Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2011 Október

30.10.2011 16:41

Eins og pabbi

Eftir mikinn eril í vinnunni náði ég að kíkja aðeins út með myndavélina mína í dag.

Ég leit inn í Bátastöðina og þar voru feðgar að smíða.  Sá litli ætlaði að verða eins og pabbi þegar hann yrði stór.  Hér að neðan eru tvær slóðir sem ég er með á Sumarliða.  Annars vegar er það saga bátsins og hins vegar dagbókin sem ég held í þau skipti sem ég fer og kíki og mynda viðgerðina.

Sumarliði, dagbókin mín http://rikkir.123.is/blog/2011/09/03/540868/
Sumarliði, saga bátsins http://rikkir.123.is/blog/record/508937/



Eins og pabbi..... Bátastöðin 30. október 2011

23.10.2011 22:04

Gráhegri

Á ferð minni í dag kíkti ég m.a. í Hvaleyrarlón í Hafnarfirði.  Þar sá ég einn ungan gráhegra í rennunni en svo flaug hann inn í lónið.  Náði að smella af myndum svona rétt til að staðfesta fuglinn.




Gráhegri í Hvaleyrarlóni, 23. október 2011

23.10.2011 21:43

Á drekaslóðum

Var á ferðinni í dag og rak augun í þrjá dreka.  Já, ég sagði dreka.  Ég var staddur út við Gróttu og þar voru sem sagt þrír karlar á sjóbrettum sem létu dreka draga sig áfram.  Þarna fóru þeir fram og til baka, stukku upp í loftið og léku listir sínar.  Reyndi að fanga þetta á myndir, set hér inn tvær.  Setti nokkrar inn í albúm. 




Við Gróttu, 23. október 2011

21.10.2011 21:32

Máfar

Skrapp í Stykkishólm 15.-16. október og skrapp á bryggjuna.  Þarna sá ég talsvert af stórum máfur og þá datt mér í hug að setja hér inn nokkrar myndir af þessum elskum.  

Vargfugl segja flestir.  Ég sé máfana ekki sem neina vargfugla, þetta eru að mínu mati "ryksugur" hirða upp ruslið eftir okkur mennina.  Þegar hungrið sverfur að þá eiga þeir til að reyna hvað þeir geta til að bjarga sér með að stela af grillum landsmanna, kallast það ekki sjálfsbjargarviðleitni. 

Hér eru myndir af helstu máfum sem eru þekktastir hér á landi fyrir utan bjartmáfinn.


Svartbakur, Hafnarfjörður 17. október 2010


Sílamáfur, Hafnarfjörður 23. júní 2011


Hvítmáfur, Stykkishólmur 16. október 2011


Silfurmáfur, Húsavík 1993


Stormmáfur, Bakkatjörn 23. apríl 2004


Rita, Flatey 20. júlí 2004


Hettumáfur, Bakkatjörn 19. apríl 2009

18.10.2011 21:20

Súla og selur

Var að prófa nýja græju.  Fékk mér 2x extender eða framlengingu á stóru linsuna mína, þetta kemur þá út sem að linstan mín sem er 70-200 mm verður 140-400 mm.  Þetta var mín fyrsta tilraun og hún tókst ekki of vel.  Þessi mynd af súlunni kom þokkalega út að mér finnst, súlan rétt að birja dýfu.  Náði ekki að fylgja henni eftir og ná stungunni.  Þá kíkti þessi selur á mig.  Búin að klippa vel utanaf myndinni.  Kemur sæmilega út, þokkalega skýr.  Æfingar munu halda áfram.


Súla, Vatnsleysuströnd 08. október 2011


Selur, Vatnsleysuströnd 08. október 2011

14.10.2011 22:13

Hrafnkell

Þennan bát sá ég 25. mars 1996 á Reykjanesi, n.t.t. móts við Norðurkot við Sandgerði.  Tók myndir af honum en leitaði ekkert eftir sögu hans.  Fékk vísbendingu um að þessi bátur væri kallaður Rafnkelsstaðabáturinn og var mér bent á að tala við Sigurð í Norðurkoti.  Eftirfarandi kom fram í frásögn Sigurðar.

