Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2013 Ágúst

24.08.2013 21:00

Hafrún KE 80

5208 Hafrún KE 80 var smíður í Hafnarfirði 1959.  Eik og Fura.  4.81 brl.  22 ha. Bukh vél. 


Hafrún þegar verið var að smíða hana 1959.  Ljósmynd af ljósmynd sem Auðunn Jörgenson á og hann hafði fengið hjá Eyjólfi Einarssyni.


Smiðurinn var Eyjólfur Einarsson en hér á síðunni minni eru frásafnir af 8 bátum eftir hann.


Eyjólfur Einarsson við Hafrúnu KE 80.  Reykjavík 08. janúar 2012


Eigandur í upphafi voru Herbert Eyjólfsson og Ari Arason, Keflavík, frá 16. september 1959.  Ari seldi sinn hluta í bátnum 20. desember 1973 Herberti Eyjólfssyni, Keflavík.  Seldur 15. maí 1991 Stefáni Þór Guðmundssyni í Sandgerði, sama nafn og númer.  Báturinn skráður í Keflavík 1997.


Hafrún KE 80 í Sandgerði.  Ljósmynd Markús Karl Valsson


Eigandi Hafrúnar KE í dag er Auðunn Jörgenson.  Hann er byrjaður að vinna við að gera Hafrúnu upp og leit ég við hjá honum.  Eyjóflur Einarsson var einnig staddur þar að skoða bátinn sem hann smíðaði 1959.  Það var gaman að hitta manninn sem smíðaði bátinn fyrir 52 árum síðan.

Auðunn er byrjaður að rífa af bátnum það sem ónýtt er og hefur hann fengið Hafliða Aðalsteinsson sér til hjálpar.


Auðunn Jörgenson við Hafrúnu, viðgerð hafin.  Reykjavík 08. janúar 2012

Auðunn kvaðst stefna á að báturinn yrði klár fyrir 1. maí 2012.  Hann kvaðst myndi skipta um nafn á bátnum.  Nafn bátsins yrði Óskar Matthíasson VE 23.

Ég fann nokkrar myndir af Hafrúnu KE á netinu og fékk leyfi hlutaðeigandi manna til að nota þær myndir hér á síðunni minni.  Þá tók ég ljósmyndir af myndum sem Auðunn er með hjá sér og þær myndir eru hér í safninu líka.  Ein myndanna er að ég held eftir Jón Pál Ásgeirsson.


Hafrún í Sandgerði.  Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson


Hafrún við húsnæði Auðuns.  Ljósmynd af ljósmynd á vegg hjá Auðunni sem ég held að Jón Páll Ásgeirsson hafi tekið.


Í geymslu.  Ljósmynd Arnbjörn Eiríksson

Ég kem svo til með að fylgjast með þessari framkvæmd eftir því sem ég hef tækifæri til.  Þið getið fylgst með því hér fyrir neðan en þar mun ég halda áfram að setja inn frásögn af því sem ég sé breytast og hvernig verkið gengur.

Heimildir:
Íslenski skip, bátar.
Auðunn Jörgenson, munnlegar heimildir.
Upplýsingar af veraldarvefnum, ýmsir aðilar.



08. janúar 2012
Fór og leit á Hafrúnu KE 80 en Auðunn er byrjaður á lagfæringum á bátnum.  Búið var að rífa lúkarinn og borðstokkana af ásamt fleiru.  Talsvert verk fyrir höndum hjá þeim Auðunni og Hafliða Aðalsteinssyni sem verður honum innan handar við verkið, að gera bátinn klárann.  Eyjólfur Einarsson skipasmiður var á staðnum til að kíkja á bátinn sem hann smíðaði 1959.  Fleiri myndir í albúmi, smellið á eina mynd og þig farið í myndabankann.


Þorsteinn, Auðunn og Eyjólfur við Hafrúnu KE 80.  Reykjavík 08. janúar 2012


Ínnviðir Hafrúnar, lúkarinn farinn, borðstokkarnir farnir.  Reykjavík 08. janúar 2012


Stýrið í Hafrúnu.  Reykjavík 08. janúar 2012


Til gamans tók ég mynd af vottorði frá 06. október 1959 um vélina í bátnum.

