Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2012 Nóvember

28.11.2012 22:09

Maron

Smellti þessari á Maron en það var verið að landa úr honum í Njarðvíkurhöfn þegar ég var þar á ferð.  Ætli þetta sé þá ekki stálverkur.  Fannst birtan flott og hvernig máninn fylgist vel með öllu sem gerist.


Maron HU 522. Njarðvík 25. nóvember 2012

28.11.2012 21:39

Arnartindur sá fjórði

Arnartindur GK 212

 

Smíðaður í Bátasmiðju Breiðafjarðar í Hafnarfirði 1955.  Eik og fura.  4,25 brl. 16 ha. Lister vél.

Arnartindur var fjórði happdrættisbáturinn frá DAS, hann var dregin út  3. júní 1955 og kom á miða nr. 4978, sem var í eigu Ásgeirs Höskuldssonar, Mosfellsbæ sem er þá fyrsti eigandi Arnartinds.

Ásgeir stundaði nám í verkfræði og seldi því bátinn til að fjármagna nám sitt erlendis.


Arnartindur, Höskuldur Ágústsson, Ásgerður Höskuldsdóttir og Auðunn Hermannsson. 
Mynd úr safni DAS


Ásgerður Höskuldsdóttir við Arnartind.  Mynd úr safni DAS



Seldur  1. júlí 1955, Gunnari Karlssyni, Ási og Guðjóni G. Karlssyni, Karlsskála, Grindavík.  Báturinn seldur 15. október 1960 Karli G. Karlssyni og Ingibergi Karlssyni, Karlsskála.  Báturinn fórst á Járngerðarstaðasundi 2. Febrúar 1961.  Þrír menn voru í áhöfn bátsins.  Einn fórst og tveir björguðust.

 

Alþýðublaðið föstudaginn 8. júlí 1955 skýrir frá því að í dag sé nýr bátur á leiðinni til Grindavíkur.  En það er báturinn Arnartindur sem verður GK 212.  Í gærkveldi átti að setja bátinn á flot í Bátasmiðastöð Breiðfirðinga í Hafnarfirði.  Báturinn sé eign þriggja bræðra, Karls Gunnars, Guðjóns G. og Ingibergs Karlssona.

 

Morgunblaðið föstudaginn 19. október 1956 var Arnartindur auglýstur til sölu.




Alþýðublaðið, föstudaginn 3. febrúar 1961.   

Bátur ferst við Grindavík

 

Þilfarsbáturinn Arnartindur GK 212 fórst í gærdag (fimmtudaginn 02. febrúar 1961) um klukkan 3 á Brimsundi við Grindavík.  Þegar hann var að koma úr róðri.  Á bátnum voru þrír menn og drukkanði einn þeirra, Ingibergur Karlsson, Karlsskála í Grindavík.  Hann var tæpra 43 ára, fæddur 5. mars 1917.  Hann lætur eftir sig aldraða móður.

Tildrög slyssins eru þau að þegar Arnartindur, sem er 5 lesta þilfarsbátur, var að koma úr róðri, um þrjúleitið var komið foráttubrim.  Arnartindur var á leið til hafnar í Grindavík en innsiglingin er mjög þröng og hættuleg.  Á Brimsundi hvoldi bátnum.

 

Atburðurinn sást úr landi og fór vélbáturinn Ólafur, 22 lestir, út til að reyna að bjarga mönnunum. Ólafur var nýkominn úr róðri. Skipstjóri á honum er Einar Dagbjartsson.

Skipverjum á Ólafi tókst að bjarga einum manni af Arnartindi, Berþór Guðmundssyni, til heimilis að Aðalstræti 13, Akureyri. Þegar að var komið hélt Berþór sér á floti á belgjum.

 

Nokkuð löngu síðar sáu menn úr landi einhverja þústu i sjónum. Héldu menn að þarna væri selur. Einhver sótti samt sjónauka og þá kom í Ijós að það var maður á floti.  Var brugðið skjótt við og bátur sendur út manninum til bjargar.  Hann heitir Einar Jónsson, Járngerðarstöðum í Grindavík. Hann er kvæntur og á fjölda barna. Einar bjargaðist nær klukkustund eftir að Arnartindi hvolfdi og hafði hann þá verið á sundi allan tímann.  Er talið að ekki hafi mátt dragast mínútum lengur að honum yrði bjargað.

