Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2011 Desember

25.12.2011 14:53

Jólakveðjur 2011

Kæru ættingjar og vinir.

Ég óska þér og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og heillaríks komandi árs. 

19.12.2011 23:15

Suðurstrandarvegur o.fl.

Þann 15. desember skruppum við hjónin í smá ferðalag.  Fyrst var ekið í Grindavík sem var gjörsamlega á kafi í snjó.  Svo miklum að ég tók ekki eina mynd þar.  Þaðan lá leið okkar eftir hinum nýja Suðurstrandarvegi. 


Af Suðurstrandarvegi, 15. desember 2011

Færðin var frekar varhugaverð á köflum en slapp til.  Talsverð hálka og þæfingur, ég festi bílinn ekki, en kviðdráttur var víða.  Tek fram að ég ek um á sliddujeppa, Hondu CRV, frábær bíll.
Það var nú ekki eins mikill snjór við Suðurstrandarveginn eins og var í Grindavík en allt hvítt.  Það var kalt úti og meðan karlinn hljóp út til að mynda með reglulegu millibili sat frúin inni í bíl, í hitanum og prjónaði.


Elfa Dögg veifar mér inni í ilnum, 15. desember 2011

Ókum sem leið lá í Þorlákshöfn og ókum aðeins um þorpið.  Þar var lítið að sjá annað en að himininn var mjög svo fallegur.  Þá sáum við tvo jeppakarla, annar utanvegar og hinn að hjálpa til.  Ég forðaði mér á mínum sliddara.


Rétt áður en við komum í Þorlákshöfn, fallegur himinn.  15. desember 2011


Jeppakarlar að leika, moka, moka, 15. desember 2011

Þaðan lá leiðin á Eyrarbakka.  Þar ókum við um og voru nokkrar myndir teknar. 


Veðurbarið hús á Eyrarbakka 15. desember 2011

Eftir það lá leiðin inná Selfoss og austar.  Gistum á Hótel Rangá um nóttina. 


Hótel Rangaá í kvöldsólinni 15. desember 2011

Morgunin eftir þá var haldið af stað aðeins austar, eða að Seljalandsfossi og lítið eitt austar að bænum Fit.  Við Seljalandsfoss var mikill vetur, eða réttara sagt frost.  Annar stiginn var í klakaböndum eins og þið sjáið hér.


Í klakaböndum.  Við Seljalandsfoss 16. desember 2011

Eftir þennan frostna stiga, sem ég þorði ekki að fara upp var haldið aðeins austar og kíkt að bænum Fit.  Þar sá ég myndefni sem ég myndaði oft.  Girðingastaurar og gaddavír.........


Girðingastaurar og gaddavír, 16. desember 2011

Eftir það var snúið heim á leið.  Mér datt í hug að kíkja á Landeyjarhöfnina svona til að geta sagt að ég væri búinn að sjá þetta mannvirki.  Ekki fannst mér það neitt fyrir augað en Vestamannaeyjar voru flottar séðar frá Landeyjarhöfninni.


Kíkt til Vestmannaeyja, 16. desember 2011

Veðrið var frábært og sólin skein, kalt var í veðri báða dagana og smá vindur.  En það sem stóð uppúr var ferðalagið með konunni að sjálfsögðu.  Hún var að ná mér í aldri svo það var aldarreinsla þarna á ferð.

Að lokum verð ég að geta þess að þar sem ég drekk ekki áfengi þá lítur það kanski undarlega út en ég skrapp á barinn.


Barinn á Hótel Rangá

Ég fékk mér einn og viðbrögðin létu ekki á sér standa.


Ojjbara.................. 15.desember 2011

13.12.2011 23:34

Júlli x Kristján ÞH 5

Það kom mér verulega á óvart þegar ég heyrði hvaða bátur Júlli var en hann er gamli Kristján ÞH5.  Hafþór hafði sent mér mynd af Júlla frá Húsavík, við í sameiningu sögðum þetta ekki sama Júllann en við höfðum rangt fyrir okkur.

