Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

03.08.2011 00:10

Náttfari

Náttfari, mótorhjólaklúbbur á Húsavík og nokkrir vinir þeirra héldu sýningu á mótorfákum sínum á mærudögum eins og þeir hafa gert undanfarin ár.  Grillað er ofan í gesti og gangandi.  Ekki spillti veðrið fyrir þessari sýningu og krómið glampaði óspart í sólinni.  Sjón er sögu ríkari.


Elín Hanna við hjól formanns Náttfara, 23. júlí 2011


Mótorfákar og pylsuveisla, 23. júlí 2011

02.08.2011 21:23

Íslenskt mál

Hver man ekki eftir þætti á gömlu gufunni sem hét íslenskt mál.  "Þættinum hefur borist bréf, hver kannast við orðið "mæra" í merkingunni nammi, salgæti o.s.frv." 

Ég heyrði nokkur ný orð í dag sem mér fundust nokkuð sérkennileg og kannaðist ekki við að hafa heyrt áður.  Það er ekkert nýtt að mér berist ný orð til eyrna þegar verið er að gera upp báta.

Í dag voru þetta orð eins og; Kollharður, Hnýfilkrappi, Hnýfill, Umgjörð, Stafnlok og Klumpi eða Stuðlappi.  Já, þetta eru nokkur góð og gild orð sem eru á þessum bátum og fyrir ykkur sem ekki vitið þá er ég að hugsa um að setja hér inn myndir og sýna ykkur þetta.

Á þessari mynd má sjá hnýfil og hnýfilkrappa.  Hnýfillinn er efsti hluti stefnis að framan eða aftan sem stendur uppúr stefninu.  Framhnýfill og afturhnýfill.  Þríhyrningslaga stykkið sem er við stefnið heitir hnýfilkrappi

Hér sést kollharður og umgjörð.  Kollharður er stykkið sem er ofan á þóftunni og út í síðuna, vinkillinn með boganum eða hvernig ég skýri það út á þessari mynd.  Umgjörð er svo það sem í dag myndi kallast borðstokkurinn.  Þarna vildi Hafliði þó meina að gæti verið smá munur á því umgjörð er allt frá ystu spítu til þeirrar innstu.  Á myndinni sést þetta vel, nýji ysti listinn+gamla tréið+bilið á milli og endarnir á böndunum+nýji listinn að innan=umgjörð.

Hafliði sagði mér að kubburinn sem settur er á samskeiti innan í bátnum sé kallaður klampi.  Á myndinni sést einn fyrir miðri mynd.  Þá sagðist hann hafi heyrt að í Bátalóni hafi klampinn verið kallað stuðlappi en hvergi annarsstaðar hafi það verið gert, ekki svo hann vissi til alla vegna.

Stafnlok - Hafliði Aðalsteinsson sagði að hann og Ólafur Gíslason væru ekki sammála um hvað væri stafnlok.  Hafliði segir að staflok sé fremsta bandið sem liggur á ská miðað við hin.  Ólafur Gíslason segi (að sögn Hafliða) að stafnlok sé:  Fjöl sem sett er innan við þetta fremsta band og þá myndast gott hólf sem böndin eru oft geymd í, þessi fjöl sem myndar hólfið sé kallað stafnlok en ekki bandið sjálft.  Þarna er smá merkingarmundur á en er einhver þarna úti sem getur sagt hvort er rétt?  Vona að þið hafið haft einhverja ánægju af þessu.  Sendið mér línu ef þið kannist við þessi orð og þá í hvaða merkingu!

Ég sló þessu upp á netinu (Google) og þetta var niðurstaðan sem þar kom:
stafn·lok. HK. sjómennska. dálítið hallandi, þríhyrnd fjöl í stafni eða skuti báts. stafnlokseyra armur á stafnloki sem það er neglt á við skipshliðina. .
stafn·seta. KVK. sjómennska. stafnlok. .
skar·lot. -s, - HK. sjómennska, sjaldgæft. totulaga rúm undir stafnloki fremst og aftast í bát. .
hnýfil·krappi. KK. sjómennska. lítill þríhyrndur trékubbur fyrir ofan stafnlok á bát, aftan við hnýfilinn.

