Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

09.03.2021 12:12

Hrefna ST-41

Hrefna ST 41

Þessi bátur varð á vegi mínum þann 23. apríl 2013, þar sem hann stóð innan girðingar úti á Granda.  Ekki hef ég hugmynd um hvaða bátur þetta er og þætti mér vænt um að ef einhver veit eitthvað um hann að senda mér línu.

Fleiri myndir í albúmi.  Smellið á myndina.

Meira síðar..........................

Magnús Ólafur Hansen skrifaði í athugasemdir: Hef óljósan grun um að þessi bátur hafi verið smíðaður af Jörundi Gestssyni frá Hellu í Steingrímsfirði, hann smíðaði marga báta með gafli og málaði þá mjög gjarna gula eins og sést undir hvítu málningunni

Eftirfarandi fann ég á síðunni aba.is.


Hrefna ST-41

Stærð: 1,76 brl. Smíðaár 1942. Fura og eik.
Súðbyrðingur. Trilla. Vél óþekkt.
Smíðaður fyrir Einar Hansen, Hólmavík.  Um 1950 lengdi Jörundur bátinn og borðhækkaði hann um eitt umfar.  Báturinn mældist eftir þessa breytingu 3,00 brl.
Lífssigling bátsins er móðu hulin en árið 2013 tók Ríkarður Ríkarðsson meðfylgjandi mynd af báti sem að áliti Magnúsar Ólafs Hansen gæti verið Hrefna ST-441.
Skrásetjari telur að þarna sé rétt til getið enda leynir bátslagið ekki handbragði Jörundar.  Vélin sem í bátnum var þá myndin var tekin er af gerðinni SABB.  Hvað um bátinn varð eftir myndatökuna er óþekkt.

Heimild: Vígþór Jörnudsson, Hellu Selströnd.



Hrefna ST-41, Reykjavík 23. apríl 2013

Framhald:  Þegar ég keyrði um Hafnarfjarðarhöfn 19.04.2017 rak ég augun í græna trillu sem mér fannst ég eiga að kannast við.  Þrír karlar voru þarna, tveir af þeim eigendur bátsins, Samúel Ingi Þórisson og Víðir.
Samúel taldi bátinn vera norska smíði, það væri upprunaleg vél í honum SABB 10ha.

Þeir keyptu bátinn sumarið 2016.  Þeir eru búnir að vera að vinna við að gera bátinn upp m.a. hafa þeir skipt um lunningar, skipt um hluta af báðum síðum, negldu hann upp fyrir sjólínu, skiptu um öll bönd, skiptu um þóftubönd, skiptu um þóftur, ný sæti undir vélina, nýtt stýri, ný plitti.

Þessi bátur stóð úti á Granda, Örfriseyjarsvæðinu.  Þar rakst ég á bátinn og myndaði 23.apríl 2013.  Nafnið á bátnum, Hrefna, kemur frá Tálknafirði, var gamla nafnið á bát Víðis sem hann átti og er nafn frænku Víðis.

Heimild: Munnlegar upplýsingar frá Samúel Inga Þórissyni annars eiganda bátsins 2017.




Þann 09.mars 2021 skrapp ég í bryggjuferð og þá var Hrefna að koma siglandi inn í höfnina. Ég smellti af og fór svo og ræddi við skipstjórann og eiganda bátsins.  Báturinn var sjósettur s.l. laugardag og var í smá prufutúr í dag.  Breyting var á útliti bátins, smíðaður var hvalbakur á bátinn s.l. vetur.  Vélin í bátnum er SABB árgerð 1970.  Eigandinn taldi að það hafi verið Eyjólfur Einarsson bátasmiður, eða eins og hann orðiði það að sá sem smíðaði bátinn hafi verið gamli bátasmiðurinn í Hafnarfirði sem átti bátinn við Byggðasafnið.


Hrefna á siglingu í Hafnarfjarðarhöfn, 09.mars 2021.  Ljósmynd: Ríkarður Ríkarðsson

24.02.2021 22:16

Öxney

Öxney

Báturinn var fullsmíðaður árið 2016.  Báturinn er 5,85 m. að lengd, 2,02 m. á breidd og 0,93 m. á dýpt.  Í honum er 30 ha. Yanmar vél.  Báturin er smíðaður úr furu og eik og er með utanáliggjandi stýri. Eigandi bátsins er Sturla Jóhannesson frá Öxney á Breiðafirði.  Bátinn hyggst Sturla nota við hefðbundnar hlunnindanytjar við Breiðafjörð.


