Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2009 Ágúst

29.08.2009 01:39

Óvissuferð 05. júní 2009

Þann 05. júní 2009 fór ég í óvissuferð og þar mundaði ég vélina eitthvað smávegis.  Þær eru flestar af því fólki sem með mér var og mun ég ekki sýna þær myndir hér.  Í svona ferðum þá rata alltaf einhverjar myndir inná kubbinn þar sem ég mynda virkilega fyrir mig sjálfan.  Einfaldir hlutir, ryð, gaddavír og jafnvel eldur.  Allt þetta gefur einfaldar myndir og jafnvel flottar myndir.  Hvort mér tekst ætlunarverkið er ykkar að dæma?  Hér eru nokkrar og fleiri inní Íslandsmöppunni.


Allt klárt fyrir framkvæmdir.......eða hvað?  05. júní 2009


Ryðguð tunna.  05. júní 2009


Netakúla og grjót.  05. júní 2009


Í Þorlákshöfn, 05. júní 2009

28.08.2009 21:26

Regnboginn er himinhár.....

Regnboginn er himinhár, gulur, rauður, grænn og blár...................... já, þetta er víst rétt.  Þegar við fórum á Snæfellsnesið fórum við m.a. í Grundarfjörð og reyndar aðeins lengra en það.  Á leið til baka í Grundarfjörðinn sáum við þennan regnboga sem benti okkur á Kirkjufellið, sjá fyrri myndina hér að neðan.  Á seinni myndinni erum við lögð á Vatnaleiðina og að sjálfsögðu var regnboginn með okkur.  Fleiri myndir af regnboganum eru inni í möppunni Ísland en þar má m.a. sjá tvöfaldan regnboga.  Á þessum myndum má sjá að það er bjartara undir regnboganum en ofan við hann.  Man ekki eftir að hafa velt þessu eitthvað fyrir mér fyrr en ég sé þetta á þessum myndum.


Kirkjufell, 21. júní 2009


Á Vatnaleiðinni, 21. júní 2009.

27.08.2009 23:40

1579. Gnúpur GK 11

24. ágúst 2009 kíkti ég niður á höfn.  Þar sá ég að verið var að sjósetja Gnúp GK11 ex. Guðbjörg ÍS46, en hann hafði verið í slipp.  Ég tók nokkrar myndir af því.  Talsverður vindur var og því voru tveir dráttarbátar, Þróttur og Hamar, til aðstoðar við að ná Gnúp á flot og jafnframt drógu þeir hann upp að bryggju.  Hvort Gnúpur var vélarvana eða hvað veit ég ekki?  Hér má sjá eitthvað af myndum og fleiri eru svo í albúminu Skip og bátar.


Gnúpur GK 11 enn hálfur í kvínni.  Hafnarfjörður 24. ágúst 2009


Þróttur stjakar við Gnúp svo hann fari ekki út í Kvína.  Hafnarfjörður 24. ágúst 2009


Þróttur og Hamar gera sig klára til að draga Gnúp að bryggju.  Hafnarfjörður 24. ágúst 2009


Allt gefið í botn.  Gnúpur dregin að bryggju.  Hafnarfjörður 24. ágúst 2009

25.08.2009 09:02

Danskir dagar 2009

Danskir dagar í Stykkishólmi voru haldnir dagana 21.-23. ágúst.  Við, stórfjölskyldan, smelltum okkur og höfðum gaman af.  Á föstudagskvöldinu var hverfagrillið og Silfurgötufólkið fór yfir í Lágholtið, n.t.t. í Himnaríki.  Þar var talað um Silfurgötufólkið sem flóttamenn, en það er nú önnur saga.  Talsvert var af fólki í grillveislunni.  Þarna var spilað og sungið.  Þegar svo "Forsetinn og formaðurinn" mættu á svæðið þá var mútum beitt til að hafa áhrif á val dómaranna á besta hverfinu.  Verð að viðurkenna að ég missti af hvaða hverfi vann.  Mæli með að það verði engar mútur á næsta ári og sjá hvað gerist þá.  Um miðnætti á föstudagskvöldinu gengum við niður í bæ og þar var talsverður hópur ungs fólks framan við gömu kirkjuna, þar var líka Einar með öllu staðsettur.  Talsverð stemming var í fólkinu.  Á laugardaginn var skrúðganga en hún var ekki mjög fjölmenn en þó fjölgaði í henni eftir því sem á leið.  Skemmtiatriði, leiktæki, sölubásar voru á hátíðarsvæðinu og ekki annað að sjá en fólk hefði gaman af, bæði fullorðnir og krakkar.  Bryggjuballið var á laugardagskvöldinu og hélt Hera Björk uppi fjörinu.  Dagskráin hennar samanstóð af gömlum góðum íslenskum lögum sem allir þekkja og var dansað og sungið.  Að mínu mati frábært bryggjuball.  Flugeldasýning var rétt um miðnættið.  Ég hef alltaf gaman af flugeldasýningum og var engin breyting þar á í þetta skipti.  Hér eru þrjár myndir og mikið fleiri í albúmi, Danskir dagar 2009.


