Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

16.03.2011 22:32

Hanna ST 49

Hanna frá Gjögri er merkisfleyta fyrir margar sakir.  Hún er elsta fley sem hefur veiðiheimild frá fiskistofu.  Næst elsta skip samkvæmt skipaskrá Siglingstofnunar. Hún er síðasta norsk-smíðaða trillan sem til er á Íslandi. 
Ég ætla að reyna að fylgjast með viðgerð á Hönnu eftir því sem ég get.  Vonandi næ ég síðan að mynda Hönnu þegar hún verður sett á flot en stefnt er á það í júlí 2011. 

Hilmar lánaði mér tvær bækur til að lesa en þar eru greinar um Hönnu.  Ég skrifaði þetta upp og setti saman í eina grein.  Fyrir ykkur sem langar til að lesa þessa grein þá smellið hér http://rikkir.123.is/files/ síðan opniði skjalið sem heitir Hanna frá Gjögri.  Þar kemur svo fram hvaðan þessar greinar eru fengnar.
Hér fyrir neðan er svo dagbókin mín varðandi það sem ég sé að gert hefur verið við Hönnu þá daga sem ég kíki inn.

03. mars 2011
Í dag er svo komið að Hafliði Aðalsteinsson er að vinna í að laga Hönnu.  Þegar ég leit þarna inn var búið að skipta um framstefnið og setja kjölinn.  Afturstefnið var ekki komið og þá var búið að fjarlægja eitthvað af borðum, alla vegna umfar I og II voru farin.


Hanna Gjögri


Framstefnið og kjölurinn komin á sinn stað.  Umfar I og II farinn.


Hanna frá Gjögri liggur hér á hliðinni.

25. apríl 2011
Kíkti á Hönnu í dag.  Búið var að rétta hana við.  Til viðbótar var búið að setja hálft afturstefnið á bátinn og tvö fyrstu umförin virtust komin á einnig.  Ég tók ekki eftir því að mikið meira hafi verið komið í framkvæmd.


Afturstefnið komið á og tvö neðstu umförin.  25. apríl 2011


Hanna ST 49 komin á rétta kjöl.  25. apríl 2011

05. júní 2011
Í sjónvarpsþættinum Landinn var viðtal við Hilmar og Hafliða vegna viðgerða á Hönnu.  Hér er slóðin http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4577863/2011/06/05/3/  þið ættuð að gera skoðað þetta brot af þættinum hér.  Eftir þennan þátt þá fékk Hilmar sendar tvær vísur frá vinum sínum og sendi hann mér þær svona til gamans.  Ég ætla að leyfa ykkur að njóta líka.

Sumarið skal verða gott
sól og blíða um allar grundir.
Kristinn, Hilmar og Hanna flott
hafiði bara góðar stundir
                            Höf. Vilborg

Hilmar kunni bát að hanna,
hann vakti gleði sanna.
Falleg verður fleytan Hanna,
fékk þó við það aðstoð manna.
                            Höf. Kristinn

13. júní 2011 
Ræddi við núverandi eiganda Hönnu, Hilmar F. Thorarensen og fékk að heyra sögu bátsins og vona ég að rétt sé eftir haft.  Veit að Hilmar bætir þá um betur og sendir mér línur.

Hanna ST 49
Maður að nafni Guðmundur Jónsson (f. 14. júlí 1877 - d. 8. ágúst 1953) búsettur að Helgastöðum í Reykjavík átti Hönnu 1899, en líklega var báturinn smíðaður í Noregi eitthvað áður.  Guðmundur sigldi bátnum um flóann og veiddi fisk og þá var hann mikil skytta og skaut sér til matar.  Guðmudur leggur svo bátnum um 1950.
1958 bilar vél í bát norður í Gjögri.  Það fannst Kelvin vél, sæmilega góð í frekar illa útlítandi bát í Örfirisey.  Þegar sækja átti vélina þá fengu menn að taka bátinn líka á Gjögur.  Báturinn var fluttur með skipi og þegar kom að því að setja bátinn í land þá veltu menn því fyrir sér hvort báturinn myndi fljóta.  Báturinn var settur á flot og viti menn, hann flaut alveg að bryggju.  Karl faðir minn óskaði eftir að fá að eiga bátinn og fékk það, það má segja að þarna hafi hann bjargað þessum bát.  Þetta var Hanna.
Karl F. Thorarensen eignast bátinn 1958 og gerir við hann.  Setur á hann hvalbak og stýrishús.  Líklega hefur pabbi hækkað bátinn um alla vegna eitt umfar ef miðað er við hvernig þetta lítur út í dag.  Pabbi er svo farinn að róa á bátnum 1959 og fór ég marga róðra með honum. 
Eftir lát pabba eignumst við systkynin bátinn.  Ég var alltaf reglulega að reyna að halda bátnum sjófærum en fékk litla aðstoð frá öðrum eigendum hans.  Það var svo veturinn 1997 að mig dreymir pabba.  Þar segir pabbi við mig að það þýði ekki að láta Hönnu drabbast svona niður.  Eftir þetta þá fór ég ásamt Eiríki Eiríkssyni vini mínum og skólabróður fljúgandi noður á Gjögur í lok mars 1997 og dvöldum í nokkra daga í góðu yfirlæti hjá frænda mínum og vini, Adólf Thorarensen.  Þótt hríðarbylur væri flesta dagana þá náðum við að skrapa, menja og mála bátinn að utan og innan með því að hita upp með kósangasofni sem Adólf lánaði okkur.  Eftir þetta eignast ég Hönnu.  Frá árinu 1998 hefur Hönnu verið haldið lítillega til veiða á hverju sumri.   
Nú er svo komið að ég hef fengið Hafliða Aðalsteinsson smið til að aðstoða mig við að gera bátinn upp.  Nú verður gengið alla leið og klárað að gera Hönnu upp svo hægt verði að nota hana til veiða.  Ég hef hug að veiða á Hönnu meðan mér endist heilsa til.  Það verður að vísu alltaf erfiðara og erfiðara að viðhalda bátum svo þeir fái haffærnisskirteini.  Nú langar mig að láta drauminn rætast og gera þetta einu sinni svo að báturinn verði tipp topp. 
Nú er búið að skipta út öllum umförum nema þremur efstu.  Við skoðun á þremur efstu umförunum þá gæti verið að þriðja efsta umfarið sé alveg upprunalegt en efstu tvö umförin gætu verið eftir að faðir minn gerði bátinn upp og gæti hann hafa hækkað bátinn sem því nemur.


