Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

16.01.2014 14:00

Þreyttir

Eftir að ég fór að taka myndir af bátum nokkuð reglulega verð ég að viðurkenna að mér finnst einna mest gaman að mynda gamla þreytta báta eða jafnvel bátsflök.  Þegar ég hef verið að yfirfara myndirnar mínar, sem ég geri nokkuð reglulega, finnst mér alltaf bestu myndirnar vera af þessum þreyttu bátum eða bátsflökum.  Ég geri reyndar ekkert í því að eltast við bátsflök en ef þau verða á vegi mínum þá mynda ég þau.  Hér á eftir eru nokkrar myndir sem ég ætla að setja inn og upplýsingar um þá báta.  Ef þið hafið eitthvað fleira þá endilega tjáið ykkur.




1237. Una SU 89 Sandgerði 12. apríl 2008

1237. Una SU 89 var smíðaður á Akureyri 1972 út eik. 16 brl. 163 ha. Scania Vabis díessel vél.

Eig. Páll Þorsteinsson, Karl Hólm og Ingi Friðbjörnsson, Sauðárkróki frá 5. júní 1972. Heitir Sunna SK 14.  Báturinn var seldur 2. nóvember 1972 Óla Ægi Þorsteinssyni, Þórshöfn, Langanesi, báturinn heitir Litlanes ÞH 52.  Seldur 10. febrúar 1976 Hallsteini Friðþjófssyni, Vífli Friðþjófssyni, Aðalsteinni Eianrssyni og Guðröði Eiríkssyni, Seyðisfirði, báturinn heitir Litlanes NS 51.  1984 var sett í bátinn 118 ha. Scania Vabis díesel vél.  Seldur 6. mars 1987 Birgi Björnssyni og Guðmundi Sigurðssyni, Hornafirði, báturinn hét Litlanes SF 5.  Seldur í október 1989 Dagbjarti Jónssyni, Víðigerði Vestur-Húnavatnssýslu, Heitir Jón Kjartansson HU 27.  Seinna var skráður eigandi Æður hf. útgerð, Víðigerði. Seldur 22. júlí 1993 Hofsnesi hf. Djúpavogi, hét Bragi SU 274.  Frá 6. apríl 1994 er skráður eigandi Hofsnes hf, Garði.  Báturinn heitir Bragi GK 274.  Frá 12. september 1995 er skráður eiganid Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, Keflavík.  Báturinn heitir Leynir GK 8, skráður í Garði.  Seldur 29. maí 1996 Eiði Þór Gylfasyni, Eskifirði, hét Leynir SU 89.  Frá 17. apríl 1997 heitir báturinn Una SU 89, sami eigandi.  Hann er skráður á Eskifirði 1997.

Þann 28. janúar 2008 sökk báturinn í Sandgerðishöfn og hafði þá legið í höfninni í 4 ár og taldist til svokallaðra óreiðubáta.  Þegar ég myndaði bátinn 12. apríl 2008 lá hann upp við grjótgarðinn á bryggjunni í Sandgerði.
Nöfn: Sunna SK14, Litlanes ÞH52, Litlanes NS51, Litlanes SF, Jón Kjartan HU, Bragi SU, Bragi GK, Leynir GK, Leynir SU og loks Una SU89.

Heimildir:
Rannsóknarnefnd sjóslysa, http://www.rns.is/
Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar - http://skipamyndir.123.is/blog/record/199387/

Íslensk skip, bók 3, bls. 217-218, Sunna SK 14.

Íslensk skip, bók 5, bls. 170, Sunna SK 14.




1232. Gunnhildur ST 29.  Sandgerði 12. apríl 2008

1232. Gunnhildur ST 29 var smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1972. Eik og fura. 15 brl. 153 ha. Scania Vabis díesel vél.  

Eigandi Guðmundur Halldórsson, Drangsnesi, frá 26. maí 1972.  Báturinn var seldur 29. október 1988 Birgi Karli Guðmundssyni, Dragnseni, heitir Gunnhildur ST 29.  Báturinn er skráður á Drangsnesi 1997.

Þessi var nú orðin vel þreyttur þegar ég myndaði hann 12. apríl 2008.  Þann 07.desember 2009 segir Emil Páll að þessi hafi verið mulin niður á hafnargarðinum í Sandgerði.  Hvenær það gerðist veit ég ekki og líklega hafa fleiri bátar verið muldir niður þá.

