Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2011 Mars

31.03.2011 11:47

Óskar Matthíasson

Auðunn Jörgensson er eigandi Óskars Matthíassonar og ræddi ég smávegis við hann.  Óskar Matthíasson var smíðaður 1969 í Noregi. Auðunn kvaðst hafa eignast Óskar í maí 2009 og gert hann upp, báturinn hafi nánast verið ónýtur.  Hann kvaðst hafa keypt bátinn af manni sem heitir Kristján, man ekki meira um þann mann.

Auðunn er sjálfur að vinna í að finna sögu bátsins en hann hefur m.a. sent fyrirspurn til Noregs til að leita að sögu Óskars.  Ef þetta hefst hjá honum þá mun sagan koma hér síðar.


Flottasti handfærabáturinn, Óskar Matthíasson í Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011

Óskar Matthíasson gæti verði notaður til að sigla með túrista, veiða nokkra fiska og koma með þá og elda á einhverjum veitingastaðnum við höfnina.  Ef þessi tilgáta mín er röng þá er þetta bara einfaldlega skrautlegasti handfærabátur sem ég hef séð fyrr og síðar. 

30.03.2011
Ég fann á heimasíðu Þorgeirs Baldurssonar smá frásögn um Óskar Matthíasson frá því 11. 08.2009, færsla eftir Emil Pál:  Sjómaður Íslands nr. 1 Auðunn Jörgensson frá Vesmannaeyjum á þennan bát. Heitir báturinn Óskar Matthíasson og heitir hann eftir frænda hans þekktum útgerðamanns úr eyjum sem meðal annars átti Leó og síðar Þórunni Sveinsdóttir. Auðunn er búinn að vera að skvera bátinn upp í sumar og er hann núna við bryggju í Reykjavík, en mun fara fljótlega til Vestmannaeyja.

Þetta var þá, nú 29. mars 2011 er Óskar aftur kominn í Reykjavíkurhöfn og hvort hann er kominn til að vera eða bara vor í lofti er ekki gott að segja.  En líklega voru getgátur mínar frá því í gær rangar.  Þetta er einfaldlega flottasti handfærabáturinn:-).

Meira síðar.

29.03.2011 23:55

Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011

Fann mér tíma eftir vinnu til að skreppa niður að Reykjavíkurhöfn og kíkja þar á lífið.  Lítið var um fugla en því meira af bátum.  Þeir stóru voru í blárri kantinum.  Ásmundur Halldórsson SF 250 var í höfn.  Hann fór síðan út fyrir höfnina, dansaði þar í smá stund og vatt sér inn aftur.  Hvað hann var að gera veit ég ekki? 


2774 Kristrún RE 177, Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011


2780 Ásgrímur Halldórsson SF 250, Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011

28.03.2011 21:31

Hafnarfjarðarhöfn 28.03.2011

Leit við í Hafnarfjarðarhöfn í dag, 28. mars 2011.  Tók frekar lítið af myndum.  Hér má þó sjá tvær þeirra.


Þessi "félagi" var á leið út úr Hafnarfjarðarhöfn í dag.


Grunnvíkingur var á bryggjukantinum.

28.03.2011 13:45

Viðbætur og breytingar

Hér til hliðar eru nú tenglar á Skip og bátar Rikka R, það eru myndir af flest öllum bátum sem ég hef tekið myndir af fyrir utan kanski þessa gömlu, þeir fá sértengla.


Tveir á innleið til löndunar í Stykkishólmi. Getum við sagt flýta sér mishægt?

Þá hafa kanski einhverjir séð að á síðunni um Sumarliða voru komnar tvær myndir af bæklingi sem eigendur bátsins létu búa til.


Bæklingur um Sumarliða. Hægt að fá hann útprentaðan hjá Jóni Ragnari Daðasyni

Þá koma inn nokkuð reglulega nýjar færslur á Kára frá Skáleyjum og lagfæringunum á honum.


Kári frá Skáleyjum

Þá er saga Hönnu frá Gjögri komin inn, að hluta alla vegna.  Það sem komið er fann ég á veraldarvefnum.  Geti menn bætt við söguna þá endilega sendið póst.