Júlli x Kristján ÞH 5, 5430
Smíðaður á Húsavík 1966 af Jóhanni Sigvaldasyni skipasmið á Húsavík.  Eik og fura.  2 brl. 10 ha. Thornycroft vél.  Afturbyggður opinn súðbyrðingur.
Smíðaður fyrir Helga Kristjánsson Setbergi á Húsavík frá 18. mars 1966.  Helgi átti bátinn í 27 ár eða til ársins 1993.  Frá því ári var báturinn skráður á Höfða hf. Húsavík.  Seldur 27. ágúst 1996 Kristjáni Ásgeirssyni Húsavík. 
Aðalsteinn Júlíusson á Húsavík eignast bátinn í kringum 1999-2000.  Hann náði að eignast bátinn rétt áður en gefa átti hann á leikvöll á Húsavík.  Báturinn var frekar lúinn en Aðalsteinn tók bátinn í gegn og gerði hann upp, skipti um nafn og kallaði bátinn Júlla.  Aðalsteinn seldi bátinn til Reykjavíkur um 2003-2004.
Núverandi eigendur eru Kristján Atli Hjaltalín og Guðmundur Sighvatsson en þeir keyptu bátinn af Aðalsteini.  Kristján kvaðst hafa gert lagfæringar á bátnum, m.a. hafi hann skipt um stýrishús, stækkað það lítillega og smíðaði kassa aftan við stýrishúsið því plássið sem þar var hafi nýst illa.  Þá hafi hann sett mahogníhurð og mahogní í kringum gluggana. 
Kristján sagði það vera þrjú ár sem Júlli hafi ekki farið í sjó og þetta væri spurningin um að gera eitthvað núna í vor ef báturinn ætti ekki að eyðileggjast.

Heimildir
www.aba.is
Íslensk skip, bátar, 4 bindi bls. 141
Kristján Atli Hjaltalín, munnlegar upplýsingar



Júlli, Reykjavík 01. maí 2011


Júlli á Húsavík.  Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 18. ágúst 2001

12.12.2011 22:13

Myrkrið er svart, samt.....

má sjá ýmislegt.  Fór og kíkti út núna í kvöld en fann ekkert sem ég vildi mynda.  Smellti samt myndum af Garðakirkju og tunglinu.  Langar að taka fram að báðar myndirnar eru í lit.


Garðakirkja 12. desember 2011


Máninn hátt á himni skín............. 12. desember 2011

11.12.2011 18:08

Sunnudagur 11. desember 2011

Svona var veðrið í Reykjavík í dag, 11. desember 2011.  Fallegt veður.  Fyrri myndin er svolítið dökk en það var með vilja gert.  Á seinni myndinni sem er tekin við Garðaholt má sjá bát.  Þessi bátur hefur verið í smíðum þarna undanfarin ár en ég hef aldrei tekið myndir af honum.  Þetta er því fyrsta myndin af bátnum sem ég tek.  Að vísu er ég ekkert að mynda bátinn sérstaklega heldur átti þetta að vera svona vetrarmynd, hestar í snjónum, hesthúsin o.fl. 


Veðurblíða við Reykjavíkurhöfn, 11. desember 2011


Veðurblíða var einnig á Garðaholti, 11. desember 2011

10.12.2011 23:41

Már ÍS 242 x Már GK 142

Ég hef haft það fyrir reglu að skrifa ekki um báta nema ég hafi tekið mynd af viðkomandi bát sjálfur þó myndir hafi einnig verið frá öðrum, en þá er alltaf mynd eftir mig líka.  Það var hún Guðrún Pálsdóttir sem sendi mér tvær myndir af Már ÍS 242 en skipasmiðurinn var Eyjólfur Einarsson í Hafnarfirði.  Það eru nokkrir bátar eftir hann á síðunni minni og því ákvað ég að setja þennan inn líka þó ég ætti ekki mynd af honum sem ég hafi tekið.


5199 Már ÍS 242 x Már GK 142 var smíðaður af Eyjólfi Einarssyni í Hafnarfirði 1973. Eik og fura.  5,08 brl. 50. ha. GMC vél.
Eigendur voru Geir Gíslason og Gísli Guðmundsson, Hafnarfirði, frá 25. september 1973.  Báturinn seldur 17. febrúar 1978 Einari Jónssyni, Flateyri, heitir Már ÍS 242.  Seldur 21. apríl 1980 Einari Gubjartssyni, Flateyri, sama nafn og númer.  Einar setti í bátinn 54 ha. Mitsubishi vél.  Báturinn skáður á Flateyri 1997.

Einar gefur Halldóri Guðbrandssyni bátinn 09.09.2008.  Halldór er nú látinn. 