Hverfagrillið var haldið í Himnaríki.  Stykkishólmur 21. ágúst 2009


Forsetinn og formaðurinn mættir til að taka út "múturnar".  Stykkishólmur 21. ágúst 2009


Krakkar og fullorðnir fylgjast með skemmtiatriðunum.  Stykkishólmur 22. ágúst 2009


Á bryggjuballinu var vel tekið undir í söngnum.  Stykkishólmur 22. ágúst 2009

19.08.2009 21:06

2262. Sóley Sigurjóns GK200

Var á ferð við stóru flotkvína í Hafnarfirði og veitti athygli að Sóley Sigurjóns GK200 var í slipp.  Þar sem ég stoppaði fannst mér skipið rammast flott inn og gat ég ekki annað en smellt af nokkrum myndum.  Hér má sjá eina af þessum myndum.


2262. Sóley Sigurjóns GK200.  Hafnarfjörður 17. ágúst 2009

14.08.2009 13:40

Garðar BA 64, öll sagan

60.  Garðar BA 64 í Skápadal.  Skápadalur er lítill dalur, girtur hömrum og var þar býli með sama nafni en er nú í eyði en þar stendur nú sumarbústaður.Ég fékk áhuga á að safna saman upplýsingum um Garðar BA 64 eftir að ég tók myndir af honum í Skápadal í botni Patreksfjarðar.  Eftir að hafa lesið upplýsingar við líkan af Garðari BA í Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti sem skráðar voru 1995 fannst mér vanta einhverjar upplýsingar um skipið svo ég hóf eftirgrenslan.  Veraldarvefurinn geymir miklar upplýsingar og þar rakst ég á upplýsingar frá Óskari Franz og hafði ég samband við hann og fékk upplýsingar frá honum sem komu mér vel af stað.  Þá hafði ég rætt við Jón Magnússon eiganda Garðars BA og fengið frá honum nokkra punkta.  Að endingu fann ég grein úr lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 31. Maí 2003 - Saga níræðs öldungs - sem fyllti upp í það sem mig vantaði.

Eftir þessa eftirgrenslan er ég nokkuð sáttur með útkomuna og hér kemur þá saga Garðars BA 64 í stuttu máli en þið getið síðan lesið greinina úr lesbók Mbl með því að smella á linkinn í heimildaskránni.  
                Garðar BA 64 - Elsta stálskip á Íslandi

1912    Nýsmíði, nafn Norröna I.  Smíðaður sem hvalbátur, afhentur í mars 1912, smíði nr. 332 hjá Aker Mek. Veksted A/S í Osló, hlaut nafnið Norröna I.  Eigandi:  Norröna Hvalfanger A/S í Sandefjord (Peder Bogen), heimahöfn var Larvik.  152 brt, 56 nrt.  Rúmlega 30 metra langur, yfir 6 metra breiður og risti tæplega 3,5 metra.  Var tvímastraður og seglbúinn, en með gufuvél til að nota í lognviðri.    Vél:  1 x damp stempelmaskin, triple exp., 3 sylindret, syl.diam.: 12"-20"-33", slag/stroke: 24", 84 NHK. Bygget ved Akers mek.Verksted, Kristiania (Oslo)  Hraði:  11 hnútar.  Kjele(r) (boiler):  1 stk dampkjel, dim: 11,5'x11,0', m/2 fyrganger. Heteflate: 1.535 kv.ft, damptrykk: 200 PSI. Bygget av Akers mek.Verksted, Kristiania (Oslo)

1921    Seldur.  Seldur til A/S Sandefjord Hvalfangerselskap (Peder Bogen), Sandefjord.

1926    Seldur til Larvíkur, nýtt nafn Globe IV.  Seldur til Globus A/S Larvik, omdøpt GLOBE IV.

1936    Seldur til Þórshafnar í Færeyjum. 
Seldur til Hvalveiðifélagsins Áir í Þórshöfn í Færeyjum og hlaut þar nafnið Falkur. Þar var hann notaður aðallega til að draga hval, fremur en að veiða hann.  Stutta tíð var hann í eigu Guðmundar Ísfeldts sem gerði hann út á hval og til vöruflutninga.