Hanna frá Gjögri

Þetta er svona það helsta núna og það nýjasta. 

25.03.2011 01:06

13 ára snót

Þó 24. mars sé liðinn má ég til með að setja hér inn tvær myndir af Elínu Hönnu.  Hún átti afmæli í gær, 24. mars og varð 13 ára gömul.  Að sjálfsögðu er hún ljúfust allra og pabbi gamli mjög stoltur af dótturinni dýru.  Hér eru tvær myndir af Elínu Hönnu með 12 ára millibili.


Elín Hanna í nóvember eða desember 1998, 9 mánaða.


Elín Hanna 12 ára, 09. október 2010

25.03.2011 00:45

Fjórir í viðbót

Hér koma fjórir síðustu bátarnir sem ég myndaði í húsnæði Jóns Ragnars Daðasonar.  Engin saga er ennþá en myndirnar koma hér inn engu að síður.  Ég setti inn kenninöfn fyrir mig til að finna bátana aftur og þið takið viljan fyrir verkið.  Hér til hliðar eru bátarnir undir þessum skrítnu nöfnum, þá er hægt að smella á myndirnar hér fyrir neðan og þá opnast á myndasafnið af hverjum og einum.  Sögurnar koma síðar.


Bátur, fær grænu vélina ?


Blái báturinn ?


Brúni báturinn ?


Stóri ómálaði ? Reykjavík 03. mars 2011

16.03.2011 23:23

Gamlir bátar............

Setti inn ljósmyndir af fimm litlum bátum, sjá hér til hliðar.  Sögur þeirra vantar og ég veit að það eru aðilar sem kíkja hér inn sem vita hvað þeir þura að gera, setjast niður og skrifa söguna........Hafliði, Jón Ragnar, Ólafur og Sigurður, koma svo strákar:-)  Smellið á myndirnar og þið getið skoðað þær myndir sem ég tók af þessum bátum.  Það er verið að gera þá alla upp.  Hafliði Aðalsteinsson er að gera Baldur upp.  Agnar Jónsson er að gera Gaut upp.  Hafliði Aðalsteinsson er einnig að lagfæra Hönnu ST 49.  Rauður ? veit ekki hver á hann eða er að gera upp.  Litli hvítur, Ólafur Gíslason lagfærði hann, skipti um afturstefni, kjöl og nokkur bönd. Báturinn er tilbúinn held ég, nema að eigandinn eigi eftir að mála?


Baldur, Kópavogur 05. mars 2011


Gautur, Reykjavík 03. mars 2011


Hanna ST 49, Reykjavík 03. mars 2011


Rauður ?, Reykjavík 03. mars 2011


Litli hvítur ?, Kópavogur 05. mars 2011

16.03.2011 22:32

Hanna ST 49

Hanna frá Gjögri er merkisfleyta fyrir margar sakir.  Hún er elsta fley sem hefur veiðiheimild frá fiskistofu.  Næst elsta skip samkvæmt skipaskrá Siglingstofnunar. Hún er síðasta norsk-smíðaða trillan sem til er á Íslandi. 
Ég ætla að reyna að fylgjast með viðgerð á Hönnu eftir því sem ég get.  Vonandi næ ég síðan að mynda Hönnu þegar hún verður sett á flot en stefnt er á það í júlí 2011. 

Hilmar lánaði mér tvær bækur til að lesa en þar eru greinar um Hönnu.  Ég skrifaði þetta upp og setti saman í eina grein.  Fyrir ykkur sem langar til að lesa þessa grein þá smellið hér http://rikkir.123.is/files/ síðan opniði skjalið sem heitir Hanna frá Gjögri.  Þar kemur svo fram hvaðan þessar greinar eru fengnar.
Hér fyrir neðan er svo dagbókin mín varðandi það sem ég sé að gert hefur verið við Hönnu þá daga sem ég kíki inn.