10. mars 2012

Kíkti á Auðunn og Hafrúnu í dag.  Hef ekki hitt á neinn í skúrnum hjá honum síðan í janúar svo talsverður tími er liðinn og talsvert hefur verið gert síðan ég var þarna síðast.  Auðunn er búinn að rífa allt ofan af Hafrúnu, stýrishús, vélin úr, lúkar o.fl.  Bara tóm skelin eftir.   Vélin stóð á gólfinu og mun hún nú fara í yfirhalningu.  

Tóm skelin eftir.

Auðunn er að skipta út einhverju af boltum og nöglum.  Vill hafa allt í flottu standi þegar viðgerð líkur.  

Auðunn borar fyrir nýjum boltum.

Hér má sjá að Hafrún er í þremur hlutum.

Hafrún er í þremur hlutum inni í skúrnum.  Skrokkurinn, vélin og stýrishúsið.  Auðunn gaf mér smá lýsingu á því hvernig hann hafði hugsað sér að hafa Hafrúnu, eða réttara sagt Óskar Matthíasson VE 23 því það mun báturinn heita.
Auðunn ætlar að smíða nýtt stýrishús á bátinn, hafa mahogny ofan á stýrishúsinu og ofan á vélarhúsinu framan við stýrishúsið.  Þá verður mahogny á lúkarnum og á borðstokkunum.  Stýrishjól úti verður mahogny hjól og sýndi hann mér mynd af því.  Stýrið mun líta út eitthvað í líkingu við þetta og verður utaná stýrishúsinu.  Það verður gaman að sjá afraksturinn þegar báturinn verður tilbúinn.

Stýrishjól í líkingu við það sem verður sett á bátinn.


15. maí 2012
Kíkti á Hafrúnu.  Uppbyggingin er hafin.  Borðstokkar og lúkar í smíðum.  Miðað við það sem komið er þá verður þetta talsverð breyting frá því sem var.  Þá er Auðunn að safna að sér dóti til að setja á bátinn.


Fyrsta stig borðstokka.  15. maí 2012


Smíð á lúkar hafin.  15. maí 2012


Stýrið sem verður úti, glæsilegt er það.  15. maí 2012

07. júlí 2012
Kíkti við hjá Auðunni og Hafrúnu.  Uppbyggingin heldur áfram og þá er Auðunn byrjaður að grunna og mála aðeins.  Ekki rosalega mikil breyting frá því síðast nema hvað lúkarnum hefur verið lokað og byrjað að byggja upp við vélarsalinn.  Þetta kemur allt til með að haldast í hendur að þegar smíði líkur þá verður báturinn fullmálaður á sama tíma.  Enn sankar Auðunn að sér smádóti til að setja á bátinn og gaman verður að sjá þegar báturinn er klár hvar hann setur þessa hluti á bátinn. 


Búið að mála aðra hliðina hvíta.  07. júlí 2012


Lúkarinn að taka á sig mynd.  07. júlí 2012


Vélin er tilbúin, búið að gangsetja og hún klár til að fara um borð.  07. júlí 2012


Hluti skrautmuna, stýri, stökkvandi lax, hafmeyja, kýraugu, síldartunna o.fl. 07. júlí 2012 

12. ágúst 2012
Leit við á Grandanum til að sjá hvernig verkið gengur hjá Auðunni.  Talsvert hefur gerst síðan ég leit við þarna fyrir mánuði síðan.  Nú er búið að mála báðar hliðar bátsins.  Lúkarinn er að verða klár, bara eftir að klæða ofan á hann með mahogní.  Fiskurinn kominn ofan á stefnið. Smáhlutirnir fara á jafnóðum sýnist mér.  Þá sýndi Auðunn mér hugmynd af stýrishúsi en það er eins og Eyjólfur notaði á marga af bátum sínum en þó talsvert breytt frá því sem var á Hafrúnu.  Miðað við það sem ég hef nú séð og heyrt hvert framhaldið verður þá verður þetta líklega með glæsilegri bátum sem munu sigla við Íslandsstrendur.  Hér eru nokkrar myndir eins og báturinn lítur út í dag.