Hanna ST 49 eins og hún lýtur út í dag, 13. júní 2011.  Búið að grunna skrokkinn að utan


Séð innan í Hönnu.  Sjá má að skipt hefur verið út öllum umförum nema þremur efstu, 13. júlí 2011

10. júlí 2011
Kíkti á Hönnu ST í dag.  Nú var búið að mála Hönnu að utan, eina umferð eða svo.  Hanna er að taka á sig rétta mynd og verður glæsileg þegar hún verður tilbúin.  Þá var Hafliði búinn að skipta um flest bönd að innan en átti eftir að skoða hvernig þetta yrði í stefni og skut.  Ekki meira í bili.


Skrokkur Hönnu að verða flottur.  09. júlí 2011


Búið að skipta um flest böndin.  Tjargað undir plittum en grunnað fyrir ofan.  09. júlí 2011

02. ágúst 2011
Það er rétt um mánuður síðan ég kíkti á Hönnu ST.  Verkinu miðar vel áfram og voru Hilmar og Hafliði Aðalsteinsson á fullu.  Talsverðar breytingar frá því síðast.  Búið að mála meira, öll bönd komin í bátinn, Westbeke-vélin komin um borð, kælingin fyrir vélina að komast upp, búið að mæla öxulinn og þá var skrúfan kominn á öxulinn en bara rétt meðan lengd öxulsins var mældur.


Vélin kominn á sinn stað. 02. ágúst 2011


Vélarkælingin og skrúfan á sínum stað.  02. ágúst 2011


Eitt af því sem eftir er að gera er að smíða ofan á lúkarinn.  02. ágúst 2011

17. ágúst 2011
Nú styttist í að Hanna verði sett á flot til að sjá hvernig til hafi tekist með viðgerðir.  Núna voru talsverðar breytingar frá því síðast.  Lúkarinn kominn og plittarnir komnir svo eitthvað sé nefnt.  Hafliði er í þessu smáa núna, þ.e. að ganga frá smáatriðunum.

Það sem eftir er að gera er m.a. að setja rekkverk framan á, setja vélina í gang og stylla, setja dælur og fleira smotterí.  Aftan á kemur stigi sem er klár en bara eftir að festa hann.  Þegar ég skoðaði bátinn í dag gat ég ekki annað en dáðst að handverkinu, báturinn er orðinn flottur.


Hanna að verða klár, 17. ágúst 2011


Vantar hurðina fyrir lúkarinn, 17. ágúst 2011


Það var ekki búið að mála stýrið en ég skellti málningu á það í tölvunni til að sjá hvernig þetta kæmi út, 17. ágúst 2011

20. ágúst 2011
Stóra stundin rann upp í dag.  Hanna ST var klár fyrir sjósetningu.  Vélin sett í gang og það leyndi sér ekki að menn voru ánægðir enda bros á andlitum allra.  Í miðju Reykjavíkurmaraþoni var lagt af stað til að sjósetja.  Smá tafir á leiðinni en þetta hafðist allt saman.  Klukkan nákvæmlega 11:00 snerti kjölur Hönnu sjóinn.  Hanna fékk að vera áfram á vagninum, eigum við ekki að segja til að venjast kuldanum.  Nei, það var til að prófa vélina, dælurnar og skrúfuna.  Að því loknu, eða klukkan 11:07 rann Hanna í sjóin og flaut.  Ekki leki og greinilegt að vandað hefur verið til verksins.  Hafliði, Hilmar og Jón vélamaður sigldu um ytrihöfnina innan um makríltorfur sem tóku vel á móti Hönnu og þá hafði Jón Ragnar mætt á Svölunni og annar aðili sem ég þekki engin deili á að svo stöddu á bát sem hann hefur að láni. 


