Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2011 Janúar

30.01.2011 20:41

Krummi

Þegar ég kíkti á bryggjuna í dag hér í Hafnarfirði voru hrafnar að éta fiskroð.  Ég fylgdist mikið með einum þeirra því hann var mjög gæfur.  Ég renndi bílnum uppað honum og var í 3-4 metra færi við hann þar sem hann kroppaði, reif og sleit roðið.  Hér má sjá þrjár myndir sem ég tók í dag en ég notaðist við litla flassið á myndavélinni minni.  Hér sést hvernig krumma gekk.


Krummi.  Hafnarfjörður 29.01.2011


Krummi.  Hafnarfjörður 29.01.2011


Krummi.  Hafnarfjörður 29.01.2011

29.01.2011 22:01

Æðarkóngur

Þann 25. janúar s.l. rak ég augun í þennan æðarkóng kvk, eða eins og við köllum hana stundum æðardrottningu þó það sé rangnefni.  Hún var ein á ferð í Hafnarfjarðarhöfn og hefur verið þar í einhvern tíma.  Hér er ein mynd af henni, ekki ein af mínum bestu en sönnun þess hvað ég sá.


Æðarkóngur kvenfugl, Hafnarfjörður 25. janúar 2011

29.01.2011 19:04

Bræður vinna saman við Kára

Kíkti í dag á framkvæmdirnar við Kára.  Lagfæringarnar ganga þokkalega held ég, þó Ólafi finnist þetta ganga frekar hægt.  Ég tók slatta af myndum og setti inn í myndaalbúmið um Kára.  Best að fara inn á slóðina hér til hliðar  og síðan þaðan inn í ljósmyndamöppuna, að sjálfsögðu eftir að hafa lesið það sem ég hef ritað um lagfæringarnar.  Þegar ég mætti á staðinn voru þeir bræður, Ólafur og Jóhannes að vinna að lagfæringunum.


Jóhannes úr Skáleyjum situr í Kára.  Hafnarfjörður 29. janúar 2011


Ólafur heflar og heflar.  Hafnarfjörður 29. janúar 2011

28.01.2011 07:00

Ég bið afsökunar

Eins og glöggir menn munu kanski hafa séð þá fékk ég ákúrur í gestabókina mína í gær 27. janúar fyrir að hafa tekið mér það leyfi að áfrita gögn af annarri síðu og nota á mína.  Þarna á ég við það sem ég kalla Málshættir í stafrófsröð, en ég náði í alla þessa málshætti á heimasíðu hjá Þórhildi Sigurðardóttur http://oocitis.com/totasig og http://barnaland.is/barn/84694/

Þetta er allt rétt hjá Þórhildi, ég náði í þessa málshætti á síðuna hennar en hún hafði lagt mikla vinnu við að safna þeim saman.  Ég vitnaði ekki í síðurnar hennar og bað hana ekki um leyfi til að nota efni beint af síðunni hennar.

Mér fannst því við hæfi að setja hér á forsíðuna afsökunarbeiðin og biðja Þórhildi enn og aftur afsökunar á þessu og reyni að bæta fyrir þetta hér þó seint sé. 

Í stikunni upp á síðunni minni eru tveir liðir, annar heitir Málshættir í stafrófsröð og eru beint af síðu Þórhildar.  Hinn kalla ég Málsháttur dagsins og þar eru þeir málshættir sem ég hef sett inná forsíðuna hjá mér.

Enn og aftur Þórhildur, fyrirgefðu frekjuna í mér. 

27.01.2011 16:46

Meira um Sílið

Þegar myndirnar af Sílinu í Hafnarfirði eru skoðaðar má sjá þrjár útfærslur af stjórnbúnaði við stýrið.  Fyrsta stýrisstöngin virtist henta eins og Sílið var þá.  Eftir breytingar var komið nýr búnaður en eftir því sem Björn sagði þá var þessi búnaður frekar stífur svo hann kom með nýja stýrisstöng og setti á bátinn.  Þetta á hugsanlega eftir að taka einhverjum breytingum eftir því sem mér skildist, aðallega í því hvernig stöngin verði skorðuð af.  Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur allt til með að líta út, ég fylgist með þessu. 


14. nóvember 2010


25. janúar 2011


25. janúar 2011

25.01.2011 21:28

Bátayfirlit 25.01.2011

Ég var að fara yfir alla gömlu bátana sem ég hef ekki sett neina frásögn um, af öllum þeim sem eru hér til hliðar á síðunni.  Alls eru komnar myndir inn af 31 bát og frásagnir eru með 23 þeirra.  Sögurnar ekki allar fullgerðar.  Þetta kom mér reyndar svolítið á óvart, hélt að ég væri ekki kominn með svona margar frásagnir. 