Lúkarinn að verða klár, 12. ágúst 2012


Kýraugun á lúkarnum og hurðin á sínum stað, 12. ágúst 2012


Fiskurinn stökkvandi kominn ofan á stefnið, 12. ágúst 2012


Búið að dekka bátinn og verið að setja mahogní ofan á skutinn, 12. ágúst 2012

19. janúar 2013
Kíkti til Auðuns og Óskars Matthíassonar.  Talsvert um liðið síðan ég var þar síðast.  Auðunn er að setja mahogni-ið á boðrstokka og jafnframt farinn að smíða vélarhúsið.  Þá er hann eitthvað að velta fyrir sér stýrishúsinu, hvernig það eigi að líta út.




Mahogni pressað niður.  19. janúar 2013

05. febrúar 2013
Úti á Granda er Auðunn enn að festa niður Mahogny-ið á Óskar Matthíasson.  Langt kominn með það.  Þetta er seinlegt verk og því ekki miklar breytingar frá því síðast.  Þá er hann enn að safna að sér smádóti sem hann veltir fyrir sér hvort hann setji í bátinn.  Hann segir þó að það meigi ekki vera of mikið.  Það er alla vegna óhætt að segja að hann sé kominn með þó nokkurt úrval af aukahlutum.  

Óskar fullhlaðinn af grjóti. 05. febrúar 2013


Silfurskeifa, 05. febrúar 2013

12. febrúar 2013
Á vegg á Grandanum stendur, Óskar Matt VE 17, 20 apríl 2013.  Aðspurður kvaðst Auðunn stefna á að þennan dag yrði Óskar tilbúinn.  Bætti svo við brosandi, eða í júní, skiptir ekki máli.  Ég sagði þá að auðvita skipti máli að vinna verkið vel heldur en að flíta sér að klára.
Auðunn er búinn að setja Mahogny-ið á dekk bátsins.  Næst er það stýrishúsið sem þarf að smíða.  Auðunn kvaðst eiga von á að smíða það einn.  Ég spurði hvort Eyjólfur liti ekki inn og hefði skoðun á þessu.  Jú, Eyjólfur hefur komið m.a. síðasta fimmtudag og Auðunn sagði að Eyjóflur væri sáttur við það sem komið væri, hann væri ekki að skipta sér af því sem gert væri.
Auðunn var að taka til í skúrnum því hann væri á leið á sjóinn núna, svo það er smá pása hjá honum núna í smíðinni.
 
Mahogny-ið komið á borðstokkana.  12. febrúar 2013


Séð inn í "stýrishúsið".  12. febrúar 2013

24. ágúst 2013

Ég gaf mér loksins tíma til að líta til Auðuns.  Margt búið að gerast síðan ég var síðast á ferðinni. Stýrishúsið komið og var sett á sinn stað.  Báturinn þrifinn svo hægt væri að taka alvöru myndir af honum.  Þá mætti Eyjólfur Einarsson bátasmiður á staðinn.  Eyjólfur gaf það út að þetta væri vel unnið verk sem búið væri að vinna við bátinn.  Hann var mjög sáttur með þessa framkvæd.  Myndir segja meira en mörg orð.  Smellið á myndina hér að neðan og þá koma allar myndir frá því í dag.


Óskar Matt VE 17, 24. ágúst 2013



Séð inn í stýrishúsið, 24. ágúst 2013



Eyjólfur Einarsson bátasmiður og Auðunn eigandi, 24. ágúst 2013







14.08.2013 14:19

Félaginn, Blönduósi

Við hlið Jaka stóð bátur sem heitir Félaginn.  Mér datt strax í hug eitthvað sem tengdist Raufarhöfn en ég get ekki séð það í fljótu bragði, nema þá nafnið.  En án alls gríns þá eru hér upplýsingar um bátinn sem finna má í Íslensk skip, bátar, bls. 107 Félaginn.

6543 Félaginn EA 391

Smíðaður á Fáskrúðsfirði 1965.  Eik og fura.  2,68 brl. 16 ha. SABB vél.  Eigandi Jóhannes H. Jóhannesson Akureyri frá 09. maí 1984.  Ekki er getið um eigendur fyrir þann tíma.
Seldur 15. júní 1988 Sigurði Sigurðssyni Akureyri, sama nafn og númer.  Báturinn skráður á Akureyri 1997.