Heimildir:
Heimasíða Bátar og skip - http://batarogskip.123.is/blog/record/418752/
Rannsóknarnefnd sjóslysa, http://www.rns.is/

Heimasíða Emils Páls

Íslenski skip, bók 4, bls. 10, Gunnhildur ST 29

Íslensk skip, bók 5, bls. 172, Gunnhildur ST 29




1294. Hafrós KE2 Sandgerði 12. apríl 2008

1294. Hafrós KE 2 var smíðaður hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði árið 1973. Eik og fura.  11 brl. 120 ha. Powa Maríne díesel vél. Hét Sæljómi GK 150. 

Eigandi Grétar Ólafur Jónsson, Hafnarfirði, Kristinn Guðnason, Reykjavík og Grétar Pálsson, Hafnarfirði frá 6. febrúar 1973.  12. febrúar 1980 var nafi bátsins breytt, heitir þá Ljómi GK 150, sömu eigendur og áður.  5. mars 1981 var báturinn skráður í Sandgerði, sömu eigendur.  Báturinn er skráður í Sandgerði 1988.

Báturinn var afskráður 1998, fór aftur á skrá 1999 en afskráður sem fiskibátur 2006.  Sökk við bryggjuna í Sandgerði 25. október 2007.
Nöfn: Sæljómi GK 150, Ljómi GK 150, Sæljómi GK 150, Far GK 147, Far KE 2 og loks Hafrós KE 2.

Heimildir:
Rannsóknarnefnd sjóslysa, http://www.rns.is/
Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar - http://skipamyndir.123.is/blog/record/199387/

Íslensk skip, bók nr. 1, bls. 234, Sæljómi GK 150.




1390. Jón Guðmundsson ÍS 75 Sandgerði 12. apríl 2008

1390. Jón Guðmundsson ÍS 75 var smíðaður hjá Bátalóni í Hafnarfirði árið 1973.  Hlaut nafnið Vopni NS 65.  Eik og fura.  11 brl. 118 ha. GM dísel vél.

Eigandi Vopni hf, Vopnafirði frá 9. ágúst 1974.  Báturinn ar seldur 15. febrúar 1983 Magnúsi Ingimundarsyni, Suðureyri, Súgandafirði, báturinn heitir Jón Guðmundsson ÍS 75 og er skráður á Surðueyri 1988.

12. apríl 2008 tók ég myndir af bátnum þar sem hann stóð á bryggjunni í Sandgerði þá orðin nokkuð þreyttur.  Báturinn afskráður þann 18. mars 2008 og afmáður skv. 15. gr. l. 115/1985.



Heimildir:
Sax.is - skipaskrá
Gunnar Th. sjá skrifað álit.

Íslensk skip, bók nr. 2, bls. 206, Vopni NS 65.


1249. Sigurvin GK 51, Njarðvíkurslippur 12. apríl 2008

1249. Sigurvin GK 51 var smíðaður 1972 hjá Trésmíðju Austurlands hf. á Fáskrúðsfirði.  Eik og fura.  17 brl. 150 Klevin díesel vél.

Eigendur Hermann Steinsson og Kristján Stefánsson Fáskrúðsfirði frá 28. júlí 1972.  Seldur 23. september 1974 Auðunni Karlssyni og Samúel Kristjánssyni, Súðavík, báturinn hét Sigurborg í Dal ÍS 83.  Seldur 5. júlí 1977 álftaveri hf, Súðavík.  Seldur 18. febrúar 1983 Þorgrími hf og Álftaveri hf, Súðavík.  11. janúar 1985 var nafi bátsins breytt, heitir Svanborg 'IS 83.  Seldur 15. maí 1987 Guðmundi Guðmundssyni, Lárusi Guðmundssyni og Ólafi Guðmundssyni, Grundarfirði, báturinn heitir Lárberg SH 275 og er skráður á Grundarfirði 1988.

Seldur til Noregs 30. nóvember 1995 en stóð enn í Njarðvíkurslipp þegar þessi mynd var tekin.

Nöfn: Sólborg SU202, Sigurborg í Dal ÍS 83, Svanborg ÍS 83, Lárberg SH 275, Valdimar AK 15, Marvin AK 220, Hafbjörg SL 154 og loks Sigurvin GK 51.

Heimildir:
Þorgeir Baldursson - http://thorgeirbald.123.is/blog/record/329138/

Íslensk skip, bók 4, bls. 56, Sólborg SU 202.

