Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

07.10.2011 21:51

Steingrímur EA 644

Tók myndir af þessum bát þegar ég var á Húsavík.  Vissi ekkert um hann og reyndar spurðist ekkert fyrir um hann.  Nú veit ég þó ýmislegt um hann eftir að hafa rekist á frásögn um bátinn á vef Árna Bjarnar Árnasonar, www.aba.is   Þessi frásögn finnst mér mjög góð og segir mikið um bátinn að mínu mati.

Þar sem við Árni Björn höfum nú verið í ágætu sambandi þá hefur hann leyft mér að nota frásafnir sínar á þeim bátum sem hann hefur á sinni síðu.  Þakka ég Árna Birni fyrir mig. 


Stein­grímur EA-644.   ( 5424 )
Smíðaður árið 1933 af Steingrími Hallgrímssyni, Látrum.  Stærð: 1,43 brl. Fura og eik. Opinn súðbyrðingur. Fiskibátur. Trilla.  Smíðaður til eigin nota. Stein­grímur átti bátinn í rúm tvö ár.  Að smíði bátsins með Stein­grími vann Stefán Björns­son, Litla Svæði Greni­vík.

Hér að neðan verður rakin sigling bátsins, eins og hún er best vituð, í mikið hamfaraveðri sem gekk yfir landið laugardaginn 14. desember 1935. Veðrið olli stórfelldum mannskaða og fjártjóni víða á landinu og við strendur landsins.  
Áður en óveðrið skall á fóru feðgarnir á Látrum á Látraströnd, Steingrímur Hallgrímsson og sonur hans Hallur á trillunni Steingrími EA-644 inn að Grímsnesi og hefur verið almælt að þangað hafi þeir farið gagngert til að sækja kind, sem þeir áttu þar. Steingrímur Jónsson, seinasti ábúandi á Grímsnesi, flutti til Dalvíkur 1938 tjáði nábúa sínum á Dalvík, Kristjáni Þórhallssyni, þá þessa atburði bar á góma að ekki væri rétt með farið að feðgarnir hafi gert sér ferð eftir kindinni. Sannleikurinn væri sá að feðgarnir hefðu að morgni dags farið í verslunarferð til Hríseyjar en til Látra komnir aftur hefði komið í ljós að gleymst hafði að kaupa olíu fyrir heimilið. Þeir hefðu því rennt á bát sínum inn að Grímsnesi gagngert til að fá lánaða olíu. Hitt væri svo aftur annað mál að kind sína, sem þvælst hafði saman við féð á Grímsnesi, tóku þeir einnig um borð í því augnamiði að koma henni til síns heima.
Er báturinn kom aftur út að Látrum var landtaka ófær vegna brims og stórviðris. Heimilisfólkið á Látrum var komið í fjöru til að taka á móti bátnum en þegar hann hvarf þeim sjónum taldi fólkið hann genginn undir og þá feðga tínda skammt frá landi. 
Síðar kom í ljós að svo var ekki því að báturinn hélst ofansjávar frá Látralendingu og inn að Knarrar­nesi neðan Víkur­skarðs.

Sigling bátsins þótti með miklum ólíkindum og er nokkuð ljóst að þarna hefur farið saman góð hönnun og smíði á bátnum svo og frá­bær stjórnun hans.  Svo ótrúleg sem siglingin á þessari smáskel inn allan Eyjafjörð í hamfaraveðri og stórsjó verður að teljast þá hefur ekkert getað bjargað bátnum á land upp annað en kraftaverk.   Óskemmdum komu þeir feðgar bátnum í fjöru "utan á Knarrar­nesi, sem er skammt utan við Garðsvík á Svalbarðsströnd" eins og Dagur orðar það 19. desember 1935. Við nesið er fremur aðgrunnt og brýtur því all langt norður og út af því. 

