Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

16.11.2012 23:29

Heklutindur var fyrstur

Ég hef verið að afla mér upplýsinga um DAS bátana eins og þið hafið séð.  Ég hef hugsað mér að setja svo allt inn sem ég hef fundið um þá og vona að þið hafið gaman af.  Ýmislegt finn ég á tímarit.is, svo hringi ég í "vin" eins og sumstaðar er gert.  Ég mun setja þá inn í réttri röð, eins og þeir voru dregnir út hjá DAS.  Heklutindur var fyrsti happdrættisbáturinn.  Ef þið hafði einhverjar upplýsingar þá væru þær vel þegnar, nú eða myndir.


Heklutindur

Smíðaður og teiknaður í Bátasmiðju Breiðafjarðar í Hafnarfirði, síðar Bátalóni, árið 1954.  Rúm 4 tonn að stærð, 28 feta langur.  Fura og eik.  Kjölurinn og stefni eru úr eik og birðingurinn úr furu, þá er þreföld eikarbönd.  Vélin er Lister díeselvél, 16 ha.  Verð 90.000 krónur.Mynd úr Morgunblaðinu 31. desember 1954, síðustu handtökin við smíðina.


Nánari lýsing á bátnum er á þessa leið:  Bátur þessi er sérlega vel vandaður og búinn ýmsum nýjungum.  Með fiskistíum, afturlest og hvalbak, en undir hvalbaknum lúkar með hvílu, legubekk og olíukynntri eldavél.

Báturinn stóð til sýnis á mótum Aðalstrætis og Austurstrætis, vélin var höfð í gangi og báturinn upplýstur.


Heklutindur í Aðalstræti.  Mynd frá Happdrætti DAS


Heklutindur er fyrsti svokallaðra happdrættisbáta sem smíðaðir voru fyrir Happdrætti DAS á árunum 1954-1958.  En fyrirhugað er að allir bátar happdrættisins beri nafn er endi á -tindur.  Heklutindur var dregin út 8. janúar 1955 á miða í eigu Árna Eiríkssonar, bílstjóra í Reykajvík.

Í grein í Morgunblaðinu 23. janúar 1955 er sagt frá því að fjórir ungir Grunnvíkingar hafi keypt Heklutind og muni þeir sigla honum til Vestfjarða.  Þetta voru bræðurnir Sigurjón og Gunnar Hallgrímssynir, Páll Friðbjörnsson og Karl Pálsson, allir til heimilis í Sætúni í Grunnavíkurhreppi.  Þeir keyptu bátinn af vinningshafanum fyrir 95.000 krónur.

Sigurjón var spurður hvernig þeim litist á nýja bátinn.  Ágætlega.  Þetta er mjög vandaður vélbátur, 4,6 smálestir að stærð með 16 ha. Lister-díeselvél.  Hann er útbúinn fullkomnari tækum en bátar af sömu stærð eru að jafnaði.  Í honum er dýptarmælir, raflýsing og vökvastýri.  Ennfremur tæki til þess að lægja með sjóa með olíu.  Er hægt að spýta olíu út úr fram- og afturstefni og er því stjórnað í stýrishúsi.  Báturinn er þiljaður fram fyrir stýrishús og fram í er góður lúkar með hvalbak.  Við erum allir á vertíð hér fyrir sunnan í vetur en með vorinu ætlum við að sigla Heklutind vestur.  Annars ætlum við að skýra hann upp en höfum ekki ákveðið heiti hans.  Gaman væri að vita hvort þeir hafi skipt um nafn á bátnum?Heklutindur gerður klár til brottfarar.  Mynd frá Happdrætti DAS


Síðdegis þann 20. Apríl 1955 lagði happdrættisbáturinn Heklutindur upp í sína fyrstu alvöru sjóferð frá Reykjavík til Grunnavíkur við Ísafjarðardjúp.  Í prufusiglingum hefur báturinn reynst mjög vel.  Þrír nýju eigendanna sigldu bátnum vestur og áætla að þeir verið 30-35 klst. í ferðinni.  Báturinn var að sjálfsögðu fylltur af varningi áður en lagt var af stað.  Báturinn verður gerður út frá Grunnavík og afla verður landað þar líka.Heklutindur á siglingu. Mynd af vef Gunnvíkurfélagsins


Þann 22. apríl um kl. 12:30 renndi Heklutindur að bryggjur á Ísafirði.  En þann 20. apríl hafði bátnum verið siglt frá Reykjavík til Grunnavíkur.  Siglingin tók 28 klst.  Þeir fengu ágætis veður og gekk ferðin að óskum.  Reyndist báturinn og vélin ágætlega.


Þann 05. desember 1962 fóru tveir menn frá Ísafirði á vélbátnum Heklutindi, til Jökulfjarða og ætluðu að huga að refum.  Þetta voru Kjartan Sigmundsson, eigandi bátsins og Bjarni Pétursson.  Þeir komu til Grunnavíkur á miðvikudag, en fóru í Lónafjörð á fimmtudag og lögðust svo á leguna við Hesteyri klukkan 9 á fimmtudagskvöldið.  Kjartan segir að verðuspáin hafi þá verið suðaustan gola og fyrir laugardaginn hafi verið spáð suðlægri átt með rigningu.  Gistu þeir áhyggjulausir um nóttina í húsi Bjarna, Móum við Hesteyri.

Klukkan sex á föstudagsmorgun skall svo skyndilega á iðulaus stórhríð af norðaustri.  Telja þeir veðurhæð hafa verið 8-10 stig og stóð veðrið á land.  Gátu þeir félagar ekkert aðhafst í landi og klukkan hálf þrjú á föstudaginn slitnaði báturinn upp og rak í land og brotnaði hann.  Fór önnur hliðin úr bátnum og er hann gersamlega ónýtur.  Gátu þeir félagar ekkert aðhafst vegna veðurofsans.  Var báturinn orðinn mjög ísaður, t.d. var afturmastrið orðið um metri í þvermál.

09. desember fékk Slysavarnarfélagið vélbátinn Dynjanda til að leita þeirra félaga og fann hann þá á Hesteyri.  Engu hefur enn verið unnt að bjarga úr Heklutindi. 


Eftir að Heklutindur brotnaði við Hesteyri var hann fluttur til Ísafjarðar þar sem hann lá árum saman.  Loks var hann fluttur að Bæjum við Djúp, þar sem Jens í Kaldalóni eignaðist hann.  Báturinn var þó aldrei gerður upp en þarna sást báturinn síðast við útihúsin um 1989 og ekki vitað hvort hann er þar ennþá.


Þorbjörn H. Jóhannesson sendi mér tvær myndir sem hann tók af Heklutindi við Hærribæ og sendi mér smá frásögn með.  Þorbjörn fær orðið: 

Heklutindur var mölvaður niður þegar öll húsin í Hærribæ voru rifin, og jarðaður á staðnum, þetta var árið 2003/2004.  Til gamans þá var túnið niðri á stöpunum þar sem hann var dreginn á land skírt
eftir honum og heitir því Heklutindur því á því er smá hæð.
 


Heklutindur á kafi í snjó við Hærribæ, snjóaveturinn 1995.  Mynd: Þorbjörn H. Jóhannesson


Heklutindur 25. júlí 1995.  Mynd: Þorbjörn H. Jóhannesson


Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 46
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 1013
Gestir í gær: 44
Samtals flettingar: 3153104
Samtals gestir: 236998
Tölur uppfærðar: 26.5.2020 02:09:06