Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2009 September

22.09.2009 15:46

Áætlunarflug

Þegar ég var staddur á Álftanesinu þann 20. september veitti ég þessari flugvél athygli þar sem hún hóf sig á loft frá Reykjavíkurflugvelli.  Hún sveigði svo í áttina til mín og þar sem var nokkuð skýjað hugsaði ég mér að ná henni með bláan himin í baksýn.  Það tókst nánast en ég ákvað að halda áfram að mynda og svo komu skýin.  Þegar ég skoðaði svo myndirnar fannst mér myndin þar sem flugvélin er ofan við skýin flottari.  Ég set því þessar tvær inn svona til samanburðar.  Þetta eru ekkert sérstakar myndir en eins og ég hef áður sagt þá mynda ég allt nú til dags og hef gaman af.




Áætlunarflug 20. september 2009.

20.09.2009 23:07

123 og fleira

Þungskýjað, súld, jafnvel rigning en samt verður maður að taka myndir.  Þetta er náttúrulega bara bilun.  Tók myndir af bátum í Hafnarfjarðarhöfn og í Reykjavíkurhöfn og eru þær í skipamöppunni.  Fyrsta myndin hér að neðan er úr Hafnarfjarðarhöfn og hef ég velt þessu fyrir mér í nokkra daga.  Eins og þið getið séð þá er bátunum raðað eftir lit, myndin er tekin með það í huga.  Önnur myndin er tekin í Reykjavíkurhöfn og sýnir 1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270.  Það mætti alveg fara og skvera botninn á honum.  Þriðja myndin er tekin í Hafnarfjarðarhöfn og sýnir 1081.  Valþór NS 123.  Fannst ágætur endir á þessari færslu að hafa 123.


Í Hafnarfjarðarhöfn 20. september 2009.


1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270 í Reykjavíkurhöfn 20. september 2009


1081.  Valþór NS 123 í Hafnarfjarðarhöfn 20. september 2009

20.09.2009 22:52

Ekki alltaf sól.........

Ég hef reynt að fara og mynda eins og tíminn hefur leyft.  Það hefur nú ekki alltaf verið sól en það er reyndar svo að það er ekki alltaf sól á Íslandi.  Þurfa allar myndir að vera teknar í sól?  Ekki finnst mér það og því setti ég inn nokkrar sem hafa verið teknar núna á síðustu dögum.  Þegar ég tók fyrstu mynd hér að neðan þá var skýjað og súld.  Sólin náði þó að skína lítillega í gegnum skýin.  Hér náði sólin í gegn og lýsti upp Hamraborgina og þegar ég sá þetta datt mér strax í hug Alcatras.  Á annarri myndinni er ég staddur í Grafarvogi fannst mér þetta geta orðið þokkalegasta mynd fyrir utan alla ljósastaurana.  Á þriðju myndinni sá ég regnbogann og endinn á honum var yfir Flensborgarskóla.  Sagt er að við enda regnbogans sé gull!  Er ekki menntun gulls ígildi þannig að það er kanski eitthvað til í þessu.  Fleiri myndir eru í Íslandsmöppunni.


Alcatras?  Myndin tekin 19. september á Álftanesi.


Skuggamyndir.  Myndin er tekin 13. september í Grafarvogi.


Flensborg í Hafnarfirði 19. september 2009

15.09.2009 21:22

Crown Princess

Skrapp upp í Grafarvog og myndavélin fékk að koma með.  Myndavélin vildi svo endilega smella myndum af þessu "LITLA" bátskríli sem kallast Crown Princess.  Fannst þetta sjónarhorn á skipið koma vel út og sýna vel stærðina á því, eða eigum við að segja sýnir smæð landsins.


Crown Princess í Sundahöfn, 13. september 2009

15.09.2009 21:16

Sólsetur

Ekki hef ég nú myndað mikið síðustu daga en eitthvað er samt til af myndum.  Ég kíkti um daginn til að mynda sólsetur.  Hér má sjá tvær myndir, fleiri í Íslandsmöppunni.


Sólsetur, Hlíðsnes, 31. ágúst 2009.


