Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2011 Apríl

29.04.2011 00:02

Íslendingur eða Litla Gunna

Þessir var í Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011.  Þessi árabátur sem málaður er í íslensku fánalitunum og "fóðraður" að innan með gulri málningu hefur verið í Reykjavíkurhöfn lengi.  Ég hef alltaf verið að skoða það að mynda þennan bát en aldrei gert það fyrr en nú.  Fannst speglunin í sjónum koma vel út, minnir mig á útlönd einhvern vegin.


Íslendingur eða Litla Gunna.  Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011

29. apríl 2011 náði ég sambandi við Gunnar Snorrason eiganda bátsins.  Gunnar kvað þetta vera færeying og hann hafi fengið Jón Samúelsson á Akureyri til að smíða fyrir sig þennan bát.  Það hafi líklega verið um 1980 en báturinn væru um 30 ára gamall. 
Gunnar kvaðst í upphafi hafa kallað bátinn Litlu Gunnu, svo hafi hann farið að breyta litnum á bátnum og nú sé hann oftast kallaður Íslendingur.  Spurning að hafa það bara "Litla Gunna er Íslendingur".
Gunnar kvað bátinn óbreyttan frá því hann var smíðaður fyrir utan gólfið.  Hann kvaðst hafa látið smíða bátinn fyrir sig til að geta farið og fengið sér í soðið annað slagið.  Gunnar notast við 5 ha. rassmótor á bátinn.  Ég er búinn að vera með bátinn á Akureyri, Raufarhöfn og nú er hann hér í Reykjavík og þetta er hörku sjóskip, sagði Gunnar að lokum.

27.04.2011 00:36

Hafnarfjarðarhöfn 26. apríl 2011

Af bátum er það helst að Sigurborg II var sett aftur á flot í dag.  Ólafur Gíslason eigandi hefur líkast til verið að ditta eitthvað að bátnum.  Samkvæmt áreiðanlegum heimildum þá þurfti Ólafur að setja nýtt sink undir bátinn.  Þá kom Hafsúlan siglandi inn í Hafnarfjarðarhöfn.


7133 Sigurborg II HF 116 var aftur sett á flot í dag, 26. apríl 2011


Hafsúlan kom til Hafnarfjarðar seinnipartinn í dag, 26. apríl 2011

27.04.2011 00:14

Fuglar á Álftanesi

Leit við á Álftanesinu í dag og smellti myndum af því sem kallað er kviðdökk margæs eða austræn margæs en þær flokkast til flækingsfugla.  Þessar kviðdökku margæsir sjást hér nánast á hverju ári, ein og ein.   Hér sjáiði vel muninn á þessum margæsum og hvers vegna hún er kölluð kviðdökk.


Kviðdökk margæs til hægri.  Álftanes 26. apríl 2011

Þá er blessuð lóan líka komin til landsins og ég náði að smella einni af henni líka.  Þessi er merkt en því miður næ ég ekki að lesa á merkið.


Heiðlóa við Kasthúsatjörn á Álftanesi 26. apríl 2011

25.04.2011 22:53

Maðkavík í Stykkishólmi

Magga mín, hér er mynd af maðkavíkinni í Stykkishólmi.  Talsverður munur er á að sjá þetta svæði á flóði eða fjöru.  Set hér inn tvær myndir sem ég á af þessu svæði sem sýnir bæði hvernig þetta lýtur úr á fjöru og svo á flóði.  Mjög fallegt svæði.  Ég veit hins vegar að þú ert ekki hrifin af nafninu en fegurðin er áhrifameiri en nafnið, það get ég staðfest.  Neðsta myndin sýnir staðsetningu maðkavíkur betur, sem sagt neðan við kirkjuna, fyrir ykkur sem ekki vitið.


Við Maðkavík, 22. apríl 2011


Við Maðkavík, 21. febrúar 2010


Við Maðkavík, 25. desember 2010

24.04.2011 12:26

Páskar

Gleðilega páska allir mínir menn!  Ég vaknaði eins og í gamla daga og þá var þetta líka flotta páskaegg á náttborðinu.  Auðvitað braut ég það og las málsháttinn:  ALLIR MENN EIGA TVÆR ÆTTIR.  Þetta mun rétt vera, föðurættin og móðurættin.  En meðan ég las málsháttinn var útvarpsmessan í gangi og þar var verið að segja frá Jesú.  Mér var því hugasð til hans, eingetinn og allt.  Hann átti því ekki tvær ættir blessaður maðurinn.  Eftir þessa hugsun þá missti þessi málsháttur marks.


