Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2010 Október

31.10.2010 18:42

Bókfinka

Ég skrapp í fuglaskoðun í dag og ætlaði mér að ná nokkrum myndum.  Ég náði myndum en þær verða ekki til sýnis vegna lélegra gæða.  Ég fór í Þorbjörn við Grindavík.  Þar var mikið fuglalíf.  Rétt eftir að ég mætti á staðinn kom þangað undur strákur, Anton Ísak Óskarsson 14 ára.  Hann hefur mikinn áhuga á fuglaljósmyndum og ég verð að segja eftir að hafa skoðað Flickr síðuna hans að hann er talsvert góður.  Við sáum eina bókfinku, alla vegna fjóra gransöngvara og þá var mikill fjöldi glókolla á sveimi.  Af íslenskum fuglum má nefna, auðnutittlinga, skógarþresti, músarrindla og ekki má gleyma svarþrastarkerlingu.  Ég leyfði mér að taka eina mynd af Flickr síðu Antons, af bókfinkunni sem við sáum.  Ef þið smellið á myndina þá fariði beint inná Flickr síðuna hans.  Þá hef ég sett slóð inná síðuna hans á forsíðunni minni, til hægri.  Vona að mér fyrirgefist að stela þessari mynd frá honum en hún er merkt honum, nafn hans sett neðan við myndina, linkað á síðuna hans o.fl.  Ég er ekki vanur að setja inn myndir eftir aðra nema í undantekningartilfellum og þá yfirleitt með leyfi, en ekki núna.  Ég tók þessa í leyfisleysi og viðurkenni það hér.  En endilega kíkið á síðuna hans Antons og kíkið á fuglana hans.


Bókfinka.  Myndina tók Anton ísak Óskarsson 31. október 2010 í Þorbirni við Grindavík.

25.10.2010 21:18

Bátslíkön

Leita að bátslíkönum eftir Kristján Sveinsson, f.1870 d.1960,        
frá Bjarneyjum á
Breiðafirði.


Kristján Sveinsson með einn af bátum sínum
 

Kristján, sem var alinn upp í Skáleyjum, var bóndi í Bjarneyjum á Breiðafirði 1900-1927 en lengst af var hann aflasæll sjómaður og skytta við Breiðafjörð og á Patreksfirði. Hann var á efri árum afkastamikill við smíði á líkönum eftir breiðfirskum súðbyrðingum.

Kristján bjó frá 1940-1960 á Patreksfirði og smíðaði þar nokkra báta. Dóttir Kristján, Jófríður, bjó á Bergsstaðastræti 63 í Reykjavík og þegar Kristján heimsótti hana hafði hann gjarnan með sér báta sem hann seldi í Reykjavík. Það er því vitað að allnokkrir bátar munu vera til eftir Kristján. Bátarnir sem til eru, eru frá 40 cm og allt að 130 cm langir.


Afkomendur Kristjáns, sem vinna nú að skráningu bátana ásamt því að mynda þá og mæla hafa áhuga á að komast í samband við aðila sem eiga eða vita um líkön smíðuðum af Kristjáni.

Einnig er hægt að útvega aðstoð kunnáttumanna við að endurbæta bátana ef þess er þörf.

Þeir sem upplýsingar geta veitt eru beðnir að hafa samband við Sigurð Bergsveinsson í síma

893-9787 eða með því að senda tölvupóst á póstfangið sberg@isholf.is

24.10.2010 23:04

Smá flipp

Ég skrapp líka í kirkjugarðinn til að reyna að mynda laufblöð, blöð og fleira.  Þar sem mikið var aukalega á myndunum þá klippti ég þær aðeins til.  Fleiri myndir í myndaalbúmi, Gamli kirkjugarðurinn í Hafnarfirði. 


Hangi enn.


Reyniber


Ég hangi líka.  23. október 2010

24.10.2010 22:59

Hafnarfjarðarhöfn 23. október 2010

Fór í fallegu veðri og myndaði við Hafnarfjarðarhöfn.  Eins og sjá má á þessum myndum þá var spegilsléttur sjór.  Fleiri myndir eru í myndaalbúmi, skip og bátar 2010 2.