03. mars 2011
Í dag er svo komið að Hafliði Aðalsteinsson er að vinna í að laga Hönnu.  Þegar ég leit þarna inn var búið að skipta um framstefnið og setja kjölinn.  Afturstefnið var ekki komið og þá var búið að fjarlægja eitthvað af borðum, alla vegna umfar I og II voru farin.


Hanna Gjögri


Framstefnið og kjölurinn komin á sinn stað.  Umfar I og II farinn.


Hanna frá Gjögri liggur hér á hliðinni.

25. apríl 2011
Kíkti á Hönnu í dag.  Búið var að rétta hana við.  Til viðbótar var búið að setja hálft afturstefnið á bátinn og tvö fyrstu umförin virtust komin á einnig.  Ég tók ekki eftir því að mikið meira hafi verið komið í framkvæmd.


Afturstefnið komið á og tvö neðstu umförin.  25. apríl 2011


Hanna ST 49 komin á rétta kjöl.  25. apríl 2011

05. júní 2011
Í sjónvarpsþættinum Landinn var viðtal við Hilmar og Hafliða vegna viðgerða á Hönnu.  Hér er slóðin http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4577863/2011/06/05/3/  þið ættuð að gera skoðað þetta brot af þættinum hér.  Eftir þennan þátt þá fékk Hilmar sendar tvær vísur frá vinum sínum og sendi hann mér þær svona til gamans.  Ég ætla að leyfa ykkur að njóta líka.

Sumarið skal verða gott
sól og blíða um allar grundir.
Kristinn, Hilmar og Hanna flott
hafiði bara góðar stundir
                            Höf. Vilborg

Hilmar kunni bát að hanna,
hann vakti gleði sanna.
Falleg verður fleytan Hanna,
fékk þó við það aðstoð manna.
                            Höf. Kristinn

13. júní 2011 
Ræddi við núverandi eiganda Hönnu, Hilmar F. Thorarensen og fékk að heyra sögu bátsins og vona ég að rétt sé eftir haft.  Veit að Hilmar bætir þá um betur og sendir mér línur.

Hanna ST 49
Maður að nafni Guðmundur Jónsson (f. 14. júlí 1877 - d. 8. ágúst 1953) búsettur að Helgastöðum í Reykjavík átti Hönnu 1899, en líklega var báturinn smíðaður í Noregi eitthvað áður.  Guðmundur sigldi bátnum um flóann og veiddi fisk og þá var hann mikil skytta og skaut sér til matar.  Guðmudur leggur svo bátnum um 1950.
1958 bilar vél í bát norður í Gjögri.  Það fannst Kelvin vél, sæmilega góð í frekar illa útlítandi bát í Örfirisey.  Þegar sækja átti vélina þá fengu menn að taka bátinn líka á Gjögur.  Báturinn var fluttur með skipi og þegar kom að því að setja bátinn í land þá veltu menn því fyrir sér hvort báturinn myndi fljóta.  Báturinn var settur á flot og viti menn, hann flaut alveg að bryggju.  Karl faðir minn óskaði eftir að fá að eiga bátinn og fékk það, það má segja að þarna hafi hann bjargað þessum bát.  Þetta var Hanna.
Karl F. Thorarensen eignast bátinn 1958 og gerir við hann.  Setur á hann hvalbak og stýrishús.  Líklega hefur pabbi hækkað bátinn um alla vegna eitt umfar ef miðað er við hvernig þetta lítur út í dag.  Pabbi er svo farinn að róa á bátnum 1959 og fór ég marga róðra með honum. 
Eftir lát pabba eignumst við systkynin bátinn.  Ég var alltaf reglulega að reyna að halda bátnum sjófærum en fékk litla aðstoð frá öðrum eigendum hans.  Það var svo veturinn 1997 að mig dreymir pabba.  Þar segir pabbi við mig að það þýði ekki að láta Hönnu drabbast svona niður.  Eftir þetta þá fór ég ásamt Eiríki Eiríkssyni vini mínum og skólabróður fljúgandi noður á Gjögur í lok mars 1997 og dvöldum í nokkra daga í góðu yfirlæti hjá frænda mínum og vini, Adólf Thorarensen.  Þótt hríðarbylur væri flesta dagana þá náðum við að skrapa, menja og mála bátinn að utan og innan með því að hita upp með kósangasofni sem Adólf lánaði okkur.  Eftir þetta eignast ég Hönnu.  Frá árinu 1998 hefur Hönnu verið haldið lítillega til veiða á hverju sumri.   
Nú er svo komið að ég hef fengið Hafliða Aðalsteinsson smið til að aðstoða mig við að gera bátinn upp.  Nú verður gengið alla leið og klárað að gera Hönnu upp svo hægt verði að nota hana til veiða.  Ég hef hug að veiða á Hönnu meðan mér endist heilsa til.  Það verður að vísu alltaf erfiðara og erfiðara að viðhalda bátum svo þeir fái haffærnisskirteini.  Nú langar mig að láta drauminn rætast og gera þetta einu sinni svo að báturinn verði tipp topp. 
Nú er búið að skipta út öllum umförum nema þremur efstu.  Við skoðun á þremur efstu umförunum þá gæti verið að þriðja efsta umfarið sé alveg upprunalegt en efstu tvö umförin gætu verið eftir að faðir minn gerði bátinn upp og gæti hann hafa hækkað bátinn sem því nemur.