02.08.2011 14:44

Sólskríkja

Einn af þeim fuglum sem ég sá og myndaði í Flatey á Breiðafirði var snjótittlingur eða sólskríkja eins og hann kallast á sumrin.  Þessi karlfugl var gæfur og komst ég nokkuð nálægt honum.  Fuglinn söng hátt og mikið.  Hér eru myndir af honum.


Syngjandi sólskríkja í Flatey á Breiðafirði, 30. júní 2011


"Nú er sumar ............... 30. júní 2011

02.08.2011 14:03

Rax með sýningu

Eitt af atriðum á Sail Húsavík var myndlistarsýning Ragnars Axelssonar (Raxa).  Sýningin var utandyra í mjög svo sérstökum og sniðugum sýningarsal, ef svo má segja.  Salurinn er hringlaga og veggirnir plastkör sem staflað er upp.  Myndirnar hanga á þessum kössum og svo er sjónvarp og hljóðkerfi einnig á staðnum.  Sýningin bar heitið Last days of the Arctic.  Myndirnar eru allar af ferð Ragnars til Grænlands og hann er búin að gefa út bók með þessum myndum.  Í sjónvarpinu þá gengu myndir úr bókinni og í hlóðkerfinu var allskonar hjól sem líklega voru tekin upp á Grænlandi. 


"Sýningarsalurinn"


Last days of the arctic, heiti sýningarinnar


Inni í sýningarsalnum


Nýjasta pósan

01.08.2011 23:45

Halsnøybáturinn

Merkilegasti báturinn á Sail Húsavík, að mínu mati, er Halsnøybáturinn.  Á vef Sail Húsavík kemur þetta fram um bátinn:
Halsnøybáturinn er einn af elstu plankabyggðu bátum sem fundist hafa á Norðurlöndum, frá u.þ.b. 100 - 300 eftir Krist. Bátarnir voru saumaðir saman með tógi úr linditrjám og róið með árum. Fyrsta og eina eftirlíkingin var búin til í Suður-Hörðalandi árið 2008.


Halsnøybáturinn 18. júlí 2011


Halsnøybáturinn 18. júlí 2011

Eins og fram kemur þá er báturinn bundinn saman með linditré.  Hvernig?  Utan af linditrénu er tekinn börkurinn og meira til.  Þetta er sett í sjó í fjóra mánuði.  Þá losnar um líminguna sem heldur trénu saman (árhringina).  Þá er hægt að fletta linditrénu sundur.  Þegar svo fari er að búa til böndin þá eru ræmurnar settar í vatn, vafðar saman og búið til reipi.


Verið að búa til reipi úr linditré.  20. júlí 2011


Reipið búið til úr linditrésræmum.  21. júlí 2011

29.07.2011 22:33

Mærudagar 2011

Sail Húsavík og Mærudagar fléttuðust saman.  Mikill mannfjöldi var á Húsavík á þessum dögum og langar mig að setja hér inn myndir sem sýna hluta mannfjöldans og sérstaklega veðrið.  Ég mun svo halda áfram að setja hér inn myndir og sýna ykkur hvað var um að vera á þessum dögum öllum saman.  Hér er ein mynd sem sýnir þetta allt vel.  Meira síðar.


Mærudagar á Húsavík, 23. júlí 2011

26.07.2011 23:20

Haukur og Hildur

Tveir síðustu stóru skúturnar á Sail Húsavík tilheyra Norðursiglingu.  Tek þá báða fyrir hér en upplýsingarnar eru fengnar af vef Norðursiglingar http://www.nordursigling.is/batar-og-segl/.