Eftir allt þetta hér á undan þá er hér "niðurbrotið" páskaegg.  24. apríl 2011

24.04.2011 00:38

Unga fólkið

Fjölskyldan á Breiðvangi fór og heimsótti fjölskylduna úr Sólarsölum í sumarbústað.  Það voru frábærar móttökur sem við fengum.  Ég smellti nokkrum myndum af ungviðinu en sleppti fullorðna fólkinu.  Fyrir ykkur sem hafði áhuga þá smelliði á myndirnar og þá sjáiði fleiri myndir.


Andrea Odda tók lagið og söng fyrir okkur.  23. apríl 2011


Elín Hanna og Róbert Max smelltu sér í heita pottinn.  23. apríl 2011


Ísabella Embla skoðaði táslurnar mjög vel.  23. apríl 2011

23.04.2011 02:16

Bátur Hildibrands í Bjarnarhöfn

Þessi var í Maðkavíkinni í dag, 22 apríl 2011, þegar ég átti leið þar um.  Hef ekki séð þennan áður en ég festi hann á kubb og svo er bara að sjá hverjir geta leiðbeint mér með þennan.

Eigandi bátsins er Hildibrandur Bjarnason í Bjarnarhöfn.  Gunnlaugur Valdimarsson var að gera við bátinn fyrir Hildibrand í vetur.

Báturinn var smíðaður af Rögnvaldi Krisjánssyni skipasmið kringum 1940-41.  Báturinn var seldur á Reyðafjörð.  Var búinn að standa eitthvað þegar Hildibrandur eignaðist bátinn fyrir um 15 árum síðan (kringum 1996).
Sumarið 2011, er báturinn orðin garðskraut í Garðabæ og eigandinn heitir Ágúst, sagði Gulli mér.
Ekki vitað hvað báturinn heitir.

Heimildir:
Gunnlaugur Valdimarsson, munnlegar upplýsingar.


Bátur í eigu Hildibrands í Bjarnarhöfn í Maðkavíkinni, 22. apríl 2011

23.04.2011 02:08

Farsæll frá Eyjum

Þessi bátur var fyrir utan hjá Gunnlaugi Valdimarssyni í Stykkishólmi.  Ég ræddi við Gunnlaug 25.04.2011.

Gunnlaugur kvað núverandi eigendur væru hann sjálfur og Erlendur (föðurnafn vantar).  Þeir hafi sótt bátinn s.l. haust norður að Eyjum í Strandasýslu en þar hafi báturinn legið nánast ónýtur.  Það hafi m.a. vantað efsta umfarið og borðstokkinn ásamt því að götu hafi verið víða á skrokknum.  Gunnlaugur sagði svona í gríni að báturinn hafi hangið saman af gömlum vana.
Gunnlaugur sagði mér að það væru skiptar skoðanir um hvar þessi bátur væri smíðaður, sumir vilja meina að hann sé smíðaður í Bátalóni en aðrir vilja meina annað miðað við bátalagið.
Í bátnum er 8-10 ha. Yanmar vél.

Gunnlaugur kvaðst ekkert vita meira um þennan bát en benti mér á að ræða við Eðvarð Jóhannsson.  Eðvað sagði að fyrri eigandi hafi verið Benjamín Sigurðsson Eyjum.  Benjamín mun alltaf hafa átt báta sem heiti Farsæll, en hann hafi verið með grásleppuútgerð. 

Hákon Örn Halldórsson skrifaði:  Farsæll kom að Eyjum um 1970 frá Hafnarfirði.  Mun vera smíðaður af bátasmið þar, Jóhanni Gíslasyni að hann minni.  Farsæll hafi ekki verið smíðaður í Bátalóni.

Þann 5. júní 2012 rak ég augun í Farsæl í Hafnarfirði.  Ég áttaði mig ekki í fyrsu á að þetta væri Farsæll en ég hitti á eigandann eftir að hafa smellt nokkrum myndum af bátnum.  Núverandi eigendur eru Sigtryggur Jónsson og barnabarn hans Sigtryggur Bjarnason.  Þeir keyptu bátinn af pari, einhverjum listamönnum sagði Sigtryggur sem bjuggu á Seltjarnarnesi.  Sigtryggur kvað þá vera búna að taka vélina í gegn, rifu hana stykki fyrir stykki og máluðu hana.  Vélin er klár til að fara í bátinn.  Sigtryggur sagði jafnframt að Sigtryggur yngri myndi koma á morgun, 6. júní, og brenna utanaf bátnum og skafa.  Sá yngri vill skipta um lit og hafa borðstokkana græna og skrokkinn hvítan.  Sigtryggur eldri sagði að nafni sinn fengi að ráða nafni bátsins, hvort það verður áfram Farsæll eða skipt um nafn á eftir að koma í ljós.