Þeir sem ég á eftir að fá sögur af eru:

Afi
Björg
Hafdís frá Reykhólum
Hringur úr Flatey
Knörr SH 10
Máni frá Patreksfirði
Ólafur frá Hvallátrum
Trilla frá Húsavík

Þá má geta þess að nýjar myndir eru komnar inn á Sílið, en það fór á flot aftur í gær, 24. janúar, eftir breytingar og ég myndaði það í dag 25. janúar.  Talsverðar breytingar hafa orðið á bátnum, endilega skoðið þær.

24.01.2011 19:55

Rjúpur

Þegar ég var á ferð um Stykkishólm sá ég hóp af rjúpum á flugi og settust þær á tjaldstæði bæjarins.  Um 1 1/2 klst. síðar þá tók ég eftir að þær voru enn á saman stað.  Ég ákvað því að athuga hve nálægt þeim ég kæmist til að mynda.  Þarna voru 13 rjúpur í hóp og ég lagði bifreiðinni um 6 metra frá þeim og tók myndirnar.  Eins og þið sjáið þá eru þær mjög rólegar þrátt fyrir nærveru mína.  Eftir smá tíma þá færði ég bílinn og þá töltu þær á brott en fóru ekki langt.  Gaman að sjá þær svona hvítar og flottar.  Ég er nokkuð sáttur við afraksturinn.  Það sem gerði myndatökuna sérstaka fyrir mér var pollurinn fyrir framan þær.


Rjúpur.  Stykkishólmur 23. janúar 2011


Það þarf nú líka að klóra sér smá.  Stykkishólmur 23. janúar 2011


Tvær...neee, ein rjúpa.  Stykkishólmur 23. janúar 2011

24.01.2011 19:49

Toppskarfar

Það var mikið af toppskarfi í Stykkishólmi eins og fram kemur hér í færslunni að framan.  Litirnir í myndunum skýrast af veðrinu en vona að þetta skili sér samt til ykkar.


Toppskarfur.  Stykkishólmur 23. janúar 2011


Toppskarfur.  Stykkishólmur 23. janúar 2011


Toppskarfar á hverju skeri.  Stykkishólmur 23. janúar 2011

24.01.2011 19:32

Æðarfugl í Stykkishólmi

Mikið fuglalíf er í Stykkishólmi þessa dagana og gaman að keyra niður á bryggju og skoða lífið.  Mig langar að setja hér inn tölvupóst sem barst fuglaskoðurum þann 21. janúar frá Náttúrustofu Vesturlands:

Sæl öll.
 
Hafnarvörðurinn í Stykkishólmshöfn, Hrannar Pétursson, vakti athygli mína á miklum fuglahópi við höfnina á áðan. Ég skrapp niður á höfn og skannaði hana stuttlega. Þarna var gríðarmikið líf í miklu og spennandi æti í þaraskógi alveg uppi við land (nú er fjara). Mest var af skörfum en ég áætlaði mjög gróflega að þarna (á sjónum eða sitjandi í fjörunni) væru um 400 toppskarfar, 200 hvítmáfar, 50 bjartmáfar, 1 silfurmáfur og talsverður æðarfloti, líklega 400 stk. eða svo, allt á mjög litlu svæði. Einnig voru nokkrir hrafnar í ætinu. Auðveldast var að sjá hvað hrafnarnir voru að éta en það voru 10-15 cm langir bolfiskar.
 
Hafnarvörðurinn stakk höndinni í sjóinn og skóflaði fiski upp, sem við greindum sem lýsu. Fjöruborðið nánast kraumaði af lífi.
 
Að sögn hafnarvarðarins er síldin farin af Stykkishólmssvæðinu en nokkuð er enn af henni í Grundarfirði.
 
Kveðja,
Róbert 
 
     
Róbert A. Stefánsson
Náttúrustofa Vesturlands
Hafnargötu 3
340 Stykkishólmi
S. 433 8121 / 433 8122 / 898 6638
Fax 438 1705
www.nsv.is
robert@nsv.is, nsv@nsv.is

Því miður varð ég ekki alveg svona heppinn eins og Róbert lýsir í sínum pósti en fuglafjöldinn var mikill.  Toppskarfar um allt, á öllum skerjum og ég get staðfest að þeir voru allavegna 400, æðarflotinn fannst mér vera talsvert stærri en Róbert segir en ég reyndi ekki að slá tölu á þá.  Set hér inn einhverjar myndir af æðarfuglum svona til að gefa ykkur smá innsýn í þetta. 