Haukur var byggður í Reykjavík árið 1973 og var annar af tveimur mjög sérstökum bátum sem smíðaðir voru í Skipasmíðastöð "Jóns á Ellefu". Lengst af var báturinn gerður út frá Vestfjörðum en Norðursigling keypti bátinn árið 1996 og breytti honum á svipaðan hátt og Knerrinum og hóf hann hvalaskoðunarferil sinn sumarið 1997. Eftir 5 góðar vertíðir í hvalnum á Húsavík var báturinn settur í slipp á Húsavík þar sem honum var breytt í tveggja mastra seglskip, í stíl við fiskiskonnortu er voru algengar við Norðurland á seinni hluta 19. aldar. Sumarið 2002 sigldi Haukur svo með fólk um Skjálfanda, bæði undir seglum og sem hvalaskoðunarbátur.

Upplýsingar

BT:

20

ML:

21,5m (skrokkur 15,6)

B:

4,0 m

Flatarmál segla:

132 m2

Skrokkur:

Eik

Smíði:

Reykjavík

Byggt/endurbyggt:

1973/1997/2002

Farþegar:

46

Vél:

Scania

kW/hö:

155/210

Höfn:

Húsavík

Fáni:

Ísland


Haukur 22. júlí 2011


Hildur var byggð á Akureyri árið 1974 af skipasmiðunum Gunnlaugi og Trausta. Trausti og synir urðu síðar góðvinir Norðursiglingar og aðstoðuðu við endurbyggingu allra bátanna. Eigendur Norðursiglingar kynntust þannig einstökum hæfileikum þeirra og áhuga á eikarbátum og settu sér það markmið að eignast síðar einn stóru bátanna þriggja sem voru byggðir í skipasmíðastöð þeirra. Það var svo sumarið 2009 sem Hildur sigldi inn höfnina á Húsavík þar sem hún var tekin upp í slipp og undirbúin fyrir siglingu til Danmerkur. Ferðin þangað tók 10 daga og í skipasmíðastöð Christian Jonsson í Engernsund var bátnum breytt í tveggja mastra skonnortu.

Upplýsingar

BT: 

35

ML:

26 m (skrokkur 18 m)

B:

4,8 m

Flatarmál segla:

250 m2

Skrokkur:

Eik

Smíði:

Akureyri

Byggt/endurbyggt:

1974/2010

Farþegar:

50

Vél:

Scania

kW/hö:

373/500

Höfn:

Húsavík

Fáni:

Ísland


Hildur, 22. júlí 2011

25.07.2011 23:45

Dagmar Aaen

Dagmar Aaen var smíðuð sem fiskikútter árið 1931 í Esbjerg, Danmörku í skipasmíðastöðinni NP Jensen og var gefið skráningarnúmerið E 510.

Skrokkurinn er smíðaður úr 6 sm. eikarplönkum á eikarrömmum (skil þetta ekki en þetta er þýðingin)  Bilið milli ramma er oft það lítið að hnefi kemst varla á milli.  Skipið var mikið notað á Grænlandssvæðinu vegna styrks skrokksins og byggingarefnis hans.  Ferðir í gegnu ísilögð svæði, mánaðarlegur í frosnum flóum og fjörðum var aðstæður sem þessi skip þoldu.
Hinn frægi könnuður, Knud Rasmussen valdi einungis svona skip fyrir einn af leiðöngrum sínum á Norðurskautið.

Dagmar Aaen var notað til fiksveiða til ársins 1977.  Niels Bach keypti skipið árið 1988 ásamt Peters skipasmíðastöðinni í Wewelsfleth Þýskalandi og Skibs & Bædebyggeri skipasmíðastöðinni í eigu Christian Jónsson í Egernsund Danmörku.

Dagmar Aaen mætti á Sail Húsavík undir stjórn Arved Fuchs verndara Sail Húsavík eins og fram kemur á síðu Hafþórs Hreiðarssonar.


