Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2009 Júní

30.06.2009 21:53

Hvalveiðimaður í Stykkishólmi

Á göngu minni að morgni 28. júní 2009 sá ég þennan unga "hvaðveiðimann".  Þessi unga skytta heitir Skírnir Kristjánsson 4 ára.  Hann bar sig óaðfinnanlega að við veiðarnar og þarna er hann að hleypa af.  Ekki gott að segja hver veiðin var miðað við stefnu skutulsins en eigum við ekki bara að segja að það hafi verið svolítið langt í stórhvelið og því þurfti að beina byssunni uppávið.


Skírnir Kristjánsson 4 ára hvalaskytta.  Stykkishólmur 28. júní 2009

30.06.2009 13:56

Indæll þrastarsöngur, gaggalagaggalagóóóó

Má til með að setja hér inn smá sögu sem tengist þessum hana hér á myndinni.  Þannig var að frábær hjón sem ég þekki og eru búsett í Stykkishólmi voru á göngu í Skógræktinni fyrir ofan Stykkishólm.  Maðurinn hefur þá á orði við konuna sína, heldurðu að það sé nú munur að vera hér á göngu í skóginum og heyra indælan þrastarsögn.  Konan (hissa) svaraði að bragði, þrastarsöng, þetta er haninn hans Geira. 


Gaggalagaggalagóóóó........þrekvaxni haninn hans Geira

Af þessu tilefni samdi Einar Steinþórsson tengdafaðir minn eftirfarandi:

Skelegg við löbbuðum skógargöng,
mér er skylt að láta ykkur heyra.
Það sem ég nam sem þrastarsöng
var þrekvaxni haninn hans Geira.

29.06.2009 21:42

Allt eins og blómstrið eina

Ég hafði einhverntíma orð á að ég ætlaði að setja inn myndir af biðukollu sem væri verið að blása á.  Hér er fyrsta, önnu og þriðja tilraun við þá iðju.  Allar myndirnar eru teknar í Stykkishólmi 28. júní 2009.  Það er reyndar ekki auðvelt að halda á biðukollunni og myndavélinni á sama tíma og reynt er að blása.  Því þarf maður aðeins að svindla og reka fingurinn í biðukolluna og lyfa henni svo upp í vindinn og má þakka fyrir að fræin séu ekki öll farin þegar smellt er af.  Fleiri blómamyndir eru í möppu.







29.06.2009 21:35

Ýmis dýr

Gerði heiðarlega tilraun til að mynda marglittu sem var við bryggjuna í Stykkishólmi.  Sjórinn var ekki hreinn en held að þetta hafi tekist bærilega þrátt fyrir það.  Ég er með möppu sem ég kalla Dýr og þar safna ég inn myndum af ýmsum dýrum, þó ekki fuglamyndum því þeir eru sér.

29.06.2009 21:30

Valtýr

Valtýr var sjósettur þann 18. júní s.l. og var þetta því annar báturinn sem sjósettur var í Stykkishólmi, frétt um það má lesa hér, http://stykkisholmsposturinn.is/files/bcefiejcic/0625-vef.pdf

29.06.2009 21:23

Þytur

Þytur var sjósettur þann 17. júní í Stykkishólmi.  Saga bátsins er rakin lítillega í Stykkishólmspóstinum, http://www.stykkisholmsposturinn.is/files/bcefiejcic/0625-vef.pdf
Ég ætla ekki að rekja söguna heldur lesið hana í Stykkishólmspóstinu, linkurinn hér fyrir ofan.

29.06.2009 10:10

Fiðrildi

Mikið hefur verið um flækingsfiðrildi hér á landi síðustu tvo mánuði.  Aðallega hefur verið um þistilfiðrildi að ræða en þó hafa slæðst með eitt og eitt aðmírálsfiðrildi.  Ekki hef ég heirt hvort fleiri tegundir fiðrilda hafi sést en þó má það alveg vera.  Til að þið vitið hver munurinn er á þessum fiðrildum þá eru hér myndir af þeim báðum.  Myndin af þistilfiðrildinu var tekin í Flatey á Breiðafirði þann 18. júní 2009 en myndin af aðmírálsfiðrildinu var tekin við bæinn Heiði í Biskupstungum fyrir mörgum árum síðan.  Eins og þið sjáið þá er talsverður munur á þessum fiðrildum, aðmírállinn er miklu dekkri á litinn.  Þess má geta að þann 28. júní 2009 var ég í Stykkishólmi og sá þá þistilfiðrildi.  Ég eltist við það og tók myndir, síðar sá ég "það" aftur og myndaði aftur, í þriðja skipti sá ég "það" og myndaði.  Þegar ég skoðaði myndirnar heima sá ég að þetta voru þrjú fiðrildi en ekki eitt.  Þó sá ég aldrei nema eitt í einu.  Eitt annað sá ég en fann það ekki svo ég veit ekki hvort þar var fjórða fiðrildið.