   
Farsæll frá Eyjum, Stykkishólmur 22. apríl 2011

04. júlí 2012.  Fór og skoðaði Farsæl til að sjá hvernig skveringunni miðar.  báturinn er nánast fullmálaður.  Vélin er klár, var gangsett í gær og fór strax í gang en á eftir að setja hana í bátinn. Plittina þarf að smíða upp.  Vagninn sem báturinn hefur verið á hefur verið málaður í stíl við bátinn.  Sigtryggur yngri sagði mér að það yrði ekki skipt um nafn á bátnum.  Hann hafi heitið Farsæll og Sigtryggur kvaðst vilja láta hann heita það áfram.


Farsæll er orðinn grænn.  Hafnarfjörður 04. júlí 2012


Yanmarinn klár.  Hafnarfjörður 04. júlí 2012

23.04.2011 02:03

Kafarar í Stykkishólmi

Tveir kafarar voru að leggja af stað í köfun í höfninni í Stykkishólmi í dag, 22. apríl 2011.  Ég tók nokkrar myndir af þeim allt frá því að þeir klæða sig, hoppa útí og synda í kafi.  Fleir myndir í albúmmi, Kafarar í Stykkishólmi.


Hopp, Stykkishólmur 22. apríl 2011


Báðir komnir útí, Stykkishólmur 22. apríl 2011


Á kafi.  Stykkishólmur 22. apríl 2011

23.04.2011 01:32

Farsæll

Farsæll var smíðaður 1946 af Gunnlaugi Valdimarssyni þegar hann var 19 ára gamall.  Hann hafi smíðað hann eftir skektu sem var í Rúfeyjum, litlu fjögurra manna fari, en það hafi verið búið að taka mót af bátnum.   Þetta hafi nú bara verið fikt hjá honum að smíða sér bát og hann hafi notið aðstoðar við að vinna viðinn en það hafi verið gamall mublusmiður sem hafi séð um það.   Gunnlaugur kvaðst vera búinn að gera bátinn upp þrisvar sinnum.  Í annað skipti hafi hann endurbyggt bátinn 1988 og svo aftur 2009-2010.

Núverandi eigandi á Farsæl er Þórarinn Sighvatsson Stykkishólmi.


Farsæll, Stykkishólmur 22. apríl 2011

17.04.2011 19:45

Lets fly a kite

Þegar ég sá þessa tvo menn á ferðinni í dag datt mér strax í hug að leikföng manna breytist lítið með aldrinum.  Þessir tveir hafa líklega haft gaman af að fljúga flugdrekum á yngri árum.  Þeir hafa þá lítið breyst því þeir eru enn að fljúga flugdrekum að vísu "örlítið" stærri en áður.  En ég læt myndirnar tala sínu máli en þær koma beint úr vélinni.
Ég rakst á þessa heiðursmenn aftur í gær (18.apríl 2011) og komst að því að hér voru Hjörtur Eiríksson (lærlingur) og Geir Sverrisson (kennari Hjartar) á ferð. 


Stórir strákar með flugdrekana sína.  Hlíðsnes 17. apríl 2011


Geir Sverrisson á fullri ferð.  Hlíðsnes 17. apríl 2011


Hjörtur Eiríksson kominn á fulla ferð.  Hlíðsnes 17. apríl 2011

13.04.2011 23:47

Fóðrun

Þegar ég var við Bakkatjörn að mynda kom fólk til að gefa fuglunum brauð.  Það eru skiptar skoðanir á þessum brauðgjöfum og ætla ég ekkert að tjá mig um það, með eða móti.  Búinn að fá nóg af svoleiðis kosningum undanfarið.  Hins vegar er gaman að sjá þegar afar og ömmur mæta með barnabörnin nú eða bara foreldrar.  Sum börnin dugleg og vilja líka borða brauðið, önnur vilja ná fuglunum og hlaupa um völt á fótunum o.s.frv.   Hér eru tvær sem teknar voru nánast á sama tíma.  Vel má sjá að sól er á fyrri myndinni en svo dró fyrir sólu og þá varð frekar gráleitt.


Afinn með barnabarnið.  Bakkatjörn 10. apríl 2011


Þessi vildi aðallega hlaupa á eftir öndunum.  Bakkatjörn 10. apríl 2011

13.04.2011 23:22

Vorkoman

Vorið er komið.........já, margt bendir til þess að vorið sé komið.  Veðrið hins vegar veit ekki alveg að vorið sé komið.  En hver eru mín viðmið með vorkomunni.  Jú, fuglakomur.  Á Bakkatjörn mátti sjá mikið fuglalíf og myndaði ég nokkra af þessum vorboðum. 
Eins og sjá má á neðstu myndinni, þá er tjaldurinn merktur.  Hægir fótur, svart, gult, hvítt.  Vinstir fótur, ál, rautt.  Hægt er að fá ýmsar upplýsingar um þennan fugl hjá Náttúrufræðistofnun.
Til gamans má einnig geta þess að fyrsti vorboðinn er sílamáfurinn en hann var mættur hér við land 17. febrúar 2011, en síðustu 10 ár hefur sílamáfurinn verið að koma á tímabilinu frá 11. febrúar - 11. mars en meðaltal frá 1998-2010 var 27. febrúar svo eigum við ekki að segja að vorið sé á undan áætlun.