Hrefnkell
Báturinn heitir Hrafnkell.  Smíðaár ekki vitað og ekki vitað hver smíðaði bátinn.  Upphaflega smíðaður sem fjóræringur og er smíðaður með svonefndu Engeyjarútliti.  Einar Gestsson, fæddur í Bjarghúsum í Garði sagðist hafa keypt bátinn af Guðmundi á Rafnkelsstöðum um 1930-35.

Sigurður K. Eiríksson Norðurkoti kvaðst hafa farið að velta fyrir sér hvers vegna báturinn héti Hrafnkell.  Þá kom í ljós að Rafkelsstaðir hétu áður Hrafnkelsstaðir.  Báturinn var allur endursmíðaður af Einari Gestssyni Bjarghúsum.  Sigurður kvaðst hafa farið á sjó með Einari og þetta væri hörkuskip.  Sigurður vildi meina að bátnum hafi verið lagt um 1990.

13. apríl 2013 fór ég að kíkja eftir bátnum.  Þarna á staðinn er komið íbuðarhús frá því ég var þarna síðast og báturinn hafði verið færður upp að gömlu húsunum sem sjá má á myndinni hér að neðan með grænu þökunum.  Báturinn sjálfur hefur lítið breyst annað en að það sér meira á honum.  Helstu breytingar á húsunum er að það hefur verið skipt um þak á fremra húsinu og sett tréþak, jarni tekið af og þakið málað svart.  Hitt húsið er enn með bátujárni en það málað svart.  Set eina nýja mynd hér með og fleiri myndir í albúmi.

Heimildir:
Sigurður K. Eiríksson, Norðurkoti, munnlegar heimildir.
Ferlir.is http://www.ferlir.is/?id=3624  og http://www.ferlir.is/?id=17100


Hrafnkell 25. mars 1996

 

Hrafnkell 13. apríl 2013

10.10.2011 23:18

Maggi ÞH 68

Maggi ÞH 68 ex Farsæll ÞH 68, 5459
Smíðaður, af Jóhanni Sigvaldasyni skipasmið, á Húsavík 1961.  Eik og fura.  4,4 brl. 30. ha. Perkins vél.  Eigandi Bessi Guðlaugsson, Húsavík frá 2. maí 1961, hét Farsæll ÞH 68.  Seldur 29. september 1972 Kristjáni Helgasyni, Húsavík, hét Gæfa ÞH 68.  1973 var sett í bátinn 73 ha. Petter vél.  Seldur 1. janúar 1977 Þorgeiri Þorvaldssyni, Húsavík, hét Maggi ÞH 68.  Frá árinu 1993 hét báturinn Maggi ÞH 338, Húsavík og það nafn bar hann þar til honum var fargað.  Báturinn var tekinn af skrá 14. nóvember 1994.

Man ekki hvaða ár það var en þessi bátur endaði á áramótabrennu.

Heimildir:
Íslensk skip, bátar, eftir Jón Björnsson.  4 bindi, bls. 121.
aba.is http://aba.is/?modID=1&id=65&vId=105



Maggi ÞH 68, Húsavík

10.10.2011 22:57

Brandur, Húsavík

Brandur ÞH 21, 5439
Smíðaður af Baldri Pálssyni á Húsavík 1950.  Eik og fura.  1,25 brl. 6 ha. Solo vél.  Eigandi Jóhann Hermannsson, Húsavík frá 14. apríl 1955, þegar báturinn var fyrst skráður.  Seldur 26. maí 1961 Sigurði Friðbjarnarsyni, Húsavík.  Um 1966 var sett í bátinn 6 ha. Sabb vél.  Frá árinu 1981 hét báturinn Brandur II ÞH 141.  Felldur af skipaskrá 21. mars 1986. 
Eigendur eftir Sigga Friðbjarnar voru:  Badda Harðar, Óskar Axels, Gunnar Guðmundsson og að lokum Ágúst Þráinsson og Jón Ólafur Ragnarsson sem eru núverandi eigendur bátsins.



Heimildir:
Íslensk skip, bátar, eftir Jón Björnsson.  4. bindi bls. 116.
aba.is http://www.aba.is/?modID=1&id=65&vId=106


Brandur, Húsavík.

09.10.2011 22:17

Gosi ÞH 9

Hér er einn gamall frá Húsavík, Gosi ÞH 9.  Biggi Lúlla stendur í hurðinni á stýrishúsinu.