Upplýsingar: Íslensk skip, bátar.


Félaginn, Blönlduós 07. ágúst 2013

Þann 07. ágúst 2013 myndaði ég bátinn á Blönduósi.

14.08.2013 13:45

Jaki, Blönduósi

Á ferð minni um landi rak ég augun í Jaka á Blönduósi.  Smelldi nokkrum myndum af honum.  Skrokkurinn er tréskrokkur en yfirbyggingin er úr trefjum.

6435 Jaki ex Sæver HF 105
Smíðaður á Hofsósi 1979.  Eik og fura.  2.62 brl. 18 ha. SABB vél.  Eigandi Barði Steindórsson, Hafnarfirði frá 19. febrúar 1983.  Barði seldi bátinn 20. febrúar 1985 Sveini Árnasyni, Neskaupstað, hét Sæver NK 65.  Seldur 23. desember 1986 Gunnari Guðmundssyni, Þórshöfn, hét Kristín ÞH 183.  Báturinn hér Kristín ÞH 183 er hann var afskráður hjá Siglingastofnun 31. ágúst 1995 með þeirri athugasemd að honum verði fargað.  
Förgun bátsins hefur dregist á langinn.  Hann komst í eigu Agnars Óskarssonar vélstjóra á Akureyri og hlaut nafnið Jaki.  Upp úr aldamótunum síðustu fór báturinn til Jóhannesar Þórðarsonar á Blönduósi, sem smíðaði á hann nýtt stýrishús og borðstokka úr krossviði og trefjaplastaði yfir viðinn.  Árið 2012 ber báturinn enn nafnið Jaki og á heimahöfn á Blönduósi.

Upplýsingar:  
Íslensk skip, bátar.  Bók 2, bls. 57, Sæver HF 105
aba.is


Jaki, Blönduósi 07. ágúst 2013


Jaki 07. ágúst 2013

Þó báturinn hafi verið talinn ónýtur 1995 er hann það ekki alveg að því mér virtist.  Þreyttur kanski en ekki ónýtur. 

14.08.2013 13:00

Kópur AK 46

Kópur AK 46
Báturinn er smíðaður í Hafnarfirði 1950, 1,46 brl. og sett í hann 12 ha. Volvo Penta vél.  Líkast til í Bátalóni í Hafnarfirði.  Gerður út frá Hafnarfirði fyrstu árin og gæti hafa borið nafið Teista þar. 

Eigandasaga: Zophonías Ásgeirsson Hafnarfirði 1977, ekki getið um eigendur fyrir þann tíma. Seldur Birni Björnssyni 4. maí 1981, seldur 12. júní. 1986 Guðna Einarssyni, seldur 15. mars 1991 Sigurgeiri Guðmundssyni, allir eigendur í Hafnarfirði.  Báturinn tekinn af skrá 8. júlí 1996.

Þessar upplýsingar eru fengnar úr bókunum Íslensk skip.

Þar kemur jafnframt fram: Teista HF 24, skipaskrárnr. 5926.

Eða eins og Karl Benediktsson skrifaði: Mig grunar að báturinn hafi verið smíðaður hjá Bátalóni í Hafnarfirði upp úr 1970. Hann hafi verið gerður út þaðan fyrstu árin og hafi þá borið nafnið Teista. Þetta sögðu mér tveir menn sem ég rakst einhvern tímann á þar sem þeir voru að dytta að samskonar bát við Hafnarfjarðarhöfn. Ég lýsti mínum fyrir þeim og þeir þóttust kannast við hann. Hef ekki fengið þetta staðfest. Og annar mannanna ("Helgi bátasmiður") taldi sig meira að segja hafa breytt skutnum á sínum tíma.

Þann 08. janúar 2012 hitti ég Eyjólf Einarsson bátasmið og sýndi honum mynd af Kóp AK.  Hann kvaðst kannast við bátinn.  Kópur hafi verið smíðarðu í Blikalóni.  Ég kvaðst hafa grun um að hann hafi eitthvað komið nálægt þessum báti.  Jú, ekki gat hann neitaði því.  Hann hafi einu sinni sett á bátinn stýrishús og þá hafi hann stytt bátinn að aftan.  Það hafi þurft að stytta hann um ein 6 fet.