Frásögn "Dags" um að báturinn hafi tekið land utan eða norðan á Knarranesinu er sennilega til komin vegna ókunnugleika greinarhöfundar á staðháttum.  Framan á nesinu eru breiðar klappir og út frá þeim ganga Ytri- og Syðri Knarranesboðar.  Í miklu brimróti er þar engu fleyi fært.  Góð lending er í þröngri vör innan á nesinu meðan ekki brýtur af innri boðanum fyrir hana.  Til vitnis um að báturinn lenti innan á nesinu er Anna Axelsdóttir, Finnastöðum Látraströnd sem hefur það eftir foreldrum sínum, en móðir Önnu var dóttir Steingríms og systir Halls, svo og eftir dóttur Halls að lendingarstaðurinn hafi verið innan á Knarranesi.  Leiða má líkum að því að fjaran innan á nesinu hafi verið eini hugsanlegi lendingarstaðurinn við Eyjafjörð, sem einhver möguleiki var a að koma bát óbrotnum á land í því brimróti og veðurham, sem þarna var við að etja.

Á sunnudagsmorgni fann bóndinn í Miðvík bátinn á Knarrarnesinu og í honum Steingrím örendan. Var hann með áverka á höfði og lagður til í bátnum. Strax á mánudagsmorgni leituðu 15 menn frá Svalbarðsströnd Halls en fundu ekki. Daginn eftir var sendur bátur frá Akureyri með fjölda leitarmanna til aðstoðar leitarmönnum frá Svalbarðseyri. Leituðu 80 manns þann dag allan en árangurslaust. Álitið var að Hallur hefði hrakist í sjóinn en svo reyndist ekki því að hann fannst um vorið og þá nokkuð langt til fjalla.  Til marks um veðurhaminn þá hefur Aðalgeir Guðmundsson sagt skrásetjara að faðir hans Guðmundur Jóhannsson, útvegsbóndi í Saurbrúargerði, hafi komið innan af Svalbarðsströnd í þessu veðri. Þrátt fyrir að Guðmundur þekkti hvern stein í Ystuvíkurhólunum þá treyst hann sér ekki yfir hólana vegna veðurofsa en þræddi þess í stað sjávarbakkann þar til hann vissi sig kominn niður af bænum. Þar kleif hann nyrsta rinda hólanna og komst við illan leik til síns heima.

Það er aftur á móti af Steingrími EA-644 að segja að hann komst í eigu Valgarðs Sigurðs-sonar, Hjalteyri og er á hann skráður 1940 og síðan endurskráður á sama mann 1985.  Báturinn datt út af skipaskrá í fjögur ár en ekki er vitað á hvaða tímabili það var.
Árið 1990 seldi Valgarður bátinn Haraldi Jóhannessyni, Borgum, Grímsey. Mestan tíma sinn í Grímsey var báturinn inni í skúr hjá Haraldi þar sem skoðunarmaður Siglingastofnunar var tregur til að gefa honum skoðunarvottorð nema að undangengnum einhverjum lagfæringum.
Þegar báturinn hafði dvalið í þrjú ár í Grímsey var hann tekinn af skipaskrá 1993 og gefinn Sjóminjasafninu á Húsavík þar sem hann ber nú hönnuði sínum og smiðum verðugt vitni.


Steingrímur EA 644, Húsavík 18. júlí 2011

Aðeins um bátasmiðinn

Stein­grímur Hall­gríms­son, Látrum Látraströnd.   ( 1874 - 1935 )
Stein­grímur Hall­gríms­son, sem bjó á Skeri og á Látrum, Látra­strönd fékkst tölu­vert við báta­smíðar en heimildir nafn­greina fáa þeirra. Ljóst má þó vera að ára­báta hefur hann smíðað svo sem flestir, sem lögðu báta­smíðar fyrir sig en slík iðja var stunduð á öðrum hverjum bæ Látra­strandar.
Vitað er um einn ónafngreindan árabát, sem Steingrímur smíðaði fyrir Árna Jónsson, Syðriá Kleifum Ólafsfirði svo sem frá er greint í "Byggðin á Kleifum" eftir Friðrik G. Olgeirsson.
Telja má nokkuð víst að bátar sem skráðir eru smíðaðir í Grýtubakkahreppi og tengjast nafni Skers eða Steingrímur séu smíðaðir af honum.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 906
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 1217
Gestir í gær: 174
Samtals flettingar: 355267
Samtals gestir: 34191
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 16:48:40