Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

03.09.2011 17:49

Sumarliði, dagbók

Dagbók um viðgerðina á Sumarliða

Jón Ragnar sendi mér þessa teikningu.  Teikningin sýnir hvernig Sumarliði á að líta út eftir viðgerð.  Jón Ragnar segir að nú sé að hefjast viðgerð á Sumarliða og mun ég líta við hjá honum og fylgjast með.  Hér að neðan má sjá hvernig Sumarliði lítur út og svo er teikningin sem sýnir hverngi hann á að líta út.  Jón Ragnar á mikið verk fyrir höndum.  Ég held að hann eigi nú samt eftir að klára þetta glæsilega.


Svona leit Sumarliði út þegar ég sá hann fyrst, 03. mars 2011


Svona á Sumarliði að líta út eftir viðgerð.

Hér fyrir neðan ætla ég að halda dagbók um viðgerð á Sumarliða eftir því sem ég get.


06. september 2011
Jón Ragnar er að fara að setja Sumarliða inn.  Ég hafði ekki tíma til að bíða eftir því svo ég tók engar myndir af því.  Fyrst þurfti Kári þó að fara út.


Kári SH á útleið, 06. september 2011


08. september 2011
Jón Ragnar sendir mér póst um að það sé búið að setja Sumarliða á hliðina, fjarlægja gamla kjölinn og verið að smíða nýjan kjöl.

10. september 2011
Kíkti við og leit á Sumarliða.  Allt eins og Jón Ragnar sagði, báturinn á hliðinni og búið að fjarlægja kjölinn.  Máltækið segir "Hálfnað verk þá hafið er" en það er nú talsvert í land, en það er birjað.


Sumarliði 10. september 2011


Kjölurinn farinn, 10. september 2011

19. september 2011
Leit við í dag og sá að ekki hafði mikið verið gert, alla vegna ekki svona sýnilegt.  Þó sá ég að búið var að fjarlægja afturstefnið til viðbótar við kjölinn.  Hitti á Jón Ragnar sem sagði að kjölurinn yrði kominn í um næstu helgi.  Svo væri það afturstefnið en það væri smá maus við það og það tæki lengri tíma.  Nú er að sjá hvort strákurinn standi við stóru orðin:)  Set inn eina tillögu frá mér af hugsanlegri málningarútliti Sumarliða.  Notaðist við teikninguna sem JRD lét mig fá, teiknaði upp aftur og nú get ég málað eins og mig listir.


Kjölur og afturstefni farin.  Reykjavík 19. september 2011


Skrúfan af Sumarliða.  Raykjavík 19. september 2011


Málningatillaga 1, Rikki R 19. september 2011


01.október. 2011
Í dag leit ég inn í Bátastöðina.  Þarna var búið að rétta Sumarliða við og kjölurinn kominn undir hann og neðri hluti framstefnisins.  Jón var búinn að teikna upp afturstefnið, þ.e. innri línuna.  Þá var verið að vinna við að hreinsa spansgrænuna af skrúfunni.  Nú er hægt að hefjast handa fyrir alvöru við lagfæringarnar.  Þegar ég var þarna mættu tveir heiðursmenn á staðinn, Jón Lárus Bergseinsson og Rögnvaldur Már Helgason.  Jón og Rögnvaldur ólust upp með Sumarliða.  Þá var mér sýndar gersemar sem fundust um borð í Sumarliða, kertastjaki, Kodak myndavél og Gucci ilmvatn.  Spurning um að bjóða í myndavélina?


Sumarliði á réttum kili, 01. október 2011


Búið að taka mót af hluta afturstefnisins, 01. október 2011


Unglingarnir þrír saman, Jón Lárus Bergsveinsson, Sumarliði og Rögnvaldur Már Helgason, 01. október 2011


Gull og gersemar, 01. október 2011

30. október 2011
Loksins gaf ég mér tíma til að kíkja á Sumarliða.  Litlar breytingar sem ég sá frá síðustu heimsókn.  Þá var komið mót fyrir afturstefnið og Jón Ragnar í óða önn að smíða afturstefnið.  Það er talsverð vinna að búa afturstefnið til sýnist mér.  Sonur Jóns var með honum á staðnum og sá litli sagðir ætla að verða eins og pabbi.


