Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

06.10.2015 23:55

Litir haustsins

Á göngu um hverfið mitt myndaði ég meira af haustinu.  Nú fann ég litapallettu haustsins 2015.  Litirnir eru glæslilegir að mínu mati.

Litapalletta haustsins 2015.  Hafnarfjörður 06. október 2015

05.10.2015 19:00

Rúna SH 33

5027 Rúna SH 33
Smíðaður í Hvallátrum 1956.  Eik og fura.  3,22 brl. 8 ha. Solo vél.
Eigandi Höskuldur Pálsson, Stykkishólmi frá 12. mars 1969, þegar báturinn var fyrst skráður.  Seldur 15. júlí 1984 Svavari Magnússyni, Grundarfirði.  Seldur 10. janúar 1986 Guðna Guðnasyni, Grundarfirði.  Guðni seldi bátinn 21. apríl 1986 Valentínusi Guðnasyni og Ólafi Sigurðssyni, Stykkishólmi.  Um 15. október 1993 eru skráðir eigendur bátsins Ágúst K. Bjartmars og Árni Helgason, Stykkishólmi, sama nafn og númer.  Báturinn skráður í Stykkishólmi 1997.


2027 Rúna SH 33.  Stykkishólmur 21. apríl 2012

Þann 21. apríl veitti ég því athygli að Ágúst Bjartmars var að mála botninn á Rúnu.  Ég fór og ræddi við hann.  Ágúst kvaðst vera eigandi bátsins ásamt ættingum Árna Helgasonar heitins.  Hann kvaðst nú eiginlega sjá um bátinn orðið einn. 
Rúna var í upphafi byggð sem skip og það hafi verið rétt eftir aldamótin 1900, 1905 hélt Ágúst.  Báturinn var notaður sem flutningaskip.  Þegar Höskuldur Pálsson eignaðist bátinn þá hækkaði hann bátinn um tvö borð, setti á hann afturstefni og setti í hann vél og hús.  Báturinn var afturbyggður. 
Ágúst kvaðst hafa smíðað nýtt hús á bátinn þegar þeir hafi eignast bátinn, um 1993, og þá sett húsið að framan.  Báturinn hafi ekki verið notaður til að róa til fiskjar heldur meira að flytja fólk út í eyjar.  Það geta 5-6 manns setið inni í húsinu í einu.  Ágúst sagði bátinn frábæran sjóbát.


Ágúst K. Bjartmars með pensil í hönd.  Stykkishólmur 21. apríl 2012

Nú velti ég því fyrir mér hvað sé rétt um upphaf bátsins.  Ágúst segir bátinn smíðaðan um 1905 sem skip.  Þegar svo Höskuldur eignast bátinn er hann borðhækkaður en ekki skráður fyrr en 1969.  Hvort er rétt ætla ég ekki að dæma um en læt þessa frásögn Ágústar njóta sín eins og hann sagði hana.  Góð saga má ekki gjalda sannleikans:-)


05.10.2015

Í dag sá ég að það var verið að taka Rúnu upp hér í Hafnarfirði.  Ég smellti nokkrum myndum af því og svo af núverandi eiganda, Viðari Ægis.  Ég spurði hann hvort það yrðu nafnaskipti en hann neitaði því og sagðist ekki breyta neinu, hann hefði sama nafn, númer og allt.  Hann er að taka bátinn upp því það þarf eitthvað smávegis að gera við heyrðist mér.

Nýr eigandi af Rúnu SH 33, Viðar Ægis.  Hafnarfjörður 05. október 2015



Upplýsingar:
Íslensk skip, bátar - bók 4, bls. 171.
Munnlegar upplýsingar, Ágúst K. Bjartmars.

05.10.2015 18:52

Kraðak

Þegar veðrið er fallegt hef ég gaman af að taka myndir við höfnina.  Þá heillar mig svolítið að taka myndir af öllu þessu kraðaki báta sem er þarna bundinn við bryggju.  Þegar ég horfi á þessar myndir þá er í raun allt í einni hrúgu og nánast ekki hægt að átta sig á hvað er hvað.  Í þessu finnst mér birtan skipta máli.  Hér getið þið séð hvað ég á við.

