Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

17.07.2009 13:48

Ég fer í fríið, ég fer í .........

Hvað er ljúfara en sitja/liggja úti í náttúrunni, hlusta á söng fuglanna, suðið í flugunum, finna ilm blómanna og taka myndir.   Ahhhh....stuna.  Ekkert.  Nú ætla ég að fara einmitt að gera þetta og njóta þess.  Set næst inn myndir eftir um tvær vikur, fyrr ef ég kemst í tölvu.  Hér má sjá tvær myndir einmitt teknar við svona aðstæður eins og ég lýsti áðan, að viðbættu nesti.



14.07.2009 18:54

Seltún og Gaudi

Þegar við vorum að skoða Seltún við Krísuvík þá hafði ég á orði að þetta væri mjög líkt og í Gaudi garðinum í Barcelona.  Mósaík og meira mósaík.  Mér sýnist alveg að Gaudi hafi komið til Íslands og fengið hugmynd af garðinum sínum í Seltúni.


Í Gaudi-garðinum í Barcelona, 2005.


Seltún, Krísuvík.  2009

14.07.2009 18:40

Smá túrar um landið

Undanfarið höfum við fjölskyldan, eða hluti úr henni, verið á ferðinni og ég hef að sjálfsögðu lyft myndavél annað slagið.  Hér má sjá nokkrar myndir úr þessum ferðum en eins og sjá má var víða komið við.  Talsvert fleiri myndir eru í séralbúmum fyrir hverja ferð.


Við Höfðabrekku, 09. júlí 2009


Skógarfoss, 09. júlí 2009


Gljúfrafoss, 09. júlí 2009


Seltún, Krísuvík, 11. júlí 2009


Herdísarvík 11. júlí 2009


Borg á Mýrum, 12. júlí 2009


Seljahlíð 12. júlí 2009

05.07.2009 02:54

Ekki má gleyma bátunum

Og ekki má gleyma bátunum.  Ég kíkti í Hafnarfjarðarhöfnina og tók nokkrar myndir.  Nokkrar skútur voru á ferðinni og greinilega um kennslu að ræða.
Það er ekki meiningin að móðga neinn en þetta "vaskafat" (mín hugsun) með mótor var á ferðinni í höfninni.  Ekki fannst mér hann traustvekjandi en hann komst áfram, mjög sprækur.
Þá er það Ásdís GK 218 og að síðustu skútan Dís sem er þarna á leið inn í Hafnarfjarðarhöfn.


Lítill en sprækur.  Hafnarfjarðarhöfn 03. júlí 2009


2395. Ásdís GK218.  03. júlí 2009


2698. Dís.  03. júlí 2009

05.07.2009 02:43

Kría var það heillin

03. júlí skrapp ég út á Álftanes, n.t.t. Hlíðsnes til að skoða kríurnar þar og hvernig gengi með útungun.  Skemmst er frá að segja að ég sá nokkra unga.  Vona að þeir komist allir á legg og að æti verði nóg fyrir ungana en fréttir eru þegar farnar að berast af ungadauða í kríuvörpum vegna ætisskorts.  Hér má sjá tvær kríumyndir sem ég tók.  Fyrri myndina tók ég af því að ég sá að krían var með svarta rönd neðan við hettuna og fram á hálsinn.  Hef aldrei séð þetta áður.
Hin myndin er hér þar sem ég tók hana aðeins öðruvísi en ég er vanur.  Ég vildi að krían sjálf væri úr fókus en unginn sem er í felum í baldursbránni væri í fókus.  Finnst myndin skemmtilegri svona heldur en ef allt væri í fókus.  Fleiri myndir inni í fuglaalbúminu. 


Hlíðsnes, 03. júlí 2009

Hlíðsnes, 03. júlí 2009

05.07.2009 02:28

Einn á ferð um nótt

Ein saga af mér sjálfur.  Aðfaranótt 04. júlí s.l. þá var eitthvað droll á mér og þegar kom að því að fara að sofa um kl. 02:00 þá var mér litið út um gluggann og sá að það var fallegt sólsetur.  Í stað þess að fara að sofa sem hefði verið gáfulegra þá fór ég út með myndavélina.  Veðrið var frábært, logn og blíða.  Sólsetrið flott og ekki undan neinu að kvarta.  Fyrstu myndina tók ég kl. 02:19.  Ég hélt svo áfram framundir morgun.  Síðustu myndina tók ég kl. 04:37 og komst lokst heim kl. 05:00.  Svona hef ég ekki gert áður, þ.e. að vera á ferðinni bara til að taka myndir en ég á örugglega eftir að gera þetta aftur.  Bjó til nýtt albúm sem ég kalla sólsetur og dagrenning.  Þar eru nokkrar myndir.  Hér má svo sjá tvær myndir.


Bessastaðir í næturkyrrðinni, 04. júlí 2009


Elliðavatnsbærinn, 04. júlí 2009

30.06.2009 21:53

Hvalveiðimaður í Stykkishólmi

Á göngu minni að morgni 28. júní 2009 sá ég þennan unga "hvaðveiðimann".  Þessi unga skytta heitir Skírnir Kristjánsson 4 ára.  Hann bar sig óaðfinnanlega að við veiðarnar og þarna er hann að hleypa af.  Ekki gott að segja hver veiðin var miðað við stefnu skutulsins en eigum við ekki bara að segja að það hafi verið svolítið langt í stórhvelið og því þurfti að beina byssunni uppávið.