Eftirlíking af afturstefninu á sínum stað.  Bátastöðin 30. október 2011


Jón sýnir mér afturstefnið sem er í smíðum.  Bátastöðin 30. október 2011


"Ég ætla að vera alveg eins og pabbi".  Bátastöðin 30. október 2011















03.09.2011 15:07

Hallsteinsnessbáturinn

Þessi fallegi bátur er á Bátasafni Breiðafjarðar á Reykhólum.  Þar má lesa eftirfarandi um bátinn:

Hallsteinsnessbáturinn, sem svo er kallaður, er lítið tveggja manna far með breiðfirsku lagi.  Hann var smíðaður 1934 á Hallsteinsnesi við Þorskafjörð af Þorbergi Ólafssyni, síðar framkvæmdastjóra Bátalóns í Hafnarfirði.

Báturinn var hafður til almennra heimilisþarfa á Hallsteinsnesi - við selveiðar, eggjatekju, dúntekju og björgun kinda af flæðiskerjum.  Hins vegar var hann ekki notaður til fiskveiða þar sem fiskur gekk ekki svo langt inn Breiðafjörð.  Líka var báturinn notaður til flutninga af ýmsu tagi, bæði á fólki og varningi og var á tímabili helsta samgöngutæki við Þorskafjörð og Djúpafjörð. Tíðast var hann notaður til að fara út í flóabátinn Konráð.

Um 1960 var Hallsteinsnessbáturinn fluttur til Hafnarfjarðar og notaður við hrognkelsaveiðar um skeið.  Þá var sett í hann vél sem síðar  var tekin úr honum aftur og ber báturinn þess nokkur merki.  Hann var alla tíð í eigu sömu fjölskyldunnar uns hann var gefinn Sjóminjasafni Íslands árið 1986.  Ólafur Ólafsson, bróðir Þorbergs og fyrrum bóndi á Hallsteinsnesi, réri á bátnum frá Hafnarfirði.

Þess má geta, að efniviðurinn í bönd, stafnlok og kollharða var tré sem rak á land á Grenitrésnesi, suðaustur frá bænum á Hallsteinsnesi, þar sem Ása-Þór sendi Hallsteini landnámsmanni tré til öndvegissúlna eins og Landnámsbók segir frá.

Núverandi eigandi bátsins er Þjóðminjasafn Íslands en báturinn er í láni á Bátasafni Breiðafjarðar.


Einar Steinþórsson skoðar Hallsteinsnessbátinn, 31. júlí 2011

03.09.2011 14:54

Gola á Reykhólum

Sá þennan í sumar á Reykhólum þann 31. júlí 2011.  Gola heitir hann. 

Um þennan er sagt í Íslensk skip, eftir Jón Björnsson, 3. hefti, bls. 147
Smíðaður í Stykkishólmi1964.  Eik og fura.  1,67 brl. 24 ha. Bukh vél.
Eigandi Hallvarður Kristjánsson, Þingvöllum, Helgafellssveit frá 20. janúar 1986.  Eigenda ekki getið fyrir þann tíma.  Frá 28. janúar 1997 er báturinn skráður Gola SH.  Hann er skráður sem skemmtiskip í Stykkishólmi 1997.

31. júlí 2011 veit ég að Gola er í eigu Bátasafns Breiðafjarðar.


Gola á Reykhólum, 31. júlí 2011

03.09.2011 14:37

Dísa

Upp við vegg á Bátasafni Breiðafjarðar stendur hvítur bátur upp á endann.  Þetta er jullan Dísa.  Á bátasafninu má lesa eftirfarandi um Dísu.

Jullan Dísa var smíðuð í Hvallátum af bátasmiðnum og síðar bryggjusmiðnum kunna Aðalsteini Aðalsteinssyni, að líkindum á árabilinu 1950-56.  Hún var smíðuð fyrir Sigurgeir Tómasson á Reykhólum og ber nafn eiginkonu hans.

Dísa var alla tíð notuð sem skjöktbátur á Reykhólum.  Nú er hún í eigu afkomenda Sigurgeirs en hefur ekki verið notuð síðustu árin.

Á Hlunnindasýningunni á Reykhólum má sjá Dísu á gamalli ljósmynd, líklega frá miðbiki sjöunda áratugar liðinnar aldar.  Þar eru hálfbræðurnir Sigurgeir Tómasson og Þorsteinn Þórarinsson á leið í land úr selveiðiferð á vélbát með Dísu í togi en um borð í henni er pilturinn Hugo Rasmus.