Byggingasaga þessa báts er um margt sérstök.

Félag áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR) hefur staði fyrir námskeiðahaldi í gerð súðbyrðinga í samvinnu við Iðu fræðslusetur. Tilgangur námskeiðanna er að viðhalda þekkingu í gerð og vinnubrögðum við smíði slíkra báta sem hafa verið smíðaðir allt frá landnámi og byggja á smíðahefð víkingaskipanna. 

Hafliði Már Aðalsteinsson skipasmíðameistari frá Hvallátrum á Breiðafirði og Eggert Björnsson bátasmiður hafa annast kennslu á námskeiðunum.

Í byrjun árs 2012 hannaði Hafliði og teiknaði bát sem er byggður á hefðbundnum breiðfiskum hlunnindabátum en aðeins breiðari og dýpri en þeir voru.  

Hafliði notaði síðan hönnunina á 6 námskeiðum sem haldin voru frá því í febrúar árið 2012 og fram í mars 2013. Alls tóku um 50 menn þátt í námskeiðunum. Lagður var kjölur að bátnum og hann síðan fullbyrtur og sett í hann 4 bönd. 

Síðan hefur ekkert verið unnið í bátnum þangað til í vetur (2016) að Hafliði og Eggert tóku sig til og kláruðu að smíða bátinn og setja niður vélbúnað og fullgera hann.


Ráðgert er að sjósetja nýjan súðbyrtan bát í Kópavogshöfn á laugardaginn 7. maí 2016 nk.

Sturla Jóhannsson frá Öxney á Breiðafirði keypti bátinn og hefur gefið honum nafnið Öxney.

Heimild: Bátasmíði.is Nýr súðbyrðingur sjósettur (batasmidi.is)


Öxney á fullri ferð í Stykkishólmi, Sturla við stýrið, 11.ágúst 2018.  Ljósmynd: Ríkarður Ríkarðsson

24.02.2021 22:03

Sigurður Jónsson, Skagaströnd

Sigurður Jónsson HU-18.    (5256)

Báturinn var smíðaður á Skagaströnd 1966.  Stærð: 3,07 brl. Smíðaár 1966. Fura og eik.  Afturbyggður opinn súðbyrðingur. Vél 8 ha. SABB.

Bátinn teiknaði og smíðaði Björn Sigurðsson Jaðri, Skagaströnd, fyrir syni sína Hallbjörn og Sigurð Björnssyni.  Þessi bátur var fyrsti báturinn sem Björn Sigurðsson hannaði og smíðaði.

Báturinn var ekki skráður hjá Siglingastofnun fyrr en árið 03.maí 1974 og þá á Björn Sigurðsson, Skagaströnd.

Í upphafi var báturinn aðeins nefndur Sigurður en við skráningu hans bættist Jónsson við þar sem einkaleyfi var á Sigurðar nafninu.

Báturinn var gerður út á færi og grásleppuveiðar frá 1965 til ársins 1980 en þá lagður til hliðar og settur í geymslu.

Báturinn hét Sigurður Jónsson HU-18, með heimahöfn á Skagaströnd, er hann var felldur af skipaskrá 24. nóvember 1986 með þeirri athugasemd að hann hafi ekki verið skoðaður árum saman.

Heimildir:  Siglingastofnun. "Sjósókn frá Skagaströnd."


Sigurður Jónsson í höfn á Skagaströnd 11.júlí 2020.  Ljósmynd: Ríkarður Ríkarðsson


Þann 11.júlí 2020 tók ég myndir af bátnum í höfninni á Skagaströnd og greinilegt að vel er hugsað um bátinn.

Heimild: aba.is og viðtal við einn eiganda bátsins.

24.02.2021 21:34

Nafnlaus, Trékillisvík

Nafnlaus bátur.

