Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

05.12.2011 22:30

Hringur II ÍS 503 x Hringur ÍS 305

6274 Hringur ÍS 305.  Smíðaður á Sæbóli III 1956 af Guðna Ágústssyni.  Eik og fura.  3,3 brl. 20. ha. Bukh vél.  Eigandi Guðni S. Ágústsson, Sæbóli III, Ingjaldssandi, frá 23. september 1981, þegar báturinn var fyrst skráður.  Ekki er getið um eigendur fyrir þann tíma.  Báturinn er skráður á Ingjaldssandi 1997.


6274 Hringur ÍS 305.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

Guðni á Sæbóli er einn helsti bátasmiður Önfirðinga á síðari hluta tuttugustu aldar.  Hann smíðaði marga báta, auk þeirra sem hann endurbyggði og lagfærði.  Við það starf naut hann aðstoðar Guðmundar bróður síns. 


Guðmundur og Guðni, móðurbræður Guðrúnar Pálsdóttur.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

 

Þeir bræður voru synir Ágústar Guðmundssonar frá Dalshúsum í Önundarfirði og k.h. Elísabetar Guðnadóttur frá Galtahrygg í Mjóafirði, N.Ís, er bjuggu á Sæbóli 1914-1963, þá tóku þeir Guðmundur  og Guðni við búi og bjuggu á Sæbóli út öldina með móður sinni og Steinunni systur sinni meðan þær lifðu.  Þeir hafa haldið tryggð við dalinn sinn og búið þar allt sitt líf.  Guðni var sá sem teiknaði bátana og hannaði skapalónin en bróðir hans Guðmundur (Mundi) var mikið með honum í smíðunum.  Þeir smíðuðu saman nokkra báta ásamt því að gera við báta.  Guðrún á nokkrar myndir af bátum sem þeir smíðuðu. 


Ræddi við Kristján Einarsson núverandi eiganda Hrings og eftirfarandi upplýsingar eru frá honum.
Guðni S. Ágústsson Sæbóli III smíðaði Hring 1956.  Báturinn var nefndur Hringur.  Nafnið Hringur er tilkomið vegna þess að það hefur verið til á Ingjaldssandi frá því 1840 og þótti Guðna mjög vænt um nafnið.  Þetta nafn var m.a. á hákarlabát sem var á Ingjaldssandi og hugsanlega í eigu þeirra á Sæbóli.  Þegar skrá átti bátinn þá var farið að leita að númeri og frænka hans, Guðrún Pálsdóttir, benti Guðna á númerið ÍS 305.  Guðna leist vel á númerið, en þetta var sama númer og á bifreið Guðna, Í 305.

Í upphafi var báturinn opinn.  Kristján taldi að það væri til mynd af honum þannig.  Næst setur Guðni álhús af krana í bátinn, setur það að aftan. 


Hringur settur á flot á Sæbóli.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

Guðni gerir svo breytingar á bátnum 1991-1992.  Hækkaði um eitt borð og gerði bátinn frambyggðan.  Skipt var um vél og sett í bátinn Mitsubishi 85. ha. sem er enn í bátnum.


Hringur settur á flot 26.05.1992.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur

Árið 2001, 10 dögum áður en Guðni féll frá hafði hann á orði við Kristján að hann vildi að Kristján fengi bátinn eftir sinn dag.  Eitt loforð tók Guðni þó af Krisjáni og það var að hann héldi nafninu Hringur.  Kristján á nú annan bát sem heitir Hringur ÍS 305 en hann skipti breytti skráningunni á gamla Hring, Hringur II ÍS 503 og heitir hann það í dag.

Kristján ætlar að fara að gera Hring II upp.  Báturinn hefur ekki farið á flot í ein 7 ár.  Það þarf að skipta um einhver bönd, laga skemmd í kili.  Að öðru leiti er báturinn í góðu lagi.  Hann kvaðst fá aðstoð frá Herði Jónssyni við viðgerðina.  Kristján kvaðst hafa tekið vélina úr bátnum og farið með hana heim og rifið hana í sundur.

Ég má til með að gera smá grín í núvernadi eiganda en ég fann grein á netinu sem ég ætla að setja hér inn:

"Þeir fiska ekki á fullu ferðinni"

Eini trébáturinn sem gerður er út frá Flateyri þetta sumarið er Hringur ÍS 305. Guðni Ágústsson smíðaði þennan bát á Sæbóli á Ingjaldssandi 1956 en frá þeim tíma hefur Guðni reglulega endurbætt bátinn og lagað, segir á Flateyrarvefnum. Frá árinu 1994 hefur Kristján Einarsson, frændi Guðna á Sæbóli, róið bátnum. "Þetta er orðin antík enda eini spýtubáturinn sem róið er héðan. Hinir eru allir á plastbátum sem ganga miklu betur. En þeir fiska ekki á fullu ferðinni. Svona hægfara bátur hefur þann kost að maður veður ekki framhjá lóðningum. Maður heldur sig bara á grunnslóðinni og það gefst oft vel", segir Kristján.

Þess má geta að Kristján er nú kominn með nýjan Hring ÍS 305 sem er einn af þessum plastbátum sem ganga miklu betur, eins og hann segir sjáflur.  Nú er spurningin, fiskar hann á fullu ferðinni? emoticon


Heimildir:
Í Íslensk skip, bátar, 2. bindi bls. 104 kemur eftirfarandi fram um þennan bát.
Kristján Einarsson, munnlegar upplýsingar.
Guðrún Pálsdóttir, myndir og fleira.


Núverandi eigendur, Kristján Einarsson og Hanna Dís Guðjónsdóttir við gamla Hring ÍS 305,
nú Hring II ÍS 503.  Mynd úr safni Guðrúnar Pálsdóttur.


Hringur II ÍS 503.  Reykjavík 09. október 2011

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 676
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 312081
Samtals gestir: 29937
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 12:53:33