Sólsetur Álftanesi, 08. september 2009

13.09.2009 13:48

Helgafell

Bekkurinn hennar Elínar Hönnu, 6.SB fór í gönguferð og nokkrir foreldrar fóru með þann 12. september 2009.  Takmarkið var að ganga á Helgafell.  Ég tók þá ákvörðun að fara með og var staðráðin í að ná toppnum.  Fyrir mig var gangan nokkuð erfið.  Á toppinn komumst við og var ég ekkert smá ánægður með mig.  Nokkrar myndir eru af þessari ferð en ég gaf mér lítinn tíma til að mynda því ég var svo móður að ég gat varla haldið á vélinni.  Þegar við komum svo aftur niður þá biðu Elfa Dögg og Jóhanna með veitingar fyrir þreytta göngugarpa.  Þessi ferð var skemmtileg og þakka ég fyrir mig.


Elín Hanna sækir sér vatn í Kaldána og sjá má toppinn á Helgafelli lengst til vinstri á myndinni.


Elín Hanna gengur síðustu metrana upp á toppinn.


Við feðginin á toppnum, þreytt en ánægð. Já, ég veit um greiðsluna.


Þegar niður var komið biðu Elfa Dögg og Jóhanna með veitingar.

10.09.2009 00:15

Fuglarnir komnir inn

Nú eru allar fuglamyndirnar sem ég set inn í bili komnar inná síðuna mína.  Þetta urðu alls 98 tegundir fugla.  Eins og áður segir eru þarna myndir í mismiklum gæðum, þá eru þarna mjög sjaldgæfir fuglar m.a. pálmaskríkja og blámaskríkja en það eru fuglar sem ekki einungis voru að sjást í fyrsta skipti á Íslandi heldur einnig í fyrsta skipti í Evrópu.  Vona að ykkur líki þessi litla breyting hjá mér.  Næst skoða ég að taka saman bátana þ.e. að skipta þeim upp í flokka t.d. trébátar, plastbátar, stálbátar og skemmtibátar svo eitthvað sé nefnt.  Það yrði einnig til hægðarauka fyrir bátaáhugamenn, held ég.  Hér er svo ein mynd úr safninu.


Óðinshani, Flatey á Breiðafirði 05. júlí 2005

09.09.2009 09:08

Kría var það heillin

Sagt er að margt sé líkt með mönnum og dýrum.  Þetta er að mínu viti rétt á margan hátt.  Ég hef gaman af fuglum og fylgist með þeim og mynda þá oft.  Það hefur róandi áhrif á mig að komast út í náttúruna og skoða/mynda fugla.  Ég hef að vísu verið frekar rólegur í þessu upp á síðakastið en þetta er að koma meira og meira inn aftur hjá mér.  Til að sýna ykkur hvað ég sé svipað hjá mönnum og dýrum langar mig að tala um kríuna.  Þetta dæmi má heimfæra á mjög mörg önnur dýr.  Svo er eitt, maðurinn er DÝR svo það er eðlilegt að eitthvað sé sammerkt.
Margir kvarta undan kríunni.  Kalla hana skaðræðisfugl, stórhættulega o.s.frv.  Ég er ekki á sama máli og aðrir því ég elska kríuna.  Þetta er einn af fallegri fuglum sem hér verpa.  Sumir segja að gargið í kríunni sé svo leiðinlegt og svo renni hún sér í hausinn á manni og meiði mann.  Gargið er margvíslegt hjá kríunni.  Það er gaman að heyra hvernig það breytist þegar maður nálgast hreiður t.d.  Það heyrist nánast alltaf eitthvað í kríunni, smá kvak eða kliður.  Þegar krían flýgur svo yfir þig þá kemur eitt svona viðvörunargarg, nokkuð ákveðið (passaðu þig góði).  Ef þú heldur áfram koma nokkur hávær görg í viðbót (ég var búinn að vara þig við).  Síðan kemur oft ein og rennir sér að þér og gargar (ef þú ferð ekki þá verða vandræði).  Síðan kemur hávært garg og þá kemur hersveitin og ræðst gegn þér (hafðu þetta góði).  Stundum höggva þær í hausinn á mér.  Persónulega finnst mér verra að stinga mig á nál.  Alltaf þegar ég er í Flatey á Breiðafirði þá fæ ég gat á hausinn, hef mest verið með fjögur göt í einu og blóðtaumana lekandi niður úr hárinu.  Þetta grær allt saman og ég get ekki beðið með að komast aftur í kast við kríuna í Flatey.  Ég elska kríuna. 
Sett þú þig í spor kríunnar.  Hvað myndir þú gera ef einhver maður sem þú þekktir ekki myndi ganga að barninu þínu?  Myndir þú ekki fara í vörn? Ef hann tæki svo barnið?  Þú myndir garga, ráðast jafnvel á hann, lemja hann í hausinn með töskunni þinni eða eigum við kanski að segja að þú myndir líklega haga þér eins og KRÍA :-)