Kraðak í Hafnarfjarðarhöfn 05. október 2015

05.10.2015 18:47

Ólafur HF 200

Ólafur kom að landi í dag en hann er greinilega á makrílveiðum.  Skipperinn var að þvo körin og fannst mér það koma vel út þegar vatnsúðinn ýrðist um allt.

Ólafur HF 200 í Hafnarfjarðarhöfn 05. október 2015


Þvottur að lokinni löndun.  Hafnarfjörður 05. október 2015

05.10.2015 18:29

Á hvolfi

Kíkti niður á höfn hér í Hafnarfirði og tók slatta af myndum.  Hér eru tvær sem sýna að allt er á hvolfi m.a. Jón Forseti.  Ætli hann hafi verið þannig karlinn? :)

Empiricus við Hafnarfjarðarhöfn 05.10.2015

Jón Forsetir á hvolfi.  Hafnarfjörður 05.10.2015

04.10.2015 11:30

Gamall bátur við Vestara Horn

Þann 03. ágúst 1992 var ég staddur á austurhluta landsins n.t.t. á Höfn.  Á þessum tíma var ég ekki mikið að mynda báta en einn og einn datt á mynd.  Eins og þessi bátur sem er hér í forgrunni, en þarna var ég að mynda fjallið, Vestara Horn.  Báturinn var bara til að gera myndina "flottari".  Margir hafa tekið mynd af þessum bát í gegnum tíðina og einhversstaðar á ég myndir af honum sem ég tók einhverjum árum síðar.  Er einhver sem þekkir sögu þessa báts þá þætti mér vænt um að heyra hana svo ég geti sett hana hér inn.


Bátur við Vestara Horn.  Myndin tekin 03. ágúst 1992

04.10.2015 10:30

Rannsý RE 18

5216 Rannsý RE 18

Smíðaður árið 1973 af Eyjólfi Einarssyni í Hafnarfirði.  Fura og eik.  Vélin er Volvo Penta 35 ha. árg. 1988.  Hét Sæfinnur KE 145.  Eigendur Sverrir Einarsson, Leifur Einarsson, Sverrir Elentínusson og Kristján Júlíusson, Keflavík, frá 24. apríl 1973. 

Þeir selja bátinn 23. febrúar 1979 Friðriki Guðmundssyni, Hafnarfirði, hét Jón Erling HF 26.  Báturinn var tekin af skrá 17. nóvember 1986 en endurskráður 24. júní 1987. 

Seldur 23. september 1992 Eyjólfi Einarssyni, Hafnarfirði, hét Bylgjan HF 26.  Seldur 6. maí 1994 Halldóri Páli Halldórssyni, Keflavík.  Báturinn heitir Bylgjan KE 17.  Báturinn var skráður sem skemmtiskip 2005.

Held að það sé rétt hjá mér að nýverandi eigandi heiti Sigurður Helgason.  Heitir Rannsý RE 18 í dag.

Önnur nöfn
Sæfinnur KE 145, Jón Erling HF 26, Bylgjan HF 26 og Rannsý RE 18.

Heimildir
www.sax.is
Íslensk skip, bátar, bók 2, bls. 161 - Sæfinnur KE 145


Rannsý RE 18, Reykjavíkurhöfn 13. september 2011


Rannsý RE 18 komin í nýjan lit.  Hafnarfjörður 03. október 2015

Rakst á þennan við Hafnarfjarðarhöfn 03. október 2015 og eftir smá stund vildi ég meina að þetta væri Rannsý RE 18.  Ég átti myndir af bátnum þegar hann var gulur og bar þessar myndir saman og get ekki séð annað en að þetta sé Rannsý. Ég veit ekki um hvort það hefur verið einhver breyting á eignarhaldi en þær upplýsingar munu þá koma síðar.  Ef þú hefur einhverjar meiri upplýsingar um þennan bát endilega sendu mér línu.