Báturinn var á Akranesi í nokkur ár og einn af eigendum bátsins var Bjarni Guðmundsson heitinn (betur þekktur sem Bjarni stopp). 
 
Í dag er Karl Benediktsson og Þorgeir Sigurðsson eigendur Kóps.  Þeir keyptu bátinn árið 2004 af manni á Akranesi, nafn hans ekki vitað enn sem komið er.  Sá hafði keypt bátinn af einhverjum gömlum trillukarli á Akranesi (líklega Bjarna stopp, innskot RR).  Þegar Karl og Þorgeir kaupa bátinn var hann frekar illa farinn, plittar allir ónýtir t.d.  Þeir skipta um nokkur bönd og smíðuðu nýja plitta og borðstokka.  Báturinn hafði áður verið notaður við grásleppuveiðar og fjarlægðu Karl og Þorgeir glussadælu fyrir spil.  Báturinn er að öðru leiti eins og þegar þeir keyptu bátinn.

Báturinn er stífður að aftan og hafði það verið gert áður en Karl og Þorgeir eignuðust bátinn.  Karl segir að vélin í bátnum sé Volvo Penta MD7A, 2 cyl., 13 hestöfl.  Karl telur hana vera upprunalegu vélina og hún gangi eins og klukka.   

Karl Benediktsson annar núverandi eiganda og Einar G. hafnarvörður á Akranesi hafa hjálpað mér mikið. 

Nýjum upplýsingum bætt við, þökk sé Hjalta Hafþórssyni.  Kemur smátt og smátt og verður svo vonandi heil saga þegar upp er staðið.  Á meðan held ég inni því sem komið er.


Kópur AK 46 siglir framhjá Sundahöfn, 19.09.2010

12. ágúst 2013 var ég á ferð á Eyrarbakka og þar rak ég augun í Kóp AK.  Búið er að skafa af honum alla málningu og tjarga yfir naglahausa.  Þá er búið að taka utan af stýrishúsinu að hluta og greinilegt að einhver er að vinna við að gera bátinn upp.  

Fyrir þó nokkru síðan hafði ég heyrt að Kópur væri til sölu en það þyrfti að skipta um hluta af kilinum því hann væri brotinn.  Veit ekki hvað er til í þessu?  Vona bara að núverandi eigandi komi bátnum aftur á sjó.  Reyni að fylgjast með.  Fleiri myndir í albúminu.

Eins og fram hefur komið var þessi smíðaður í Bátalóni en Eyjólfur Einarsson smíðaði síðar á hann hús og stytti hann um 6 fet.


Kópur AK 46


13.08.2013 10:43

Æskan VE 222

Á ferð minni um síðustu helgi rak ég augun í þennan bát.  Báturinn stendur við tjaldstæði við Kaffi Langbrók í Fljótshlíð.  Ég skoðaði bátinn og það var ekkert sem sagði mér hvaða bátur þetta var svo ég varð að ræða við starfsfólk á staðnum.  

Í ljós kom að þetta er Æskan VE 222.  Sóttir voru pappírar um bátinn sem geymdir eru á staðnum og tók ég myndir af einum þeirra.  En þá er það saga bátsins, hver er báturinn.

1174 Æskan VE 222
Smíðaður á Siglufirði 1971 í skipasmíðastöð Hauks Freysteinssonar á Siglufirði.  Fura og eik.  Vélin var Powamarine 79 kW, árgerð 1971.  Lengd 11,60, breidd 3,25.  8.81 brl.  Hlaut nafnið Dröfn SI 67 frá Siglufirði.  Seldur og hlaut nafnið Særún EA 202 og var gerður út frá Hauganesi og síðar Akureyri.  Næsti viðkomustaður var á Grenivík og fékk hann nafnið Æskan EA 202.  Þá fór hann aftur til Akureyrar og hét Æskan EA 11.  Þá fór báturinn á Reykjanesið n.t.t. Sandgerði og hélt nafninu en var GK 222.  Þá var báturinn keyptur til Vestmannaeyja stuttu eftir síðust aldamót frá Sandgerði, hélt nafni en fékk VE 222 númerið.