Í Íslensk skip, bátar 1. bindi, bls. 153 kemur eftirfarandi fram.
Smíðaður á Akureyri 1963.  Eik og fura.  3 brl. 14 ha. Sabb vél.  Eigandi Bjarni Þorvaldsson Akureyri, frá 27. september 1963.  Báturinn hét Rúna EA 41, 5432.  Bjarni seldi bátinn 5. júní 1968 Steingrími Árnasyni Húsavík, hét Palli ÞH 9.  Seldur 4. febrúar 1971 Birgi Lúðvíkssyni Húsavík.  Báturinn hét Gosi ÞH 9 og er skráður á Húsavík 1997.

Ég man vel eftir Bigga Lúlla á þessum bát.  Áhuginn lá að vísu ekki í bátum á þeim tíma, en ég vann þó neðan við bakkann og sá alla þessa báta.  Man ekki hvenær ég tók þessa mynd en það getur verið að ég geti fundið það út og þá set ég það hér inn.


5432 Gosi ÞH 9, Húsavík.

09.10.2011 22:10

5010 Húni AK 124

Fann þessa mynd sem ég tók árið 2002.  Myndin er tekin í Djúpuvík af bátnum 5010 Húna AK 124.  Mundi ekkert eftir þessari mynd en var að fletta albúmum og þá rak ég augun í myndina.

5010 Húni Ak 124 ex Sæljón AK 2.
Var smíðaður í Bátastöð Akraness af Inga Guðmonssyni bátasmið árið 1954.  Eik og fura.  5,23 brl. 29. ha. Lister vél.  Aðalmál bátsins eru: Lengd 9.68 metrar, breidd 2.59 metrar, dýpt 1.10 metrar.
Eigandi Magnús Vilhjálmsson, Efstabæ og Ólafur Finnbogason, Geirmundarbæ, Akranesi, frá 1954.  Seldur 7. maí 1986 Karli Hallbertssyni, Akranesi, sem gerði bátinn út frá Ströndum.  Báturinn heitir Húni AK 124 og er skráður á Akranesi 1997.  Karl gaf safninu bátinn til varðveislu árið 1999.  Báturinn hefur verið endurgerðu og er nú til sýnis inn á Safnasvæði Akraness

Fékk nánari upplýsingar frá Jóni Allanssyni Safnasvæði Akraness.
Safnið eignaðist bátinn af síðasta eiganda, Karli Hallbertssyni þann 19. mars 1999 en hann hefur búið á Akranesi í mörg ár en gerði út frá Djúpuvík.  Þegar safnið eignaðist bátinn þá var farið í rannsóknarvinnu varðandi uppruna hans og fengum við þær upplýsingar að báturinn hafi haft einkennisstafina AK 24 en það sem skráð er í bókina Íslensk skip þ.e. AK 2 er ekki rétt.  Báturinn kemur til safnsins í júlí 2002 og var geymdur inni á safnasvæðinu til ársins 2003 er byrjað var að endurgera hann. Báturinn var síðan gerður upp eins og hann var upprunalega og var ýmsu breytt frá því hann var gerður út frá Djúpuvík.  Þegar safnið fékk bátinn þá var búið að fjarlægja vélina svo að ég veit ekki hvaða vél var í honum þegar bátnum var síðast lagt.  Báturinn var síðan fluttur í geymsluhúsnæði safnsins á Akranesi árið 2003 og gerður þar upp og var smiður Benjamín Kristinsson ættaður frá Dröngum á Ströndum, Guttormur Jónsson, smiður Byggðasafnsins að Görðum og Friðbjörn Bjarnason frá Akranesi.  Skipið var allt endurgert á tveimur árum og síðan flutt inná Safnasvæðið Görðum, þar sem þar er til sýnis. Sendi með sem viðhengi mynd sem tekin var í kringum 1966 af Sæljóninu og fyrsta eiganda þess Magnúsi Vilhjálmssyni frá Efstabæ, Akranesi. 


Sæljón AK 24 og Magnús Vilhjálmsson Efstabæ.  Mynd í eigu Ljósmyndasafns Akraness.


Fyrst Jón sendi mér þessa mynd af Sæljóninum leyfi ég mér að setja líka inn myndina af Sæljóninu eins og það lítur út í dag á Safninu.