Fyrsta viðvörun.  "Garg, ekki fara lengra góði."


Önnur viðvörun.  "Sest hér og fylgist með honum.  Ég vara þig við, ekki koma nær!"


Alltaf að marka í þriðja.  "Ég var búinn að vara þig við, hafðu þetta!"


Svo koma þær í röðum. "ÁRÁS"

08.09.2009 23:43

Smávægilegar breytingar

Jæja, þá er ég byrjaður að dæla inn fuglamyndunum aftur.  Nú flokka ég þær eftir hverri tegund svo fyrir áhugasama ætti að vera auðveldara að finna það sem þeir vilja skoða.  Mismikið er af myndum og gæði sumra herfileg.  Stakar myndir eru af sumum tegundum en ég mun bæta úr því við tækifæri ef myndirnar eru til.  Ég á eitthvað af gömlum myndum sem ég þarf að skanna inn og þá bætist eitthvað við.  Þessi vinna tekur tíma.  Nýr flokkur í myndaalbúmum heitir Fuglar, þar undir má finna allar möppurnar.  Nú eru komnar inn 43 möppur, semsagt 43 tegundir en alls verða þetta að ég held 97 tegundir/möppur.  Eitthvað af þessum myndum hef ég ekki sett hér inn áður.


Kría


Lundi.  Hvernig á þessi haus aftur að snúa?

06.09.2009 23:51

Meira af mér.

Fyrst ég er byrjaður að setja inn myndir af mér sjálfum þá eru hér tvær myndir í viðbót.  Þarna er ég líklega um átta ára, myndin framkölluð í ágúst 1969. Hafði skortis illa á hægri hendi og því er ég í fatla.  Ég var svo heppinn að Pallí bróðir átti segulbandstæki og fékk ég að hlusta á það en við fengum ekki að koma nálægt dóti stóra bróður.  Þarna var mér vorkennt rosalega mikið og því fékk ég að nota tækið.  Þetta tæki var alveg "rosalega" flott, með spólum og bandi sem þurfti að þræða, vááááá.  Og soundið var alveg magnað líka.  Svo var stóri bróðir svo klár að taka upp, "ekkert suð", "engin aukahljóð".

06.09.2009 23:36

Hvað er framundan hjá mér?

Ég hef verið frekar slappur í að setja inn myndir en er að vinna í að breyta smá hjá mér.  Það krefst að vísu smá tíma.  Meiningin hjá mér er að breyta fuglamöppunni þannig að það verði mappa fyrir hvern fugl fyrir sig en þetta verði ekki allt í einum haug eins og núna.  Ætla svo að skoða hvort ég breyti einhverjum fleiri albúmum á svipaðan hátt til að þær verði ekki of stórar.  Set hér eina mynd af mér sjálfum síðan 1964 að ég tel því myndin er framkölluð í febrúar 1965 og það er enginn snjór á myndinni.  Hún hefur því verið tekin sumarið áður að ég tel. Þarna hef ég því verið þriggja ára.  Þessi mynd er að sjálfsögðu tekin í garðinum í Hulduhól og þarna sér í gatnamótin á Uppsalavegi og Garðarsbraut.  Ekki þekki ég bílinn sem þarna er en glæsikerra er það.

  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 167
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311572
Samtals gestir: 29917
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 03:53:45