Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2011 September

22.09.2011 17:51

Rikka tjörn

Nú þegar ákveðin áfangi er að nást í mínu lífi varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að fá ákveðið landsvæði nefnt eftir mér.  Jú, alveg satt.  Sjáiði bara:


Skiltið afhjúpað, 22. september 2011


Ræðumaður dagsins, 22. september 2011

Þessu verður að fylgja smá skýring.  Þessi tjörn hefur ekki heitið neitt svo ég viti til.  Ég keyrði þarna framhjá á hverjum degi og tók eftir því að þarna fóru að koma fleiri og fleiri fuglar.  Ég var ákvðin í því að finna fyrsta flækingsfuglinn í þessari tjörn sem ég og gerði.  Sá gráhegra.  Vandamálið var að segja hvar ég hefði séð hann.  Ég fór því að kalla tjörnina Rikka tjörn og menn hafa nú aðeins gert þetta.  Nú hins vegar er þetta orðin staðreind, Rikkatjörn heitir hún.

Ég vil þakka öllum þeim sem gerðu þetta kleift.  JD, HR, SJ, AA og ÁÖG fá öll sérstakar þakkir.  Þá vil ég geta þess að ÁÖG sá um myndatökuna.  Enn og aftur, takk fyrir mig og ég er grátklökkur...............................sennilega..................:)

E.s. Ef einhver veit betur varðandi nafn á þessari tjörn er hann vinsamlega beðinn um að halda því út af fyrir sig.

18.09.2011 21:22

Scandia

Þessi hefur þjónað sínum tilgangi og er orðin þreytt eins og sjá má.  Mörgum gæti þótt þessi gripur eigulegur þrátt fyrir allt.  Þessi eldavél er af gerðinni Scandia.  Þegar ég sá hana fannst mér ástæða til að mynda hana.  Það var eitthvað við þetta sem mér fannst flott.


Gömul og góð...10. september 2011

16.09.2011 22:38

Hreifi ÞH 77

5466  Hreifi ÞH-77
Baldur Pálsson smíðaði bátinn árið 1973. Fura og eik. Stærð: 1,50 brl. Afturbyggður opinn súðbyrðingur.   Smíðaður fyrir Héðinn Maríusson sem átti bátinn í tólf ár, báturinn hefur alltaf verið á Húsavík.  Núverandi eigandi er Héðinn Helgason, barnabarn Héðins.
Báturinn hefur frá upphafi heitið Hreifi ÞH-77.


5466 Hreifi ÞH 77, Húsavík 19. júlí 2011

16.09.2011 22:04

Framfari frá Löndum

Á göngu minni um hafnarsvæðið á Húsavík rak ég augun í hann þennan, Framfari frá Löndum.  Á víðnetinu sló ég inn nafninu og datt inn á aba.is.  Þar má finna allt um bátinn og ég tók mér leyfi til að setja þá frásögn hér inn

Um bátasmiðinn segir Árni Björn m.a.:
Þorgrímur Hermannsson, Hofsósi.            ( 1906 - 1998 )
Þorgrímur Hermannsson var sjálfmenntaður í skipasmíðum. Hann stundaði útgerð frá Hofsósi yfir sumarmánuðina en notaði veturna til smíða.
Í upphafi smíðaferils síns annaðist hann viðgerðir á bátum en fór í framhaldi af því að fást við nýsmíðar. Báta sína byggði Þorgrímur í gömlu rafstöðinni á Hofsósi og uppi á lofti í samkomuhúsi staðarins, Skjaldborg.