Hanna ST 49 eins og hún lýtur út í dag, 13. júní 2011.  Búið að grunna skrokkinn að utan


Séð innan í Hönnu.  Sjá má að skipt hefur verið út öllum umförum nema þremur efstu, 13. júlí 2011

10. júlí 2011
Kíkti á Hönnu ST í dag.  Nú var búið að mála Hönnu að utan, eina umferð eða svo.  Hanna er að taka á sig rétta mynd og verður glæsileg þegar hún verður tilbúin.  Þá var Hafliði búinn að skipta um flest bönd að innan en átti eftir að skoða hvernig þetta yrði í stefni og skut.  Ekki meira í bili.


Skrokkur Hönnu að verða flottur.  09. júlí 2011


Búið að skipta um flest böndin.  Tjargað undir plittum en grunnað fyrir ofan.  09. júlí 2011

02. ágúst 2011
Það er rétt um mánuður síðan ég kíkti á Hönnu ST.  Verkinu miðar vel áfram og voru Hilmar og Hafliði Aðalsteinsson á fullu.  Talsverðar breytingar frá því síðast.  Búið að mála meira, öll bönd komin í bátinn, Westbeke-vélin komin um borð, kælingin fyrir vélina að komast upp, búið að mæla öxulinn og þá var skrúfan kominn á öxulinn en bara rétt meðan lengd öxulsins var mældur.


Vélin kominn á sinn stað. 02. ágúst 2011


Vélarkælingin og skrúfan á sínum stað.  02. ágúst 2011


Eitt af því sem eftir er að gera er að smíða ofan á lúkarinn.  02. ágúst 2011

17. ágúst 2011
Nú styttist í að Hanna verði sett á flot til að sjá hvernig til hafi tekist með viðgerðir.  Núna voru talsverðar breytingar frá því síðast.  Lúkarinn kominn og plittarnir komnir svo eitthvað sé nefnt.  Hafliði er í þessu smáa núna, þ.e. að ganga frá smáatriðunum.

Það sem eftir er að gera er m.a. að setja rekkverk framan á, setja vélina í gang og stylla, setja dælur og fleira smotterí.  Aftan á kemur stigi sem er klár en bara eftir að festa hann.  Þegar ég skoðaði bátinn í dag gat ég ekki annað en dáðst að handverkinu, báturinn er orðinn flottur.