Hér sést talsverður æðarfuglafloti sem liggur í Ess út úr höfninni.  Stykkishólmur 23. janúar 2011


Þegar bátar fóru út úr höfninni kom styggð að fuglinum.  Stykkishólmur 23. janúar 2011


Meiri gusugangur.  Stykkishólmur 23. janúar 2011

24.01.2011 19:25

Bátamyndir 2011

Fyrir ykkur bátakarla þá er ég farinn að safna í nýtt albúm, skip og bátar 2011.  Fyrstu myndirnar eru komnar inn.  Hér eru tvær af 2678 Landey SH 31.  Fleiri myndir í albúmi.


Línan sett um borð í Landeyna.  Stykkishólmur 23. janúar 2011


Svo var farið til að leggja línuna.  Stykkishólmur 23. janúar 2011

19.01.2011 23:09

Að laga myndir!

Ég er með talsvert safn af gömlum myndum sem tilheyra mér og systkynum mínum.  Ég hef sett nokkrar myndir af sjálfum mér hér inn annað slagið úr þessu safni en engum öðrum þar sem það er illa séð.  Ég ætla samt að leyfa mér að setja hér inn mynd af honum Páli afa mínum sem ég gerði við fyrir nokkrum árum síðan, en myndin var leiðinlega skemmd.  Ég held að þetta hafi tekist þokkalega hjá mér en mitt fólk verður að dæma það.  Fyrri myndin sýnir hvernig skemmdirnar eru, rifið stykki úr myndinni en það hafði verið límt á aftur, brot í myndinni í hægra horni uppi sem liggur á ská niður í miðja mynd, svo eitthvað sé nefnt.  Það er með ólíkindum hvað hægt er að gera í dag í tölvunum okkar!


Páll Jónsson afi minn.

19.01.2011 22:46

Hafnarfjarðarlækurinn

Þessar stokkendur voru á lítilli vök í Hafnarfjarðarlæknum þann 9. janúar síðastliðinn.  Það var frekar kalt úti og mér var sk..kalt.  Ég get nú ekki sagt að ég hafi öfundað fuglana.  Syndandi í ísköldu vatninu og vatnsdroparnir frusu í fjöðrunum.  Bara þessi lýsing nægir mér til að fá hroll.  En ekki var að sjá að þetta hefði nein áhrif á fuglana.


Stokkendur.  Hafnarfjörður 9. janúar 2011

16.01.2011 22:40

Reykjavíkurhöfn 16.01.2011

Rak augun í þessa teistu í Reykjavíkurhöfn í dag.  Fannst ástæða til að taka myndir af henni.  Hér eru myndir af henni en fyrir ykkur sem ekki vitið þá er þetta vertrarbúningurinn en á sumrin er fuglinn alsvartur nema með tvo hvíta bletti á vængjum.  Það má segja að teistan sé einn af fáum fuglum sem skiptir alveg um búning líkt og rjúpan.


Teista.  Reykjavíkurhöfn 16. janúar 2011


Teista kíkir eftir æti.  Reykjavíkurhöfn 16. janúar 2011


Teista.  Reykjavíkurhöfn 16. janúar 2011

10.01.2011 00:18

Lækurinn í Hafnarfirði

Kíkti á Lækinn í Hafnarfirði 09. janúar (í gær).  Lækurinn allur að mestu frosinn en þó var vök þar sem fólk gefur öndunum og þar var mikið af öndum, gæsum og álftum.  Einn grafandarkarl var í þessum hópi og er hann búinn að halda til þarna í allan vetur.  Það var frekar erfitt að ná honum einum á mynd en það var gerlegt með því að klippa utanaf sumum myndunum.  Hér eru þrjár myndir af honum og er hann mikill snyrtipinni eins og sjá má.


Grafönd, karlfugl.  Hafnarfjörður 09. janúar 2011


Grafönd og stokkandarkerling.  Hafnarfjörður 09. janúar 2011


Grafönd.  Hafnarfjörður 09. janúar 2011

05.01.2011 22:14

Rúna ÍS 174

Þessi frásögn er í vinnslu, set samt inn það sem komið er.