Þann 14.júlí 2020 vorum við hjónin á ferðinni á Vestfjörðum n.t.t. í Trékillisvík.  Þá kom ég auga á þennan fallega bát í fjörunni neðan við bæinn Árnes í Árneshreppi.  Rætt var við eiganda bátsins.

Núverandi eigandi bátsins er Ingólfur Benediktsson Árnesi 2, Árneshreppi.  Hann sagði bátinn hafa verið smíðaðann fyrir föðurbróður sinn einhverntíma á árunum 1944-1947.  Báturinn hefur aldrei borið neitt nafn.  Ingólfur sagði að báturinn hafi mest verið notaður í dúntekju úti í eyjunum.


Nafnlaus bátur í Trékillisvík, 14.júlí 2020.  Ljósmynd: Ríkarður Ríkarðsson

18.07.2020 18:11

Helga HU 30

Helga HU-30

Báturinn er smíðaður 1955 af Nóa Kristjánssyni bátasmið á Akureyri, fyrir Ernst Berndsen, Karlskála Skagaströnd og átti hann bátinn þar til að hann lést 83 ára gamall 1083.  Stærð bátsins er 1,50 brl. Fura og eik.  Opinn súðbyrðingur, trilla.  Vél 18 ha. SABB.
Þess má geta að báturinn var sérstakur að því leiti að stefni hans og skutur voru hærri en hefðbundið var hjá Nóa.  Var þessi háttur hafður á að ósk eigandans, Ernst Berndsen.
Samkvæmt skráningu Siglingamálastofnunar var báturinn afskráður 24. nóvember 1986 með þeirri athugasemt að hann hafi ekki verið skoðaður árum saman.
Afskráningu þessa lifði báturinn samt af og er nú, árið 2014, í eigu Hendriks Berndsen og Ernst Berndsen.
Báturinn hefur lítið eða ekkert verið settur á flot eftir lát Ernst Berndsen en það mun standa til bóta.

Athugasemd:
Í heimahöfn mun báturinn oftar en ekki hafa gengið undir nafninu Helga HU-30 en hjá Siglingastofnun er hann skráður Guðrún Helga HU-30 (5905).
Heimild: Adolf H. Berndsen.


Helga við bryggju á Skagaströnd, 11.júlí 2020.  Mynd Rikki R.

Þann 11.júlí 2020 sá ég þennan bát við bryggju á Skragaströnd og ræddi veið einn eiganda hans sem sagði bátinn heita Helga.  Báturinn leit vel út, nýskveraður og flottur.  

Heimild:  Frásögn að ofan af síðu aba.is, http://www.aba.is/Default.aspx?modID=1&id=44&vId=73

13.05.2020 23:20

Úði HF 60

7293 Úði HF 60
Smíðaður í Hafnarfirði 1960.  Eik og fura.  2.22 brl. 16 ha. Lister vél.
Eigandi Páll V. Jónsson, Hafnarfirði frá 10. september 1990 þegar báturinn var fyrst skráður.  Eiganda ekki getið fyrir þann tíma.  Báturinn skráður í Hafnarfirði 1997.

Upplýsingar
Íslensk skip, bátar, bók 2 bls. 60

Ef þið hafið einhverjar viðbótarupplýsingar um þennan bát endilega sendið mér línu..............
Meira síðar.....................

Skrapp í dag, 26. ágúst 2012 á Vatnsleysuströndina og myndaði Úða.  Get ekki betur séð en að hann sé nánast óbreyttur frá þeim tíma sem Valur Björn myndaði hann 2010.  



Úði HF 60 á Vatnsleysuströnd.  Ljósmynd Valur Björn Línberg, 01. apríl 2010


Úði HF 60, 26. ágúst 2012


Úði HF 60, 26. ágúst 2012


Kíkti aftur á Úða HF 60 þann 12. mars 2017.  Þá var ástandið á Úða orðið frekar bágborið eins og sjá má.


Úði orðinn þreyttur.  12.mars 2017.  Mynd: RikkiR





13.05.2020 22:00

Freymundur ÓF 6


Freymundur ÓF6, við bryggju á Ólafsfirði, 06.ágúst 2013, mynd RikkiR.