Jullan Dísa, 31. júlí 2011

03.09.2011 14:09

Staðarskektan, Björg

Uppi í lofti á Bátasafninu á Reykhólum hangir bátur.  Þetta mun vera svokölluð Staðarskekta eða réttu nafni Björg.  Þessi bátur er fyrirmyndin af Vinfasti.  Hér eru upplýsingar um Staðarskektuna sem ég fann á blaði í bátasafninu.

Björg  (Staðarskektan)

Björg mun vera smíðuð í Hvallátrum veturinn 1916-17 af þeim feðgum Ólafi Bergsveinssyni og Gísla Ólafssyni.  Þá var Gísli 17 ára og var skektan smíðuð gagngert fyrir hann.  Hún mun bera nafn ömmu Ólafs, Bjargar Eyjólfsdóttur í Sviðnum (1815-1899).

Sumarið eftir fór Gísli á skektunni upp að Stað á Reykhólum og gerðist vinnumaður og síðar ráðsmaður hjá Jóni Þorvaldssyni prófasti.  Þau urðu afdrif Gísla, að hann fórst á skektunni síðla hausts árið 1925.  Hann lagði af stað með póst yfir á Grónes handan Þorskafjarðar en bátinn rak mannlausan upp í lendinguna á Stað nóttina eftir eða mjög skömmu síðar.

Staðarskektan var alla tíð á Stað og var að líkindum í notkun fram undir 1970.  Síðan lá hún þar á hvolfi þangað til sumarið 2005.

Hér að neðan má annars vegar sjá Staðarskektuna hangandi uppi í lofti á bátasafninu og svo Vinfast þar fyrir neðan.  Vinfastur var smíðaður eftir Staðarskektunni svo þarna er tvífarar á ferð.


Björg, Staðarskektan, Bátasafn Breiaðfjarðar 31. júlí 2011


Vinfastur, Húsavík 22. júlí 2011

03.09.2011 13:27

Ó-kindin

Ég kalla þessa kind, ó-kindina.  Af hverju?  Þessi var heimalingur í Krákuvör.  Hún var með tvö lömb og fólk hefur vanið hana á ýmsa ósiði.  M.a. hefur henni verið gefið ýmislegt góðgæti úr hnefa og hún leitaði alltaf aftur á sama stað.

Hún kom í heimsókn í Bræðraminni til að fá að borða, þegar við vorum þar, en hún fékk það ekki.  Hún jarmaði á okkur og fékk þá að heyra að Sóla væri ekki á staðnum.  Þá bað hún að heilsa Sólu og fór hnípin á brott með lömbin sín tvö.

Má til með að setja hér inn smá sögu varðandi þessa kind.  Magnús bóndi flutti fé sitt úr Flatey og úr í aðra eyju.  Þegar hann setti kindurnar á land þá fóru allar inn á eyju og fóru að bíta gras.  Þessi hins vegar stoppaði á brúninni, horfði á Magnús bónda með undrunarsvip.  Á svip hennar kvaðst Magnús hafa leisið, "Hvað ert þú að gera, ætlarðu að skila mig eftir hér, hvað á ég að borða".


Ó - kindin, 25. júní 2011

03.09.2011 13:06

Miklar hetjur í Flatey

Eitt af því sem gefur lífinu í Flatey gildi er að fylgjast með kríunni.  Til að sanna karlmennsku sína þá hefur það verið leikur að fara nálægt kríuvarpi og láta kríurnar ráðast á sig.  Þorbjörg og Elín Hanna ákváðu að gera þetta.  Þær settu upp skálar og fóru að brún varpsins.  Ekki entust þær nú lengi þrátt fyrir varnirnar.  Set hér inn nokkrar myndir.
Mynd 1. - Klukkan 19:03,16 miklar hetjur - Klukkan 19:03,23 flóttinn brast á - Klukkan 19:03,24 flótta lokið.  Myndirnar teknar í Flatey 29. júní 2011

 

 

03.09.2011 12:47

Stykkishólmur og Flatey

Ég næ stundum myndum af miklum höfðingjum.  Hér má sjá tvær myndir sem ég tók í sumar.