 

Báturinn sem fórst, Arnartindur, er einn af happdrættisbátum Dvalarheimilis aldraðra sjómanna.

 

Heimild:

Íslens skip, bátar

Tímarit.is

28.11.2012 20:52

Litlitindur var þriðji

5659 Litlitindur VE 326

Smíðaður í Bátasmiðju Breiðafjarðar í Hafnarfirði 1954.  Eik og fura.  3.83 brl. 22 ha. SABB vél.

Litlitindur er þriðji báturinn í röðinni af DAS bátunum.  Hann var dreginn út 3. apríl 1955 og var Haraldur Sigurðsson, Reykjavík sá heppni.


Haraldur Sigurðsson ásamt sonum sínum við Litlatind  Mynd úr safni DAS

Haraldur virðist hafa selt bátinn strax því næsti eigendi er Jóel Guðmundsson, Háagarði í Vestmannaeyjum, frá 1954.  Báturinn var endurbyggður í Vestmannaeyjum 1961.  Seldur 19. maí 1961 Einari Ágústssyni, Pétursborg Fáskrúðsfirði, hét Litlitindur SU 326.  Seldur 9. júní 1967 Bergkvist Stefánssyni, Baldurshaga, Fáskrúðsfirði.  Seldur 1. júní 1973 Jóhannesi Jóhannessyni og Sævari Níelssyni, Fáskrúðsfirði.  Heitir Litlitindur SU 508.  Báturinn talinn ónýtur og tekinn af skrá 12. febrúar 1986.

Á Tímarit.is fann ég grein úr DV frá þriðjudeginum 18. júní 1985 en þar er rætt við Sævar og Jóhannes eigendur Litatinds.  Þeir félagar hafa gert út Litlatind SU 508, 3,8 tonna bát í 13 ár frá Fáskrúðsfirði.  Þarna er sagt frá því að þeirra síðustu vertíð á Litlatindi sé lokið, nýr bátur tekur við hans hlutverki.

Ræddi við Jóhannes Jóhannesson annan eiganda Litlatinds.  Þegar þeir keyptu bátinn frá Vestamannaeyjum þá var hann með húsi.  Jóhannes sagði að þeir hafi skipt um stýrishúsið.  Þegar þeir keyptu bátinn þá var 16 ha. SABB vél í bátnum og fljótlega eftir að þeir keypti skiptu þeir um vél og settu 22 ha. SABB vél í bátinn.

Jóhannes sagði að þeir hafi selt Litladins 1986 á Stöðvarfjörð.  Man ekki nafn þess sem keypti bátinn.  Jóhannes hélt að báturinn hafi aldrei verið notaður eftir að hann kom til Stöðvarfjarðar, hann hafi endað uppi í fjöru.

Hver átti bátinn á Stöðvarfirði?
Hvað varð um bátinn?..............................meira síðar


DV-mynd Ægir, af Tímarit.is

Sögusagnir:
Ég hef heyrt sagt að allir DAS bátarnir hafi verið eins.  Það er ekki rétt og það er hægt að sjá það á myndinni af Litlatind.  Umförin á Litlatind eru 10.  Ef talin eru umförin t.d. á Súlutindi þá er hann alla vegna með 13 umför eða 12,5 umför.  Þá má sjá að Litlitindur er ekki með stýrishúsi þegar hann er afhentur og þá er frágangur á stefni annar og kappinn framaná er annar en á hinum bátunum.  Eitt sinn heyrði ég sagt í gríni að Litlitindur hafi verið smíðaður úr afgangstimbri og því hafi báturinn orðið minni, ekki til nóg til að hafa hann jafnstóran hinum.  Sel það ekki dýrara en ég stal því.