5313  Freymundur ÓF-6.  

Smíðaður á Akureyri árið 1954 af Kristjáni Nóa Kristjánssyni. Fura og eik. Stærð: 3,87 brl.  Afturbyggður súðbyrðingur með kappa.

Upphaflega vélin í bátnum var 16 ha. Lister, sem var í honum fyrstu 12 árin. Næst var sett í bátinn 28 ha. Volvo Penta og var hún í bátnum fram til ársins 1980 en þá var henni skipt út fyrir 22 ha. SABB og er sú vél enn í bátnum árið 2014.
Báturinn var smíðaður fyrir Magnús J. Guðmundsson, Ólafsfirði og syni hans þá Sigurð og Júlíus Magnússyni, Ólafsfirði.
Eftir lát Magnúsar áttu þeir bræður bátinn saman en eftir lát Sigurðar þá hefur Júlíus Magnússon átt bátinn einn og á enn árið 2014, en í gegnum eignarhaldsfélagið Freymund ehf. Ólafsfirði frá árinu 2002.
Bátnum hefur alla tíð verið sérstaklega vel við haldið en aldur hans spannar nú 60 ár.
Árið 1997 var báturinn endurbyggður af skipasmiðunum Gunnlaugi Traustasyni og Sigurði Lárussyni. Endurbyggingin fólst í að sauma bátinn upp og endurnýja á hluta banda og byrðingsborða. Ný skjólborð voru smíðuð á bátinn og hvalbakur lagfærður. 
Freymundur ÓF-6 var afskráður 29. janúar 2014 og er nafn hans og einkennisstafir nú komnir á annan bát.

Eftir afskráningu bátsins þá komst hann undir handarjaðar Helga Jóhannssonar, Ólafsfirði sem hreinsaði bátinn upp og málaði að utan og innan frá kili að masturstoppum.

Báturinn stendur nú sem nýr sé við aðalgötu Ólafsfjarðar vegfarendum til yndisauka

Heimildir aba.is:  Júlíus Magnússon, Ólafsfirði. Gunnlaugur Traustason, Akureyri.



06.ágúst 2013 var ég á ferð á Ólafsfirði og tók myndir af Freymundi við bryggju.

Mínar heimildir:

Íslensk skip, bátar 2, bls. 262, Freymundur ÓF.

Aba.is, http://www.aba.is/Default.aspx?modID=1&id=44&vId=73


10.05.2020 21:17

Bjarmi EA354 9817

Bjarmi EA354 5817 ex Heimir EA701

Stærð: 1,99 brl. Smíðaár 1938. Fura og eik. Opinn súðbyrðingur. Trilla. Vél óþekkt.
Ekki er vitað með vissu fyrir hvern báturinn var smíðaður en í skrásetningarbók Eyjafjarðasýslu 9. febrúar 1942 er hann skráður á Þorstein Antonsson Dalvík. Líkur er á að Þorsteinn hafi látið smíða bátinn því algengt var á þessum árum að skráning drægist úr hömlu.  Sonarsonur Þorstein Antonsson, Þorsteinn Skaftason, rafvirki, Dalvík, telur sig muna óljóst eftir bátnum og hafi  hann þá verið með bognu stefni.

Árið 1951 endurgerði Benedikt Jónsson bátinn á Dalvík með því að lengja hann og borðdraga til hækkunar um eitt umfar. Einnig var sett í hann ný vél af gerðinni SABB 16 ha.

Að endurgerð Benedikts lokinni fékk báturinn nafnið Bjarmi EA-354 og skráð stærð hans þá komin í 2,76 brl.

Árið 1953 er eigendur skráðir í gögnum Siglingastofnunar synir Þorsteins Antonssonar þeir Skafti og Hjalti Þorsteinssynir.

Frá árinu 1998 er báturinn í gögnum Siglingastofnunar skráður á Þorstein Skaftason, Dalvík.

Af skipaskrá var báturinn felldur 23. desember 1998 með þeirri athugasemd að hann hafi ekki verið skoðaður árum saman.

Þrátt fyrir afskráningu þá var bátnum haldið í horfinu en síðustu fjögur árin fyrir 2010 að telja hefur hann ekki stigið dans við Ránardætur.

