Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

24.01.2013 21:22

Mary

Eftir að hafa fengið upplýsingar um Mary frá Gunnari þá hafði ég samband við Kristbjörn Eydal, en hann þekkir bátinn nokkuð vel. Þessi frásögn er samsuða af því sem þeir sögðu mér.

Mary er smíðuð að Látrum í Aðalvík 1958 af Benedikt Benediktssyni og honum til aðstoðar var Kristbjörn Eydal.  Þeir voru eigendur bátsins og báðir frá Látrum, eða eins og Kristbjörn orðaði það, eiginlega var það Benedikt sem smíðaði bátinn og ég var svona til aðstoðar.  Við smíðuðu bátinn til að skjöktast á, sagði Kristbjörn.  Við smíðuðum bátinn í gömlum skóla á Látum.  Byrjuðum að smíða inni í einni skólastofunni.  Kjölur og stefni voru úr eik en umför úr furu.  Náðum að setja þrjú umför þarna í skólastofunni og þá þurftum við að fara með bátinn út.  Báturinn var settur undir húsvegg við skólann og þar kláruðum við smíðina í misjöfnum veðrum.  Við notuðumst við stóran 40 lítra pott til að geta hitað upp timbrið til að geta beygt það til.  Báturinn var með svigabönd en hoggin bönd undir þóftum. 


Vélin í bátnum var ensk vél, Kristbjörn mundi ekki nafn hennar en taldi að það hafi verið Bræðurnir Ormsson sem hafi selt þessar vélar.  Þessi vél hafði verið við einhverja vatnsdælu, rafstöð.  Svo var einhver tregða komin í dæluna svo við fengum vélina.  Hún gerð upp og gerð klár.  Við fundum kúplingu sem var í einum af sjávarhúsunum við Látra.  Vélsmiður var fengin til að útbúa öxul og stefnisrör.  Báturinn gekk 6 mílur.  Þessi vél var mikill bensínhákur enda gerð til að ganga á fullum snúningi við rafstöð.


Gunnar bendir á að búsetu hafi verið lokið á Aðalvík á þessum tíma sem báturinn var smíðaður.  Þrátt fyrir það iðaði víkin af lífi því verið var að byggja radarstöðina á Straumnesfjalli og bækistöðvar verktakanna voru á Látrum.


Benedikt og Kristbjörn fara svo með bátinn á Ísafjörð um 1960 og eiga hann þá í ein tvö-þrjú ár en selja bátinn þá manni að nafni Sigurður.  Sigurður fékk einhvern mann á Ísafirði til að smíða hoggin bönd í allan bátinn.  Þannig er það í dag, báturinn er með hoggin bönd.  Sigurður átti bátinn í einhvern tíma áður en hann seldi bátinn.  Ekki vitað hverjum. 


Kristbjörn sagði að gaman gæti veri að uppljóstra því hvernig nafn bátsins væri til komið.  En þannig var að í mötuneitinu vann stúlka að nafni Mary, stórglæsileg stúlka.  Allir menn voru skotnir í henni og svo var einnig um Benedikt, en ég var orðinn giftur maður á þessum tíma.  Báturinn fékk því nafnið Mary.  Ég held að Mary sé jafnvel enn á lífi, sagði Kristbjörn og hló.


Gunnar bætir við:  Einhvern tíma kringum 1962-3 fékk pabbi bátinn lánaðan (pabbi vann samtíða Bena og Kristbirni við stöðvarbygginguna), geymdi bátinn í fjörunni neðan við Stakkanes við Skutulsfjörð og notaði kvöldin til að skjótast ásamt Jóhannesi bróður sínum og okkur gemlingunum út í Sund með veiðistangir. Ekki voru nú björgunarvestin þá og minn ekki nema 5-6 ára. Ég man að Mary var með lítilli bensínvél sem var erfið að því leytinu að hún var mjög erfið í gang heit og einhverju sinni þegar drepið var á henni úti við baujurnar í sundunum vildi hún ekki í gang aftur með neinu móti. Þeir þurftu að róa henni heim, pabbi og Jói og var víst upplit á kvenfólkinu þegar ungunum var skilað heim í ból löngu eftir miðnætti. Þetta hefur verið á hásumri því ég man að það var bjart allan tímann.


Í dag er báturinn í Bátastöðinni og er anski þreyttur.  Agnar Jónsson hefur mælt bátinn upp og teiknað.  Helstu mál á bátnum eru:  Lengd, 530 sm., breidd, 185 sm., dýpt, 60 sm., sjö umför. Meiningin er svo að smíða nýjan bát eins og Mary.  Kristbjörn kvað þá hafa sótt bátinn í september 2012 en hann kvaðst ekki vita hvar þeim muni smíða bátinn.  Báturinn hafði verið í geymslu hjá Krisjáni Jónssyni í Seljanesi, búin að liggja þar í 20 ár.  Kristbjörn kvað það hefði mátt vera búið að sækja bátinn fyrir minnst 10 árum síðan.  Það var hins vegar ekki gert og því er þetta svona.


Kristbjörn átt von á að hann og synir hans þrír myndu sjá um verkið, Guðmundur, Friðþór og Halldór Páll.  Halldór Páll er m.a. húsasmiður og ætli hann stjórni ekki verkinu svolítið.


Heimildir:

Munnlegar upplýsingar frá Kristbirni Eydal, eiganda Mary.

Skriflegar upplýsingar frá Gunnar Th.
Mary, smíðaður á Látrum í Aðalvík.  Bátastöðin 19. janúar 2013

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 311
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 282
Gestir í gær: 133
Samtals flettingar: 3434271
Samtals gestir: 272016
Tölur uppfærðar: 14.4.2021 19:56:13