20. febrúar 2009 tók Teddi myndir af Már ÍS þar sem hann var á Ísafirði, sjá hér http://gretars.123.is/blog/2009/03/23/361296/ .  Á myndinni sést að Már er frekar þreyttur.

Ég hafði samband við hafnarvörðinn á Ísafirði 30.12.2011 til að athuga með afdrif bátsins og hann sagði að báturinn hafi verið brenndur á síðasta ári.  Fór líkast til á áramótabrennuna 2010-2011.  Hann sagði bátinn hafa verið alveg ónýtan og ef einhver hefði viljað gera bátinn upp þá hefði sá hinn sami þurft að smíða nýjan bát, ekkert heillegt í bátnum.

Heimildir: 
Íslensk skip og bátar,1. bindi, bls. 223, Már GK 142.
Munnlegar upplýsingar frá Guðrúnu Pálsdóttur, Flateyri.
Munnlegar upplýsingar frá hafnarverði Ísafirði, um endalok bátsins.


Már ÍS 242.  Ljósmynd Guðrún Pálsdóttir

10.12.2011 17:58

Uppfærðar fréttir

Þá er Ólafur Gíslason aftur kominn af stað með viðgerðina á Skáleyjar Kára.  Ég kíkti þangað í dag og smellti af nokkrum myndum.  Sjá hér http://rikkir.123.is/blog/record/484919/
Ég mun svo halda áfram að fylgjast með þessum viðgerðum.

Þá hafa verið að detta inn nýjar upplýsingar um Svan, Reykjavík.  Þá setti ég Hring ÍS aftur á forsíðuna en talsvert hafði bæst við þar af myndum og fleiru.  Ég á svo von á upplýsingum um fleiri báta og er að vinna að nokkrum í viðbót.  Kemur seinna...........

10.12.2011 17:11

Hafnarfjarðarhöfn í dag, 10. desember 2011

Kíkti niður á höfn í dag og smellti af nokkrum myndum.  Á höfninni var lagís og fannst mér höfnin kuldaleg, enda skítakuldi úti. 
Alveg er það með ólíkindum hvernig við látum alltaf í sambandi við veðrið.  Hér á höfuðborgarsvæðinu var sumarhiti framundir mánaðarmótin nóvember-desember.  Svo kólnaði og þá vælum við eins og stungnir grísir.  Hvað sem öðru líður þá var skítakuldi í dag:-)


Frá Hafnarfjarðarhöfn 10. desember 2011


Hafnarfjarðarhöfn 10. desember 2011


Hafnarfjarðarhöfn 10. desember 2011

08.12.2011 15:23

Þrjár kynslóðir...

Þrjár kynslóðir af Hring ÍS 305
Í færslunni hér á undan var ég að fjalla um Hring II ÍS 503 x Hring ÍS 305.  Ég hafði frétt að Stjáni rakari væri að smíða annan Hring.  Þegar ég var að skoða á netinu áðan sá ég mynd af þessum nýja Hring og ákvað þá að setja inn litla grein um þessar þrjár kynslóðir af Hring.  Þess má líka geta að eigandi allra Hringanna er Stjáni rakari.

Fyrst set ég inn mynd af gamla Hring ÍS 305 eins og hann lítur út í dag, en það er byrjað að gera hann upp.  Búið að rífa allt af honum eins og sjá má.  Hann ber reyndar aðra skráningu í dag eins og sjá má í greininni á undan.  Gamli Hringur var smíðaður af Guðna Ágústssyni 1956 á Sæbóli III á Ingjaldssandi.  Eik og fura.

Önnur myndin er fengin af vef Grétars Þórs, en Guðrún Pálsdóttir hafði sent honum þessa mynd af Stjána rakara á Hring ÍS 305, bátur tvö í röðinni.  Meira má sjá hér http://gretars.123.is/blog/2009/04/06/365165/  Þetta er Sómi 865, smíðaður í bátasmiðju Guðmundar í Hafnarfirði 2003.  Trefjapalst.

Hringur ÍS 305 nýsmíði.  Klár að utan en nú verður hann fluttur til Reykjavíkur þar sem hann verður kláraður.  Með leyfi Emils Páls þá fékk ég að nota myndina hans sem hann tók þann 7. des. 2011 þegar báturinn var tekinn út. Meira má sjá hér http://emilpall.123.is/blog/2011/12/07/589084/  Báturinn var tekinn út úr húsi hjá Bláfelli ehf, Ásbrú (gamla varnaliðssvæðið) þann 7. desember 2011.  Trefjaplast.


