Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2013 September

24.09.2013 21:53

Soffíubáturinn, Siglufirði

Þetta mun vera eftirgerð af bát Soffíu Jónsdóttur en fyrirmyndin var smíðuð af Gunnari Jónssyni skipasmíðameistara 1934.

Soffíubátur, smíðaður 1934.  Fura, Súðbyrðingur.
Báturinn var smíðaður fyrir Soffíu Jónsdóttur, Staðarhóli gegnt Siglufjarðarkaupstað og var hann lengst af í hennar eigu.  Bátinn greiddi Soffía með mjólkurpeningum.  Árið 2009 var báturinn í vörslu Sjóminjasafns Siglufjarðar.  

Ég var á ferði á Siglufirði þann 06.08.2013 og smellti þá nokkrum myndum af þessum bát sem er nákvæm eftirgerð af Soffíubátnum.  


Eftirgerð af Soffíubátnum.  Siglufjörður 06. ágúst 2013

22.09.2013 22:53

Óþekktir á Siglufirði

Í sumar átti ég leið um Sigurfjörð. Var frekar seint á ferðinni en náði samt að taka myndir.  Þrír bátar sem ég myndaði voru nafnlausir.  Mig vantar því aðstoð að finna eitthvað um þessa báta.  Sá fyrsti er með stafinn Ó en að aftan má greina nafnið Bolungarvík.  Ekkert stendur á hinum.  Ef einhver hefur upplýsingar fyrir mig endilega sendir mér línu.


Ó??????, Siglufjörður 06. ágúst 2013


Þessi var á legunni, hvaða bátur?  Siglufjörður 06. ágúst 2013


Þessi var við bryggju á Siglufirði, 06. ágúst 2013

22.09.2013 22:41

Bátur við Hlíð

Ég skrapp að Hlíð á Álftanesi til að mynda einn bát sem ég hafði heyrt af að væri þar.  Ég myndaði bátinn en hef enga hugmynd um hvaða bátur þetta er.  Þessi er spíðaður úr krossviði sýnist mér. Það var verið að mála hann, borðstokkarnir voru grænir en greinilegt að það er verið að mála þá hvíta svo þetta falli allt saman, hús og bátur.

Ef einhver hefur upplýsingar handa mér sem geta hjálpað mér að finna út hvaða bátur þetta er endilega senda mér línu.


Bátur við Hlíð, Álftanesi.  21. september 2013

11.09.2013 21:59

Illt augnaráð

Á ferðum mínum um Hlíðsnesið í sumar hef ég séð nokkra hesta þar í túni með folöld.  Mig langaði að ná mynd af folaldi fá sér sopa af mjólk en það gekk illa því þegar stoppað var þá labbaði móðirin af stað og folaldið á eftir.  Einu sinni náði ég þó að smella af og þetta er afraksturinn.


Folald og móðir.  Hlíðsnes 28. júlí 2013

08.09.2013 15:17

Ólafur Bjarnason

Ólafur Bjarnason, Gesthúsum, Álftanesi

Í júní 2011 var á að mynda báta sem Einar Ólafsson Gesthúsum, Álftanesi á.  Ég fékk þá að kíkja inn í skemmu hjá honum og þar var þessi glæsilega trilla.  Ég komast eiginlega ekkert að henni en fékk að vita að þessi bátur væri settur út á sumrin.  Ég var því ekkert að stressa mig en núna í júní 2013 sá ég bátinn úti, nýmálaðann.  Auðvitað var hann festur á kubbinn.

Ég talaði við Einar og fékk eftirfarandi upplýsingar.
Ólafur Bjarnason var smíðaður árið 1957 af Ingimundi Guðmundssyni á Bjargi eins og hann var kallaður en hann bjó á Litlabæ á Vatnsleysuströnd.  Einar hafði talað við Ingimund 30. desember 1956 og beðið Ingimund um að smíða bát fyrir sig.  Um miðjan mars 1957 var báturinn kominn heim á hlað hjá Einari.  Einar kvaðst muna að hann fór á sjó þann 17. mars 1957 og lagði grásleppunet og kvaðst hafa fengið 57 rauðmaga (held að ég hafi náð því rétt).  Einar sagði að þetta hafi líklega verið næstsíðasti báturinn sem Ingimundur smíðaði, hann hafi verið um 80 ára þegar þetta var og hann var með annan bát inni hjá sér á þessum tíma.
Báturinn lítur eins út og í upphafi.  Ólafur Einarsson,sonur Einars, hefur séð um að halda bátnum við.

Ekki er að sjá annað en það hafi tekist vel að halda bátnum til haga og nú síðast í sumar þá var róið á bátnum til fiskjar.  Báturinn er því enn í fullu fjöri og að sögn Einars mjög góður sjóbátur.


Ólafur Bjarnason, Álftanesi, 02. júní 2013

08.09.2013 13:01

Bátur á Vatnsleysuströnd

Bátur á Vatnsleysuströnd

Þann 29. mars 2013 var ég á ferð á Vatnsleysuströnd og ákvað að kíkja á það sem ég taldi vera bát í einhverjum skúrrústum.  Færið var talsvert en ég ákvað að rölta af stað frá Ásláksstöðum.
Þegar nær dróg sá ég að þarna hafði einhver skúrræfill líklega sprungið í brjáluðu veðri.  Viti menn, í þessum rústum var bátur.

Litlar sem engar upplýsingar eru um þennan bát.  Ég veit þó að eigandi þessa báts er Helgi Davíðsson, Vogum.  Ég spjallaði við hann og hann sagði föður sinn hafa keypt þennan bát af Ingvari í húsinu, eins og maðurinn var kallaður.  Helgi kvaðst ekki vita hvenær báturinn var smíðaður né af hverjum.  Þeir væru búnir að eiga þennan bát í 60 ár eða meira.  Þeir hafi róið á bátnum, sem var árabátur, á grásleppu og veitt sér í soðið.  Við að skoða bátinn sést vel að það hefur verið vél í bátnum og þegar ég spurði Helga sagði hann að líklega hafi þeir sett vél í bátinn en hann mundi ekki hvernig vél.