Sæljón AK 24 eins og það lítur út í dag.  Mynd Safnasvæði Akraness.

Upplýsingar
Íslensk skip, bátar, 1. bindi bls. 25.
Safnasvæðið á Akranesi


50110 Húni AK 124, Djúpavík 2002

09.10.2011 01:42

Graff í Flekkuvík

Ég og Elína Hanna skruppum að Flekkuvík á Vatnsleysiströnd.  Þarna er flott hús sem einhverjir hafa heimsótt og graffað í.  Við tókum nokkrar myndir með unglingnum og graffinu.


Virðir fyrir sér graffið.  Flekkuvík 08. október 2011


Flekkuvík 08. október 2011


Cool man. Flekkuvík 08. október 2011

07.10.2011 21:51

Steingrímur EA 644

Tók myndir af þessum bát þegar ég var á Húsavík.  Vissi ekkert um hann og reyndar spurðist ekkert fyrir um hann.  Nú veit ég þó ýmislegt um hann eftir að hafa rekist á frásögn um bátinn á vef Árna Bjarnar Árnasonar, www.aba.is   Þessi frásögn finnst mér mjög góð og segir mikið um bátinn að mínu mati.

Þar sem við Árni Björn höfum nú verið í ágætu sambandi þá hefur hann leyft mér að nota frásafnir sínar á þeim bátum sem hann hefur á sinni síðu.  Þakka ég Árna Birni fyrir mig. 


Stein­grímur EA-644.   ( 5424 )
Smíðaður árið 1933 af Steingrími Hallgrímssyni, Látrum.  Stærð: 1,43 brl. Fura og eik. Opinn súðbyrðingur. Fiskibátur. Trilla.  Smíðaður til eigin nota. Stein­grímur átti bátinn í rúm tvö ár.  Að smíði bátsins með Stein­grími vann Stefán Björns­son, Litla Svæði Greni­vík.

Hér að neðan verður rakin sigling bátsins, eins og hún er best vituð, í mikið hamfaraveðri sem gekk yfir landið laugardaginn 14. desember 1935. Veðrið olli stórfelldum mannskaða og fjártjóni víða á landinu og við strendur landsins.  
Áður en óveðrið skall á fóru feðgarnir á Látrum á Látraströnd, Steingrímur Hallgrímsson og sonur hans Hallur á trillunni Steingrími EA-644 inn að Grímsnesi og hefur verið almælt að þangað hafi þeir farið gagngert til að sækja kind, sem þeir áttu þar. Steingrímur Jónsson, seinasti ábúandi á Grímsnesi, flutti til Dalvíkur 1938 tjáði nábúa sínum á Dalvík, Kristjáni Þórhallssyni, þá þessa atburði bar á góma að ekki væri rétt með farið að feðgarnir hafi gert sér ferð eftir kindinni. Sannleikurinn væri sá að feðgarnir hefðu að morgni dags farið í verslunarferð til Hríseyjar en til Látra komnir aftur hefði komið í ljós að gleymst hafði að kaupa olíu fyrir heimilið. Þeir hefðu því rennt á bát sínum inn að Grímsnesi gagngert til að fá lánaða olíu. Hitt væri svo aftur annað mál að kind sína, sem þvælst hafði saman við féð á Grímsnesi, tóku þeir einnig um borð í því augnamiði að koma henni til síns heima.
Er báturinn kom aftur út að Látrum var landtaka ófær vegna brims og stórviðris. Heimilisfólkið á Látrum var komið í fjöru til að taka á móti bátnum en þegar hann hvarf þeim sjónum taldi fólkið hann genginn undir og þá feðga tínda skammt frá landi. 
Síðar kom í ljós að svo var ekki því að báturinn hélst ofansjávar frá Látralendingu og inn að Knarrar­nesi neðan Víkur­skarðs.

Sigling bátsins þótti með miklum ólíkindum og er nokkuð ljóst að þarna hefur farið saman góð hönnun og smíði á bátnum svo og frá­bær stjórnun hans.  Svo ótrúleg sem siglingin á þessari smáskel inn allan Eyjafjörð í hamfaraveðri og stórsjó verður að teljast þá hefur ekkert getað bjargað bátnum á land upp annað en kraftaverk.   Óskemmdum komu þeir feðgar bátnum í fjöru "utan á Knarrar­nesi, sem er skammt utan við Garðsvík á Svalbarðsströnd" eins og Dagur orðar það 19. desember 1935. Við nesið er fremur aðgrunnt og brýtur því all langt norður og út af því. 