6274 Hringur ÍS 305.  Mynd Rikki R


2564 Hringur ÍS 305.  Mynd Guðrún Pálsdóttir


2803 Hringur ÍS 305.  Mynd Emil Páll Jónsson

05.12.2011 22:30

Hringur II ÍS 503 x Hringur ÍS 305

6274 Hringur ÍS 305.  Smíðaður á Sæbóli III 1956 af Guðna Ágústssyni.  Eik og fura.  3,3 brl. 20. ha. Bukh vél.  Eigandi Guðni S. Ágústsson, Sæbóli III, Ingjaldssandi, frá 23. september 1981, þegar báturinn var fyrst skráður.  Ekki er getið um eigendur fyrir þann tíma.  Báturinn er skráður á Ingjaldssandi 1997.


6274 Hringur ÍS 305.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

Guðni á Sæbóli er einn helsti bátasmiður Önfirðinga á síðari hluta tuttugustu aldar.  Hann smíðaði marga báta, auk þeirra sem hann endurbyggði og lagfærði.  Við það starf naut hann aðstoðar Guðmundar bróður síns. 


Guðmundur og Guðni, móðurbræður Guðrúnar Pálsdóttur.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

 

Þeir bræður voru synir Ágústar Guðmundssonar frá Dalshúsum í Önundarfirði og k.h. Elísabetar Guðnadóttur frá Galtahrygg í Mjóafirði, N.Ís, er bjuggu á Sæbóli 1914-1963, þá tóku þeir Guðmundur  og Guðni við búi og bjuggu á Sæbóli út öldina með móður sinni og Steinunni systur sinni meðan þær lifðu.  Þeir hafa haldið tryggð við dalinn sinn og búið þar allt sitt líf.  Guðni var sá sem teiknaði bátana og hannaði skapalónin en bróðir hans Guðmundur (Mundi) var mikið með honum í smíðunum.  Þeir smíðuðu saman nokkra báta ásamt því að gera við báta.  Guðrún á nokkrar myndir af bátum sem þeir smíðuðu. 


Ræddi við Kristján Einarsson núverandi eiganda Hrings og eftirfarandi upplýsingar eru frá honum.
Guðni S. Ágústsson Sæbóli III smíðaði Hring 1956.  Báturinn var nefndur Hringur.  Nafnið Hringur er tilkomið vegna þess að það hefur verið til á Ingjaldssandi frá því 1840 og þótti Guðna mjög vænt um nafnið.  Þetta nafn var m.a. á hákarlabát sem var á Ingjaldssandi og hugsanlega í eigu þeirra á Sæbóli.  Þegar skrá átti bátinn þá var farið að leita að númeri og frænka hans, Guðrún Pálsdóttir, benti Guðna á númerið ÍS 305.  Guðna leist vel á númerið, en þetta var sama númer og á bifreið Guðna, Í 305.

Í upphafi var báturinn opinn.  Kristján taldi að það væri til mynd af honum þannig.  Næst setur Guðni álhús af krana í bátinn, setur það að aftan. 


Hringur settur á flot á Sæbóli.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

Guðni gerir svo breytingar á bátnum 1991-1992.  Hækkaði um eitt borð og gerði bátinn frambyggðan.  Skipt var um vél og sett í bátinn Mitsubishi 85. ha. sem er enn í bátnum.


Hringur settur á flot 26.05.1992.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

Árið 2001, 10 dögum áður en Guðni féll frá hafði hann á orði við Kristján að hann vildi að Kristján fengi bátinn eftir sinn dag.  Eitt loforð tók Guðni þó af Krisjáni og það var að hann héldi nafninu Hringur.  Kristján á nú annan bát sem heitir Hringur ÍS 305 en hann skipti breytti skráningunni á gamla Hring, Hringur II ÍS 503 og heitir hann það í dag.

Kristján ætlar að fara að gera Hring II upp.  Báturinn hefur ekki farið á flot í ein 7 ár.  Það þarf að skipta um einhver bönd, laga skemmd í kili.  Að öðru leiti er báturinn í góðu lagi.  Hann kvaðst fá aðstoð frá Herði Jónssyni við viðgerðina.  Kristján kvaðst hafa tekið vélina úr bátnum og farið með hana heim og rifið hana í sundur.