Við að skoða þennan bát þá tel ég að þetta sé bátur smíðaður með Engeyjarlaginu.  Ekki gott að segja vegna ástands bátsins.  Undirstöður fyrir vél eru í bátnum og þá sést öxulgatið í gegnum afturstefnið og úrtaka úr afturstefninu fyrir skrúfuna.  Ég tók nokkrar myndir af þessum bát og ef einhver kannast við bátinn og veit eitthvað væru þær upplýsingar vel þegnar.




Bátur á Vatnsleysuströnd, 29. mars 2013

08.09.2013 11:52

6623 Kiðey SH 230

6623 Kiðey SH 230

Báturinn smíðaður (skrokkurinn) í Bátalóni í Hafnarfirði 1984 en yfirbygging og frágangur var kláraður í Stykkishólmi sama ár af Kristjáni Sigurðssyni bátasmið (Stjáni slipp) fyrir Bjarnar Garðarsson útgerðarmann en hann bjó í Stykkishólmi þá.  Eik og fura.  4,94 brl. 54 ha. Status Marine vél.
Eigandi frá 18. mars 1985 var Bjarni Garðarsson, Stykkishólmi.  Bjarni seldi bátinn 25. maí 1988 Haraldi H. Sigurðssyni, Hornafirði, hét Heimir SF 23.  Seldur 7. desember 1990 Hafsteini Esjari Stefánssyni, Hornafirði.  Seldur 15. des. 1990 Birni Björnssyni, Reykjavík, sama nafn og númer.  Seldur til Noregs og tekinn af skrá 22. apríl 1991.

Kiðey var gerð út á grásleppu frá Stykkishólmi 2 sumur 1984 og 1985 en um mitt sumar flutti Bjarni aftur til Hornafjarðar með fjölskylduna á sínar heimaslóðir og tók bátinn með.  hann sigldi honum frá Stykkishólmi til Reykjavíkur í skip og gerði hann út í 2-3 ár frá Höfn þar til hann fékk nýja Kiðey 10 tonna plastbát.  Bjarni seldi svo frænda mínum sem bjó á Hornafirði, Haraldi Heimi Sigurðssyni frá Staðarfelli í Dölum þenna og hann fékk nafnið Heimir SF 23.  Haraldur gerði hann út í nokkur ár en úrelti hann svo og seldi úr landi en hann fór nú ekki lengra en í portið þar sem hann er að grotna niður en þetta er ekki nema innan við 30 ára gamall skrokkur.

Upplýsingar:
Íslensk skip, bátar, bók 3, bls. 158, Kiðey SH 230
Sigurbrandur Jakobsson, tölvupóstur.


6623 Kiðey SH 230, Reykjavík 23 apríl 2013

23. apríl 2013 komst ég inn í port sem er úti á Granda.  Þar innan girðingar voru nokkrir bátar og þar á meðal þessi bátur sem ég fann ekkert um.  Sigurbrandur Jakobsson sendi mér svo upplýsingar um bátinn.  Nú er það spurning með svona báta, geyma þá eða eyða þeim.  Hvort heldur sem er í þessu tilfelli, þá er báturinn ónýtur sýnist mér og því ástæðulaust að geyma hann.  Það er synd að þurfa að horfa uppá bátinn grotna niður og því betra að farga honum held ég.

06.09.2013 17:41

Arnar SK 237

528 Arnar SK 237 ex Hafratindur BA34
Smíðaður í Hafnarfirðir 1961.  Eik og fura.  6 brl. 36. ha. Bukh díesel vél.  
Eigandi Erlendr Hjartarson, Patreksfirði frá 29. des. 1961.  Seldur 7. sept. 1967 Ara Eggertssyni og Eggerti Magnússyni, Tálknafirði.  Seldur 1. júní 1974 Bjarna Vernharðssyni, Tálknafirði.  Seldur 29. apríl 1976 Bergi Vilhjálmssyni, Patreksfirði.  Báturinn er skráður á Patreksfirði 1988.

Upplýsingar:  Íslensk skip, bók 1, bls. 56, Hafratindur BA 34.

Þann 25.06.2012 var ég að eltast við bátar og skrapp m.a. á geymslusvæðið móts við Álverið í Straumsvík.  Þar sá ég Arnar og var hann orðinn frekar þreyttur.  Mín skoðun er að hann á ekki eftir að fara á sjóinn aftur.  Vona að ég hafi rangt fyrir mér þar.  Myndir í albúmi.


Arnar SK 237.  Hafnarfjörður 26. júní 2012

06.09.2013 17:19

Mercury Turnpike 1957

Smellti líka myndum af þessum bíl í gær, Mercury Turnpike 1957, skráningarnúmer G957.  Í framrúðunni á bílnum eru miðar sem sýna að þessi bifreið er til sölu.  Glæsilegur bíll.  Fleiri myndir í albúmi.


Mercury Turnpike 1957, Hafnarfjörður 05. september 2013

06.09.2013 17:14

Mercury Montclair 1956

Hef ætlað að mynda þennan bíl í langan tíma.  Lét verða af því í gær, þegar ég átti leið um þar sem bíllinn stóð.  Glæsilegur bíll, Mercury Montclair 1956, skráningarnúmer G-56.  Myndir segja meira en mörg örð.


Mercury Montclair 1956, Hafnarfjörður 05. september 2013
  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311650
Samtals gestir: 29918
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 05:05:24