Sæfaxi SK-80. 
Stærð: 3,25 brl. Smíðaár 1960. Fura og eik. Súðbyrðingur.
Afturbyggð trilla með lúkar.
Smíðaður fyrir Steinþór Jónsson, Barða Steinþórsson og Jón Steinþórsson, Hofsósi og áttu þeir bátinn í sex ár en seldu hann þá til Grímseyjar þar sem hann fékk nafnið Sæfaxi EA-56.
Nafngiftina á bátnum má rekja til þess að bræðurnir Steinþór og Geirmundur Jónssynir áttu lengi bát, sem Kristján Þorsteinsson, Naustum á Höfðaströnd smíðaði og hét sá Sæver SK-35 og er fyrrihluti nafnsins þaðan ættaður. Seinnihluti nafnsins er komið frá hestinum Faxa, sem þjónaði búi þeirra bræðra að Grafargerði og var í miklu uppáhaldi hjá öllu heimilisfólki.
Ekki er nákvæmlega vitað hvað á dag bátsins dreif eftir að hann fór frá Grímsey né hvað hann hafði langan stans í eyjunni. Sennilegast er þó að frá Grímsey hafi hann farið beint austur fyrir land til Kristjáns Þorsteinssonar frá Löndum í Stöðvarfirði. Hjá Kristjáni hét báturinn Framfari SU.
Árið 2010 var bátinn að finna í Sandgerðisbót á Akureyri en úr höfninni sigldi hann þetta ár til Húsavíkur þar sem hann er nú staðsettur.
Báturinn mynnist enn við dætur Ránar og heitir nú "Framfari frá Löndum" og eru eigendur bræðurnir Guðmundur og Halldór Guðmundssynir og Björn Axelsson, Akureyri.
Einn af fyrstu eigendum bátsins Barði Steinþórsson hefur staðfest að "Framfari frá Löndum" sé sami bátur og Sæfari SK-80.
Sama sinnis er Vilhjálmur Geirmundsson, sem eitt sinn var skipsverji á Sæfara en býr nú að Eyri í Sandgerðisbót á Akureyri og hefur bátinn daglega fyrir augunum.
Ef huganum er rennt að nafngiftinni "Framfari frá Löndum" þá ætti hún ein og sér að duga bátnum til siglinga um öll heimsins höf.
Heimildir: 
Hjalti Gíslason, Hofsósi.  Vilhjálmur Geirmundsson, Akureyri. Barði Steinþórsson, Sauðárkróki. Elís P. Sigurðsson, Akureyri.


Framfari frá Löndum, Húsavík 21. júlí 2011

16.09.2011 21:49

Pési á Húsavík

Þennan sá ég á Húsavík þegar ég gékk um hafnarsvæðið á Sail Húsavík.

Eigendur bátsins eru Pétur Fornason, Fornhaga, Árni Pétur Hilmarsson í Nesi og Þorsteinn Halldórsson Birgisholti. 

Pési ex Litli Latur EA 90 (9832)
Smíðaður af Þorgrími Hermannssyni á Hofsósi 1984.  Stærð: 1,26 brl. Fura og eik.  Petter vél.  Opinn súðbyrðingur. 

Vilhjálmur Sigtryggsson á Húsavík kaupir bátinn nýjan af Þorgrími.  Þó talið að báturinn hafi ekki verið smíðaður fyrir Vilhjálm heldur fyrir annan aðila sem síðan hafi hætt við kaupin.  Vilhjálmur heyrði af þessum bát og fór og skoðaði hann, þá nýbúinn að selja bát sem hann átti og hét Latur.  Vilhjálmur kaupir svo þennan bát og nefnir hann Litla Lat.

Einar Þorgeirsson í Grímsey kaupir síðan bátinn af Vilhjálmi.  Báturinn er lögskráður 1990 og þá á nafni Óttars Þórs Jóhannssonar, Grímsey, tengdasonar Einars.  Báturinn er felldur af skrá 9. desember 1992.  Að sögn Júrunnar, ekkju Einars, hafi nafnið á bátnum verið Litli Latur þegar hann kom til Grímseyjar.  Jórunn hafi sagt að báturinn hafi komið einhversstaðar af austan til Grímseyjar, líklega frá Þórsöfn á Langanesi. Jórunn seldi bátinn suður. 

Kaupandi var Gunnar Kristjánsson slökkviliðsmaður.  Hann hafi verið með bátinn við Selvatn við Reykjavík.  Þar hafi báturinn verið tekinn á land og fúnað að ofan. Vélin í bátnum var Petter. 

Næstu eigendur eru síðan Garðar Héðinsson, Árni Pétur Hilmarsson og Þorsteinn Halldórsson.  Garðar sótt bátinn suður, um 2004.  Fyrst hafi verið farið með bátinn á Hornafjörð í geymslu, þar sem hann hafi líklega verið í um eitt ár.  Þaðan var farið með hann á Vopnafjörð þar sem hann dagaði eiginlega uppi.  Þaðan var síðan farið með bátinn í Aðaldal.  Þeir hafi ætlað sér að gera bátinn upp en það hafi lítið orðið úr framkvæmdum.  Þeir hafi svo fengið Pétur í Fornhaga til aðstoðar til að gera bátinn upp fyrir hlut í bátnum.  Pétur hafi gert bátinn upp og kvaðst Garðar svo hafa sett nýja vél í bátinn, Volvo 1 cy. ásamt Pétri.  Garðar kvaðst svo hafa eftirlátið Pétri sinn hlut þannig að Pétur á núna helming í bátnum á móti Árna Pétri og Þorsteini.

