrði þá voru menn við Reykhóla eitthvað efins en talsverður vindur og sjógangur var þar.  Smá vindur var í Stykkishólmi en spáin sagði að það myndi lægja og það varð raunin. Eftir að skipstjórarnir höfðu siglt nokkra hringi fyrir ljósmyndarana sem voru á staðnum sigldu þeir af stað til R-R-eyjanna um klukkan 09:15.

Ég ætla að reyna að segja hverjir hafi verið í áhöfn bátanna að einhverju leiti.
Rúna ÍS, þar var skipstjóri Gunnlaugur Valdimarsson og háseti var Gunnar Th. eða Teddi eins og margir þekkja hann.  Teddi er ekki óvanur en hann er skipstjóri og eigandi á Stakkanesinu.
Þytur, skipstjóri og eigandi bátsins er Þórarinn Sighvatsson.
Farsæll, þar var engin skipstjóri.  Eigandi Farsæls er Þórarinn Sighvatsson en það var Gunnlaugur Valdimarsson sem smóðaði Farsæl þegar hann var um 19. ára gamall.  Það var Þórarinn sem hafði Farsæl í togi.
Bjargfýlingur, þar voru tveir í áhöfn en báðir munu þeir heita Ólafur Gíslason.  Ég get alla vegna sagt að skipstjórinn hafi heitið Ólafur Gíslason.  Bjargfýlingur hafði gúmmíbát í togi.
Freydís SH, skipstjóri Þórður Sighvatsson.  Aftan í Freydísi var Farsæll.
Gustur SH, þar voru m.a. í áhöfn Sigurður Bergsveinsson, Guðlaugur Þór Pálsson, Freyja Bergsveinsdóttir og fleiri.  Aftan í Gusti hékk svo léttabátur.

Fæ vonandi upplýsingar um hverjir hafi svo komið frá Reykhólum og mun þá bæta því inní.


Rúna ÍS


Þytur


Farsæll


Bjargfýlingur


Freydís SH


Gustur SH


Hópurinn lagður af stað.


Fleygur fylgdi hópnum.

16.06.2011 02:48

Ryð

Mér hefur margoft verið bent á að ég sé ryðgaður maður.  Þetta er örugglega rétt því ég hef gaman af að mynda allt sem ryðgað er.  Rakst á þessa tunnu á Álftanesinu í gær og fannst mér hún taka sig ágætlega út.


Ryðguð tunna, 15. júní 2011

16.06.2011 01:59

Varðhundur

Þegar ég var í myndaleiðangri í gær þá kom þessi líka "rosalegi" varðhundur á móti mér.  Það gerði ekkert gagn að sussa á hann.  Ég tók þá ákvörðun að hundsa hundinn sem hélt áfram að gelta að mér þar til eigandinn koma og sussaði á hann, þá loks hætti varðhundurinn að gelta.  Hvað hann sagði veit ég ekki en það útleggst eitthvað á þessa leið:  Voff, voff, voff og svo bætti hann við smá voff, voff, voff.  Ég hef ekki grænan grun um hvað hann sagði.


Varðhundurinn ógurlegi, voff, voff, voff.  15. júní 2011

15.06.2011 17:25

Leifur

Leifur var smíðaður af Eyjólfi Einarssyni skipasmíðameistara í Hafnarfirði fyrir Hjálmar Eyjólfsson frá Brúsastöðum árið 1969.  Báturinn var upphaflega án stýrishúss.
Gunnar Hjálmarsson, sonur Hálmars, eignast bátinn eftir föður sinn.  Gunnar gerir breytingar á bátnum, setur á hann stýrishús og breytir honum eins og hann lýtur út í dag.

Núverandi eigandi er Einar Óskarsson Gesthúsum á Álftanesi.  Aðspurður kvaðst Einar hafa eignast bátinn líklega um 2001 frekar en 2003.  Það hafi atvikast þannig að Leifur sonur hans hafi verið tengdasonur Gunnar Hjálmarssonar, þannig hafi svo báturinn komist í hans eigu.  Báturinn fékk nafnið Leifur, eftir syni Einars.


