Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2010 Ágúst

31.08.2010 23:31

Skildustopp

Á leið um norðurlandið er skildustopp hjá mér, Námaskarð.  Þar hef ég gaman af að leita eftir myndefni.  Elínu Hönnu finnst lyktin vond og fór því ekki úr bílnum og Elfa Dögg ákvað að sitja líka í bílnum.  Ég var því einn á ferð.  Verð að viðurkenna að þegar ég koma að úrsýnispallinum þá var lyktin þar ógeðsleg.  Það var ekki bara þessi hveralykt sem mér finnst ágæt heldur var kominn einhver viðbótarlykt sem ég áttaði mig ekki á.  Datt helst í hug að einhverjar gastegundir væru þarna í bland við hveralyktina.  Alla vegna, mér varð ekki meint af, held ég.  Bætti myndum inn í myndaalbúmið Mývantssveit, fyrir ykkur sem hafið áhuga.


Bláa lón þeirra Mývetninga.  Reykjahlíðarfjall til vinstri.  Mývantssveit 11. ágúst 2010


Allir regnbogans litir sáust.  Námaskarð 11. ágúst 2010


Námaskarð 11. ágúst 2010


Námaskarð 11. ágúst 2010

31.08.2010 22:49

Áááá SJÓÓÓÓÓ

Hér eru þrjár bátamyndir sem ég tók í Stykkishólmi 4.-5. ágúst.  Þarna er einn bátur á leið út á miðin, annar á leið inn til löndunar og sá þriðji er bundinn við bryggju.   Veit ekki nafnið á þeim neðsta en ef einhver sem skoðar þetta getur frætt mig um það væri það vel þegið.


6037 Ingey SH 323.  Stykkishólmur 05. ágúst 2010


6867 Guðrún SH 190. Stykkishólmur 04. ágúst 2010


Stykkishólmur 04. ágúst 2010

29.08.2010 21:20

Ísabella Embla Steinþórsdóttir

Fór í Garðakirkju í dag.  Þar var þessi litla stúlka skírð, hún hlaut nafnið Ísabella Embla.  Til hamingju með stúlkuna ykkar Steinþór og Tóta.  Myndaalbúm komið inn.


Ísabella Embla Steinþórsdóttir, 29. ágúst 2010


Ísabella Embla, Tóta, Andrea Odda, Steinþór og Róbert Max í Garðakirkju 29. ágúst 2010

29.08.2010 21:00

Hamar, Djúpivogur o.fl.

Á leiðinni í Hamarsfjörðinn var m.a. komið við á Djúpavogi.  Auðvitað var margt að sjá og talsvert af myndum var tekið.  Setti inn myndaalbúm sem ég kalla Hamar, Djúpivogur og fl.  þar er talsvert af myndum og endilega kíkið á þær.


Undarleg fjallasýn. 13. ágúst 2010


Hótel Framtíð á Djúpavogi 13. ágúst 2010


Við Hamar í Hamarsfirði, 14. ágúst 2010


Gamla brúin í botni Hamarsfjarðar, 14. ágúst 2010

29.08.2010 11:16

17.-18. júlí 2010

Við fengum gest um miðjan júlí, þetta var Gunnsa systir mín og var hún hjá okkur í nokkra daga.  Við skruppum í dagsferðir til að skoða okkur um.  Laugardaginn 17. júlí ákváðum við að slást í för með vinum okkar frá Höfn.  Þau voru á leið hinn víðfræða Gullna þríhyrning.  Við ákváðum að fylgja með í þessa ferð og aupair stúlkan okkar, Gunnsa, fékk að koma með.  Sunnudaginn 18. júlí var svo farið á ströndina.  Þetta var ströndin neðan við Hafið Bláa en þar hittum við aðra vini okkar.  Myndir af þessum ferðim okkar er að finna í sér albúmi.  Hér má þó sjá smá sýnishorn.


Þingvellir 17. júlí 2010


Strokkur 17. júlí 2010


Gullfoss 17. júlí 2010


Jarlhettur, myndin tekin frá Gullfoss.  17. júlí 2010


Brúarhlöð. 17. júlí 2010


Gunnsa og Elfa Dögg bleyta fæturna á ströndinni.  18. júlí 2010

28.08.2010 01:28

Skógarfoss

Þegar við vorum á heimleið um daginn, 15. ágúst í þoku og sudda komum við að Skógarfossi.  Höfum heyrt að ár væru í vexti og tókum eftir því.  Okkur langaði að sjá hvernig Skógarfoss kæmi út í þessum vatnavöxtum.  Í mínum huga er þessi foss hvítfryssandi og hreinn.  Hér má sjá tvær myndir af Skógarfossi.  Önnur er eins og mér finnst hann eigi alltaf að vera hin er tekin núna í ágúst og sýnir hann brúnan af drullu og brúnfryssandi en ekki hvítfryssandi.