16.01.2014 08:32

Tíminn vinnur á

Ég hef fylgst með þessari tunnu nokkuð lengi.  Tók mynd af henni fyrst 2011 og hugsaði með mér að ef hún yrði þarna áfram gæti verið gaman að fylgjast með hvað það tæki langan tíma að tunnan ryðgaði niður.  Ég hef tekið þrjár myndir af tunnunni og eins og sjá má þá hefur tíminn ekki unnið með henni.  Á þessum stað gætir flóðs og fjöru og því liggur tunnan stundum í sjó og þá er tunnan greinilega eitthvað á ferðinni..  Myndirnar segja sína sögu.


Myndin er tekin 15. júní 2011


Myndin er tekin 18. apríl 2013


Myndin er tekin 15. janúar 2014

23.12.2013 00:40

Margbrotinn perónuleiki

Smá hrakfallasaga af mér.  Að morgni 19. des. var ég á leið til vinnu.  Var að labba að strætóskýlingu sem er hér utan við húsið.  Á leið minni að skýlinu þá flaug ég á hausinn.  Það var svo sem í lagi að hrista aðeins upp í mér en það sem verra var að ég braut á mér hægri úlnlið og rifbrotnaði svona rétt í leiðinni vinstra megin.  1-3 rif sem eru brotin, ekki gott að segja að sögn læknis og svo sprunga í beini við úlnlið.
Ég er rétt núna að komast upp á lag með að nota hægri hendinga aðeins en þarf að sitja skakkur við svo umbúðirnar flækist ekki fyrir mér.
Væri því ekki hægt að segja að ég sé margbrotinn persónuleiki........................

23.12.2013 00:01

Jólahjól

Jólahjólin voru líka í Stykkishólmi.  Þessi reiðhjól blöstu við mér út um eldhúsgluggann í Stykkishólmi.  Nýfallinn snjór og reiðhjól eiga vel saman.


Jólahjól


Jólahjólajól...........

22.12.2013 23:56

Jólasveinninn kom í Stykkishólm

Ég sá að jólasveinninn var í Stykkishólmi.


Jólasveinn

22.12.2013 21:35

Stykkishólmur

Átti leið um Stykkishólm þann 17. desember s.l. og smellti nokkrum myndum svona mér til ánægju.  Bátar voru að landa síld og mátti sjá m.a. Kidda RE drekkhlaðinn bíða eftir löndun.


Kiddi RE drekkhlaðinn bíður eftir löndun.  Stykkishólmur 17. desember 2013


Mikið af máfum fylgdist með.


Máfarnir bíða þolinmóðir eftir að komast í afgangana.

15.12.2013 20:09

Myndlistasýning

Þann 07. desember 2013 skrapp ég og kíkti á eina myndlistasýningu.  Málarinn var að mínu viti ekki af verri endanum, Ingvar Þorvaldsson.  Myndirnar hans Ingvars eru mjög flottar.  Ég hafði mjög gaman af að sjá sýninguna.  Ég dró dóttirina með mér og henni fannst myndirnar flottar líka, en hún er 15 ára.  Þessi sýning höfðar því til allra aldurshópa.  Hér má sjá nokkrar myndir sem ég tók af sýningunni með leyfi Ingvars.  Ég læt myndirnar tala sínu máli.


Ingvar við tvær af myndunum sínum.










05.11.2013 21:29

Ævintýri á gönguför

Skrúðgarður í Fürth, Þýskalandi.


Heimir og Sigrún skoða umhverfið.  Fürth 03. október 2013

05.11.2013 10:21

Gamli tíminn endurspeglast í nútímanum!

Hér er ein mynd frá Nurnberg, Þýskalandi þar sem gamli tíminn endurspeglast í nútímanum. 

 

12.10.2013 21:42

Nurnberg og Furth

Frá 30. september til 07. október fór ég ásamt sjö af mínum vinnufélögum til Nurnberg.  Við fórum að kynna okkur störf lögreglunnar í Nurnberg og Furth.  Sett hafði verið upp dagskrá fyrir okkur.  Þessi ferð var í einu orði sagt frábær.  Ferðafélagarnir voru frábærir.  Þau sem tóku á móti okkur í Nurnberg og fylgdu okkur eftir og fóru með okkur um allt voru frábær.  Silke og Florian, takk fyrir okkur.  


Ferðafélagar saman á lögreglustöðinni í Nurnberg.

24.09.2013 21:53

Soffíubáturinn, Siglufirði

Þetta mun vera eftirgerð af bát Soffíu Jónsdóttur en fyrirmyndin var smíðuð af Gunnari Jónssyni skipasmíðameistara 1934.