1516 Fjóla SH 121, Hafnarfjarðarhöfn 23. október 2010


Hafnarfjarðarhöfn 23. október 2010

24.10.2010 21:34

Bjargfýlingur

Bjargfýlingur var smíðaður í Hafnarfirði 1976 af Eyjólfi Einarssyni skipasmíðameistara úr eik og furu, 1,65 brl. Í bátnum var 10. ha. Bukh vél. 
Upphaflega hét báturinn Bylgja HF 16, 5754.  Eigandi var Sigurður Elli Guðnason, Reykjavík, frá 11. okt. 1976.  Báturinn var seldur 15. september 1984 Sigurði Pétri Péturssyni og Pétri B. Sigurjónssyni, Grundafirði, hét Gustur SH 18.  Seldur 8. maí 1989 Sveini Kjartani Gestssyni, Staðarfelli, Fellsstrandarhreppi, hét Gustur DA 1.  Seldur 2. desember 1989 Erni Axelssyni og Starfsmannafélagi Þ. Jónssonar, Reykjavík, hét Gustur RE 401.  Seldur 15. apríl 1992 Guðmundi Hafþóri Þorvaldssyni, Reykjavík.  Seldur 17. ágúst 1992 Steingrími Jóhannessyni, Kópavogi.  Seldur 7. október 1992 Birgi Henningssyni, Reykjavík, hét Grettir Ásmundsson RE 401.  Seldur 10. nóvember 1993 Jóhanni Guðna Bjarnarsyni, Hafnarfirði, hét Bjarnar RE 401.  Seldur 15. apríl 1997 Ólafi Gíslasyni og Þorgeiri Kristóferssyni, Garðabæ.  Upplýsingar úr Íslensk skip, bátar.

Þegar þeir Ólafur Gíslason og Þorgeir Kristófersson eignast bátinn þurfti eitthvað að gera við hann.  Þegar þeir fóru að skoða bátinn, það var einhver klæðning innan í bátnum, kom í ljós að flest öll bönd í bátnum voru ónýt, fúin og þurfti að smíða bátinn nánast upp.  Eins og sjá má á þessum myndum þá hefur verið mjög hátt rekkverk á bátnum en það lága sem er í dag var þarna á bak við þetta stóra.

Ef fleiri upplýsingar koma verður þeim bætt inní.


Grettir Ásmundsson RE 401, mynd úr einni af bókunum, íslensk skip, bátar.


Bjargfýlingur í Grýluvogi í Flatey á Breiðafirði 25. júlí 2009

22.10.2010 22:55

Svartbakur

Náði að smella nokkrum myndum af svartbökum sem voru í Hafnarfjarðarhöfn.  Annar stóð á verði meðan hinn fór um borð og fékk sér að borða.  Fleiri myndir í myndaalbúmi, Svartbakur.

Þá má geta þessa að smá viðbætur hafa komið inn í frásögnina af Sæbjörgu m.a. línuteikning af bátnum.  Þá var bætt við textann líka.


Vörðurinn!  Hafnarfjarðarhöfn 17. október 2010


Sletturnar standa í allar áttir.  Hafnarfjarðarhöfn 17. október 2010

19.10.2010 20:55

Fegurð litanna

Hér eru tvær í viðbót sem ég tók í gamla Hafnarfjarðarkirkjugarðinum.  Flottir litið í þessum laufblöðum.  Er alveg þokkalega sáttur við þessar myndir og vona að þið séuð það líka.  Á þeim tíma sem ég tók þessar myndir þá rigndi talsver en stytti upp á milli.  Engin er verri þó hann vökni, segir einhversstaðar.  Alla vegna tel ég flottara að hafa dropana á laufblöðunum og þakka má það rigningunni.
Gamli Hafnarfjarðarkirkjugarðurinn 17. október 2010

19.10.2010 20:49

Bátamyndir

Eitthvað hefur komið inn af bátamyndum sem teknar hafa verið síðasta mánuðinn.  Þær eru ekki margar en einhverjar.  Hér má sjátvær, fleiri í albúmi.