Samkvæmt þeim pappírum sem ég myndaði þá er afsal dags. 22.04.2005, þá er eigandi Útgerðarfélagið Góa ehf, Áshamri 65, Vestmannaeyjum.  Síðasti viðkomustaður bátsins er svo hér í Fljótshlíðinni.  

Í Fréttablaðinu 11. mars 2007 er sagt frá hreinsunarátaki hjá bæjaryfirvöldum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum.  Þar er sagt frá því að báturinn Æskan VE 222 verði tekinn á land til niðurrifs.


Æskan VE 222.  Fljótshlíð 11. ágúst 2013




Nú eru menn misjafnlega ósáttir við að bátar séu geymdir á þurru landi þar sem við vitum að þeir grotna niður með tímanum.  Þá eru einnig skiptar skoðanir á því hvaða eigi að gera við þessa báta.  Ég er á því að alla trébáta eigi að varðveita og það á sjá og halda þeim við.  Ég geri mér hins vegar grein fyrir að það er ekki hægt.  Þá er það spurninginum að Pollýönnuleikinn.  Er ekki betra að bátar sem vitað er að eigi að rífa séu settir einhversstaðar niður fólki til ánægju?  Okkur finnst það slæmt að sjá á eftir þessum bátum vera settir á bálið, vera rifnir niður, vera eytt á einhvern annan máta.  Er það að setja þá á land eitthvað annað en gert er á sjóminjasöfnum, þar standa bátar á landi, eru málaðir reglulega en fara aldrei í sjó og verða jafn ónýtir þar eins og þeir sem eru eins og Æskan t.d. á þessu tjaldstæði.  Um þetta er hægt að ræða endalaust og við fáum mörg svör og misjafnar skoðanir.  Þarna er illa farið með fallegan bát en þar sem átti að rífa hann þá vil ég frekar að hann sé fólki til ánægju.  Honum er haldið við eins og hægt er sýnist mér.

Upplýsingar fengnar m.a. af vef Tryggva Bacon Sigurðssonar http://batarogskip.123.is/blog/2010/11/27/490909/
Emils Páls http://emilpall.123.is/ og fleiri.

09.08.2013 21:38

Norðurland, seinni hluti

Eftir Dalvík var haldið af stað í átt að Ólafsfirði.  Þangað komum við um kl. 19:47.  Bærinn var í skugga vegna hárra fjalla.  Við kíktum aðeins um bæinn og svo á bryggjuna og þar tók ég myndir.


Þrír trébátar innan um plastið.  Ólafsfjörður 06. ágúst 2013


Marvin við bryggju á Ólafsfirði og eigandinn var að kíkja hvort ekki væri allt í lagi.

Á bryggjunni var eigandi af Marvin.  Við ræddum málin og var hann ekkert of sáttur með sumarið sem kom og fór jafn harðan.  Eftir smá kíkk um bæinn var ekið af stað í átt að Siglufirði með smá stoppi í Héðinsfirði.


Séð út Héðinsfjörðinn.

Fallegt veður en þar sem við stóðum í skugga þá var hann svalur.  En vel sést að það var logn þarna.  Næsta stoppistöð Siglufjörður.


Á Siglufirði


Baldur Bjarna á Siglufirði


Húsasund á Siglufirði

Á Siglufirði kíktum við á höfnina, ókum um bæinn og skoðuðum okkur aðeins um.  Nokkra trébáta sá ég sem ég reyndi að mynda en hefði viljað sjá þá fleiri en var seint á ferð og því búið að loka öllu.


Glaumbær í Skagafirði 07. ágúst 2013


Inni í eldhúsinu í Glaumbæ.

Á leiðinni frá Siglufirði ákvæðum við að stoppa og gista í Flugumýri í Skagafirði.  Á leiðinni að Flugumýri ókum við m.a. í 2. gráðu hita, eða á ég að segja kulda.  Eftir að hafa komið sér á fætur var förinni heitið að Glaumbæ í Skagafirði.  Þangað höfum við aldrei komið og litum því inn.
Við hjónakornin erum svolítið veik fyrir þessum gömlu hlutum og höfum gaman af að skoða.  Eftir að hafa stoppað og fengið okkur kaffi og spurt með var ferðinni haldið áfram.  Lítið myndað eftir þetta þar til við komum á Blönduós, en heimferðin var komin á fullt þegar hér var komið.