Hanna að verða klár, 17. ágúst 2011


Vantar hurðina fyrir lúkarinn, 17. ágúst 2011


Það var ekki búið að mála stýrið en ég skellti málningu á það í tölvunni til að sjá hvernig þetta kæmi út, 17. ágúst 2011

20. ágúst 2011
Stóra stundin rann upp í dag.  Hanna ST var klár fyrir sjósetningu.  Vélin sett í gang og það leyndi sér ekki að menn voru ánægðir enda bros á andlitum allra.  Í miðju Reykjavíkurmaraþoni var lagt af stað til að sjósetja.  Smá tafir á leiðinni en þetta hafðist allt saman.  Klukkan nákvæmlega 11:00 snerti kjölur Hönnu sjóinn.  Hanna fékk að vera áfram á vagninum, eigum við ekki að segja til að venjast kuldanum.  Nei, það var til að prófa vélina, dælurnar og skrúfuna.  Að því loknu, eða klukkan 11:07 rann Hanna í sjóin og flaut.  Ekki leki og greinilegt að vandað hefur verið til verksins.  Hafliði, Hilmar og Jón vélamaður sigldu um ytrihöfnina innan um makríltorfur sem tóku vel á móti Hönnu og þá hafði Jón Ragnar mætt á Svölunni og annar aðili sem ég þekki engin deili á að svo stöddu á bát sem hann hefur að láni. 


Hafliði aðstoðar við gangsetningu, 20. ágúst 2011


Jón Ragnar, Garðar og Hilmar brosa út í eitt, vélin fór í gang.  20. ágúst 2011


Hafliði dregur Hönnu út úr skúrnum, 20. ágúst 2011


Hilmar og Hafliði við Hönnu ST 49, 20. ágúst 2011


Klukkan 11:00, Hanna snertir hafflötinn, 20. ágúst 2011


Vélin prófuð, skrúfan prófuð, dælan prófuð, allt í lagi.  20. ágúst 2011


Klukkan 11:07 var Hanna ST komin á flot.  20. ágúst 2011


Hönnu siglt í gegnum makríltorfu, 20. ágúst 2011


Hanna ST á góðu skriði, tekur sig vel út á sjónum.  Reykjavík 20. ágúst 2011

Þá er þetta líklega síðasta færsla nema ég eigi eftir að fara að Gjögri og taka myndir af Hönnu þar.  Það væri flottur endir á þessari sögu sem ég hóf þann 03. mars 2011.  En eftir því sem Hilmar segir þá kom hann með Hönnu á verkstæðið fyrir 13 mánuðum síðan. Í upphafi var unnið rólega.  En nú er staðan sem sagt sú að Hanna fór á flot og það var engin leki.  Nú þarf að ditta smávegis að, mála meira o.fl. áður en farið verður með Hönnu norður að Gjögri.  Hilmar vildi meina að það yrði stutt í þá ferð.

Til hamingju með Hönnuna þína Hilmar.

Annað
Hér fyrir neðan eru upplýsingar sem ég hef fundið um Hönnu ST á veraldarvefnum og hvaðan heimildirnar koma, endilega smellið á slóðirnar.

Hanna ST 49 frá Gjögri var smíðuð 1899 í Noregi og er elsti bátur á Íslandi sem er með veiðiheimildir frá Fiskistofu.  Karl F. Thorarensen á Gjögri eignaðist bátinn 1958.  Núverandi eigandi bátsins er Hilmar F. Thorarensen eftirlaunaþegi og trillukarl, sonur Karls.  Hilmar og Hafðili Aðalsteinsson skipasmiður eru að vinna í uppgerð bátsins.  Þeir eru að skipta um nokkur borð og kjöl ásamt því að sett verður í bátinn ný vél, 27 hö. Westbeke vél.


Hanna ST 49 í Karlshöfn á Gjögri. Mynd Þórólfur Guðfinnsson.


Westerbeke bátavél

Þessi heimild kemur af síðu Ásafls ehf:  http://www.asafl.is/index.php?option=com_content&view=article&id=244:hanna-hefur-linu-mjuka&catid=1:frettir&Itemid=11

Á heimasíðu Ásafls ehf, frá því 13. mars 2011, slóðin hér að ofan, verður fylgst með lagfæringu bátsins eftir því sem fram kemur þar.  Þar má jafnframt finna þessa stöku, ekki kemur þó fram hver höfundurinn er.