Árið 2010 var báturinn seldur feðgunum Pétri Sæmundssyni og Pétri Óla Péturssyni Keflavík sem fluttu hann suður og gerðu upp árið 2012.

Endurgerðin var fólgin í að sauma bátinn upp og endurnýja allt timburverk sem verulega var farið að sjá á. 
SABB vélin, sem í bátnum hefur verið frá 1951 var gerð upp af Guðna Ingimundarsyni, á Garðstöðum í Garði.

Gert er ráð fyrir að báturinn verði sjósettur á vordögum 2013.

Sést hefur í frásögnum af endurgerð bátsins að hann hafi alla tíð borði nafnið Bjarmi EA-354 en eins og sjá má hér að ofan er það ekki rétt.

Heimild: aba.is, Íslensk skip,bátar, bók 1, bls. 96.


Ég tók myndir af bátnum þar sem hann stóð uppi á landi við Snarfarahöfn.  Árið 2020 er báturinn í Hafnarfjarðarhöfn.  Báturinn var auglýstur til sölu á Bátalif.is, "Nýuppgerður glæsilegur trébátur "Bjarmi" - súðbyrðingur frá Dalvík."


9817 Bjarmi EA 354 ex Heimir EA7041.  Mynd: RikkiR 24.08.2019

21.03.2020 19:42

Hafnarfjarðarhöfn




M/S Tarje, Álasundi.  Hafnarfjarðarhöfn 21.03.2020.


M/S Tarje var í Hafnarfjarðarhöfn í dag, 21.03.2020.  Veitti honum athygli, en hef ekki séð hann áður.  Gæti verið nýr bátur frá Trefjum, Cleopatra 42.  

20.08.2018 21:46

Bátar ferjaðir á Reykhóla úr Stykkishólmi

Ég var svo heppinn þegar ég var í Stykkishólmi 11.ágúst 2018 að nokkrir höfðingjar ætluðu að ferja þrjá báta úr Stykkishólmi á Reykhóla.  Þar var fremstur í flokki Hafliði Aðalsteinsson.  Bátarnir sem ferjaðir voru yfir á Reykjóla voru Ólafur, Baldur og Sindri, allir í eigu Bátasafns Breiðafjarðar.  Fylgdarbátur var Gustur SH og aftan í honum hékk skekta, sem Hafliði smíðaði nýlega, sem heitir Gola.  Með í myndatöku er svo Öxney en hún var skilin eftir í Stykkishólmi þegar farið var að Reykhólum.  En hvaða bátar eru þetta?


Ólafur, Hafliði Aðalsteinsson við stýrið.  Stykkishólmur 11.ágúst 2018

Ólafur frá Hvallátrum, var smíðaður 1948 af Aðalsteini Aðalsteinssyni í Hvallátrum fyrir Jón Danílesson bónda í Hvallátrum á Breiðafirði.  Báturinn var notaður við selveiðar, æðardúntekju og önnu verkefni tilheyrandi eyjabúskap í 52 ár.  Ólafur var smíðaður upp af Aðalsteini og Hafliða Aðalsteinssyni veturinn 2001-202.



Baldur í Stykkishólmi 11.ágúst 2018

Baldur var smíðaður í Hvallátrum árið 1936 af Valdimari Ólafssyni fyrir Þórð Bernjamínsson í Hergilsey, síðar Flatey.  Upphaflega var sett í bátinn 2 cyl. Albin vél en í dag er í honum 1 cyl. Sabb vél.  Árið 1947 var sett í bátinn 14. ha. Albin vél.  Þórði seldi bátinn 1971 Daníel Jónssyni, Dröngum Skógarströnd.  Árið 1973 var sett í bátinn 10. ha.



Sindri í Stykkishólmi 11.ágúst 2018


Sindri var smíðaður árið 1936 af Valdimar Ólafssyni í Hvallátrum fyrir Jón Þórðarson og Snæbjörn Jónsson á Stað á Reykjanesi.  Á þessum tíma var tvýbýli á Stað en síðar (1949) byggði Jón býbýlið Árbæ.  Sindri er smíðaður úr eik og furu og skráður 2,5 brl.  Var upphaflega með 5 ha. Skandia vél, árið 1946 var sett í bátinn 8 ha. Skandia vél, 1983 var sett í bátinn 8 ha. Sabb vél og 1995 10 ha. Sabb vél sem er í bátnum í dag.