03.10.2015 22:31

Haust 2015

Það er haust ef einhver skyldi ekki vita það og þá eru litir gróðursins mjög fallegir oft á tíðum.  Ég tók myndir í dag af fallegum gróðri en það minnti mig á að það er stutt í veturinn.  Vona að ykkur líki þessar myndir.


Rautt haust 03. október 2015.


Hrútaber í Heiðmörk, 03. október 2015.


Veturinn sækir að haustinu, ef svo má segja.  Heiðmörk 03. október 2015

30.09.2015 18:00

Hafsteinn í Flatey

Þann 12. júlí 2013 þá tók ég myndir af Hafsteini bónda í Flatey.  Hann var að svíða selshreifa.  Ég tók nokkrar myndir af Hafsteini og set hér inn tvær.  Man ekkert hvort ég var búinn að setja inn myndir af honum áður við svíðingarnar.  En hér eru myndirnar.

Hafsteinn svíður selshreifana.  Flatey 12. júlí 2013.

Hafsteinn hreinsar hreifana.  Flatey 12. júlí 2013.

30.09.2015 16:58

Úr Flatey á Breiðafirði

Ég fer reglulega í Flatey eins og þið vitið og set stundum inn myndir hérna úr þeim ferðum mínum.  Í gegnum tíðina hef ég verið að safna myndum af ýmsu í Flatey m.a. fólki, húsum, bátum og mörgu fleiru en ekki birt það hér ennþá.  Ég ætla að bæta aðeins úr því og fyrir ykkur getur þetta verið smá getraun um hvað er hvað en sumt skýrir sig sjálft því skilti eru geta verið með nöfnum húsa.  Set hér inn möppu með myndum af gluggum, hurðum og ýmsu fleiru.  Nú er komið að ykkur, njótið.

Hér er eitt skilti úr Flatey, Pakkhúsið.  Myndin er tekin 17. júní 2009.

30.07.2015 00:00

Heitt í hamsi

Á ferð okkar um suðurlandið um daginn kíktum við á vini okkar.  Veðrið var fallegt og ekki klikkuðu vinirnir.  Við gengum um landareignina og ekki hægt annað en dásama þennan stað.  Við stoppuðum þarna í talsverðan tíma og komum ekki heim fyrr en seint var liðið á nóttina.  En ég vil þakka þessum vinum okkar fyrir gestrisnina.

Eldglæður.  22. júlí 2015

09.06.2015 18:40

1650 Þingey ÞH 51

1650  Þingey ÞH 51

Báturinn var smíðaður á Akureyri 1983, í Vör hf.  Eik.  Stokkbyrðingur.  Vélin er Caterpillar 215 ha.

Báturinn er smíðaður fyrir Auðunn Benediktsson Kópaskeri, sem átti hann í tuttugu og fjögur ár en seldi Sjóferðum Arnars ehf.  Báturinn er frambyggður og alla tíð verið mjög vel um hann hirt.

Bátinn teiknaði Brynjar Ingi Skaptason, skipaverkfræðingur, bróðir Hallgríms Skaptasonar.

Báturinn var að því leiti frábrugðinn öðrum bátum sem fyrirtækið smíðaði að bolur hans var úr eik en yfirbygging öll úr áli.  Það er að segja stýrishúsið, hádekk, þilfar og lunningar.  Þessari byggingaraðferð höfðu þeir félagar kynnst í Noregi en þangað fóru þeir til að skoða nýjungar í tréskipasmíðum.

Teikningar af bátnum, frá kili að masturstoppum, voru sendar Siglingastofnun til samþykktar svo sem lög mæla fyrir um.  Eitthvað stóð þessi nýi byggingarmáti í stofnuninni því að engin svör bárust frá henni í sex mánuði rétt fyrir eftirrekstur.

Þar sem engin hreyfing var á málinu í allan þennan tíma þá tilkynntu þeir félagar stofnuninni að báturinn yrði byggður samkvæmt reglum Der Norske Veritas.  Þegar málin voru komin í þennan farveg þá sá Siglingastofnun sitt óvænna og gaf leyfi til smíðinnar.

Litlu munaði að illa færi er vinna við suðu á áldekki bátsins stóð yfir.  Atburður sá er hér skal lýst átti sér stað er allur mannskapurinn var heima í hádegismat.