   
             Skógarfoss 09. júlí 2009                                                Skógarfoss 15. ágúst 2010

28.08.2010 01:11

Rjúpa, himbrimi, rita

Eitthvað fellur nú alltaf eitthvað til af fuglum þegar maður er á ferð um landið.  Hér eru þrjár tegundir.  Rjúpan kom hlaupandi og stillti sér upp fyrir mig þegar ég stoppaði bílinn.  Himbriminn var nú ekki alltof nálægt og kroppaði ég talsvert utanaf myndinni til að hún væri þó það sem hún er.  Ritan hins vegar kom í mat sem gefin var í Flatey líkt og kríurnar en þarna sést hún með hluta úr flaki.


Rjúpa við Kaldbak, Húsavík.  08. ágúst 2010


Himbrimi með stálpaðan unga, Kaldbakstjarnir, Húsavík. 08. ágúst 2010


Rita.  Flatey á Breiðafirði 31. júlí 2010

27.08.2010 22:20

Reykjavíkurhöfn 27.08.2010

Átti leið um Reykjavíkurhöfn í dag.  Þar voru Sigurður Ólafsson og Rifsnes nýskveraðir og glæsilegir.  Annað sem bar fyrir augun var að verið var að sjósetja Bjargfugl.  Fleiri bátar voru á ferðinni og í myndaalbúmi má sjá fleiri myndir.


173 Sigurður Ólafsson SF 44.  Reykjavík 27. ágúst 2010


1136 Rifsnes SH 44.  Reykjavík 27. ágúst 2010


Bjargfugl settur á flot.


6474 Bjargfugl RE 55 Reykjavík 27. ágúst 2010

27.08.2010 13:52

Elín Hanna á ferð um landið

Á ferðalaginu í sumar var fyrirsætan mín auðvitað með í för þ.e. Elín Hanna.  Í öllum okkar ferðum þá missi ég mig í myndatökum af hinu og þessu.  Meirihluti mynda er af landslagi, húsum, bátum, fuglum og bara því sem mér finnst vera myndrænt og þá vilja stelpurnar mínar oft gleymast.  Mér til sárabóta þá man ég stundum eftir að leyfa Elínu Hönnu og Elfu Dögg að vera með á einni og einni mynd.  Það er svona algert must fyrir fjölskyldualbúmið.  Hér koma nokkrar myndir af Elínu Hönnu á ýmsum stöðum í þessari ferð.  Fleiri myndir eru til en þær eru ekki allar komnar inn á síðuna ennþá. 


Elín Hanna með óskírða Steinþórsdóttur í Flatey.


Elín Hanna á Þeistareykjum.


Elín Hanna í Fjallakaffi á Möðrudal.  Elfa Dögg er þarna líka.


Elín Hanna við Lagarfljótið.


Elín Hanna við Skriðuklaustur.

26.08.2010 09:18

Baldur tekur snúning

Þegar ég var á Húsavík um daginn sá ég að Baldur var að koma inn í höfnina.  Ég smelli nokkrum myndum af honum og þegar hann nálgast Hafnargarðinn svokallaða þá tók báturinn svona léttan danssnúning.  Að því loknu hélt hann áfram inn í höfnina og lagðist að bryggju.  Ekki veit ég hvað þetta var nema þá helst að skipperinn hafi séð ljósmyndarann og tekið danssnúning fyrir hann.  (Haffi hann hefur haldið að þetta værir þú) Að sjálfsögðu tók ég myndir af bátnum í þessum snúningi og má sjá hluta þeirra hér og fleiri eru í myndaalbúmi http://rikkir.123.is/album/default.aspx?aid=186989
Held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég næ mynd af bát frá öllum hliðum á sömu mínútunni!  Snéri á punktinum eins og sagt er.












Baldur að dansi loknum.

24.08.2010 22:33

Ferðamenn í Flatey

Hvað gera ferðamenn í Flatey?  Þeir taka myndir.

Mikið af ferðamönnum kemur í Flatey.  Hópar af fólki kemur til að mynda fuglalífið og svo auðvitað húsin.  Myndavélarnar og græurnar sem þessir aðilar eru með kosta enga smáaura.  En það má þekkja íslendingana úr, alla vegna suma. 


Þessi útlendingur varð fyrir árás kríunnar.  Flatey 02. júlí 2010


Útlendingar á ferð.  Flatey 03. júlí 2010


Útlendingarnir fylgjast með bátunum á bátadögum 2010 sigla inn Hafnarsundið.  Flatey 03. júlí 2010


Þetta er Íslendingur, sést á vélinni.  Flatey 18. júní 2009

24.08.2010 22:17

Dúfunum gef.., neeeeii, kríunum gefið

Þegar ég var úti í Flatey á Breiðafirði fyrsta ágúst varð ég vitni af því að stúlka var að gefa kríum fisk líkt og hún væri að gefa dúfum.  Mér þótti þetta undarlegt því kríurnar eru nú frekar árásagjarnar svona yfirleitt í Flatey.  Greinilegt var á þessu að þær voru hreinlega að drepast úr hungri.  Víða var farið að gefa kríum fisk og voru þær komnar um leið og einhver setti fisk út.  Ég tók myndir af þessu því mér fannst þetta mjög sérstakt og vildi eiga þetta á mynd.  Kannski er þetta ekkert sérstakt, en ég hef aldrei séð þetta áður. 