Hanna hefur línu mjúka
hefur borið aldur vel.
Brátt mun Ægir hana strjúka
dundar hún við fisk og skel.Enn ein heimildin um Hönnu frá Gjögri er síðan í ágúst 1999, en þá var frumsýnd kvikmynd um Hönnu frá Gjögri eftir Þorstein Jónsson.  Myndin er 26 mínútna löng.  Eftirfarandi er orðrétt eftir greininni sem ég las:

Hann ætlaði ekki að lenda í sama baslinu og foreldrar hans og fluttist á unglingsárunum til Reykjavíkur.
En eitthvað varð eftir á Gjögri, eitthvað óáþreifilegt og ósýnilegt sem þó lifir og andar.  Núna leitar hugurinn norður hvert vor og hann er ekki í rónni fyrr en hann er kominn á staðinn, sem hann flúði ungur, þar sem jörðin er sú saman og sjórinn er sá sami og þar sem trilla förðu hans bíður í sjóhúsinu eftir að komast á flot.  Hún heitir Hanna og þó hún sé hundrað ára er hún vel ern, gott sjóskip og hefur alla tíð verið mikið happafley.  Öldugjálfrið og fuglakliðurinn eru sem tónlist í eyrum hans og Hönnu þekkir hann eins vel og hægt er að þekkja eina trillu.  En hún þarfnast endurbóta og faðir hans hefur vitjað hans í draumi og sagt honum að það þurfi að fara að gera trilluna til góða.

Maðurinn er Hilmar F Thorarensen og við sögu koma heimamenn og brottfluttir Strandamenn, Ólafur og Jakob Thorarensen, Garðar Jónsson og Guðmundur og Jón Jens á Munaðarnesi.

Myndin var tekin á Ströndum í ágúst 1999.

Heimild af veraldarvefnum: http://www.kvikmynd.com/Hanna_fra_Gjogri.html

16.03.2011 20:31

Hafnarfjarðarhöfn 12. mars 2011

Hér er ein mynd sem ég tók í Hafnarfjarðarhöfn 12. mars s.l.  Veðrið var frábært og spegilsléttur sjór.  Oft þegar svona birta er þá getur verið vont að taka myndir þar sem skuggar eru mjög harðir og birtan yfirlýsir hvíta fleti.  Tel mig hafa náð að sleppa þokkalega frá því í þessari mynd. 


Hafnarfjarðarhöfn 12. mars 2011

14.03.2011 13:46

Spegill, spegill herm þú mér....

Spegill, spegill herm þú mér............... Þetta sagði drottning eitt sinn.  Hvað sem því líður þá er hér ein Margrétin sem speglar sig í Hafnarfjarðarhöfn.  Held reyndar að þessi drottning sé nú lítið eitt ljúfari en sú sem sagði þessi fleygu orð í upphafi þessara skrifa.


2428 Margrét HF 149, Hafnarfjarðarhöfn 13. mars 2011

14.03.2011 08:50

Auðnutittlingur

Rakst á nokkra auðnutittlinga sem voru að gæða sér á kræsingum.  Held að þetta séu einhverslags fitukúlur með korni í.  Alla vegna þá rifu þeir þetta í sig.  Auðnutittlingar er lítil, rákótt  grábrún finka með stutt stél. Hann er kvikur og fimur þegar hnn leitar sér ætis í trjám og öðrum gróðri.  Er oft í lotum hópum utan varptíma.  Helsta fæða er frá, aðallega af birki og svo skortdýr.   
Kjörlendi auðnutittlinga er brikiskógar og kjarr auk þess ræktað skóglendi og garðar.  Hann gerir sér hreiður í trjám og runnum.  Það er lítil vönduð karfa úr sinu og öðrum gróðri, fóðruð með hárum og fiðri.  Verpir venjulega oftar en einu sinni á sumri. 
Meiri upplýsingar má finna á vef fuglavefsins, slóðin hér að neðan.