1945    Seldur til Siglufjarðar, breytt í fiskibát, nýtt nafn Siglunes SI-89.  Kaupandi Siglunes hf. Siglufirði, eigendur þess voru  Áki og Jakob Jakobssynir.  Þeir létu strax gera stórviðgerð á bátnum.  Breytingarnar fóru fram í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði og vélsmiðjunni Kletti.  Allt var tekið úr honum, gufuvélin, brúin, kolaboxið, tankarnir, lúkarinn, skrúfan, öxullinn.  Lunningar vogu hækkkaðar, nýr keis, ný brú, bátapallur settur á hann o.fl.

1945    Ný vél sett í bátinn.  Þá var sett í bátinn 378 ha (375 hk). Ruston Hornsby díeselvél, var hún snarvend, 7 strokka, 4 takta og loftræst.  Sett voru 6 tonn af steypu í kjölinn vegna þyngdarmunar gufuvélarinnar og díeselvélarinnar.

1952    Seldur til Skeggja hf. í Reykjavík, nýtt nafn Sigurður Pétur RE-186.  21. Október 1952 var báturinn seldur til Reykjavíkur og var þá nefnt Sigurður Pétur RE-186, kaupandi Skeggi hf. eigandi Jón Sigurðsson.  Þá var sett í hann nýtt stýri en það gamla var keðjudrifið og erfitt í meðförum.  Gerður út á síld-, línu- og netaveiðar.

1958    Miklar skemmdir.  Sigurður Pétur RE-186 skemmdist mikið í aftakaveðri en honum hafði verið lagt milli tveggja stærri báta.  Skipta þurfti um 28 plötur í byrðingnum.
Stutta stund var hann svo í eigu Einars Sigurðssonar í Vestmannaeyjum.

1961    Seldur til Siglufjarðar, nýtt nafn Hringsjá SI-94. 14. Júlí 1961 var báturinn seldur til Siglufjarðar á ný.  Kaupandi Skeggi hf. á Siglufirði.  Nafni þess var breytt og hét þá Hringsjá SI-94.  Skipstjóri Páll Pálsson.

1963    Seldur til Skeggja hf. í Garðarhreppi, nýtt nafn Garðar GK-175.  Tveimur árum síðar var báturinn enn selur og nú til Skeggja hf. í Garðarhreppi eigandi Þórarinn Sigurðsson og þá var honum gefið nafnið Garðar GK-175.

1964    Vélaskipti.  Sett er í Garðar 495 hestafla 750 snúninga Lister-díselvél.

1967    Seldur til Reykjavíkur.  Halldór Snorrason í Reykjavík keypti Garðar 28. Desember 1967.  Hann hélt nafninu, en einkennisstafirnir urðu RE-9.  Garðar RE-9  Garðar var endurmældur og mældist þá 158 brúttólestir.

1974    Seldur til Patrekur hf.  Íslandi.  Jón Magnússon á Patreksfirði keypti Garðar 20. Nóvember 1974 og eftir það hét báturinn Garðar BA-64.  Fór í smá klössun og var settur á flot 1975.

1981    Afskráður.  Garðar var tekinn af skrá 1. Desember 1981.  Honum var siglt upp í botn Patreksfjarðar, n.t.t. Skápadal í desember 1981 þar sem hann stendur ennþá.  Jón keyrði ljósavél bátsins allt til 1991 yfir hátíðarnar og hafði ljósaseríu á Garðari.  Ferðamenn sem hafa átt leið um hafa á síðustu árum gerst frekar fingralangir og stolið öllu sem þeir hafa komið höndum á m.a. stýrishjólinu.Heimildir:

Óskar Franz Óskarsson, veitti mér miklar og góðar upplýsingar sem komu mér vel af stað.  Hér er slóð á heimasíðu hans.  http://franz.123.is/

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti, upplýsingar skráði Óskar Jakob Helgason 1995.

Morgunblaðið:  http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=734181

10.08.2009 13:20

Siglingar við Flatey

Laugardagurinn 26. júlí voru margir bátar á ferðinni í Flatey.  Hér má sjá nokkra báta sem voru á ferðinni þennan dag, í fallegu veðri.  Fleiri myndir í Flateyjaralbúminu.
Á efstu myndinni er stórskipið úr Bræðraminni.  Þarna er stýrimaður Steinþór Einarsson, aðrir í áhöfn eru Arnar Bentsson og Tómas Eiríksson.  Skipperinn Bent Einarsson var í landi að gera sig klárann.