Frásögn "Dags" um að báturinn hafi tekið land utan eða norðan á Knarranesinu er sennilega til komin vegna ókunnugleika greinarhöfundar á staðháttum.  Framan á nesinu eru breiðar klappir og út frá þeim ganga Ytri- og Syðri Knarranesboðar.  Í miklu brimróti er þar engu fleyi fært.  Góð lending er í þröngri vör innan á nesinu meðan ekki brýtur af innri boðanum fyrir hana.  Til vitnis um að báturinn lenti innan á nesinu er Anna Axelsdóttir, Finnastöðum Látraströnd sem hefur það eftir foreldrum sínum, en móðir Önnu var dóttir Steingríms og systir Halls, svo og eftir dóttur Halls að lendingarstaðurinn hafi verið innan á Knarranesi.  Leiða má líkum að því að fjaran innan á nesinu hafi verið eini hugsanlegi lendingarstaðurinn við Eyjafjörð, sem einhver möguleiki var a að koma bát óbrotnum á land í því brimróti og veðurham, sem þarna var við að etja.

Á sunnudagsmorgni fann bóndinn í Miðvík bátinn á Knarrarnesinu og í honum Steingrím örendan. Var hann með áverka á höfði og lagður til í bátnum. Strax á mánudagsmorgni leituðu 15 menn frá Svalbarðsströnd Halls en fundu ekki. Daginn eftir var sendur bátur frá Akureyri með fjölda leitarmanna til aðstoðar leitarmönnum frá Svalbarðseyri. Leituðu 80 manns þann dag allan en árangurslaust. Álitið var að Hallur hefði hrakist í sjóinn en svo reyndist ekki því að hann fannst um vorið og þá nokkuð langt til fjalla.  Til marks um veðurhaminn þá hefur Aðalgeir Guðmundsson sagt skrásetjara að faðir hans Guðmundur Jóhannsson, útvegsbóndi í Saurbrúargerði, hafi komið innan af Svalbarðsströnd í þessu veðri. Þrátt fyrir að Guðmundur þekkti hvern stein í Ystuvíkurhólunum þá treyst hann sér ekki yfir hólana vegna veðurofsa en þræddi þess í stað sjávarbakkann þar til hann vissi sig kominn niður af bænum. Þar kleif hann nyrsta rinda hólanna og komst við illan leik til síns heima.

Það er aftur á móti af Steingrími EA-644 að segja að hann komst í eigu Valgarðs Sigurðs-sonar, Hjalteyri og er á hann skráður 1940 og síðan endurskráður á sama mann 1985.  Báturinn datt út af skipaskrá í fjögur ár en ekki er vitað á hvaða tímabili það var.
Árið 1990 seldi Valgarður bátinn Haraldi Jóhannessyni, Borgum, Grímsey. Mestan tíma sinn í Grímsey var báturinn inni í skúr hjá Haraldi þar sem skoðunarmaður Siglingastofnunar var tregur til að gefa honum skoðunarvottorð nema að undangengnum einhverjum lagfæringum.
Þegar báturinn hafði dvalið í þrjú ár í Grímsey var hann tekinn af skipaskrá 1993 og gefinn Sjóminjasafninu á Húsavík þar sem hann ber nú hönnuði sínum og smiðum verðugt vitni.


Steingrímur EA 644, Húsavík 18. júlí 2011

Aðeins um bátasmiðinn

Stein­grímur Hall­gríms­son, Látrum Látraströnd.   ( 1874 - 1935 )
Stein­grímur Hall­gríms­son, sem bjó á Skeri og á Látrum, Látra­strönd fékkst tölu­vert við báta­smíðar en heimildir nafn­greina fáa þeirra. Ljóst má þó vera að ára­báta hefur hann smíðað svo sem flestir, sem lögðu báta­smíðar fyrir sig en slík iðja var stunduð á öðrum hverjum bæ Látra­strandar.
Vitað er um einn ónafngreindan árabát, sem Steingrímur smíðaði fyrir Árna Jónsson, Syðriá Kleifum Ólafsfirði svo sem frá er greint í "Byggðin á Kleifum" eftir Friðrik G. Olgeirsson.
Telja má nokkuð víst að bátar sem skráðir eru smíðaðir í Grýtubakkahreppi og tengjast nafni Skers eða Steingrímur séu smíðaðir af honum.