Pétur kvaðst hafa gert bátinn upp, skipt um efsta umfarið alveg, ásamt borðstokk.  Hann hafi einnig skipt um hluta tveggja umfara í viðbót.  Skipt um bönd og saumað bátinn upp þar sem þurfti.
Pétur vildi meina að Pési væri smíðaður í Færeyjum.  Hann væri mjórri en aðrir bátar af sömu gerð.

Í dag heitir báturinn Pési.  Nafnið Litli Latur tapaðist einhversstaðar í öllum fluttningum bátsins um landið.

Smá um smiðinn, Þorgrím Hermannsson.
Þorgrímur Hermannsson var sjálfmenntarðu í skipasmíðum.  Hann stundaði útgerð frá Hofsósi yfir sumarmánuðina en notaði veturna til smíða.  Í upphafi smíðaferils síns annaðist hann viðgerðir á bátum en fór í framhaldi af því að fást við nýsmíðar.  Báta sína byggði Þorgrímur í gömlu rafstöðinni á Hofsósi og uppi á lofti í samkomuhúsi staðarins, Skjaldborg.
Allir bátar Þorgríms voru súðbyrðingar en við smíði slíkra báta eru notuð mót, sem kallast spantar.  Þorgrímur hafði aftur á móti þann hátt á að leggja neðstu borð frá kili nánast fríhendis en með vissum gráðuhalla.  Minnkaði þetta mjög alla vinnu við smíðina þar sem spannta þurfti þá aðeins að smíða vegna frágangs á tveimur til þremur efstu umförunum.

Upplýsingar:
Pétur Fornason, Fornhaga, munnlegar upplýsingar.
Árni Pétur Hilmarsson, Nesi, munnlegar upplýsingar.
Garðar Héðinsson, Laxárvirkjun, munnlegar upplýsingar.
Halldór Jóhannsson, Þórshöfn, munnlegar upplýsingar. (Bróðir Óttars Þórs Jóhannssonar)
aba.is


Pési, Húsavík 21. júlí 2011

13.09.2011 23:46

Varðandi brúna

Varðandi brúna þá er smá misskilningur á ferðinni.  Sá sem sagði mér að brúin væri á Kóngsveginum var að tala um aðra brú, ruglaðist á brúm.  Kóngsvegurinn liggur að vísur þarna rétt hjá en er ekki þarna.  Leiðrétti þetta á færslunni um brúna.  Þessi brú er líkast til byggð af breska hernum og er ég að láta skoða það fyrir mig.  Vonast til að fá upplýsingar fljótt.

Varðandi staðsetningu brúarinnar þá er hér loftmynd sem sýnir hvar brúin er, en þarna er Suðurlandsvegurinn, bærinn Hólmur og svo brúin þarna neðst til vinstri á myndinni.  Ég var á ferðinni um kl. 09:30 og þá lýsti sólin um hlið brúarinnar.  Svo á ég eftir að kíkja seinnipartinn og fá hina hliðina upplýsta.




Myndir úr Borgarvefsjá.

13.09.2011 20:58

Þessi er flottur

Ég vil meina að ég hafi verið nokkuð duglegur við að mynda gamla báta og jafnvel finna sögu þeirra.  Ég rakst á einn núna fyrir nokkrum dögum og verð að segja að þessi er með þeim betri sem ég hef séð.  Þetta er árabátur af bestu gerð, hver smiðurinn er veit ég ekki.  Hins vegar er handbragðið mjög fagmannlegt.  Eigandinn hefur tekið negluna úr, fyrir þó nokkru síðan, til að láta bátinn þétta sig "aðeins".  Þá má sjá að eigandinn er með einkabryggju og því gott að leggja upp að og landa.  Enn er ekki kominn löndunarkrani en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.  Lifi einkaframtakið!