Sindri var notaður af Staðar og Árbæjar bændum í áratugi við hlunnindanytjar og flutninga á vörum og fólki.  Árið 1962 kaupir Guðmundur Theódórsseon á Laugalandi við Þorskafjörð bátinn og notar hann við hlunnindanytjar o.fl.  Árið 1990 gerði Guðmundur bátinn upp og hefur síðan haldið honum mjög vel við.  

Á bátadögum 2015 sigldi Guðmundur ásamt gestum á Sindra í hópi báta í blíðu veðri.  Að því loknu afhenti Guðmundur Bátasafninu Sindra til eignar og varðveislu.

Sindri hefur verið geymdur í uppsátri á Vesturnesi við höfnina á Stað og eftir því sem mér skilst þá mun hann vera geymdur þar áfram líkt og undanfarin 80 ár.




Gustur í Stykkishólmi 11.ágúst 2018.


Gustur er breiðfirskur súðbyrðingur.  Var teiknaður um 1975 af Bergsveini Breiðfjörð Gíslasyni, skipa- og bryggjusmið.  Bergsveinn fékk Hafliða Aðalsteinsson frænda sinn til að smíða Gust og var unnið að smíðinni í Kópavogi 1979-1980.  Bergsveinn tók töluverðan þátt í smíðinni og frágangi bátsins.  Gustur var síðan sjósettur í apríl 1980.

Gustur er smíðaður úr furu og eik og er 7,1 metri á lengd, 2,1 metri á breidd og 0,91 meter á dýpt og mælist 2,57 brl.  Báturinn var upphaflega með 20 ha. Bukh vél.  Ákveðið var að ráðast í endurbætur á bátnum vetuirnn 2010.  Hafliði Aðalsteinsson tók að sér að framkvæma breytingarnar.

Eigendur af Gusti eru Sigurður Bergsveinsson og Gunnlaugur Þór Pálsson.




Skektan Gola.  Stykkishólmur 11.ágúst 2018.


Skektan Gola var smíður af Hafliða Aðalsteinssyni.  Meira um það síðar.  Eigendur eru Sigurður Bergsveinsson og Gunnlaugur Þór Pálsson.




Öxney, Sturla Jóhannsson við stýrið.  Stykkishólmur 11.ágúst 2018.


Öxney var smíðaður á námskeiðum í gerð súðbyrðinga í samvinnu við Iðu fræðslusetur.  Haflið Aðalsteinsson skipasmíðameistari frá Hvallátrum og Eggert Björnsson bátasmiður, önnuðust kennslu á námskeiðunum.  

Í byrjun árs 2012 hannaði Hafliði og teiknaði bát sem er byggður á hefðbundnum breiðfirskum hlunnindabátum en aðeins breiðari og dýpri en þeir voru.

Hafliði notaði síðan hönnunina á 6 námskeiðum sem haldin voru frá því í febrúar 2012 og fram í mars 2013.  Alls tóku um 50 menn þátt í námskeiðunum.  Lagður var kjölur að bátnum og hann síðan fullbyrtur og sett í hann 4 bönd.

Síðan var ekkert unnið við bátinn þangað til vetuirnn 2016 að Hafliði og Eggert tóku sig til og kláruðu að smíða bátinn og setja niður vélbúnað og fullgera hann.

Sturla Jóhannsson frá Öxney á Breiðafirði keypti bátinn og hefur gefið honum nafnið Öxney.  Bátinn hyggst Sturla nota við hefðbundnar hlunnindanytja við Breiðafjörð.  

Öxney er 5,85 m. að lengd, 2,02 m. á breidd, 0.93 m. á dýpt.  Í honum er 30 ha. Yanmar vél.  Báturinn er smíðaður úr furu og eik og er með utanáliggjandi stýri.


Upplýsingar fengnar af ýmsum stöðum.  Lesa má um sum bátana hér á síðunni, ef upplýsingar eru ekki um hverjar þeirra þá eru þær á leiðinni.  Vona að þið hafði gaman af.  Fleiri myndir undir albúm af þessum bátum að sigla í Stykkishólmi.