Heimildir:

Íslensk skip, bátar

Tímarit.is

Munnlegar upplýsingar, Jóhannes Jóhannesson

28.11.2012 20:23

Myndverk af tréverkum

Ég fékk strax viðbrögð við því að hafa ekki sett inn bátamyndir núna síðast.  Ég vil hafa smá tilbreytingu í þessu hjá mér.  Ég talaði um tréverki.  Það var nú bara af því ég fékk flís, sem sagt tréverk:)  

Set hér inn myndverk af tréverkum.  Sagan um hvern og einn kemur síða en þessar myndir eiga að róa þá sem hafa þessa verki sem áður eru nefndir.  Auðvitað er það svo að ef þið vitið eitthvað annað en standur í Íslensk skip, bátar þá endilega látið það koma.  Þá má geta þess að þar sem ég er nú mest með trillurnar þá er kanski sá fyrsti full stór fyrir mig.


Álftafell ÁR 100, kanski full stór fyrir mig en..............


Kambur BA 34 ex Sigrún SH 212


Silfri KE 24


Blíðfari GK 234


Fanney SK 68

27.11.2012 21:56

Legið í leyni!

Þegar ég var að taka myndir á Njarðvíkurfitjunum kom þessi maður og tók myndir af öndunum á tjörninni.  Þar sem ég lá og hann beygði sig niður var hátt gras milli okkar.  Því fannst mér eins og hann væri að fela sig þó svo væri í raun ekki því hann er sjálfur á opnu svæði.  Fannst þetta koma vel út.


Legið í leyni.  Njarðvíkurfitjar 25. nóvember 2012

27.11.2012 21:44

Allar saman nú!

Skrapp í Njarðvík s.l. sunnudag, 25. nóvember 2012.  Smellti nokkrum myndum af fuglum, tréverki sem kallast bátar og ýmsu fleiru.  Á Fitjunum í Njarðvík er mikið fuglalíf og þar er fuglunum gefið brauð.  Ég varð vitni af einni gjöf og fannst álftirnar flottar.  Var að reyna að ná mynd þegar allir hausar væru uppi, en það gekk illa.  Hér eru þó myndir sem sýna þetta.


Þær vilja meira, Njarðvíkurfitjar 25. nóvember 2012


Fáum við ekki meira.  Njarðvíkurfitjar 25. nóvember 2012


Allar saman nú, horfa upp.  Njarðvíkurfitjar 25. nóvember 2012

17.11.2012 14:38

Súlutindur var annar

5046 Súlutindur SH 79

Smíðaður í Bátasmiðju Breiðarfjarðar í Hafnarfirði árið 1955.  Eik og fura.  3.82 brl. 16 ha. Lister vél. 

Fékk nafnið Súlutindur og var annar í röðinni af svonefndum happdrættisbátum.  Báturinn var dreginn út hjá happdrætti DAS þann 03. mars 1955 og kom á miða númer 5879, vinningshafi og þá fyrsti eigandi Súlutinds var frú Helga Þórarinsdóttir, ekkja að Bræðratungu í Grindavík.  


Á myndinni má sjá frú Helgu Þórarinsdóttur, ásamt Sigurði Þorleifssyni umboðsmanni happdrættisins í Grindavík, taka við bátnum. Mynd: Tíminn 10. mars 1955


Frú Helga ákvað að selja bátinn og nýjir eigendur voru Höskuldur Pálsson og Jón Höskuldsson, Stykkishólmi en þeir eignast bátinn 08. mars 1955.  Þeir selja svo bátinn 21. október 1961 Þórði Hjartarsyni, Hellissandi, Hét Víkingur SH 225.


Þann 21. júní 1963 er Súlutindur auglýstur til sölu.



Ekki veit ég um hvort báturinn var seldur eða hætt við söluna.  Báturinn er seldur 14. desember 1972 Ársæli Jónssyni, Viðvík, Hellissandi, hét Rúna SH 119.  Seldur 25. apríl 1979 Smára J. Lúðvikssyni, Rifi.  Báturinn heitir Kári SH 119 og er skráður á Hellissandi 1997.

Smári er ennþá eigandi Súlutinds og nú stendur báturinn á Hellissandi og búið að smíða sökkul framan við bátinn og setja nafnið Súlutindur þar á.  Bátnum er vel haldið við að mínu mati.



Súlutindur, 18. maí 2012


2. nóvember 1955 mátti lesa í blöðunum grein m.a. í Tímanum.  Fyrirsögnin var: Snarræði bjargaði manni og bát.  Fyrirsögn í öðru blaði var: Bátur frá Stykkishólmi sekkur við Höskuldsey, bátsverjar bjargast nauðuglega á land.