Heimildir: Fuglavefurinn http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=28


Auðnutittlingur, Hafnarfjörður 13. mars 2011


Auðnutittlingur, Hafnarfjörður 13. mars 2011


Auðnutittlingur, Hafnarfjörður 13. mars 2011

14.03.2011 08:28

Fiskaklettur

Menn frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar tóku Fiskaklett á land.  Lagís var í höfninni og því svolítið erfitt að stjórna hvert báturinn færi svo það varð að brjóta lagísinn fyrst.  Á fyrstu myndinni sést þegar siglt er inn í lagísinn.  Á næstu mynd sést þegar verið er að brjóta ísinn og að endingu er ísnum dreift.  Þá sigldu þeir bátnum beint upp á kerru og greinilegt var af aðförunum að þessir menn höfðu gert þetta áður.


Fiskaklettur í lagísnum, Hafnarfjörður 12. mars 2011


Lagísinn brotinn, Hafnarfjörður 12. mars 2011


Lagísnum dreift, Hafnarfjörður 12. mars 2011

10.03.2011 19:12

Ísabella Embla

Má til með að setja hér inn nokkrar myndir af Ísabellu Emblu sem er mikil vinkona mín.  Hún er bara flott.  Hér er smá sýnishorn af henni.


Maður getur verið þyrstur


Klapp, klapp


Hlegið með fullan munninn


Ísabella Embla Steiþórsdóttir, 01. mars 2011

09.03.2011 23:49

Múlaberg og Óli Gísla

Ég hef sagt það áður og segi aftur að þegar ekki er tími í fuglamyndir þá koma bátarnir í staðinn.  Nei, nei, ég verð nú að vera aðeins sanngjarn í þessu.  Ég er alæta í ljósmyndum og verð að viðurkenna að bátar hafa komið sterkari inn hjá mér upp á síðkastið.  Þetta gleður suma en aðra ekki.  Hvað sem öðru líður þá má geta þess að ég er að vinna í að fá sögu nokkurra báta hér til hliðar.  En nýjustu fréttir í bátunum hjá mér eru:

Múlabergið sigldi inn í Hafnarfjarðarhöfn þann 6. mars s.l.  Rak augun í þá þegar þeir voru á innleið og smellti á þá nokkrum römmum.  Hér má sjá eina af þeim.


1281 Múlaberg SI 22, Hafnarfjörður 06. mars 2011

Óli Gísla var svo að koma inn til Hafnarfjarðar í dag, 09. mars 2011. 


2714 Óli Gísla GK 112, Hafnarfjörður, 09. mars 2011

07.03.2011 09:27

Sumarliði

Jón Ragnar Daðason og Bergsveinn Jónsson hafa eignast bát sem heitir Sumarliða, sem þeir ætla að gera upp.  Jón Ragnar sendi mér upplýsingar um Sumarliða, síðan náði ég sambandi við Magnús Ívar Guðbergsson fyrrverandi eiganda Sumarliða og fékk nánari upplýsingar um lagfæringar sem þeir feðgar gerð á bátnum.  Páll Ingvarsson hafði samband við mig og kvað föður sinn Ingvar Breiðfjörð hafa átt sumarliða.   Látum Jón Ragnar, Magnús Ívar og Pál fá orðið:
 
Vélbáturinn Sumarliði SH 110 var upphaflega smíðaður sem áraskip, sennilega sexæringur. Báturinn var þó örugglega smíðaður fyrir 1875 að því er fram kemur í óprentuðum æviminningum Skúla Skúlasonar (1875-1950) skipstjóra í Stykkishólmi, hugsanlega 1860-1870.

Talið er að Bergsveinn Ólafsson (1839-1899) frá Bjarneyjum hafi smíðað Sumarliða.
Sumarliði er 7,62 m. að lengd, 2,26 m. að breidd, 0,91 m. að dýpt og 2,8 brl.