1436 Jakob Einar SH 101, Hafnarfjarðarhöfn 17. október 2010


Fram í Reykjavíkurhöfn 23. september 2010

19.10.2010 11:25

Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 1926

Þegar ég var í gamla kirkjugarðinum í Hafnarfirði 17. október s.l. rak ég augun í legstein sem vakti athygli mína.  Í fyrstu ætlaði ég að taka mynd af laufblaði á steininum en þá las ég áletrunina á honum "Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 1926".  Þetta vakti forvitni mína og ég velti fyrir mér hvað væri hér á ferð.  Netið reddaði þessu. Á tímarit.is í Árbók hins íslenzka fornleifafélags fannst þessi grein sem sjá má hér að neðan.


Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 1926
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2049126

18.10.2010 23:45

Sólsetur 18. október 2010

Kíkti í dag út á Seltjarnarnes og tók myndir af sólsetrinu.  Fannst það mjög fallegt enda mikið um sólstafi, bæði niður og upp.  Reyndi að ná þessu á kubbinn og þið getið séð einhverjar myndir í albúmi.  Hér eru hins vegar tvær af þessum myndum sem ég tók í dag.


Sólstafir.  Sólsetur 18. október 2010


Sólsetur 18. október 2010

18.10.2010 23:38

Meira haust

Er ekki tilbúinn til að leggja árar í bát með haustmyndir.  Kíkti í gamla kirkjugarðinn í Hafnarfirði.  Laufin voru að mestu fallin og fuglarnir höfðu slitið reyniberin af og lágu þau víða.  Þótt um kirkjugarð sé að ræða þá var lífið í honum ótrúlegt, tugið skógarþrasta og nokkrir svartþrestir voru þarna.  Ég hins vegar var ekki að eltast við fuglana í þetta skipti heldur haustið.  Myndirnar sem út úr þessu komu voru misgóðar en setti inn nokkrar í albúm.  Hér eru þrjár sem sýna aðeins hvernig þetta var.


Laufin hylja gangstíginn.


Litur var enn á laufum birkikvistsins.


Gömul lauf og reyniber í bland.

16.10.2010 19:07

Selma Húsavík

Ég er enn að leita að sögu bátsins en ákvað að setja inn það sem ég veit nú þegar.

Selma, Húsavík, var smíðuð um 1954 af Jóhanni Sigvaldasyni.  Maggi og Toni Bjarnasynir áttu bátinn og þá bar hann nafnið Bjarni Þórðar.  Kristján Óskarsson átti bátinn og rámaði í að Hallmar Helgason hafi átt bátinn og hann hafi keypt af honum bátinn.  Næsti eigandi á eftir Kristjáni Óskarssyni var Guðlaugur Laufdal Aðalsteinsson.  Næsti eigandi var Jón Heiðar Steinþórsson, þegar hann keypti bátinn þá hét hann Njörður.  Segja má að Sigmar Mikaelsson hafi eignast hlut í bátnum er hann setti nýja vél í bátinn árið 1992-93 það var Sabb vél.

Núverandi eigendur eru bræðurnir Þráinn og Ölvar Þráinssynir.  Þeir eignuðust bátinn 1998.  Þeir endursmíðuðu gólfið í bátnum og klæddu það með riffluðu áli.  Vélin er SABB 6-8 hestöfl, árgerð 1963.  Slær ekki feilpúst segir Þráinn.

Nýjar upplýsingar koma inn jafnóðum og þær berast.


Selma í Húsavíkurhöfn 05. ágúst 2004

16.10.2010 18:37

Sæbjörg

Sæbjörg var smíðuð árið 1992 í Bátastöð Jóns Jónassonar sem var staðsett á Gelgjutanga við Elliðavog.  Það voru Agnar Jónsson (sonur Jóns á Ellefur, en hann smíðaði m.a. skonnortuna Hauk upphaflega) og Halldór Páll Eydal sem smíðuðu bátinn fyrir Halldór Pál.
Við smíðina á Sæbjörgu var stuðst við svokallaða Jökulfjarðarskektu.
Engin vél er í bátnum en statíf er til fyrir utanborðsmótor.
Sæbjörg var sjósett 12. júní 1992.  Frá því að kjölur var laggður og henni reynslusiglt liðu 35 dagar.  Þegar Agnar teiknaði bátinn, gerði línuteikninguna, studdist hann í grunninn við lagið á Hornstranda eða Jökulfjarðarlagið.  Í sambandi við seglbúnað var stuðst við íslenska sjávarhætti 2. bindi.  Aðalmál Sæbjargar eru 5,48 m x 1,76 x 0,58.  Línuteikningin er komin inn.