Fáni:                                     Þýskaland
Byggingarár:                          1931
Skipasmíðastöð                     N.P. Jensen Shipyard í Esbjerg, Danmörku
Byggingarefni:                        6 cm Eikarplankar á eikar ramma
Skrokkur:                               Húðuður með 6 mm sérstöku áli
Stefni, skutur og kjölur:           Styrktir með allt að 3cm af stáli
Dekk:                                    Klætt með Oregon Pine
Mastur og toppur mastur:        22 metra hátt úr Douglas Pine
Heildarlengd:                          24 metrar
Breidd:                                   4,80 metrar
Djúprista:                               2,50 metrar
Brúttótonn:                             27
Seglin:                                   220 fermetra
Vél:                                       Callesen Diesel, 3 strokka, 180 h.p.


Dagmar Aaen siglir á Skjálfanda, 22. júlí 2011

25.07.2011 22:23

Helguskúr

Ég hef áður sagt frá Helguskúr en ætla að gera það aftur.  Að mínu mati er Helguskúr alger gullnáma fyrir áhugamenn um veiðar á öllum sjávardýrum.  Þá er þessi skúr mjög svo myndrænn.  Eigandi Helguskúrs er Helgi Héðinsson. 

Skúrinn lítur eins út og þegar Helgi hætti að róa, ekkert hefur breyst.  Skúrinn og Helgi eru orginal.  Helgi er þarna á hverjum degi og oft aðrir sjóarar hjá honum.  Miklar umræður í gangi og kaffi á könnunni.

Ég vona að þessi skúr fái að vera svona um ókomna framtíð því margt af því sem þarna má finna eru hlutir sem flestir hafa hent í gegnum tíðina.  Þarna eru þessir hlutir í sínu rétta umhverfi.  Húsavíkurbær á að hafa þennan skúr á aðalskipulagi bæjarins á þessum stað þar sem hann hefur alltaf verið.

Ráðamenn hjá Húsavíkurbæ hafa í gegnum tíðina látið alla gömlu skúrana hverfa einn af öðrum af aðalskipulagi bæjarins.  Hins vegar hafa aðrir lagfært nokkra af þessum gömlu skúrum og nota jafnvel sem veitingahús í dag.  Gömlu gildin eru að hverfa eitt af öðru og því segi ég enn og aftur, ég vona að ráðamenn Húsavíkur tryggi að Helguskúr fái að standa um ókomna framtíð þar sem hann er núna.


Helguskúr, 19. júlí 2011


Helgi Héðins, 19. júlí 2011


Línubali og stokkuð lína, 20. júlí 2011

25.07.2011 20:45

Sail Húsavík

Hef verið að setja inn myndir frá Sail Húsavík.  Enn eru það bara stóru skúturnar sem fá mesta athygli.  Var að henda inn myndum núna þar sem fleiri en ein skúta sést á sömu myndinni.  Hér má sjá mynd af Activ sem gnæfir yfir Vinfasti.  Skipper á Vinfasti er Hafliði Aðalsteinsson.  Hann gerði sér lítið fyrir og sigldi sömu leið og skúturnar sigldu í kappsiglingu sinni.  Mun halda áfram að setja inn myndir á næstunni í myndaalbúm Sail Húsavík.


Activ gnæfir yfir Vinfasti 22. júlí 2011


Dagmar Aaen og Haukur sigla hlið við hlið. 22. júlí 2011

25.07.2011 10:59

Kútter Johanna GT 326

Kútter Johanna er smíðuð í Rye, Sussex í suður Englandi árið 1884 í skipasmíðastöð í eigu James Collins Hoad.  Skipasmíðastöðin er þekkt fyrir sín fallegu skip.

Fyrsti eigandi Johanna, sem þá hét Oxfordshire og var á Englandi, var John William Haylock frá Dulwich í Surrey.  Í Október 1894 keypti Georg Edv. James Moddy, skipaeigandi í Grimsby, Oxfordshire en seldi skipið aftur í desember sama ár til Jákup Dahl, kaupmanns í Vágur.  Þetta var fyrsta skipið sem Jákup Dahl eignaðist.

Heimahöfn er Vágur í Færeyjum.