Hafliði aðstoðar við gangsetningu, 20. ágúst 2011


Jón Ragnar, Garðar og Hilmar brosa út í eitt, vélin fór í gang.  20. ágúst 2011


Hafliði dregur Hönnu út úr skúrnum, 20. ágúst 2011


Hilmar og Hafliði við Hönnu ST 49, 20. ágúst 2011


Klukkan 11:00, Hanna snertir hafflötinn, 20. ágúst 2011


Vélin prófuð, skrúfan prófuð, dælan prófuð, allt í lagi.  20. ágúst 2011


Klukkan 11:07 var Hanna ST komin á flot.  20. ágúst 2011


Hönnu siglt í gegnum makríltorfu, 20. ágúst 2011


Hanna ST á góðu skriði, tekur sig vel út á sjónum.  Reykjavík 20. ágúst 2011

Þá er þetta líklega síðasta færsla nema ég eigi eftir að fara að Gjögri og taka myndir af Hönnu þar.  Það væri flottur endir á þessari sögu sem ég hóf þann 03. mars 2011.  En eftir því sem Hilmar segir þá kom hann með Hönnu á verkstæðið fyrir 13 mánuðum síðan. Í upphafi var unnið rólega.  En nú er staðan sem sagt sú að Hanna fór á flot og það var engin leki.  Nú þarf að ditta smávegis að, mála meira o.fl. áður en farið verður með Hönnu norður að Gjögri.  Hilmar vildi meina að það yrði stutt í þá ferð.

Til hamingju með Hönnuna þína Hilmar.

Annað
Hér fyrir neðan eru upplýsingar sem ég hef fundið um Hönnu ST á veraldarvefnum og hvaðan heimildirnar koma, endilega smellið á slóðirnar.

Hanna ST 49 frá Gjögri var smíðuð 1899 í Noregi og er elsti bátur á Íslandi sem er með veiðiheimildir frá Fiskistofu.  Karl F. Thorarensen á Gjögri eignaðist bátinn 1958.  Núverandi eigandi bátsins er Hilmar F. Thorarensen eftirlaunaþegi og trillukarl, sonur Karls.  Hilmar og Hafðili Aðalsteinsson skipasmiður eru að vinna í uppgerð bátsins.  Þeir eru að skipta um nokkur borð og kjöl ásamt því að sett verður í bátinn ný vél, 27 hö. Westbeke vél.


Hanna ST 49 í Karlshöfn á Gjögri. Mynd Þórólfur Guðfinnsson.


Westerbeke bátavél

Þessi heimild kemur af síðu Ásafls ehf:  http://www.asafl.is/index.php?option=com_content&view=article&id=244:hanna-hefur-linu-mjuka&catid=1:frettir&Itemid=11

Á heimasíðu Ásafls ehf, frá því 13. mars 2011, slóðin hér að ofan, verður fylgst með lagfæringu bátsins eftir því sem fram kemur þar.  Þar má jafnframt finna þessa stöku, ekki kemur þó fram hver höfundurinn er.

Hanna hefur línu mjúka
hefur borið aldur vel.
Brátt mun Ægir hana strjúka
dundar hún við fisk og skel.Enn ein heimildin um Hönnu frá Gjögri er síðan í ágúst 1999, en þá var frumsýnd kvikmynd um Hönnu frá Gjögri eftir Þorstein Jónsson.  Myndin er 26 mínútna löng.  Eftirfarandi er orðrétt eftir greininni sem ég las:

Hann ætlaði ekki að lenda í sama baslinu og foreldrar hans og fluttist á unglingsárunum til Reykjavíkur.
En eitthvað varð eftir á Gjögri, eitthvað óáþreifilegt og ósýnilegt sem þó lifir og andar.  Núna leitar hugurinn norður hvert vor og hann er ekki í rónni fyrr en hann er kominn á staðinn, sem hann flúði ungur, þar sem jörðin er sú saman og sjórinn er sá sami og þar sem trilla förðu hans bíður í sjóhúsinu eftir að komast á flot.  Hún heitir Hanna og þó hún sé hundrað ára er hún vel ern, gott sjóskip og hefur alla tíð verið mikið happafley.  Öldugjálfrið og fuglakliðurinn eru sem tónlist í eyrum hans og Hönnu þekkir hann eins vel og hægt er að þekkja eina trillu.  En hún þarfnast endurbóta og faðir hans hefur vitjað hans í draumi og sagt honum að það þurfi að fara að gera trilluna til góða.

Maðurinn er Hilmar F Thorarensen og við sögu koma heimamenn og brottfluttir Strandamenn, Ólafur og Jakob Thorarensen, Garðar Jónsson og Guðmundur og Jón Jens á Munaðarnesi.

Myndin var tekin á Ströndum í ágúst 1999.

Heimild af veraldarvefnum: http://www.kvikmynd.com/Hanna_fra_Gjogri.html

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1013
Gestir í gær: 44
Samtals flettingar: 3153121
Samtals gestir: 236999
Tölur uppfærðar: 26.5.2020 02:40:59