Árið 2006 voru það fjórir einstaklingar sem keyptu sinn fjórðunginn hver af Halldóri Páli Eydal, það voru Sigríður Ragna Sverrisdóttir, Einar Ófeigur Magnússon, Hörður Sigurbjarnarson og Heimir Harðarson.  Norðursigling keypti síðan karlmennina út en Sigríður Ragna stendur stolt eftir með sinn fjórðung.  Þegar Sæbjörgin var keypt var hún tekin á dekk á Sveinbirni Jakobssyni (nú Garðar) þegar sá bátur var sóttur til Ólafsvíkur.

Í dag er það að frétta af Sæbjörgu að hún er í algerri yfirhalningu og fer þannig undir yfirbreiðslu og kemur því gullfalleg inn í vorið 2011, segir Heimir Harðarson.

Á þessari slóð eru margar myndir af Sæbjörgu http://frontpage.simnet.is/eom/saebba/source/img_1377.html

Ofangreindar upplýsingar koma frá  Heimi Harðarsyni og Agnari Jónssyni, takk strákar fyrir hjálpina.


Sæbjörg á siglingu í Húsavíkurhöfn 2008


Línuteikning eftir Agnar Jónas Jónsson frá 1992 af Sæbjörgu.

10.10.2010 01:51

Haustið 2010

Var full seinn á mér að fara og mynda Elínu Hönnu í haustinu.  Fór þó í gær, 09. október og tók nokkrar.  Setti inn nýtt albúm fyrir þessar myndir, Elín Hanna haustið 2010.  Endilega kíkið á myndirnar ef þið hafið áhuga.


Elín Hanna valdi þessa stöðu.


Það var meira pabbinn sem valdi þetta

02.10.2010 18:23

Vinfastur

Vinfastur var smíðaður á Reikhólum. Byrjað var á smíðinni haustið 2006 og hann fer á flot um vorið 2007. Smiðir voru Aðalsteinn Valdimarsson, Eggert Björnsson, Hafliði Aðalsteinsson og Hjalti Hafþórsson, félagar í Félagi Áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar.

Vinfastur var smíðaður meðal annars vegna töku heimildarmyndar Ásdísar Thorodsen "Súðbyrðingur saga báts" sem var frumsýnd á Skjaldborgarhátíð nú í sumar (2011).  Þá hefur verið gefin út mynddiskurinn Björg með leiðbeiningum um bátasmíði.

Báða diskana er hægt að kaupa í afgreiðslu Bátasafns Breiðafjarðar að Reykhólum.

Þess má geta að Vinfastur er smíðaður eftir bát sem heitir Björg en hefur verið kölluð Staðarskektan.  Staðarskektan er til sýnis á Reykhólum og Vinfastur er það stundum líka.  Vinfastur hefur ferðast nokkuð m.a. á Siglufjörð og Sail Húsavík árin 2009 og 2011. 

Svona bátar voru notaðir við selveiði og æðardúnstekju við Breiðafjörð þar til að vélbátar tóku við um 1940.

Langar til gamans að setja hér inn nokkrar vefslóðir sem þið getið kíkt á, meðal þess er eitt myndband sem sýnir smíði Vinfastar.  Flott myndband sem sett hefur verið saman þar.  Endilega kíkið á það ef þið eruð ekki þegar búin að því.
Meira má finna um Vinfast á slóðinni www.batasmidi.is og http://batasmidi.is/lang/is/myndasida-album/
Myndir frá smíði bátsins eru hér http://batasmidi.is/myndasida-album/batasmidi_building_the_boat/
Myndir af sjósetningunni eru hér http://batasmidi.is/myndasida-album/sjosetningin-the-launching/
Kvikmyndataka í Hvallátrum er hér http://batasmidi.is/myndasida-album/kvikmyndataka-film-making-in-hvallatrar/
Myndband af smíði bátsins má sjá hér http://batasmidi.is/lang/is/myndbond-videos/


Vinfastur á Húsavík 2008, siglír út úr höfninni.


Vinfastur á Sail Húsavík 2011.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 3154279
Samtals gestir: 237149
Tölur uppfærðar: 30.5.2020 01:55:03