Hettumáfur, komutími 2011 var 14. mars.  Bakkatjörn 10. apríl 2011


Stelkur, komutími 2011 16. mars.  Bakkatjörn 10. apríl 2011


Tjaldur, komutími 2011 02. mars.  Bakkatjörn 10. apríl 2011

13.04.2011 12:05

Erla

Rakst á þessa trillu utan við skúrinn hjá Ólafi Gíslasyni.  Hvað veit ég en þegar ég myndaði hann og skoðaði fannst mér hann frekar þreyttur.  Á eftir að ræða við Ólaf og heyra hvaðan þessi kemur og svo framvegis.  Hvort þessi er næstur í röðinni hjá Ólafi á eftir að koma í ljós en hann er nokkuð langt kominn með endurbætur á Kára.

Hér kemur smá speki frá mér, mín fyrstu kynni af þessari trillu!
Við mína fyrstu skoðun þá álikta ég að þessi bátur hafi staðið á landi, á hvolfi.  Af hverju á hvolfi, jú, ryðtaumar frá naglahausum liggja upp fjölina.  Þá hefur málningu verið slett á utanverðan bátinn og hann orðin gisinn og þá lekur málningin inn í bátinn og taumarnir liggja upp fjalirnar eins og sést á myndunum.  Þá finnst mér hann talsvert fúinn að ofan, hvort það þýði að hann hafi legið í grasi og farið því að fúna talsver, gæti verið.  Þetta er frekar smá trilla finnst mér.  Búið er að fjarlægja vélina út bátnum en skrúfan er enn til staðar ásamt öxli. 
Læt þetta duga um mína speki sem er engin.

Fleiri myndir í albúminu Erla eða smellið á myndirnar. 

Erla var upphaflega fjögurra manna far en var seinna breytt í vélbát.  Hann var smíðaður 1935 af hinum kunna bátasmið Valdimar Ólafssyni í Hvallátrum í Breiðafirði.  Þar sem um tíma aðalbátasmíðastöðin á Breiðafirði og bátar þeirra Látrafeðga víðfrægir.
Erla var hlunnindabátur í eigu Guðmundar Guðmundssonar bónda í Skáleyjum í um 40 ára skeið.  Eftir að Guðmudnur lést eignaðist Sveinn sonur hans bátinn.  Báturinn var aðallega hafður til selveiða en einnig við ýmsar ferðir í nálægar eyjar og sker, s.s. eggjaleit og dúntekju.  Erla var síðast notuð í Skáleyjum árið 1976 og eitthvað í Flatey á Breiðafirði og á Brjánslæk eftir það.

Eftirfarandi grein fann ég á víðnetinu, þetta er grein sem var skrifuð í Mbl. þriðjudaginn 29. september 1992.  Slóðin á greinina er hér http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=93567.  Upplýsingarnar hér að framan um bátinn eru fengnar úr þessari grein og frá Ólafi Gíslasyni.

Í dag lítur Erla svona út og á að fara að vinna í að gera hana upp.  Reyni að fylgjast með því eftir bestu getu.  Greinina úr morgunblaðinu má sjá fyrir neðan myndirnar.


Erla, Hafnarfjörður 04. apríl 2011


Erla


Lítil sem engin málning er lengur inní bátnum.


Morgunblaðið þriðjudaginn 29. september 1992

12.04.2011 23:59

Svanavatnið

Leit við á Bakkatjörn í dag og horfið á "svanavatnið".  Þarna var eitt par sem vildi ráða ríkjum á tjörninni.  Karlinn réðist að öðrum álftum og hrakti þær á brott.  Kom síðan að kerlu sinni og hafði hátt, hún tók á móti honum með útrétta arma.  Þau hneigðu sig hvort fyrir öðru og héldu svo af stað í rómantískan sundtúr saman.  Mjög áhrifarík sena í þessu þekkta verki.  Hér eru fjórar myndir sem lýsa þessu líka.


Karlinn kom á fullri ferð ef vel unnið verk og frúin tók honum opnum örmum.


Hún lýtur höfði, ber mikla virðingu fyrir honum, hann er sterkur og hugrakkur.


Þá hneigir herran sig fyrir frúnni.


Orðin sátt og lögðu af stað í göngu ég meina sundtúr.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 22
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 3154259
Samtals gestir: 237149
Tölur uppfærðar: 30.5.2020 01:22:35