Ég má til með að gera smá grín í núvernadi eiganda en ég fann grein á netinu sem ég ætla að setja hér inn:

"Þeir fiska ekki á fullu ferðinni"

Eini trébáturinn sem gerður er út frá Flateyri þetta sumarið er Hringur ÍS 305. Guðni Ágústsson smíðaði þennan bát á Sæbóli á Ingjaldssandi 1956 en frá þeim tíma hefur Guðni reglulega endurbætt bátinn og lagað, segir á Flateyrarvefnum. Frá árinu 1994 hefur Kristján Einarsson, frændi Guðna á Sæbóli, róið bátnum. "Þetta er orðin antík enda eini spýtubáturinn sem róið er héðan. Hinir eru allir á plastbátum sem ganga miklu betur. En þeir fiska ekki á fullu ferðinni. Svona hægfara bátur hefur þann kost að maður veður ekki framhjá lóðningum. Maður heldur sig bara á grunnslóðinni og það gefst oft vel", segir Kristján.

Þess má geta að Kristján er nú kominn með nýjan Hring ÍS 305 sem er einn af þessum plastbátum sem ganga miklu betur, eins og hann segir sjáflur.  Nú er spurningin, fiskar hann á fullu ferðinni? emoticon


Heimildir:
Í Íslensk skip, bátar, 2. bindi bls. 104 kemur eftirfarandi fram um þennan bát.
Kristján Einarsson, munnlegar upplýsingar.
Guðrún Pálsdóttir, myndir og fleira.


Núverandi eigendur, Kristján Einarsson og Hanna Dís Guðjónsdóttir við gamla Hring ÍS 305,
nú Hring II ÍS 503.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur.


Hringur II ÍS 503.  Reykjavík 09. október 2011

04.12.2011 01:22

Þorgeir GK

Eins og flestir vita þá er skipsflak í Landey við Stykkishólm.  Ég held að flestir hafi eitthvað sagt um þennan bát og ég er ekki undanskilin þar.  Ég hef hins vegar tekið nokkrar myndir af bátnum í gegnum árin mér til gamans.  Set hér inn þrjár og sýna þær kanski einhverjar breytingar á flakinu.  Árið 2005 var eitthvað eftir af brúnni en 2008 var hún farin eins og sjá má. 


Þorgeir, 29. mars 2005


Þorgeir, 24. febrúar 2008


Þorgeir, 20. febrúar 2010

03.12.2011 23:36

Elliðaey

Ég er alltaf annað slagið að fara yfir gamlar myndir sem ég hef tekið og rekst þá alltaf á einhverjar myndir sem ég hef sett til hliðar og ég held ég hefi ekki sett hér inn áður.

Hér eru tvær myndir af Elliðaey.  Mikið var skrifað um þessa eyju á sínum tíma þegar Björk vildi eignast hana.


Elliðaey, 17. júlí 2004


Elliðaey, 17. júlí 2004

03.12.2011 10:58

Færeyingur

Færeyskir bátar eru nokkrir hér á landi að mér skilst.  Ég hef verið með myndir af tveimur Færeyingum hér áður, Óli Sófus Stykkishólmi og svo sendi Teddi mér myndir af einum á Bíldudal.  Þegar ég skrifaði um þann bát þá fékk ég upplýsingar um að einn Færeyingur væri á Patreksfirði.

Nú er ég líklega búinn að mynda þann bát en s.l. sumar þá var bátur fyrir utan Bátastöðian sem mér var sagt að kæmi frá Patreksfirði en hefði verið s.l. sumar í höfninni í Kópavogi.  Þar skemmdist báturinn eitthvað og má sjá það á myndnum hjá mér.

Það sem er öðruvísi við þenna bát en hina tvo sem ég hef fjallað um hér er að hann er ekki með mótorstokk niður út botni bátsins.  Sett hefur verið festing utan á bátinn fyrir mótor.

Sögu bátsins þekki ég ekki ennþá en það kemur...........................

Meira síðar.................................


Færeyingur við Bátastöðina, Reykjavík 02. ágúst 2011


Skemmdir á afturstefni og festingin fyrir utanborðsmótorinn, Reykjavík 02. ágúst 2011

  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 718
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 5588
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 339967
Samtals gestir: 31796
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 15:05:18