Á efri myndinni má sjá Berg og Einar Stein við afgreiðslu Sæferða áður en við lögðum af stað í Flatey í júní 2011.  Á neðri myndinni eru það Bent og Bjarni í Bergi sem ræða málin við frystihúsið í Flatey.


Bergur og Einar, Stykkishólmur 24. júní 2011


Bjarni og Bent, Flatey 25. júní 2011

02.09.2011 00:34

Kríur

Náði þessari myndaröð af kríum í Flatey á Breiðafirði.  Mér finnst þessi sería koma vel út.








Flatey 30. júní 2011

31.08.2011 14:07

Sauðfé á beit.......

Sauðfé á beit.  Núna í ágúst þá voru mjög fáar kindur í Flatey.  Hér er þó ein sem ég myndaði í háu grasi við Bræðraminnishjallinn.  Fannst þetta koma vel út þar sem hún er á kafi í grasinu en samt sér maður að hún er að éta grasið.  Spurning hvort hún taki ekki of stórtu upp í sig:)


Borðar hátt, grænt og safaríkt grasið.


Á kafi.....

31.08.2011 13:51

Systur í Flatey

http://rikkir.123.is/album/default.aspx?aid=213008Andrea Odda og Ísabella Embla skemmtu sér vel í Faltey í ágúst.  Hér eru myndir af þeim við leik o.fl..  Fleiri myndir úr Flatey ef þið smellið á myndirnar. 


Andrea Odda á flugi.


Feðginin lifa sig inn í tónlistina.


Skyr er gott.


Ekki alveg sátt.......

29.08.2011 23:56

Grænigarður

Ég fékk ákúrur þegar ég var í Flatey í ágúst.  Þú átt svo lítið af myndum af Grænagarði.  Ég vona að ég hafi náð að bæta úr því fyrir Helga og Höllu því ég fór nokkrar ferðir framhjá Grænagarði og passaði mig á því að taka myndir í hvert skipti.


Grænigarður, 07. ágúst 2011


Grænigerður, 07. ágúst 2011

29.08.2011 23:45

Frá Flatey

Ég var í Flatey á Breiðafirði í ágúst, reyndar var ég þar líka í júní en sé að ég á eftir að klára þær myndir.  Þær koma síðar.  Eins og ég sagði þá var ég í Flatey í ágúst og tók "örfáar" myndir þar.  Setti inn albúm með þessum fáu myndum og vona að þið hafið gaman af.


Plássið, eins og það kallaðist, 6. ágúst 2011


Félagshús, 06. ágúst 2011


Berg, Bogabúð og Bræðraminni, 06. ágúst 2011

25.08.2011 08:14

ABBA í Stykkishólmi

ABBA í Stykkishólmi.  Já, þetta er alveg satt, ég sá þá sjálfur.  Ekki er ég þó viss um að það verði haldnir tónleikar en hver veit.  Sú yfirlýsing hefur verið gefin út að ABBA komi aldrei saman.  Held að það geti samt verið möguleiki því tveir bátar sem báru nafnið ABBA voru í Stykkishólmi.  Sami eigandi af þeim báðum, hann stækkaði við sig.  Veit ekki hvort hann hefur selt þann minni en þessi möguleiki var fyrir hendi, þ.e. að ABBA kæmi saman.  Ég get þó alla vegna gert eitthvað í þessu og læt hér ABBA koma saman á myndum.


ABBA SH 37 í Stykkishólmi


ABBA SH 98 í Stykkishólmi

22.08.2011 00:25

Járnsmiðir

Eitt af því sem heillar mig eru járnsmiðirnir sem m.a. voru á menningarnótt.  Þetta eru oft mjög færir aðilar sem vinna þarna ýmis verk.  Þarna var m.a. verið að útbúa rósir og fannst mér það alveg magnað að sjá hverngi þeir unnu þetta.  Á neðri myndinni sést í rósir sem voru í vinnslu en þó finnst mér eins og ein þeirra sé tilbúin en veit það þó ekki.  Þetta voru flottir gripir.


Rós tekin úr eldinum, 20. ágúst 2011


Rósin hituð, 20. ágúst 2011

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 407
Gestir í dag: 222
Flettingar í gær: 236
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 347796
Samtals gestir: 32315
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 15:35:12