Faðir Skúla, Skúli Skúlason bóndi í Fagurey á Breiðafirði, réri á Sumarliða frá Hellissandi fyrir 1875, en þá var hann í eigu Jóns bónda Finnssonar í Fagurey. Seinna eignaðist Skúli yngri bátinn
og eftir honum bróðursonur hans, Bergsveinn Jónsson (skráður eigandi frá 21. apríl 1952) hafnsögumaður í Stykkishólmi og notaði sem eins konar lóðsbát fram um 1970.
Ingvar Breiðfjörð í Stykkishólmi eignast Sumarliða um 1967-68.  Páll heldur að faðir hans hafi keypt bátinn frá Ólafsvík og þá hafi hann verið í frekar slæmu standi.  Ingvar var alltaf eitthvað að ditta að Sumarliða meðan báturinn var í hans eigu.  Páll kvaðst muna að þeir skiptu um einhver borð í Sumarliða, man ekki hve mikið.   Ingvar seldi Sumarliða um 1980.  Ingvar notaði bátinn á handfæri, haukalóð og í lundaveiði. (Upplýsingar frá Páli Ingvarssyni.  Páll skoðar betur)
Báturinn seldur Helga Eiríkssyni Stykkishólmi 27. júlí 1981 hét Sumarliði SH 410.  Seldur 30. júlí 1985 Rafni Franklin, hét Gógó RE 410.  Seldur 3. febrúar 1986 Guðbergi Sigursteinssyni, Smáratúni.  Báturinn var skráður í Halakotsvör og hét Sumarliði GK 300.
Eigandi Sumarliða meira og minna frá 1986 - 2010 voru þeir feðgar Guðbergur Sigursteinsson og Magnús Ívar Guðbergsson, Vogum, en þar var báturinn geymdur á þurru landi og utanhúss. Magnús keypti hann af manni frá Akranesi (Magnús man ekki hvað hann heitir) árið 1986 og notaði til fiskiróðra til 1994, er bátnum var lagt.  Undantekningar á þessur eru: Seldur 13. febrúar 1990 Kristjáni Kristmannssyni og Hafsteini Fjalari Hilmarssyni, Vogum.  Seldur 19. febrúar 1992 Magnúsi Ágústssyni, Vogum.  Seldur 2. desember 1992 Magnúsi Ívari Guðbergssyni, Vogum.  Seldur 19. mars 1993 Þórði S. Jónssyni, Hvammstanga, sama nafn og númer.  Seldur 24. mars 1993 Fiskmarki hf, Seltjarnarnesi, heitir Auðlind HF 29.  Seldur 27. júlí 1993 Marlind hf., Reykjavík.  Báturinn er skráður á Seltjarnarnesi 1997.

Faðir Magnúsar er skipasmiður og gerðu þeir feðgar miklar endurbætur á bátnum.  Skiptu um hluta af kilinum, skipt um öll bönd, nýjar lunningar, skiptu um framstefni, tóku stýrishúsið af, hækkuðu það upp og notuðu efri hlutann af stýrishúsinu áfram og stækkuðu kassann fram svo eitthvað sé nefnt.  Sumarliði var svo sjósettur aftur eftir endurbætur þann 17. júní 1986.  Vélin í bátnum var Sabb 1 cyl. 10 hestafla.

Á gömlum myndum af Sumarliða, sennilega síðan um 1940 má sjá hann stýrihússlausan.

Eigandi bátsins í dag er Bergsveinn Jónsson og Jón Ragnar Daðasson er Sumarliði því aftur kominn í eigu afkomanda Fagureyinga.

Magnús Ívar ætlar á kíkja eftir því hvort hann eigi myndir af Sumarliða með stýrishúsið og vonandi fæ ég eintak og þá set ég hana inn hér.Sumarliði.  Mynd frá Jóni Ragnari Daðasyni.


Sumarliði, með húsi.  Mynd: Skúli Ingvarsson 1974-75. Páll Ingvarsson sendi mér myndina.


Sumarliði 03. mars 2011.

Jón Ragnar sendi mér þennan bækling sem hefur verið útbúinn varðandi Sumarliða.  Ef menn vilja fá hann prentaðan er bara að hafa samband við Jón Ragnar á slóðina trebatur@gmail.com


Hægt verður að fylgjast með uppbyggingunni og viðgerðinni á Sumarliða á þessari slóð http://sumarlidi.net
Þá er einnig hægt að fylgjast með á dagbókarfærslum mínum varðandi veriðgerðina á Sumarliða http://rikkir.123.is/blog/2011/09/03/540868/

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 3154279
Samtals gestir: 237149
Tölur uppfærðar: 30.5.2020 01:55:03