Leifur

15.06.2011 16:42

5672 Óskar HF 9

Lengi hef ég séð þennan bát en aldrei látið verða að mynda hann fyrr en í dag, 15. júní 2011.  Að vísu hafði ég myndað hann við sólsetur þann 30. maí 2011 en þar sést bara skuggamynd af bátnum. 

5672 Óskar HF 9 var smíðaður af Eyjólfi Einarssyni skipasmíðameistara í Hafnarfirði árið 1973 fyrir Einar Ólafsson Gesthúsum á Álftanesi.  Ári síða lét svo Einar breyta bátnum eins og hann er í dag.  Einar hefur átt bátinn frá upphafi og á hann enn.

Einar er með nokkurskonar mynjasafn hjá sér þar sem hann hefur Óskar og fleira dót sér til gamans.  Óskar hafi leyst annan bát af sem hafi verið þarna áður.  Sá bátur er nú í geymslu og mun ég fjalla um hann síðar.


5672 Óskar HF 9


Óskar HF 9

Einar sagði mér eina sögu sem ég leyfi mér að segja hér og vona að ég fari rétt með. 
Einar kvað þetta hafa gerst laugardag einn í júlí 1983.  Það hafi ekki verið of gott í sjóinn en samt þá var Einar frekar eirðalaus.  Hann fór niður í fjöru þar sem Óskar var.  Á sama tíma kom nágranni Einars að landi og sagði honum að hann færi nú ekki út í þetta.  Einar kvaðst nú vera sammála því en samt þar sem hann væri nú kominn þetta þá gæti hann eins farið út undur skerin og reynt að fiska eitthvað. 
Þegar Einar var kominn út og var að renna fyrir fisk sá hann að nokkrar skútur voru á leið til Hafnarfjarðar, en þar var verið að halda uppá einhverja hátíð. Einar kvaðst hafa séð að lítil skúta hafði dregist afturúr og var talsvert á eftir hinum.  Þar sem hann var að fiska veitti hann því athygli að skúturnar fóru allar framhjá honum nema þessi síðasta.
Einar kvaðst hafa litið eftir skútunni en ekki séð hana.  Hann hafi séð einhverjar þúst í sjónum sem hann kannaðist ekki við og sigldi því í áttina.  Þegar nær dró sá hann að þetta var skútan og hún á hvolfi.  Tveir menn voru á kili skútunnar.  Þegar Einar kom til þeirra sagði eldir maðurinn, "taktu strákinn, hann er ósyndur". 
Það sem gerðist var að þessir menn, Jóhann Guðmundsson og Guðmundur Jóhannsson, höfðu ákveðið að snúa við en fara ekki til Hafnarfjarðar en þegar þeir venda þá hvoldi skútunni.  Þeir hafi nú samt ekki átt að vera í erfiðleikum með að snúa skútunni á réttan kjöl aftur en þeim tókst það ekki.  Einar kvaðst halda að það hafi verið farið að fjara út og endi mastursins hafi verið ofan í þaranum og þeir því ekki náð að snúa skútunni.
Einar sagði að það hafi verið greinilegt að hann hafi átt að fara á sjó þennan dag þrátt fyrir veðrið.

14.06.2011 17:43

Stýri eða stél ?

Svala er bátur sem Jón Ragnar Daðason hefur verið að gera upp.  Hann varð fyrir því um daginn þegar hann sigldi Svölunni að stýrið brotnaði.  Þar sem báturinn heitir Svalan þá velti ég því fyrir mér hvort Svöluna vantaði stýri eða "stél".
Hvað sem því líður þá er Jón Ragnar nú að smíða nýtt stýri og ætlaði hann að smíða það eitthvað sterkara en það gamla var.  Hann er langt kominn með endursmíðina á stýrinu og mun setja það á Svöluna strax og smíðinni er lokið.  Jón Ragnar hefur svo hug á að vera á Svölunni á Bátadögum 2011 og sigla frá Stykkishólmi. 
Hér fyrir neðan má sjá Jón Ragnar með stýrið í smíðabekknum að ræða við Hafliða lærimeistara sinn.  Miklar mælingar og pælingar eru við svona smíði svo vel eigi að takast til.