Þetta minnir mig á atvik sem ég sé alltaf eftir að hafa ekki myndað.  Gerðist á Húsavík fyrir mörgum árum síðan, þegar ég bjó þar.  Ég ók niður á bryggju til að kíkja eftir fuglum til að mynda.  Ég sá ritu sitja á bryggjukantinum og stoppa bílinn minn þannig að ég geti tekið mynd út um farþegarúðuna.  Færið var um 6 metrar.  Þegar ég lyfti myndavélinni heyri ég og sé í speglinum að tveir strákguttar eru að koma til að veiða þarna.  Ég hugsa sem svo að þeir fæli rituna upp og legg því myndavélina frá mér í sætið.  Strákarnir koma og þegar þeir koma að vinstra afturhorni bifreiðarinnar þagna þeir.  Þeir ganga að ritunni og setjast við hliðina á henni.  Svo strúka þeir henni tvisvar sinnum og þá flaug hún á brott.  Ég sat eins og asni með opinn munn og fylgdist með þessu.  Kem alltaf til með að sjá eftir þessu og þetta er enn sárara þar sem ég hafði myndavélina með mér og við hendina tilbúna til að smella af.

Sem sagt ég ætlaði ekki að missa af þessar stúlku gefa kríunum og hér má sjá myndir af því.  Fleiri myndir svo í albúmi af þessu atviki.  Læt myndirnar tala fyrir mig.








Flatey 01. ágúst 2010

24.08.2010 21:14

Skriðuklaustur

Kíktum að Skriðuklaustri.  Fengum leiðsögn um fornminjauppgraftarsvæðið.  Mikill fróðleikur og gaman að hlusta á strákinn segja frá, fróður um þetta svæði.  Á ferðinni fengum við að ganga inn á meðal þeirra sem voru að grafa og sjá hvernig þeir unnu.  Auðvitað var þetta fest á filmu, meina kubb.  Þegar við vorum þarna var verið að skrásetja beinagrind nr. 194.  Ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver vinnufriður fyrir ferðamönnum á þessu svæðir og hvort ferðamennirnir skemmi ekki eitthvað á rölti sínum um svæðið?


Skriðuklaustur, 12. ágúst 2010


Fornminjauppgröfturinn á Skriðuklaustri, 12. ágúst 2010


Það þarf að vanda sig við uppgröftinn.  12. ágúst 2010


Beinagrind nr. 194 12. ágúst 2010

24.08.2010 18:11

Sólbrekka

Áttum heimboð að Sólbrekku til Ernu og Úlfars.  Þau eru höfðingjar heim að sækja.  Bakaðar bollur með morgunkaffinu af meistara Úlfari.  Erna eldaði frábæra rétti ofan í gikkin mig svo mér varð ekki meint af.  Þá var farið í göngutúr og ökuferð um sveitina.  Við þökkum þeim Ernu og Úlfari kærlega fyrir okkur enn og aftur.


Blómlegt klósett.  Sólbrekka 12. ágúst 2010


Úlfar lýsir einhverju fyrir Elfu Dögg.  Sólbrekka 12. ágúst 2010.


Erna kíkti eftir sveppum.  Sólbrekka 12. ágúst 2010.


Úlfar bakaði þessar líka góðu bollur.  Sólbrekka 12. ágúst 2010.


12. ágúst 2010

24.08.2010 18:03

Möðrudalskirkja, Fjallakaffi

Á leið austur á Hérað kíktum við í Fjallakaffi.  Þarna kom maður í öllum ferðum hér áður fyrr en nú bara einstaka sinnum.  Þarna stoppuðum við og fengum okkur flatkökur með hangikjöti og vöfflur með rjóma.  Eftir stutt stopp þar sem ég var aðallega á ferðinni með myndavélina héldum við förinni áfram.  Mæli með að allir kíki við þarna, aðeins 8 km. frá þjóðvegi 1.


Fjallakaffi.  Þarna var alltaf stoppað hér áður fyrr.  Herðubreið í baksýn.


Möðrudalskirkja og bensínstöðin, 11. ágúst 2010.


Bensín og dísel.  Flottasta bensínafgreiðsla á landinu fullyrði ég.  11. ágúst 2010.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 603
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 312008
Samtals gestir: 29936
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:40:07