Soffíubátur, smíðaður 1934.  Fura, Súðbyrðingur.
Báturinn var smíðaður fyrir Soffíu Jónsdóttur, Staðarhóli gegnt Siglufjarðarkaupstað og var hann lengst af í hennar eigu.  Bátinn greiddi Soffía með mjólkurpeningum.  Árið 2009 var báturinn í vörslu Sjóminjasafns Siglufjarðar.  

Ég var á ferði á Siglufirði þann 06.08.2013 og smellti þá nokkrum myndum af þessum bát sem er nákvæm eftirgerð af Soffíubátnum.  


Eftirgerð af Soffíubátnum.  Siglufjörður 06. ágúst 2013

22.09.2013 22:53

Óþekktir á Siglufirði

Í sumar átti ég leið um Sigurfjörð. Var frekar seint á ferðinni en náði samt að taka myndir.  Þrír bátar sem ég myndaði voru nafnlausir.  Mig vantar því aðstoð að finna eitthvað um þessa báta.  Sá fyrsti er með stafinn Ó en að aftan má greina nafnið Bolungarvík.  Ekkert stendur á hinum.  Ef einhver hefur upplýsingar fyrir mig endilega sendir mér línu.


Ó??????, Siglufjörður 06. ágúst 2013


Þessi var á legunni, hvaða bátur?  Siglufjörður 06. ágúst 2013


Þessi var við bryggju á Siglufirði, 06. ágúst 2013

22.09.2013 22:41

Bátur við Hlíð

Ég skrapp að Hlíð á Álftanesi til að mynda einn bát sem ég hafði heyrt af að væri þar.  Ég myndaði bátinn en hef enga hugmynd um hvaða bátur þetta er.  Þessi er spíðaður úr krossviði sýnist mér. Það var verið að mála hann, borðstokkarnir voru grænir en greinilegt að það er verið að mála þá hvíta svo þetta falli allt saman, hús og bátur.

Ef einhver hefur upplýsingar handa mér sem geta hjálpað mér að finna út hvaða bátur þetta er endilega senda mér línu.


Bátur við Hlíð, Álftanesi.  21. september 2013

11.09.2013 21:59

Illt augnaráð

Á ferðum mínum um Hlíðsnesið í sumar hef ég séð nokkra hesta þar í túni með folöld.  Mig langaði að ná mynd af folaldi fá sér sopa af mjólk en það gekk illa því þegar stoppað var þá labbaði móðirin af stað og folaldið á eftir.  Einu sinni náði ég þó að smella af og þetta er afraksturinn.


Folald og móðir.  Hlíðsnes 28. júlí 2013

08.09.2013 15:17

Ólafur Bjarnason

Ólafur Bjarnason, Gesthúsum, Álftanesi

Í júní 2011 var á að mynda báta sem Einar Ólafsson Gesthúsum, Álftanesi á.  Ég fékk þá að kíkja inn í skemmu hjá honum og þar var þessi glæsilega trilla.  Ég komast eiginlega ekkert að henni en fékk að vita að þessi bátur væri settur út á sumrin.  Ég var því ekkert að stressa mig en núna í júní 2013 sá ég bátinn úti, nýmálaðann.  Auðvitað var hann festur á kubbinn.

Ég talaði við Einar og fékk eftirfarandi upplýsingar.
Ólafur Bjarnason var smíðaður árið 1957 af Ingimundi Guðmundssyni á Bjargi eins og hann var kallaður en hann bjó á Litlabæ á Vatnsleysuströnd.  Einar hafði talað við Ingimund 30. desember 1956 og beðið Ingimund um að smíða bát fyrir sig.  Um miðjan mars 1957 var báturinn kominn heim á hlað hjá Einari.  Einar kvaðst muna að hann fór á sjó þann 17. mars 1957 og lagði grásleppunet og kvaðst hafa fengið 57 rauðmaga (held að ég hafi náð því rétt).  Einar sagði að þetta hafi líklega verið næstsíðasti báturinn sem Ingimundur smíðaði, hann hafi verið um 80 ára þegar þetta var og hann var með annan bát inni hjá sér á þessum tíma.
Báturinn lítur eins út og í upphafi.  Ólafur Einarsson,sonur Einars, hefur séð um að halda bátnum við.

Ekki er að sjá annað en það hafi tekist vel að halda bátnum til haga og nú síðast í sumar þá var róið á bátnum til fiskjar.  Báturinn er því enn í fullu fjöri og að sögn Einars mjög góður sjóbátur.


Ólafur Bjarnason, Álftanesi, 02. júní 2013

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 250
Flettingar í gær: 236
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 347843
Samtals gestir: 32343
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 16:21:27