Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

18.01.2009 22:59

Blessuð sólin ...........

Það var sól í dag og frábært veður.  Gaf mér smá tíma til að taka myndir.  Þegar sólin var  búinn að lita skýin bleik og ég sá þessar álftir fannst mér þetta "svo sætt", tvær hvítar álftir að synda á bleiku vatni.  Hin myndin sem ég set hér er af nokkrum máfum á flugi í átt að sólsetrinu.  Getur þetta verið væmnara? 


Álftir á Skógtjörn.  Myndin tekin 18.01.2009.


Máfar á flugi inn í sólsetrið.  Myndin tekin á Hlíðsnesi 18.01.2009.

16.01.2009 09:02

Ýmislegt

Setti inn nokkrar myndir á síðuna, inní hin og þessi albúmin.  Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem ég var að setja inn.






Þessi mynd er tekin við Húsavík, í leiðindaveðri. 


Hestar við Húsavík.


Í Hafnarfjarðarhöfn.  Finnst litirnir í bátunum flottir í öllum þessum gráma.


Elín Hanna hitti uppáhaldssöngvarann sinn á aðventunni og að sjálfsögðu var tekin mynd við það tækifæri.

15.01.2009 00:20

Kleifarvatn

10. janúar s.l. var ég við Kleifarvatn.  Veðrið var frábært og vatnið spegilslétt.  Ég tók nokkrar myndir svona rétt til að hita vélina upp.  Elín Hanna var með mér eins og sjá má.




Spegill, spegill............

31.12.2008 09:11

Áramótakveðja

Kæru ættingjar og vinir, gleðilegt nýtt ár og þakka ykkur fyrir allt það liðna.  Gangið hægt um gleðinnar dyr.  Líklega verður eitthvað minna skotið upp um þessi áramótin og verður maður því að grípa til þess ráðs að skoða mundir af flugeldum í staðinn. 

26.12.2008 17:28

Hátíðarkveðja

Gleðileg jólin gott fólk.  Eitt af því sem gleður okkur í kringum jólin er sú hugsun að daginn er farið að lengja og sólin hækkar á lofti.  Nýtt ár er framundan og vona ég að það gefi okkur öllum betri tíð með blóm í haga.  Áramótaheiti mitt mun verða að taka meira af myndum á næsta ári og setja hér inná síðuna og með því vona ég að þið hafið jafnframt gaman af. 

27.11.2008 14:10

10.000 gestir

Nú lítur út fyrir að á morgun 28. nóvember 2008 klukkan ?? verði 10.000 gesturinn einmitt að skoða síðuna mína.  Vil ég þakka ykkur kæru vinir, félagar, kunningjar, ættingjar og allir hinir sem hafa gefið sér tíma til að kíkja hér inn.  Vona að þið hafið haft eitthvert gagn af og jafnvel gaman.  Hver verður númer 10.000!  Þar sem ég setti þetta nú inn núna þá gæti orðið einhver sprenging og 10.000 gesturinn mæti á síðuna í dag.
Þar sem ég fann enga mynd af mér að fagna 10.000 gestinum ákvað ég bara að setja inn þessar steinamyndir en þær eru teknar í Austurríkisferðinni okkar s.l. sumar.



24.11.2008 13:27

Húsavík

Skrapp til Húsavíkur um síðustu helgi, svona rétt til að sjá hvort ég rataði ekki.  Eitthvað tók ég af myndum en á sjálfur eftir að sjá afraksturinn.  Ef afraksturinn er boðlegur þá fáiði að njóta hans en ef ekki þá verða gamlar myndir að duga.  Á Húsavík var allt hvítt af snjó þó hann væri nú ekki mikill.  Set hér inn eina gamla mynd frá Húsavík.  Snjónum úr bænum var oft sturtað í sjóinn inn í höfnina, n.t.t. við gamla sláturhúsinu.  Þarna sér í hluta snjóhaugsins sem er eitthvað farinn að láta á sjá.

22.10.2008 15:46

Gamlar myndir ?

Hef haft svolítið gaman af að taka myndir þar sem tíminn er ekki alveg sýnilegur, ef svo má að orði komast.  Hér eru tvær, önnur af seglskútu á leið út á Skjálfanda og á hinni eru tveir litlir bátar sem eru með segl uppi.  Þessir tveir eru vélarlausir og því eins og bátarnir voru í gamla daga.  Nei, þetta eru ekki gamlar myndir, þær voru teknar um Mærudagana á Húsavík.





15.10.2008 10:43

Er myndin rétt?

Þegar maður skoðar myndir sér maður oft að þær halla.  Hér er ein mynd sem ég tók í Austurríki.  Eins og sjá má þá hallar myndin, það er eins og sjórinn halli inn að húsunum.  Þetta er auðvitað hægt að laga með því að skoða hvað þú ert að mynda eða snúa henni í tölvunni og klippa utanaf henni, en svona á ekki að koma fyrir nema þá þú gerir það vísvitandi og þá kemur það strax í ljós. Þessar þrjár myndir sem ég set inn hér halla allar til vinstri, kanski er það eitthvað vandamál hjá mér, þarf að skoða það nánar.


Sjóndeildarhringurinn hallar til vinstri.  Þarna hef ég horft á staðsetningu Elínar Hönnu og klettsins en gleymt sjóndeildarhringnum.

Það er eins og þessi bátur sé að sigla niður brekku!