Hafliði meistari leiðbeinir Jóni Ragnari lærlingi.  Nýja stýrið í síðum. 14. júní 2011


Gamla stýrið af Svölunni.  14. júní 2011

14.06.2011 17:34

Gamaldags verkfæri

Hitti á Jón Ragnar Daðason lærlingur í skipasmíði.  Ég var að skoða verkfærin hans og þá rifjaðist upp fyrir mér að talsvert af svona verkfærum voru til á mínu heimili á Húsavík þegar ég var lítill, hvar þau enduðu síðan er ekki gott að segja.  Hér eru nokkrar myndir af verkfærum sem Jón notar við bátasmíðarnar. 


Brot af þeim verkfærum sem Jón Ragnar á og notar.


Hefill og sagir.


Það eru fleiri en tréáhöld notuð við smíðar.

13.06.2011 23:11

13. júní 2011

Loksins fór ég út eftir rúmlega viku veikindi, nældi mér í smá lungnabólgu svona rétt til að krydda tilveruna svolítið.  Ákvað að kíkja hvort ég fyndi ekki einhverja sem væru að leggja lokahönd á einhverjar tryllur sem ætluðu að skreppa á Bátadaga 2011.  Ég var ekki svo heppinn en ég hitti á Hilmar F. Thorarensen eiganda Hönnu ST 49 og myndaði helstu breytingar.  Uppfærði aðeins sögu Hönnu eftir viðtal við Hilmar, sjá hér http://rikkir.123.is/blog/record/511284/


Hilmar F. Thorerensen eigandi Hönnu ST 49.  13. júní 2011

Þá kíkti ég á Reykjavíkurhöfn en þar er aldrei neitt að sjá þó svo maður taki alltaf myndir.  Tel þetta vera Grænlending miðað við nöfnin sem á honum voru.  Þá tók ég eina mynd í Hafnarfjarðarhöfn í dag. Var örlítið of seinn því þeir voru á sjóbrettum og létu draga sig á hraðbáti.  Náði bara mynd þegar báturinn kom inn í höfnina.


Inuksuk 1, frá Iqaluit ex Salleq frá Nuuk. Reykjavíkurhöfn 13. júní 2011


Þessi var að draga stráka á sjóbrettum en missti af því.  Hafnarfjarðarhöfn 13. júní 2011

10.06.2011 19:34

Bátadagar á Breiðafirði

Bátadagar á Breiðafirði 2-3 júlí 2011

Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar (FÁBB), sem undanfarin 3 ár hefur gengist fyrir siglingu súðbyrtra trébáta um Breiðafjörð, gengst nú fyrir slíkri bátahátíð dagana 2-3 júlí n.k..  FÁBB hefur súðbyrðinginn í öndvegi og vinnur að verndun hans og kynningu.  Einnig stendur félagið að sýningunni "Bátavernd og hlunnindanytjar", sem opnuð var á Reykhólum 1. júní s.l. í samvinnu við Reykhólahrepp og Æðarvé, félag æðarbænda í Austur-Barðastrandasýslu og Dalasýslu.

Að þessu sinni verður fyrirkomulag bátadaga þannig að siglt verður á laugardeginum 2. júlí bæði frá Reykhólum og frá Stykkishólmi í Rauðseyjar og Rúfeyjar.  Á sunnudeginum 3. júlí er ráðgert að sigla í Akureyjar og einnig verður sýningin á Reykhólum opin fyrir þátttakendur.   Áætlað er að siglt verði frá Stykkishólmi kl.09:00 en frá Reykhólum kl.10:00 og er tímasetning á brottför báta háð veðurspá þessa daga.

Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð og eyjarnar verða skoðaðar í fygld manna sem þekkja þær vel og lýsa staðháttum og sögu þeirra.

Trébátaeigendur!!! komum saman og siglum í nafni bátaverndar og vekjum athygli á okkar málstað .  Hvetjum alla til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar í fallegu umhverfi. Þess ber að geta að tjaldaðstaða á Reykhólum er mjög góð og miklar endurbætur hafa verið gerðar tjaldsvæði við Gistiheimilið Álftaland þar sem gestir hafa aðgang að eldhúsi og hreinlætisaðstöðu ásamt því að geta skellt sér í nýju heitu pottana. Verslunin Hólakaup stendur að sjálfsögðu fyrir sínu, hún blómstrar í höndum nýrra eigenda hvað varðar vöruúrval og þjónustu.

Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá fyrirhugaðar siglingar.


Rauður: Laugardagurinn 2. júlí frá Stykkishólmi og Reykhólum í Rúfeyjar og Rauðseyjar.
Grænn:  Sunnudagurinn 3. júlí frá Reykhólum í Akureyjar.

Allir súðbyrðingar eru velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er bæði á Reykhólum og í Stykkishólmi.

Nánari upplýsingar veita:
Hafliði Aðalsteinsson, haflidia@centrum.is  s: 898 3839
Hjalti Hafþórsson, artser@simnet.is  s: 861 3629
Sigurður Bergsveinsson, sberg@isholf.is  s: 893 9787


Hér má svo sjá hluta þeirra báta sem voru á Bátadögum 2010.  Smellið á myndina og þá sjáiði myndir af öllum bátunum sem voru þarna á ferð.


Hluti báta á bátadögum 2010 við Flatey á Breiðafirði.

09.06.2011 21:39

The Shadows

Þann 5. maí 2005 fórum við hjónin á tónleika sem haldnir voru í Kaplakrika.  Það var hljómsveitin The Shadows sem þar tróð upp.  Húsið var fullt og ekki gat ég heyrt betur en allir skemmtu sér hið besta.  Reyndar var ég ekkert að velta því fyrir mér hvort aðrir skemmtu sér heldur hafði ég svo gaman á þessum tónleikum við að hlusta og mynda að ég gaf mér litinn tíma að fylgjast með öðrum.  Ég var að rifja þessa tónleika upp því það var gefin út diskur með tónlist og dvd af þessari lokaferð þeirra sem tekin var upp í Cardiff.  Við að skoða þessa tónleika þá gat þetta alveg eins verið tekið upp hér í Hafnarfirðinum því sjóvið var það sama.  Ég setti inn nokkrar myndir af þeim félögum, Hank Marvin, Bruce Welch og Brian Bennett en þeir skipa Shadows.  Með þeim á myndunum er svo Mark Griffith sem spilar á bassa.  Setti inn nokkrar myndir frá þessum tónleikum vonandi ykkur til smá ánægju.  Þá má geta þess að í kvöld eru tónleikar með Eagles og þar sem hún er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum langaði mig að vera þar.  Fannst miðarnir reyndar "aðeins" of dýrir og því fer ég ekki.  Þessir tónleikar með Shadows get ég upplyfað aftur og aftur með að skoða dvd af The Shadows The Final Tour.  Mæli eindregið með þeim diski.


The Shadows á fullu í Kaplakrika, 05. maí 2005


The Shadows

31.05.2011 00:44

Kvöldsól

Það er gaman að glíma við sólina.  Stundum gengur manni ekki of vel að taka myndir móti sól en ég náði þessari.  Þetta er einhver rússi að ég held, var ekkert að taka niður nafnið á honum.  Seinni myndin er tekin úti á Álftanesi.  Vona að þið hafið gaman af þessu.


Þessi sólaði sig í kvöldsólinni í Hafnarfjarðarhöfninni, 30. maí 2011


Þessi er svo úti á Álftanesi.  30. maí 2011

31.05.2011 00:36

Hafnarfjarðarhöfn 30. maí 2011

Þessir tveir voru að leika sér í Hafnarfjarðarhöfninni í gærkveldi.  Skiptust á að vera á þotunni.  Þá var hópur stráka að æfa fyrir sjómannadaginn og var takturinn nokkuð góður en sýndist úthaldið ekki uppá það besta.  Þeir hafa nokkra daga ennþá til að ná þessu strákarnir.


Á fullri ferð í Hafnarfjarðarhöfn, 30. maí 2011


Þessi tók svo við, 30. maí 2011


Þessir tóku æfingu í kappróðri fyrir sjómannadaginn

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 2537
Gestir í dag: 1024
Flettingar í gær: 236
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 349926
Samtals gestir: 33117
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 19:38:59