05.10.2011 21:40

Freydís SH 18, 5808

Myndaði Freydísi á bátadögum 2011, 02. júlí 2011, en þá var farið í hópsiglingu úr Stykkishólmi í Rúfeyjar og Rauðseyjar á Breiðafriði.  Í fyrstu sigldu karlarnir í hringi svo hægt væri að mynda þá.  En hvað veit ég um Freydísi:


5808 Freydís SH 18 ex Freydís NS 42.
Smíði nr. 445 frá Bátalóni 1977 í Hafnarfirði 1977.  Eik og fura.  3,61 brl. 30. ha. Sabb vél.  Eigandi Stefnir Einar Magnússon, Bakkafirði, frá 17. mars 1977.  Báturinn er skráður á Bakkafirði 1997.
Stefnir Einar mun síðan hafa látið frænda sinn fá bátinn, en sá átti bátinn stutt.  Næst eignaðist Benjamín frá Eyjum á Ströndum bátinn.  Þórarinn Sighvatsson er eigandi bátsins í dag og fékk hann bátinn frá Benjamín. 


Freydís SH 18, Stykkishólmur 02. júlí 2011

04.10.2011 20:57

Ársæll ÞH 280

Ársæll var í Húsavíkurhöfn í júlí 2011 þegar ég var þar á ferð.  Smellti myndum af honum svona mér til gamans.  Þið fyrirgefið sensorskítinn á myndunum.

5806 Ársæll ÞH 280
Smíðaður á Borgarfirði eystra.  Eik og fura.  1,99 brl. 12. ha. Volvo Penta vél.
Eigandi Jón P. Ólafsson, Hafnarfirði, frá 4. mars 1977.  Hét þá líklega Geir HF 64.  Frá 9. maí 1990 heitir báturinn Geir HF 19 og er skráður í Hafnarfirði 1997.

23. mars 2011 er báturinn á Húsavík og heitir Ársæll ÞH 280.  Eigandi mun vera Guðmundur Karlsson.


Ársæll ÞH 280, Húsavík 23. mars 2011

04.10.2011 20:44

Ársæll VE ex Ársæll ÞH

Alltaf finnur maður eitthvað sem vekur áhuga manns í þessu myndafargani sem maður hefur tekið í gegnum tíðina.  Eftir að ég eignaðist bækurnar Íslensk skip, bátar hefur upplýsingastreymið aukist til muna. 
Nú rak ég augun í myndir af bát sem ég myndaði árið 2006 og er gamall Húsavíkingur.  Þessar myndir hafa bara verið í safninu mínu og ég held ég hafi ekki sett þær inn hér áður.

5452 Ársæll VE 4 ex Ársæll ÞH 46.
Smíðaður á Húsavík 1958.  Eik og fura.  2,5 brl. 10 ha. Sabb vél.  Eigandi Hreiðar Friðbjarnarson, Húsavík, frá 15. maí 1961.  Hreiðar seldi bátinn 27. febrúar 1981 Viðari Þórðarsyni, Húsavík.  Seldur 3. febrúar 1983 Sigurjóni Skúlasyni, Húsavík.  Seldur 1. desember 1985 Jóhanni Þórarinssyni, Húsavík.  Jóhann seldi bátinn 18. febrúar 1988 Kristni V. Magnússyni og Svavari Steingrímssyni, Vestmannaeyjum, hét Þrasi VE 20. 
1974 var sett í bátinn 16 ha. Sabb vél.  Hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 14. nóvember 1986.

Talinn ónýtur og svo mynda ég hann við Hafnarfjarðarhöfn 23. mars 2006 og greinilegt að báturinn hefur verið í notkun þá.  Spurning hvort hann var endurskráður.


Ársæll VE 4 ex Ársæll ÞH 46, Hafnarfjörður 23. mars 2006

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 639
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 5588
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 339888
Samtals gestir: 31790
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 10:37:35