14.10.2008 10:14

Skjálfandi

Hér koma aftur þrjár myndir sem sýna allar það saman.  Norðurendinn á Kinnafjöllunum.  Fyrsta myndin er tekin ofan af Húsavíkurfjalli, önnur tekin frá Gónhól sem er norðan við Húsavík og sú síðasta af Laxamýrarleitinu, sunnan við Húsavík. 



14.10.2008 09:18

Viltu blása?

Þegar ég fletti í gegnum myndirnar mínar þá eru alltaf nokkrar sem maður stoppar við til að skoðar betur.  Þessar þrjár myndir eru einmitt þannig fyrir mig.  Myndefnið er alltaf það sama, biðukolla.  Ég vona að þið njótið þessara mynda á þessum umhleypingatímum.


13.10.2008 12:47

EItthvað sem truflar ?

Þegar teknar eru myndir af fólki t.d. í veislum eða ferðalögum þá þarf alltaf að hafa í huga hver bakgrunnurinn er.  Þetta litla dæmi sýnir að það þarf lítið til að eitthvað sé á myndinni til að trufla aðalefni myndarinnar. 


Hér er mynd sem EDE tók af mér og Elínu Hönnu í Danmörku.  Góð mynd af okkur, finnst mér, en þó er alltaf eitt sem truflar mig þegar ég skoða þessa mynd og það er andlit konunnar sem rammast svo skemmtilega inn af höfðinu á mér og hnakkanum á manninum fyrir aftan mig. 


Hér tók ég mynd af tengdaföður mínum og Elínu Hönnu í Saltzburg.  Þau komu sér fyrir við þennan riddara.  Rétt áður en ég smellti af kom þarna maður til að skoða í gluggann.  Veit ekkert hver hann er en að mínu mati skemmir hann þessa mynd.  Ég man ekki eftir að hafa tekið eftir þessum manni þegar ég tók myndina, horfði bara á þau tvö.


Hér er mynd af Steinþóri mági mínum tekin á þrettándanum 2008.  Frekar léleg mynd af honum.  Ég ætlaði að ná myndinni þegar henn kveikti á litlu kökunni, en þarna er hann að bakka frá og þá gerðist það flotta við þessa mynd.  Flugeldaprikið sem er bak við Steinþór, það er eins og prikið sé.........já ekki meira um það.

Ef þið eigið möguleika á því þá hugsið um hvað kemur til með að sjást á myndunum sem þið takið.  Ekki bara miða og skjóta.




12.10.2008 00:10

Óvissuferð með vinnufélögum

Ég fór í óvissuferð með vinnufélögum þann 03. október s.l.  Það var snjór eins og sést á myndunum en veðrið var frábært.  Ég setti inn nokkrar myndir frá þessari ferð.  Ekki sést mikið af vinnufélögunum en þó glittir í þá á sumum myndunum.  Við fórum í Selvog og Strandarkirkju, borðuðum svo kjötsúpu í T-Bæ. 
Þessa mynd klippti ég út úr annarri mynd því þetta er eina myndin af mér sem ég tók sjálfur.  Ég er sem sagt þessi vinstra megin, með myndavélatöskuna dinglandi utaná mér og myndavélina í andlitinu.  Fleiri myndir má sjá í albúmi sem ég kalla Óvissuferð.........

11.10.2008 23:16

Hvar í myndfletinum?

Hér er ein mynd sem mig langar til að sýna ykkur.  Myndin er í þremur útfærslum, fyrsta myndin er sú rétta.  Það sem mig langar til að sýna ykkur er hvernig ein mynd getur breyst eftir því hvernig viðgangsefnið er á myndinni.
Á fyrstu myndinni sést steindepillinn elta flugu (flugan sést þarna framan við fuglinn).  Mér finnst þessi mynd nokkuð skemmtileg en vandamálið við hana er að fuglinn er vinstra megin í myndfeltinum og það er eins og hann sé að fljúga út úr myndinni.



Á þessari mynd færði ég fuglinn og fluguna alveg til hægri.  Hér má sjá að fuglinn er að fljúga inn í myndina. 


Hér setti ég fuglinn og fluguna fyrir miðri mynd.  Nú getiði skoðað hvaða mynd ykkur finnst best.  Það er ekkert í bakgrunninum sem truflar og því gott að nota þessa mynd til að skoða þessa þrjá möguleika.  Þetta þarf svolítið að hafa í huga þegar myndir eru teknar hvar aðal viðfangsefnið á að vera staðsett í myndfletinum.

11.10.2008 22:13

Flatnefur

Skrapp í dag, við annan mann, austur í Höfðabakka í Mýrdal til að skoða einn fugl.  Ekki gekk okkur vel að finna fuglinn.  Fuglinn einfaldlega var ekki á "réttum" stað.  Við leituðum því víða á svæðinu en allt kom fyrir ekki.  Rétt áður en við ákváðum að halda heim á leið fórum við aftur á upphafspunktinn og hvað haldiði, þarna var vinurinn mættur og lá við að hann gerði grín af okkur.  Náðum að smella af nokkrum myndum.  Þessi fugl heitir flatnefur.  Frekar stór vaðfugl eins og sjá má.  Hér eru tvær myndir af fuglinum góða og fleiri má finna í fuglaalbúminu.


Flatnefurinn sest rétt hjá álftum.

Hér getiði séð hvernig goggurinn er flatur að framan, líkur skeið.  Myndirnar teknar 11.10.2008.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 2537
Gestir í dag: 1024
Flettingar í gær: 236
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 349926
Samtals gestir: 33117
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 19:38:59