Á heimili Hallgríms sat húsbóndinn að snæðingi en skyndilega fékk hann hugboð um að eitthvað væri að úti í Vör.  Svo sterkt sótti þetta á að hann hljóp frá mat sínum og keyrði út í Vör.  Þegar þangað kom gaus á móti honum megna brunalykt úr smíðaskálanum.  Stökk hann rakleiðis um borð í bátinn vopnaður brunaslöngu og sá strax að eldur var laus á milli banda aftast í bátnum.  Tókst honum að slökkva eldinn og hringdi svo í slökkvilið bæjarins til öryggis. Frekari aðgerða reyndist ekki þörf en þarna mátti mjóu muna.

Hvort bruni Varar fimm árum áður hafi setið í Hallgrími eða dulin öfl varað hann við skal ósagt látið.  Um það verður hver og einn að dæma en alkunna er að sumir hafa öflugri sagnaranda en aðrir. 

Árið 2011 heitir báturinn Þingey ÞH 51 og er í eigu Sjóferða Arnars ehf. Kópaskeri.

Árið 2012 ber báturinn enn sama nafn og númer en eigandi er Valma ehf. Kópaskeri.

Heimildir:  www.aba.is



Þingey ÞH 51 við bryggju í Stykkishólmi 22. júní 2012.  Ljósmynd Ríkarður Ríkarðsson.

09.06.2015 11:06

Kambur BA 34

5864 Kambur BA 34 ex Sigrún SH 212

Smíðaður í Hafnarfirði 1961.  Eik og fura.  5,94 brl. 26. ha. Lister vél.
Eigandi Björgvin Þorvarðarson og Krisján Jakobsson, Stykkishólmi frá 29. maí 1961.  Báturinn seldur 15. mars 1963 Freysteini Hjaltalín, Brokey, Skógarstrandarhreppi, sama nafn og númer.  Seldur 21. mars 1995 Finnboga Hilmari Pálssyni og Sveinbirni Rúnari Helgasyni, Patreksfirði. Báturinn heitir Kambur BA 34 og er skráður á Patreksfirði 1997.

25. nóvember 2012 tók ég myndir af Kambi BA 34 þar sem hann stendur á Fitjunum í Njarðvík.  Ég leyfi mér að fullyrða að Kambur er ónýtur.

Ég fékk fyrirspurn um þennan bát, en á facebooksíðu Floti Patreksfjarðar er talað um bát sem hét Hafratindur BA 34 og fullyrt að hann sé DAS bátur, smíðaður 1961.  Það skal tekið fram að DAS bátarnir svokölluðu voru smíðaðir á árunum 1953-1958.  Ef þessi bátur hefur heitið Hafratindur BA 34 á Patreksfirði væri gaman að fá það staðfest því það kemur ekki fram í þeim gögnum sem ég hef. 

Ég hef upplýsingar að eftirtaldir bátar gætu hafa verið smíðaðir eftir sama skapalóni og DAS bátarnir 5346, 5619, 5211, 5572.

Heimildir:

Íslensk skip, bátar, 3. Bók, bls. 172, Sigrún SH

Siglingastofnun Íslands


Kambur BA 34 ex Sigrún SH 212, Fitjar í Njarðvík

25.05.2015 21:11

Smáfréttir

Er staddur á frábærum stað.  Veðrið frábært, sól stundum, logn þess á milli og rigning núna.  Er hægt að biðja um betra?  En svo við tölum að alvöru þá er allt í góðu hjá okkur hér í eyjunni fögru við Breiðafjörðinn.

Bræðraminni Flatey.


26.04.2015 20:13

Á útleið

Á ferð minni við höfnina í Hafnarfirði sá ég þennan á útleið.  Það var ekki annað hægt en að taka mynd af bátnum.

Hafsól KÓ 11 siglir út úr Hafnarfjarðarhöfn, 23. apríl 2015

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 530
Gestir í dag: 289
Flettingar í gær: 236
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 347919
Samtals gestir: 32382
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 17:31:45