Ég ræddi við Gunnlaug Valdimarsson, núverandi eiganda Rúnu.  Ég set hér inn það sem ég náði að skrá niður eftir Gunnlaugi en vonast til að finna meira um bátinn og bæta upp í söguna.

Gunnlaugur fær orðið.
Rúna var endusmíður 1912 fyrir Valdimar í Hnífsdal.  Hversu gamall báturinn var þá kvaðst hann ekki vita.  Rúna var svo aftur endursmíðuð 1971 fyrir Hólmberg Arason á Ísafirði.  Síðan þá hefur ekkert verið átt við bátinn.

Gunnlaugur kvaðst hafa eignast bátinn fyrir um 6 árum síðan, keypt hann af dánarbúi Guðmundar Eyjólfs Ólafssonar á Ísafirði. (minningagrein um Guðmund Eyjólf Ólafsson http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1064650ATH. Ræða við Ólaf og/eða Birki Guðmundssyni. Póstur sendur 6.1.2011, í vinnslu.
Eyjólfur hætti útgerð 1981 Eftir það reri hann á opinni trillu, Rúnu, öll sumur og fór síðast á sjó fyrir fjórum árum 85 ára gamall. (2002 innskot RR)

Þegar Gunnlaugur eignaðist bátinn var 10 hö. Fariman vél í bátnum.  Fyrir tveimur árum síðan kvaðst Gunnlaugur hafa sett 16. hö. Volvo Penta vél í bátinn.

Ég sagði Gunnlaugi að ég teldi mig eiga mynd af Rúnu með húsi.  Hann kvað það alveg geta verið rétt.  Hann kvasðt afa byggt hús á Rúnu fyrir þremur árum síðan, það hafi verið á bátnum í tvö ár þá fjarlægði hann húsið því honum líkaði ekki við það.
Gunnlaugur kvað Rúnu vera mjög góðan sjóbát.  Eitt sinn fór hann í brjáluðu veðri, 11 metrum á móti straumi, úr Flatey í Stykkishólm.  Þá hafi hann verulega fundið hversu góður sjóbátur Rúna var, hann kvaðst ekki einu sinni hafa þurft að klæða sig í sjóstakkinn.

Til gamans má geta þess að Gunnlaugur kvaðst hafa komið að endurbótum nokkurra báta.  Nefndi m.a. að Þytur hafi verið bátur númer 26.  Nú væri hann að vinna í einum og það væri bátur númer 31.  Gunnlaugur sagði mér hvaða bátur það væri en ég lagði það nú ekki á minnið. 
Í dag, 3. des. 2011 er Rúna komin aftur á Ísafjörð, til kunningja Gulla og sá ætlar að halda áfram að halda Rúnu við og á sjó.


Litla skemmtilega grein mátti lesa í morgunblaðinu miðvikudaginn 13. september, 2000 - Úr verinu - Ég ætla að leyfa mér að setja hana hér inn orðrétt en sleppi myndinni sem fylgdi.  Slóðin á greinina er http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=558269  


"HOLLT VEÐUR EN LÍTIL VEIÐI"

Því hefur verið fleygt að Rúna ÍS, sem hann Eyjólfur Guðmundur Ólafsson rær á, sé eina fjölveiðiskipið á Vestfjörðum. Gummi Eyjólfs, eins og hann er kallaður, vildi nú láta ósagt um það en segir að hann veiði á handfæri og eins hafi hann prófað að leggja síldarnet. "Ég fékk nú lítið sem ekkert í netið og hef tekið það upp. Það kemur þó oft hingað tiltölulega blönduð síld undir lok ágúst."

Eyjólfur segir að hann rói mest út undir Dalina og þá helst ekki nema í góðu veðri þar sem Rúna er opinn bátur. "Mér líkar það alveg ágætlega að róa aðeins þegar gott er veður. Það er hollt veður þarna frammi hjá manni þó maður fái lítið, enda má maður ekki fá neitt."

Eyjólfur segir að sumarið hafi annars verið gott hjá línu- og færabátunum. "Það hefur verið mjög gott hjá þeim enda fara þeir alveg út að Reitnum. Þetta eru ungir og hraustir menn og það er óhætt að segja að við hin lifum á þessum dugnaðarmönnum."

Heimildir:
Gunnlaugur Valdimarsson, munnlegar upplýsingar.
mbl.is - http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=558269 
mbl.is - http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1064650


Rúna á siglingu í Stykkishólmshöfn 18. júlí 2009


Rúna til hægri á myndinni með stýrishús.  Stykkishólmur 18. ágúst 2007

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681406
Samtals gestir: 52701
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:24