Árabátur af bestu gerð.  10. september 2011

11.09.2011 21:51

5420, Freyr KÓ 47

Báturinn var smíðaður af Magnúsi Þorsteinssyni á Borgarfirði eystra 1972.  Eik og fura, 3.01 brl. 22 ha. Thornycroft vél.
Eigendur frá 9. maí 1972 voru Gunnar Arason og Helgi Björnsson, Dalvík.  Seinna eignaðist Gunnar bátinn einn en selidi hann 23. maí 1980 Bjarna Elíassyni, Akureyri.  Seldur 2. maí 1983 Guðjóini Björnssyni frá Gerði, Vestmannaeyjum, hét Gaui gamli VE 6.  Seldur 10. september 1985 Gunnari Þór Þorbergssyni, Vestmannaeyjum, hét Ari VE 42.  Seldur 16. október 1985 Rúnari Gunnarssyni, Akranesi.  Seldur 22. nóvember 1985 Bjarna Elíassyni, Mýrum, Kaldrananeshreppi, og Magnúsi Guðjóni S. Jónssyni, Hafnarfirði.  Báturinn hét Hafrún ST 144, skráður á Drangsnesi.  Seldur 3. nóvember 1989 Ágústi G. Kristinssyni, Skipholti, Vatnsleysustrandarhreppi.  Báturinn bar saman nafn og númer og heimahöfn var Drangsnes.  Seldur 8. nóvember 1990 Skagstrendingi hf. Höfðahreppi.  Seldur 21. nóvember 1991 Ágústi G. Kristinssyni, Skipholti.  Frá 14. febrúar 1992 heitir báturinn Kristín GK 73 og er skráður í Vogum 1997.

Þessar upplýsingar koma úr Íslensk skip, bátar, eftir Jón Björnsson, 1. bindi bls. 136, 5420 Kópur EA 400.

Það sem ég veit til viðbótar er að þessi bátur hét Maggi Þór GK 515 í maí 2010.  Í dag heitir báturinn hins vegar Freyr KÓ 47 og hefur verið í Hafnarfjaðarhöfn.  Í skipaskrá er sagt að vélin í bátnum sé Sabb 1973 módel.  Hvort það sé rétt má reikna með að skipt hafi verið um vél, nema skráning í Íslensk skip hafi ekki verið rétt?


5420 Freyr KÓ 47, Hafnarfjarðarhöfn 11. september 2011

11.09.2011 21:12

Hrísastelkurinn

Hrísastelkurinn er enn í Hafnarfirði.  Ég komst nú talsvert nærri honum í dag eða í um 6-7 metra færi.  Tók slatta af myndum af fyrirsætunni sem var þokkalega róleg.  Hér má sá nokkrar myndir og fleiri eru í albúmi.  Smellið á myndirnar.


Standa rétt..........11. september 2011


Gæsagangur...........11. september 2011


Moonað.............11. september 2011


Hrísastelkur, 11. september 2011

11.09.2011 01:42

Kobbi

Jón Ragnar er kominn með enn einn bátinn inn hjá sér.  Þessi heitir Kobbi.  Jón Ragnar verður að segja mér nánar frá þessum næst þegar ég hitti hann. 

Meira síðar.................


Kobbi, 10. september 2011

11.09.2011 01:27

Hafravatnsbáturinn

Keyrði upp að Hafravatni 10. september og rak þá augun í þennan bát sem ég tók myndir af.  Veit ekkert um hann en vonast til að geta haft upp á eigandanum fljótlega.  Báturinn ekki í góðu standi.  Ég mun kalla hann Hafravatnsbátinn svo ég finni hann aftur í skránum mínum.

Eigandi bátsins heitir Sveinn Guðmundsson húsgagnasmiður.  Báturinn er smíðaður í Noregi og var fluttur inn um 1965 með Arnarfellinu. Sveinn hefur alla tíð átt bátinn.  Hann sagði mér að báturinn hafi verið smíðaður sem seglbátur og sé fantagóður sem slíkur.  Hann kvaðst auðvita geta sett á hann utanborðsmótor þar sem hann væri með gafli en kvaðst aldrei hafa gert það.

Varðandi skemmdir á bátnum sagði Sveinn að hann hafi verið í geymslu sem líklega hafi verið of þétt og lítið loftað um bátinn.  Þá hafi líklega komist smá vatn í hann og því hafi hann skemmst.  Sveinn kvað meininguna að gera bátinn upp.  Hvenær það yrði væri ekki ljóst.  Hann kvaðst hafa áhuga á að fá timbur frá Noregi. 