Skírnir Kristjánsson 4 ára hvalaskytta.  Stykkishólmur 28. júní 2009

30.06.2009 13:56

Indæll þrastarsöngur, gaggalagaggalagóóóó

Má til með að setja hér inn smá sögu sem tengist þessum hana hér á myndinni.  Þannig var að frábær hjón sem ég þekki og eru búsett í Stykkishólmi voru á göngu í Skógræktinni fyrir ofan Stykkishólm.  Maðurinn hefur þá á orði við konuna sína, heldurðu að það sé nú munur að vera hér á göngu í skóginum og heyra indælan þrastarsögn.  Konan (hissa) svaraði að bragði, þrastarsöng, þetta er haninn hans Geira. 


Gaggalagaggalagóóóó........þrekvaxni haninn hans Geira

Af þessu tilefni samdi Einar Steinþórsson tengdafaðir minn eftirfarandi:

Skelegg við löbbuðum skógargöng,
mér er skylt að láta ykkur heyra.
Það sem ég nam sem þrastarsöng
var þrekvaxni haninn hans Geira.

29.06.2009 21:42

Allt eins og blómstrið eina

Ég hafði einhverntíma orð á að ég ætlaði að setja inn myndir af biðukollu sem væri verið að blása á.  Hér er fyrsta, önnu og þriðja tilraun við þá iðju.  Allar myndirnar eru teknar í Stykkishólmi 28. júní 2009.  Það er reyndar ekki auðvelt að halda á biðukollunni og myndavélinni á sama tíma og reynt er að blása.  Því þarf maður aðeins að svindla og reka fingurinn í biðukolluna og lyfa henni svo upp í vindinn og má þakka fyrir að fræin séu ekki öll farin þegar smellt er af.  Fleiri blómamyndir eru í möppu.







29.06.2009 21:35

Ýmis dýr

Gerði heiðarlega tilraun til að mynda marglittu sem var við bryggjuna í Stykkishólmi.  Sjórinn var ekki hreinn en held að þetta hafi tekist bærilega þrátt fyrir það.  Ég er með möppu sem ég kalla Dýr og þar safna ég inn myndum af ýmsum dýrum, þó ekki fuglamyndum því þeir eru sér.

29.06.2009 21:30

Valtýr

Valtýr var sjósettur þann 18. júní s.l. og var þetta því annar báturinn sem sjósettur var í Stykkishólmi, frétt um það má lesa hér, http://stykkisholmsposturinn.is/files/bcefiejcic/0625-vef.pdf

29.06.2009 21:23

Þytur

Þytur var sjósettur þann 17. júní í Stykkishólmi.  Saga bátsins er rakin lítillega í Stykkishólmspóstinum, http://www.stykkisholmsposturinn.is/files/bcefiejcic/0625-vef.pdf
Ég ætla ekki að rekja söguna heldur lesið hana í Stykkishólmspóstinu, linkurinn hér fyrir ofan.

29.06.2009 10:10

Fiðrildi

Mikið hefur verið um flækingsfiðrildi hér á landi síðustu tvo mánuði.  Aðallega hefur verið um þistilfiðrildi að ræða en þó hafa slæðst með eitt og eitt aðmírálsfiðrildi.  Ekki hef ég heirt hvort fleiri tegundir fiðrilda hafi sést en þó má það alveg vera.  Til að þið vitið hver munurinn er á þessum fiðrildum þá eru hér myndir af þeim báðum.  Myndin af þistilfiðrildinu var tekin í Flatey á Breiðafirði þann 18. júní 2009 en myndin af aðmírálsfiðrildinu var tekin við bæinn Heiði í Biskupstungum fyrir mörgum árum síðan.  Eins og þið sjáið þá er talsverður munur á þessum fiðrildum, aðmírállinn er miklu dekkri á litinn.  Þess má geta að þann 28. júní 2009 var ég í Stykkishólmi og sá þá þistilfiðrildi.  Ég eltist við það og tók myndir, síðar sá ég "það" aftur og myndaði aftur, í þriðja skipti sá ég "það" og myndaði.  Þegar ég skoðaði myndirnar heima sá ég að þetta voru þrjú fiðrildi en ekki eitt.  Þó sá ég aldrei nema eitt í einu.  Eitt annað sá ég en fann það ekki svo ég veit ekki hvort þar var fjórða fiðrildið.


Þistilfiðrildi


Aðmírálsfiðrildi

26.06.2009 08:45

Listflug eða deilur

Mig hefur oft langað til að gera einhverja svona samsetta mynd.  Þegar margar myndir eru teknar í einu og ég skoða þær þá........ ja, alla vegna hér er ein samsett.  ég valdi myndirnar eftir því hvernig mér fannst þær passa í heildarmyndina, ekki endilega eftir tímaröð.  Kríur í ham.  Myndin er tekin í Flatey á Breiðafirði 12. júní 2009.

25.06.2009 21:42

Flateyjarfiðurfé

Að sjálfsögðu urðu fuglar einnig á vegi mínum.  Hér eru þrír þeirra en fleiri myndir eru í albúmi.


Lóuþræll.  Flatey á Breiðafirði 17. júní 2009


Sandlóa.  Flatey á Breiðafirði 19. júní 2009


Íslenskir landnámshanar.  Flatey á Breiðafirði 18. júní 2009

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 407
Gestir í dag: 222
Flettingar í gær: 236
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 347796
Samtals gestir: 32315
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 15:35:12