Þarna er sagt frá því þegar mótorbáturinn Súlutindur, 6 smálestir, sem er eign Höskuldar Pálssonar í Stykkishólmi, sökk við Höskuldsey.  Tveir menn voru á bátnum og björguðust þeir nauðunglega.

Súlutindur var á leið í róður og fór frá Stykkishólmi kl. 6 þann 25. október 1955.  Skipverjar voru tveir, Jónas Pálsson og Jón Höskuldsson.  Veður var suðvestan, hægur kaldi en nokkur sjór.  Var báturinn staddur um það bil 20 mínútna keyrslu út af Höskuldsey er þeir félagar urðu varir við leka.  Snéru þeir þá tafarlaust við, en lekinn ágerðist mjög strax eftir að þeir urðu hans varir.

Stefndu þeir félagar að Höskuldsey og skipti engum togum að þar stöðvaðist vél bátsins vegna lekans og slökk Súlutindur þar skammt frá landi.  Björguðust mennirnir nauðuglega á land.

Tókst að ná Súlutindi úr sjó og var komið með hann hingað til Stykkishólms kl. 7 í gærkveldi (25.10.1955).  Ekki er búið að athuga skemmdir bátsins til fulls, en þegar kom í ljós að hann er mikið skemmdur og meðal annars að kjölsíðan er rifin frá kili á stóru svæði.  Þarfnast báturinn mikilla viðgerða.

Súlutindur kom til Stykkishólms s.l. vor og er einn af happdrættisbátum DAS.

 

Í annarri grein kemur fram að þegar Súlutindur var sóttur þá var það báturinn Gísli Gunnarsson, formaður Eggert Björnsson sem sótti hann.  Þegar vélbáturinn var að draga Súlutind út úr vognum munaði minnstu að illa færi.  Slitnaði Súlutindur aftan úr er farið var út úr vognum og var hann í þann veginn að reka upp í brimgarðinn með einn mann innanborðs.  Þá tókst formanni á Gísla Gunnarssyni með snarræði að koma beint á hlið Súlutinds, svo að maðurinn gat stokkið um borð og um leið tókst að slöngva vír í Súlutind o festa og draga bátinn út.  Ef hann hafði farið upp í brimið, hefði hann vafalaust brotnað og líf mannsins verið í bráðri hættu.

 

Í Þjóðviljanum 10. Desember 1955 er grein sem segir frá vélbátnum Guðmundi SH 91 sem strandaði við Andey.  Mönnum var bjargað og ekki vonlaust að báturinn náist út.  Guðmundur SH er 14 lestir að stærð.  Báturinn hafði verið nýkeyptur frá Hellissandi þar sem hann hafði strandað og var framkvæmd á honum viðgerð og var hann í fyrsta róðri eftir viðgerðina þegar hann strandaði.  Kom leki að honum og var þá haldið til lands, en lekinn óx uns vélin stöðvaðist af þeim sökum.  Bátinn rak stjórnlaust upp í Andey.  Vélbáturinn Súlutindur bjargaði áhöfninni, þrem mönnum.

 

Upplýsingar:

Íslensk skip, bátar bók 3, bls. 177 - Súlutindur SH 79, 5046

Tímarit.is

16.11.2012 23:29

Heklutindur var fyrstur

Ég hef verið að afla mér upplýsinga um DAS bátana eins og þið hafið séð.  Ég hef hugsað mér að setja svo allt inn sem ég hef fundið um þá og vona að þið hafið gaman af.  Ýmislegt finn ég á tímarit.is, svo hringi ég í "vin" eins og sumstaðar er gert.  Ég mun setja þá inn í réttri röð, eins og þeir voru dregnir út hjá DAS.  Heklutindur var fyrsti happdrættisbáturinn.  Ef þið hafði einhverjar upplýsingar þá væru þær vel þegnar, nú eða myndir.


Heklutindur

Smíðaður og teiknaður í Bátasmiðju Breiðafjarðar í Hafnarfirði, síðar Bátalóni, árið 1954.  Rúm 4 tonn að stærð, 28 feta langur.  Fura og eik.  Kjölurinn og stefni eru úr eik og birðingurinn úr furu, þá er þreföld eikarbönd.  Vélin er Lister díeselvél, 16 ha.  Verð 90.000 krónur.