Frá því báturinn kom til landsins hefur hann alla tíð verið á Hafravatni og Sveinn kvaðst hafa siglt honum mikið.  Þar sem báturinn hefur ekkert nafn þá ætla ég að halda nafninu sem ég gaf honum, Hafravatnsbáturinn.


Hafravatnsbáturinn, 10. september 2011

11.09.2011 00:33

Brú

Ég sagði hér að þessi brú væri líklega síðan á stríðsárunum.  Ég hef reyndar ekkert fyrir mér í því, og þó.  Ég spurði mér fróðari menn um þessa brú og var sagt að þessi brú væri á svonefndum Kóngsvegi og væri því líklega frá 1907.  Mjög líklega hefði herinn svo lagfært brúna.

Við skoðun á brúnni þá tel ég nokkuð ljóst að þessi brú er ekki frá því 1907, þetta er bara mín skoðun.  Undir brúnni, á brúargólfinu eru nokkrar fjalir sem eru með merkingum.  Brúarstæðið gæti verið frá þeim tíma en ekki þessi brú.  Brúin er farin að láta verulega á sjá.  Steyptu veggirnir við endana á brúnni eru að grotna niður.  Stál farið að ryðga talsvert. 

Við nánari skoðun í dag, 13. september kom í ljós að smá ruglingur hafði orðið, brúin er ekki á svokölluðum Kóngsvegi.  Kóngsvegurinn liggur þarna rétt hjá.  Brúin er líkast til byggð á stríðsárunum og vonast ég eftir svari frá breska sendiráðinu um það fljótlega.

Ég mun halda áfram að gramsa og reyna að finna eitthvað um þessa brú, mér og vonandi öðrum til ánægju.

09. janúar 2012 fékk ég símhringingu.  Þar var maður sem sagði að þessi brú hafi verið smíðuð af hernum árið 1941.  Herinn hafi verið með aðsetur þarna fyrir ofan og í fyrstu hafi þeir ekið þarna um vað en síðan byggt þessa brú.  Hann mundi ekki hvort það var Breski eða Bandaríksi herinn sem smíðuðu brúna.  Þá sagði hann mér að þessi á héti ekki Hólmsá heldur mynnti hann að hún héti Suðurá.

Ég verð að þakka einum manni.  Jóhann Davíðsson vinnufélagi minn, þú ert lang bestur.  En ykkur hinum til fróðleiks þá var það Jói sem vísaði mér á brúna.  Hann hefur jafnframt vísað mér á nokkra aðra staði sem ég hafði ekki hugmynd um að væru til.  Enn og aftur, Jói Davíðs, þakka þér, vinur minn.




Brú, 10. september 2011


Brú, 10. september 2011


John Thompson 1940, 10. september 2011


Dekkið á brúnni er boltað saman, 10. september 2011

10.09.2011 23:49

Hlið

Á ferð minni í dag þá varð þetta hlið á vegi mínum eins og margt annað.


Þetta hlið varð á vegi mínum.  10. september 2011

10.09.2011 23:39

Nágrennið

Ég tók smá rúnt í morgun um nágrenni Reykjavíkur.  Margt skemmtilegt að sjá og mynda.  Birtan ágæt þrátt fyrir öskumistur en það var hægt að komast hjá því að mestu.  Hér eru nokkrar myndir frá því í dag og fleiri í albúmi.  Smellið á myndirnar.


Gate to heaven.  10. september 2011


Þessi er orðinn lúinn.  10. september 2011


Þetta hús er að hrynja,..........  10. september 2011


eins og sjá má.  10. september 2011

08.09.2011 22:00

Bátastöð

Ég legg oft leið mína í Bátastöðina til að taka myndir af bátum sem verið er að gera upp.  Þar hef ég hitt á margan manninn og fleiri báta.  Helstu menn eru, Hafliði Aðalsteinsson, Jón Ragnar Daðason, Agnar Jónsson og Hilmar Thorarensen.  Helstu bátar: Svalan, Hanna ST, Kári, Sumarliði, Gautur og margir fleiri.  Nú er búið að flíkka uppá Bátastöðina og skreyta.  Húsnæðið tekur sig betur út núna með því litla sem gert var.  Myndir af því síðar en hér er ein af skreytingunum á gólfi hússins.


Bátastöð, 06. september 2011

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 442
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311847
Samtals gestir: 29928
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 08:19:56