Jaki á Blönduósi 07. ágúst 2013


Félaginn Blönduósi


Jón Forseti á Blönduósi

Á Blönduósi ókum við niður að sjó og borðuðum smá nesti þá rak ég augun í báta sem ég vildli mynda og þarna voru þá Jaki, Félaginn og Jón Forseti.  

Í þessari ferð var því ýmislegt skoðað og ég náði nokkrum bátum til að mynda og leita að sögu þeirra og birta hér á síðunni.  

Þegar við lögðum svo af stað þá var ekið beint heim í Hafnarfjörð og komum við heim á skykkanlegum tíma. 

Þetta var góð ferð hjá okkur og munum við skoða myndir frá ferðinni vel og lengi og rifja upp.

09.08.2013 11:26

Ferðasaga, Norðurland 2013, fyrsti hluti

Fjölskyldan skrapp í smá ferðalag norður í land til að m.a. að heimsækja ættingja og vini.  Ætlunin var svo að halda áfram austur á bóginn og hitta vinafólk okkar þar en það breyttist.  Eftir að hafa skoðað framhaldið ákváðum við að halda svipaða leið til baka nema að fara Dalsmynni, Flateyjardal, út Eyjafjörð og skoða helstu þéttbýlisstaði eins og Hjalteyri, Dalvík, Ólafsfjörð, Siglufjörð og fl.  
Ég er að hugsa um að lýsa þessari ferð í máli og myndum.

Í upphafi ferðar var ekið sem leið lá frá Hafnarfirði til Húsavíkur.  Á Húsavík vorum við í nokkra daga.  Gistum á heimili bróður míns en hann fór með sína fjölskyldu á höfuðborgarsvæðið og héldu til í okkar íbúð.

Frá Húsavík 02. ágúst 2013

Ég fór að sjálfsögðu niður á bryggju og ræddi þar við nokkra karla og tók myndir.  Hér er hefðbundin mynd tekin við Húsavíkurhöfn.  Báturinn Jónas Egilsson í forgrunni.  Þá daga sem við stoppuðum á Húsavík var veðrið ekkert sérstakt.  Hiti í kringum 8 stig, skýjað, rigning suma daga og þoka aðra. En við létum það ekki á okkur fá.

Við kíktum út á Mánárbakka.


Húsið Þórshamar var á Húsavík en var flutt út á Mánárbakka og er safn þar.  
Mánárbakki 04. ágúst 2013


Elfa Dögg inni í Þórshamri, innan um dót sem hún elskar.


Stóru stytturnar eru tálgaðar af Ólafi Guðmundssyni (Óla galdramanni eins og hann var kallaður).
Leirstytturnar fjórar vinstra megin eru íslenskar en Alli vissi ekki eftir hvern, ef einhver veit eitthvað endilaga láta vita.


Þetta hús smíðaði Alli.

Þegar við komum á Mánárbakka tók Alli á móti okkur og bauðst til að leiðbeina okkur um safnið sitt.  Fyrst fórum við inn í Þórshamar.  Þórshamar stóð rétt sunnan við Sjúkrahúsið á Húsavík hér á árum áður en var flutt út á Mánárbakka fyrir margt löngu síðan.  Alli notar það sem hluta af safni sínu sem er mjög flott.  Öllum hlutum haganlega komið fyrir.  Gaman var að skoða þetta safn og ekki spillti fyrir að hafa Alla sem leiðsögumann sem gat frætt okkur um hvar hann hafi fengið þennan og hinn hlutinn.  Merkingar eru oft við hlutina og hæt að lesa um þá.
Á kommóðu í Þórshamri eru nokkrar styttur.  Fjórar stórar tálgaðar styttur eftir Ólaf Guðmundsson (blessuð sé minning hans) eða Óla galdramann eins og hann var nú oft kallaður.  Ólafur var mjög fær í höndum, smíðaði, skar út, málaði og ég held að hann hafi getað allt sem hann langaði til.  Ég fylgdist oft með Óla þegar hann kenndi handavinnu í skólanum, frábær.
Við hliðina á styttum Óla voru fjórar leirstyttur.  Íslenskar að sögn Alla en hann kvaðst ekki vita eftir hvern.  Þetta er stytta af bónda að draga í dilka, maður að taka í nefið, maður að taka tappa úr flösku og smaladrengur.  Ef einhver þekkir þessar styttur endilega láta Alla vita eða sena mér línu og ég kem þeim upplýsingum til Alla.
Torfbær er hluti af safninu, Alli smíðaði húsið sjálfur, ekki eftir neinni fyrirmynd.