Mynd úr Morgunblaðinu 31. desember 1954, síðustu handtökin við smíðina.


Nánari lýsing á bátnum er á þessa leið:  Bátur þessi er sérlega vel vandaður og búinn ýmsum nýjungum.  Með fiskistíum, afturlest og hvalbak, en undir hvalbaknum lúkar með hvílu, legubekk og olíukynntri eldavél.

Báturinn stóð til sýnis á mótum Aðalstrætis og Austurstrætis, vélin var höfð í gangi og báturinn upplýstur.


Heklutindur í Aðalstræti.  Mynd frá Happdrætti DAS


Heklutindur er fyrsti svokallaðra happdrættisbáta sem smíðaðir voru fyrir Happdrætti DAS á árunum 1954-1958.  En fyrirhugað er að allir bátar happdrættisins beri nafn er endi á -tindur.  Heklutindur var dregin út 8. janúar 1955 á miða í eigu Árna Eiríkssonar, bílstjóra í Reykajvík.

Í grein í Morgunblaðinu 23. janúar 1955 er sagt frá því að fjórir ungir Grunnvíkingar hafi keypt Heklutind og muni þeir sigla honum til Vestfjarða.  Þetta voru bræðurnir Sigurjón og Gunnar Hallgrímssynir, Páll Friðbjörnsson og Karl Pálsson, allir til heimilis í Sætúni í Grunnavíkurhreppi.  Þeir keyptu bátinn af vinningshafanum fyrir 95.000 krónur.

Sigurjón var spurður hvernig þeim litist á nýja bátinn.  Ágætlega.  Þetta er mjög vandaður vélbátur, 4,6 smálestir að stærð með 16 ha. Lister-díeselvél.  Hann er útbúinn fullkomnari tækum en bátar af sömu stærð eru að jafnaði.  Í honum er dýptarmælir, raflýsing og vökvastýri.  Ennfremur tæki til þess að lægja með sjóa með olíu.  Er hægt að spýta olíu út úr fram- og afturstefni og er því stjórnað í stýrishúsi.  Báturinn er þiljaður fram fyrir stýrishús og fram í er góður lúkar með hvalbak.  Við erum allir á vertíð hér fyrir sunnan í vetur en með vorinu ætlum við að sigla Heklutind vestur.  Annars ætlum við að skýra hann upp en höfum ekki ákveðið heiti hans.  Gaman væri að vita hvort þeir hafi skipt um nafn á bátnum?



Heklutindur gerður klár til brottfarar.  Mynd frá Happdrætti DAS


Síðdegis þann 20. Apríl 1955 lagði happdrættisbáturinn Heklutindur upp í sína fyrstu alvöru sjóferð frá Reykjavík til Grunnavíkur við Ísafjarðardjúp.  Í prufusiglingum hefur báturinn reynst mjög vel.  Þrír nýju eigendanna sigldu bátnum vestur og áætla að þeir verið 30-35 klst. í ferðinni.  Báturinn var að sjálfsögðu fylltur af varningi áður en lagt var af stað.  Báturinn verður gerður út frá Grunnavík og afla verður landað þar líka.



Heklutindur á siglingu. Mynd af vef Gunnvíkurfélagsins


Þann 22. apríl um kl. 12:30 renndi Heklutindur að bryggjur á Ísafirði.  En þann 20. apríl hafði bátnum verið siglt frá Reykjavík til Grunnavíkur.  Siglingin tók 28 klst.  Þeir fengu ágætis veður og gekk ferðin að óskum.  Reyndist báturinn og vélin ágætlega.


Þann 05. desember 1962 fóru tveir menn frá Ísafirði á vélbátnum Heklutindi, til Jökulfjarða og ætluðu að huga að refum.  Þetta voru Kjartan Sigmundsson, eigandi bátsins og Bjarni Pétursson.  Þeir komu til Grunnavíkur á miðvikudag, en fóru í Lónafjörð á fimmtudag og lögðust svo á leguna við Hesteyri klukkan 9 á fimmtudagskvöldið.  Kjartan segir að verðuspáin hafi þá verið suðaustan gola og fyrir laugardaginn hafi verið spáð suðlægri átt með rigningu.  Gistu þeir áhyggjulausir um nóttina í húsi Bjarna, Móum við Hesteyri.