 

10.08.2009 09:21

Bátar á Vestfjörðum

Í Vestfjarðarferðinni rakst ég eitthvað smávegis á báta.  Ég smellti nokkrum myndum af bátum til að hafa fjölbreytinina í fyrirrúmi.  Hér sjást tveir en fleiri eru inni í albúmi.  Bátarnir "mínir" eru af öllum stærðum og gerðum.


182 Vestri BA 63, Patreksfjörður 18. júlí 2009


610 Jón Júl BA 157, Tálknafjörður 19. júlí 2009

08.08.2009 14:09

Nútíminn í Flatey

Það er af sem áður var.  Fyrir fáum árum síðan þá var varla hægt að hringja úr gsm síma í Flatey.  Þurfti að hafa mikið fyrir því að ná sambandi og var haft á orði að besti staðurinn væri í kirkjugarðinum, ofan á einhverju leiðin, standandi á öðrum fæti og helst á haus.  Þetta var þó aldrei öruggt og var sjaldan hægt að hringja tvisvar á saman stað.  Á þessum tíma vorum við ekkert að hafa fyrir því að hafa símana mikið við höndina en ef nausynlega þurfti að ná þá var leitað eftir símasambandi um allt.

Eftir að kvikmyndin Brúðguminn var tekin upp í Flatey þá breyttist þetta allt saman.  Þá var sett upp loftnet með gsm sendi og nú er engin friður.  Þegar ég segi "Það er af sem áður var" bendi ég að myndina hér fyrir neðan.  Þegar myndin er tekin voru 19 manns í Bræðraminni í Flatey og aðeins "nokkrir" gsm símar.  Þessi hilla, sem er fyrir ofan gömlu eldavélina, er því orðin n.k. tæknihilla og til gamans má geta að það voru að ég held 2-3 símar í viðbót í húsinu, við þessa sem eru á myndinni.  Við ætluðum sko ekki að vera sambandslaus í Flatey.


Tæknihillan í Bræðraminni.  Flatey 26. júlí 2009

08.08.2009 13:56

Líffræðikennsla

Eitt af því sem börnin í fjölskyldunni hafa gaman af er að fræðast um ýmislegt.  Þau fylgja þá Einari afa sínum og er hann mjög viljugur að sýna þeim og útdeila visku sinni.  Í Flatey var farið á sjóinn og veiddir nokkrir þorskar í matinn.  Afi flakaði fiskinn og stóðu Ólöf Hildur, Róbert Max og Elín Hanna hjá honum og fylgdust með.  Afi sýndi þeim ýmislegt úr fiskinum, en aðallega virtist áhuginn liggja í að sjá hvað fiskurinn hafið verið að borða. Hér á myndunum fyrir neðan má sjá þegar Einar afi sýnir þeim magainnihaldið úr nokkrum þorskum sem veiddir voru, krabbar og skerjasteinbítur/sprettfiskur.  Áhugi barnanna leynir sér ekki.


Áhuginn skín úr augum barnanna.  Flatey 25. júlí 2009


Einar afi sýnir þeim allt sem hægt er að sýna þeim.  Flatey 25. júlí 2009


Magainnihald þorskanna, krabbar og skerjasteinbítur/sprettfiskur.  Flatey 25. júlí 2009

07.08.2009 17:33

Swinghátíð á Íslandi

Ekki er langt síðan mikið var um mótmæli á Austurvelli.  Þann 04. ágúst fórum við fjölskyldan niður á Austurvöll, ekki til að fylgjast með mótmælum heldur swingdansi.  Að horfa á dans í stað mótmæla er miklu flottara og ánægjan skein út úr hverju andliti, jafnt dönsurum sem áhorfendum.  Setti inn myndir af þessum dönsurum en þeir byrjuðu á Austurvelli, færðu sig síðan yfir á Lækjatorg og enduðu á Ingólfstorgi.  Lúðrasveitin Svanur lék undir.


Swing á Austurvelli, 04. ágúst 2009


Swing á Lækjatorgi 04. ágúst 2009


Swing á Ingólfstorgi 04. ágúst 2009

07.08.2009 13:06

Meira úr Flatey

Eftir Vestfjarðarferðina fórum við í Flatey á Breiðafirði þ.e. dagana 23.-31. júlí 2009.  Þar var auðvitað gott að vera eins og alltaf og myndavélin á lofti.  Setti slatta af myndum inní Flateyjarmöppuna.  Hér má þó sjá smá sýnishorn.