Þistilfiðrildi


Aðmírálsfiðrildi

26.06.2009 08:45

Listflug eða deilur

Mig hefur oft langað til að gera einhverja svona samsetta mynd.  Þegar margar myndir eru teknar í einu og ég skoða þær þá........ ja, alla vegna hér er ein samsett.  ég valdi myndirnar eftir því hvernig mér fannst þær passa í heildarmyndina, ekki endilega eftir tímaröð.  Kríur í ham.  Myndin er tekin í Flatey á Breiðafirði 12. júní 2009.

25.06.2009 21:42

Flateyjarfiðurfé

Að sjálfsögðu urðu fuglar einnig á vegi mínum.  Hér eru þrír þeirra en fleiri myndir eru í albúmi.


Lóuþræll.  Flatey á Breiðafirði 17. júní 2009


Sandlóa.  Flatey á Breiðafirði 19. júní 2009


Íslenskir landnámshanar.  Flatey á Breiðafirði 18. júní 2009

25.06.2009 21:25

Bátar á sjó og landi

Á ferð minni í Stykkishólm og Flatey þá urðu einhverjir bátar á vegi mínum og smellti ég af nokkrum römmum.  Í Flatey sá ég Lóminn, en mér finnst hann ekki sá fallegasti.  Í Stykkishólmi hins vegar fann ég bát sem mér finnst sá fallegasti á landinu í dag, það er hann Valtýr.  Það eru örugglega skiptar skoðanir á því hvað er fallegur bátur og hvað ekki en þetta er mín skoðun.  Hér eru þrír misfallegir.  Fleiri myndir í albúmi.


7627 Lómur, ekki sá fallegasti.  Flatey á Breiðafirði 18. júní 2009


"Víkingaskútan" Valtýr, að mínu mati fallegasti bátur á landinu.  Stykkishólmur 19. júní 2009


1426. Guðmundur Jensson SH 717.  Stykkishólmur 19. júní 2009

24.06.2009 10:23

Flóabáturinn Konráð BA 152

Þann 19. júní 2009 tók ég þessar myndir af stýrishúsi sem stendur við Læknishúsið í Flatey á Breiðafirði.  Ég fékk þær upplýsingar frá Einari Steinþórssyni tengdaföður mínum að þetta stýrishús væri af flóabátnum Konráði BA 152.  Þess má geta að Einar var vélstjóri á Konráði. Ég ræddi líka við Hafstein Guðmundsson bónda í Flatey sem sagði mér að þetta stýrishús hafi verið byggt á Konráð fyrir stríð, en væri ekki upprunalega stýrishúsið. 

Í frásögn Ólafs Ásgeirs Steinþórssonar (smella á heiti greinarinnar), "Brot af sögu flóabátsins Konráðs BA-152", sem birt var í Morgunblaðinu fimmtudaginn 28. mars 2002 dró ég saman eftirfarandi upplýsingar:  15. mars 1927 var stofnað hlutafélag um útgerð flóabáts sem þjóna skyldi byggðum við norðanverðan Breiðafjörð, þetta hlutafélag hlaut nafnið Norðri hf. Menn höfðu augastað á 19. tonna eikarbát, nýsmíði sem stóð óseldur vestur á Þingeyri.  Gengið var frá kaupunum og var ásett verð rúmar átján þúsund krónur.  Báturinn fékk nafnið Konráð BA-152.
Í þessari frásögn Ólafs má m.a. lesa um svaðilför sem skipverjar lentu í.

Í Íslensk skip eftir Jón Björnsson segir um Konráð BA 152 (639):  Smíðaður á Bíldudal 1926 úr eik og furu.  18 brl. að stærð með 45 hestafla Delta aðalvél.  Eigandi Norðri hf. í Flatey á Breiðafirði frá 18. maí 1927.  1935 var sett í bátinn 50 hestafla Scandia vél.  1948 var skipt um vél aftur og þá var það 66 hestafla Kelvin vél sem var svo skipt úr fyrir samskonar vél 1956.  Báturinn talinn ónýtur og tekinn af skrá 23. nóvember 1965.