Þegar við fórum svo frá Húsavík þá var förinni heitið inn Dalsmynni, lengri leiðin til Akureyrar.  Á miðri leið, eða við Þverá ákváðum við að keyra aðeins leiðina inn Flateyjardal.  Þá leið höfum við aldrei farið og höfðum við gaman af.  


Á leið inn Flateyjardal.

Hér sést vel hvað það er fallegt á þessari leið.  Eftir myndatöku snérum við til baka en þá var talsverð leið út að sjó. Seinni hluti leiðarinnar verður farinn síðar þegar við höfum meiri tíma.


Elín Hanna leikur sér í snjóskafli.

Á leiðinni til baka urðum við að stoppa við einn af þeim snjósköflum sem voru við hliðina á veginum og Elín Hanna tók smá flipp fyrir hann afa sinn.  Talsverður snjór er enn í fjöllum fyrir norðan eins og sjá má.

Næsta stopp var Laufás.


Laufás í Eyjafirði 05. ágúst 2013

Við guðuðum á glugga og litum inn í kirkjuna.  Elfa Dögg tók nokkur lög en ég rölti um að tók myndir.  Ég hef oft ekið þarna framhjá en aldrei stoppað fyrr en nú. Fallegur staður og ekki spillti veðrið.

Akureyri var næst á dagskrá.  Þó ég hafi nú oft komið það eins og gefur að skilja þá verð ég að segja að það er margt sem breytist með tímanum.  Ég þoldi ekki Akureyri og Akureyringa á mínum yngri árum.  Annað er upp á teningnum í dag.  Ég hef gaman af að koma til Akureyrar og skoða mig um.  Já, tímarnir breytast og mennirnir með.

Leiðbeiningarskilti á Akureyri

Þetta skilti sýnir að við vorum kanski svolítið svona þ.e. vegir liggja til allra átta og hvaða leið eigum við að fara.  En við tókum þá ákvörðun að fara út Eyjafjörðinn og til Siglufjarðar með stoppum á helstu þéttbýliskjörnum á leiðinni.


Hjalteyri 06. ágúst 2013

Við kíktum á Hjalteyri.  Myndvænn staður eins og sagt er.  Fyrir utan þessa hálfgerðu loftmynd þá voru þessi fallegu gömlu hús sem ég myndaði en læt þessa mynd duga.  Þá fann ég þarna einn bát sem ég myndaði í bak og fyrir.


Sól á Hjalteyri.

Stubb fann ég á Hauganesi og smellti myndum af honum.


Stubbur á Hauganesi.

Við komun líka við á Árskógsandi.  Að fara í þessi litlu þorp er gaman en sorglegt að mörgu leiti.  Þarna standa sum hún mannlaus og sum illa hyrt.  Það er oftast snyrtilegt í þessum bæjum en þessi sumarhúsabragur sem kominn er á þessa litlu bæi er sorglegur að mínu mati.

Dalvík var næstur á ferð okkar.  Þeir á fullu að undirbúa Fiskidaga.


Skreyting fyrir Fiskidaga á Dalvík.


Ingeborg var nýbúin að landa þegar ég smellti þessari mynd af henni.

Dalvíkinigar voru í óða önn að undirbúa fiskidaginn.  Skreytingar um allan bæ og ratleikurinn hjá þeim hafinn.  Ekki var mikið af fólki komið í bæinn.  Við hins vegar ákvæðum að stoppa ekki lengi.  Eftir smá næringur var haldið af stað.

Læt þetta duga í bili.  Meira síðar.
  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 270
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311675
Samtals gestir: 29919
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 05:26:27