Klukkan sex á föstudagsmorgun skall svo skyndilega á iðulaus stórhríð af norðaustri.  Telja þeir veðurhæð hafa verið 8-10 stig og stóð veðrið á land.  Gátu þeir félagar ekkert aðhafst í landi og klukkan hálf þrjú á föstudaginn slitnaði báturinn upp og rak í land og brotnaði hann.  Fór önnur hliðin úr bátnum og er hann gersamlega ónýtur.  Gátu þeir félagar ekkert aðhafst vegna veðurofsans.  Var báturinn orðinn mjög ísaður, t.d. var afturmastrið orðið um metri í þvermál.

09. desember fékk Slysavarnarfélagið vélbátinn Dynjanda til að leita þeirra félaga og fann hann þá á Hesteyri.  Engu hefur enn verið unnt að bjarga úr Heklutindi. 


Eftir að Heklutindur brotnaði við Hesteyri var hann fluttur til Ísafjarðar þar sem hann lá árum saman.  Loks var hann fluttur að Bæjum við Djúp, þar sem Jens í Kaldalóni eignaðist hann.  Báturinn var þó aldrei gerður upp en þarna sást báturinn síðast við útihúsin um 1989 og ekki vitað hvort hann er þar ennþá.


Þorbjörn H. Jóhannesson sendi mér tvær myndir sem hann tók af Heklutindi við Hærribæ og sendi mér smá frásögn með.  Þorbjörn fær orðið: 

Heklutindur var mölvaður niður þegar öll húsin í Hærribæ voru rifin, og jarðaður á staðnum, þetta var árið 2003/2004.  Til gamans þá var túnið niðri á stöpunum þar sem hann var dreginn á land skírt
eftir honum og heitir því Heklutindur því á því er smá hæð.
 


Heklutindur á kafi í snjó við Hærribæ, snjóaveturinn 1995.  Mynd: Þorbjörn H. Jóhannesson


Heklutindur 25. júlí 1995.  Mynd: Þorbjörn H. Jóhannesson


03.11.2012 02:18

Allir DAS bátarnir komnir

Nú eru nöfn allra -tindanna komin eins og sjá má hér að neðan.  Sigurður Ágúst hjá Happdrætti DAS sendi mér síðustu upplýsingarnar.  Þetta eru sem sagt nöfn Happdrættisbátanna svokölluðu.  Þá segir Sigurður að það geti verið að það hafi verið smíðaður fleiri bátar sem hafi heitið -tindar.

Hér kemur réttur listi yfir DAS bátana:

Happdrættisár:Nafn báts:Flokkur:Útdráttur þann:Vinningshafi:
1954-1955Heklutindur7.8.jan.55Árni Eiríksson, Reykjavík
1954-1955Súlutindur9.3.mar.55Helga Þórarinsdóttir, Grindavík?
1954-1955Litlitindur10.3.apr.55Haraldur Sigurðsson, Reykjavík
1955-1956Arnartindur2.3.jún.55Ásgeir Höskuldsson, Mosfellsbæ
1955-1956Kofratindur9.8.jan.56Ólafur Jakobsson, Ísafirði
1955-1956Búlandstindur11.3.mar.56Þorleifur Sigurbrandsson, Reykjavík
1956-1957Hólmatindur4.3.ágú.56Páll Beck, Kópavogur
1956-1957Snætindur11.3.mar.57Jón Sig. Jónsson, Akranesi
1957-1958Keilistindur7.4.nóv.57Óseldur miði
1957-1958Sólartindur11.3.mar.58Kjartan Guðmundsson, Naustavík Árneshreppi, Ströndum
1958-1959Klukkutindur1.3.maí.58

Hulda Kristinsdóttir, Reykjavík

 

Í greininni hér að neðan sjást tvö nöfn til viðbótar við þau sem eru hér að ofan, Stjörnutindur og Mánatindur.  Þessi nöfn tilheyra ekki DAS bátunum eins og þið getið séð.  Gætu samt verið eins bátar.
Grein úr Degi, 23. desember 1994

Meira síðar...................
  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 417
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311822
Samtals gestir: 29927
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:58:33