Hér má sjá ljósmynd af Konráð BA-152 sem er í grein Ólafs Ásgeirs Steinþórssonar.  Þarna gæti verið um upprunalega stýrishúsið að ræða því það virðist minna en það sem er á myndunum mínum. 


Konráð BA 152 í Hafnarsundi við Flatey


Stýrishúsið af Konráði BA-152 og Snæfellsjökull í baksýn.  Flatey á Breiðafirði 19. júní 2009


Stýrishúsið af Konráði BA-152.  Flatey á Breiðafirði 19. júní 2009

23.06.2009 10:19

Gísli Magnússon SH 101

Hér er mynd af einum af svokölluðum Landsmiðjubátum frá árinu 1947 en hann er í Flatey á Breiðafirði.  Krakkarnir sem koma reglulega í Flatey kalla þennan bát draugaskipið eða sjóræningjaskipið.  Ég ræddi við Hafstein Guðmundsson bónda í Flatey og sagði hann þennan bát smíðaðan eftir orginal teikningum svonefndra Landsmiðjubáta en þeim hafi síðar verið breytt þannig að þeir hafi verið gerðir grynnri.  Þá sagði Hafsteinn að Konni Júl. hafi átt þennan bát og hafi hann líklega notað hann til að veiða háhyrninga fyrir söfn. Síðast hét þessi bátur Gísli Magnússon SH 101 árið 1972.  Talinn ónýtur og úreltur 13. maí 1976.  Þessi bátur hefur borið eftirfarandi nöfn:  Vörður TH4, Vörður ÞH4, Guðfinnur Guðmundsson VE 445 og Gísli Magnússon SH 101.  


Gísli Magnússon SH 101.  Flatey á Breiðafirði 17. júní 2009


Gísli Magnússon SH 101.  Flatey á Breiðafirði 17. júní 2009


Gísli Magnússon SH 101.  Flatey á Breiðafirði 18. júní 2009


Gísli Magnússon SH 101.  Flatey á Breiðafirði 18. júní 2009

23.06.2009 08:46

Að ýmsu er að hyggja

Það er ýmislegt sem fólkið í Flatey þarf að huga að. Hér eru nokkrar myndir sem sýnir fólk að störfum.


Bjarni í Bergi við slátt.


Skipt um ruslapoka við Millustaði.


Katrín í Bogabúð með rabbarbara í pæ.


Guðmundur í Vogi lagar þakrennuna á Vogi.


Þeir eru ekki háir í loftinu þegar þeir byrja að "laga".

23.06.2009 08:35

If you can´t beat them, join them!

Þið fyrirgefið þessa enskuslettu í fyrirsögninni en mér datt þetta í hug þegar ég varð vitni af því þegar kría settist á hausinn á kind sem var rétt við hreiðrið hennar.  Ég hafði horft uppá kríuna reyna hvað hún gat til að hrekja kindina í burtur en án árangurs. 


Krían að reyna hvað hún getur til að hrekja kindina frá hreiðrinu.


If you can´t beat them, join them.

23.06.2009 00:32

Fleiri myndir úr Flatey

Bætti inn talsvert mörgum myndum í Flateyjarmöppuna.  Hér má sjá þrjár myndir úr því safni.   Á fyrstu myndinni má sjá bókhlöðuna eða bókasafnið, sem var fyrsta bókasafn sem reist var á Íslandi.  Undanfarinn mánuð hefur verið mikið um þistilfiðrildi sem sjá má á annarri myndinni.  Þistilfiðrildi hafa sést um allt land og þann 18. júní sá ég eitt þeirra í Flatey og náði þessari mynd af því.  Þistilfiðrildi koma hingað til lands frá suður-Evrópu, sjá nánar hér.  Þriðja og síðasta myndin er svo af grásleppuhjalli.  Það þarf ekki alltaf nýjustu vélar til að framleiða lúxusmatvæli.


Bókhlaðan í Flatey 18. júní 2009


Þistilfiðrildi var í Flatey 18. júní 2009


Eðalmatvæli í vinnslu, 18. júní 2009

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 581
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311986
Samtals gestir: 29935
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:11:42