Kútter Johanna siglir á Skjálfanda, 22. júlí 2011


Johanna siglir á Skjálfanda 22. júlí 2011

25.07.2011 10:44

Kútter Dragin

Kútter Dragin er frá Færeyjum.  Dragin, eða Drekinn, var smíðaður í Copenhagen Kutter Yard í Kaupmannahöfn árið 1945, úr eik.  Seglmagnið er um 190 fermetrar að stærð.  Vélin er Volvo Penta 210 hö. árg. 1985.  Lengd; 18;40 m., breidd; 4,74 m., dýpt; 2,70 m.

Kútter Dragin er með heimahöfn í Klaksvík.


Kútter Dragin, 22. júlí 2011


Dragin

25.07.2011 09:47

Pirola

Pirola var líklega tekið í notkun um 1910, en byggingarár og skipasmíðastöð eru ekki vitað en skipasmíðastöðin var líklega í Hollandi, skipið er stálskip.  Það var líklega notað sem flutningaskip í strandsiglingum í upphafi.   

Árið 1947 var hún endursmíðuð og fékk sína fyrstu vél. Fram til 1969 hét skipið "De drie Gebroders" og var notað til fiskveiða.  Með sölu til Borkum fékk það nafnið Pirola og nýja 6 cyl. Henschel 80 hestafla vél. Skipið var enn notað til fiskveiða og fleiri verka.
Eftir tíð eigandaskipti var skipið komið í hörmulegt ástand, en árið 1983 keypti Elbarms Roland Aust ásamt vinum sínum skipið og fram til 1990 voru þeir að gera það upp. Til að bæta siglingagetu skipsins var sett í það 17 tonna kjölfesta og síðar var sett teak á þilfar skipsins.

Árið 2008 var skipið yfirfarið og ný Henschel 184 hö, 6 cyl. vél sett í bátinn.  Þá voru möstur og reiðar yfirfarnir.  Seglin eru 204 fermetrar að stærð, heildarlengd skipsins er 25 m., breidd er 4,16 m., það ristir 1,70 m.


Pirola á Skjálfanda, 22. júlí 2011.  Vésteinn til hægri.

25.07.2011 08:09

Activ

Skonnortan Activ er þriggja mastra, 42 m. 138 (feta) skúta smíðuð úr tré.  Activ var smíðuð í skipasmíðastöð J. Ring Andersen í Svendborg, Danmörku.  Henni var hleypt af stokkunum árið 1951 við hátíðlega athöfn.  Svefnaðstaða er fyrir 12 farþega og 6 manna áhöfn.

Activ er með heimahöfn í London.  Vél: 6 Cyl. Vabis Scania Diesel 250 hp

Árið 1977 voru einhverjar breytingar og lagfæringar gerðar á skipinu.  Ekki vitað hverjar.

Fyrri nöfn: Skipið hét áður Mona, Svendborg.


Activ ex Mona, á siglingu við Húsavík

24.07.2011 23:44

Sail Húsavík 2011

Kominn heim eftir viku á Húsavík.  Sail Húsavík, Mærudagar og endufundir með árgangi 1961 á Húsavík.  Hafði rosalega gaman af þessu öllu saman og nú þarf að fara að vinna myndir.  Á eftir að gera þessu öllu betri skil síðar. 

Hér koma myndir af stóru skipunum sem voru á Sail Húsavík, smávegis til að sýna hvað er framundan. Miklu meira síðar.


Dagmar Aaen, smíðaður í Esbjerg 1934.


Haukur, smíðaður í Reykjavík 1973.


Pirola, tekin í notkun 1910.


Activ, 3ja mastra skonnorta, smíðuð í Danmörku 1951.


Hildur, smíðuð á Akureyri 1974.


Kútter Dragin frá Færeyjum, smíðaður í Kaupmannahöfn 1945.


Kútter Jóhanna, smíðuð í Rye, Sussex í suður Englandi 1884.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 169
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 236
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 347558
Samtals gestir: 32136
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 10:50:25