14.04.2018 10:03

Reykjavíkurhöfn

Ég er á ferðinni með reglulegu millibili um borg og bæ til að leita eftir myndefni.  Þau eru misjöfn eins og þau eru mörg en hér hef ég aðallega sett inn bátamyndir. Veður var bjart og sólin skein þegar ég kíkti í Reykjavíkurhöfn og þetta var afraksturinn.  Njótið.

2926 Stormur HF-294, Reykjavíkurhöfn 04. apríl 2018

1585 Sturlaugur H. Böðvarsson AK 105, Reykjavíkurhöfn 04. apríl 2018

2854 Sailor AK, Reykjavíkurhöfn 04. apríl 2018

18.03.2018 13:51

Hafnarfjarðarhöfn

Kíkti niður að höfn og þá var Björgunarsvetin á ferðinni á tveimur bátum, Fiskaklett og litlum slöngubát sem ég veit ekki nafnið á.  Njótið.

Fiskaklettur.  Hafnarfjarðarhöfn 11. mars 2018

Lítill slöngubátur Björgunarsveitarinnar.  Hafnarfjarðarhöfn 11. mars 2018

31.12.2017 22:21

Gleðilegt ár

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og takk fyrir það gamla.  
Ég hef verið slakur hér á síðunni seinnihluta ársins en reyni að standa mig betur á nýju ári.

15.05.2017 19:10

Teista ex Ella ex Jón Klemens

Teista ex Ella HF 32 9050 ex Jón Klemens 5189.
Smíðaður í Hafnarfirði 1972.  Eik og fura.  1,63 brl. 10 ha. SABB vél.
Eigandi Sigurður Klemensson Búðarflöt, Bessastaaðhreppi, frá 16. maí 1972.  Heimahöfn bátsins var Helguvík í Bessastaðahreppi.  Báturinn var tekinn af skrá 23. mars 1986.
Stórviðgerð fór fram á honum eftir að báturinn hafði rekið upp og brotnað og var hann síðan endurskráður og seldur 9. mars 1992 Sigdóri Sigurðssyni Hafnarfirði og fékk báturinn þá skipaskrárnúmerið 9050.  Báturinn heitir Ella HF 32 og er skráður í Hafnarfirði 1997. 

Núverandi eigandi bátsins er Daníel Jónsson í Ólafsvík.  Daníel keypti bátinn 2010 og skipti um nafn á bátnum og heitir hann Teista í dag.  Daníel fór í að gera bátinn upp.  Skipti um allt ofan á honum og böndin líka.  Skildi eftir tvö öftustu böndin og tvö fremstu böndin.  Notaði nýtt efni í böndin, nælonplast.  Daníel vildi meina að ef þetta efni hefði verið til hér á árum áður hefði það verið notaði í bönd.  Nælonplastböndin eru sterk, fúna ekki og brotna ekki.  Boltaði bátinn allan upp.  Hann sagði allt annað hús á bátnum núna en hann smíðaði það upp.

Þann 11. maí 2017 rakst ég á Teistuna við Snarfarahöfn.  Eigandinn var þarna og kom í ljós að ég hafði rætt við hann áður varðandi annan bát sem hann átti.  Núvernadi eigandi Teistunnar heitir Karl Benediktsson en hann átti Kóp AK áður.  Karl kvaðst ekki ætla að skipta um nafn, þetta væri ágætis nafn en Kópur AK hét eitt sinn Teista HF.


Teista í Ólafsvík 17. maí 2012


Teista við Snarfarahöfn, Reykjavík, 11. maí 2017


14.03.2017 18:11

Úr ýmsum áttum

Rakst á þessa báta á ferðum mínum um daginn.  Ársæll var í Grindavíkurhöfn og sólin lýsti hann upp.Fallegur að sjá.  Þá rakst ég að öldung sem stendur við Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströndinni.  Á svipuðum slóðum kíkti ég á Úða, en hann er farinn að þreytast ansi mikið blessaður.

Ársæll í Grindavíkurhöfn, 04. mars 2017.


Öldungurinn, 12. mars 2017


Úði, þreytulegur að sjá, 12. mars 2017


Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311859
Samtals gestir: 29928
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 08:41:36