Bjargfýlingur í Grýluvogi, Flatey 25. júlí 2009


Grýluvogur, Flatey 25. júlí 2009


Plássið, Flatey 25. júlí 2009


Silfurgarður, Flatey 26. júlí 2009


Klukkan 03:46 í Flatey, 27. júlí 2009

05.08.2009 23:23

Garðar BA-64, elsta stálskip Íslands

Á ferð okkar um Vestfirði rákumst við á Garðar BA64 sem mun vera elsta stálskip Íslands. 


Garðar BA-64

Varað er sérstaklega við því að fara um borð enda báturinn orðinn frekar illa farinn.  Ég smellti nokkrum myndum af honum og þá tók ég tvær myndir inní hann, þ.e. ég rétti hendina inn svona rétt til að sjá hvernig þetta liti allt út.

Ef smellt er hér má sjá mynd af Garðari þegar hann var í fullu fjöri, myndina tók Snorri Snorrason að ég tel.

Á Hnjóti má sjá líkan af Garðari BA 64

Þar er rakin saga bátsins.  Þegar ég las fyrir sögu bátsins fannst mér eins og eitthvað væri ekki rétt að í þrígang var hann seldur sama útgerðafélaginu á sitthvorum staðnum.  Hér kemur alla vegna frásögnin eins og hún er skrifuð og ljósmynd af skjalinu líka sem skrifað var 1995 og ef þetta er einhver villa þá hefur hún verið þarna öll þessi ár:

Garðar

Lengd á líkani 107 sm.  Byggingarhlutfall 1/30

 

Garðar var smíðaður í Noregi 1912.  Hann var þá mældur 179 tonn og í honum var Ruston-díselvél.  Garðar kom til landsins 20. Janúar 1945 og á því ári var gerð mikil viðgerð á skipinu.

Kaupandi var Siglunes hf. Á Siglufirði.  Skipið var nefnt eftir hlutafélaginu og hér því Siglunes og einkennisstafirnir voru SI-89.

Hinn 21. október 1952 var skipið selt til Reykjavíkur og var þá nefnt Sigurður Pétur RE186, kaupandi var Skeggi hf.

Níu árum síðar, eða 14. júlí 1961 var skipið selt til Siglufjarðar á ný.  Kaupandi var Skeggi hf. á Siglufirði.  Nafni þess var breytt og hét þá Hringsjá SI-94.

Tveimur áum síðar var skipið enn selt og nú til Skeggja hf. í Garðahreppi og þá var því gefið nafnið Garðar GK-175. 
Árið 1964 var sett í Garðar 495 hestafla Lister-díselvél.

Halldór Snorrason í Reykjavík keypti Garðar 28. Desember 1967.  Hann hélt nafninu, en einkennisstafirnir urðu RE-9.  Garðar var endurmældur og mældist þá 158 tonn.

Jón Magnússon á Patreksfirði keypti Garðar 20. Nóvember 1974 og eftir það hét skipið Garðar BA-64.

Garðar var tekinn af skrá 1. desember 1981.

05.08.2009 22:54

Ferðafélagarnir

Hér má sjá ferðalangana sem voru í þessari Vestfjarðarferð.Einar Steinþórsson, tengdapabbi.  Stykkishólmur 18. júlí 2009


Gréta Bents, tengdamamma komin um borð í Baldur.  Gaf henni viðurnefnið Tortímandinn með þessi gleraugu.  18. júlí 2009.


Elfa Dögg Einarsdóttir, mín ektakvinna.  18. júlí 2009.


Ég við Dynjanda, 20. júlí 2009.


Elín Hanna Ríkarðsdóttir, dóttir mín, 22. júlí 2009.

05.08.2009 22:47

Sóla

Á leiðinni yfir Breiðafjörðinn þann 18. júlí sáum við Sólu og skipperinn Hjört.  Við veifuðum honum og Hjörtur veifaði á móti en hefur líklega ekki haft hugmyn um hverjum hann veifaði.  Þegar ég skoðaði svo myndirnar eftir að heim kom gat ég séð að í stýrishúsinu sat Sóla (held það alla vegna) og Björg Steinunn.  Ef Hjörtur sér þetta þá veit hann það núna að það var ég sem veifaði honum þann 18. júlí þegar Baldur fór seinni ferðina.


Skipper Hjörtur á Sólunni sinni.  18. júlí 2009.


Sóla inni í stýrishúsinu á Sólu.  18. júlí 2009.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 83
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 3154320
Samtals gestir: 237152
Tölur uppfærðar: 30.5.2020 02:26:11