Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2010 September

27.09.2010 21:01

Viðbætur

Var að átta mig á að ég átti einhverjar myndir í viðbót af þessum litlu bátum sem ég tók um Mærudagana á Húsavík 2008.  Þá voru Vinfastur, Ólafur og Björkin á Húsavík.  Bætti inn myndum í albúmin Björk og Ólafur, nýtt albúm fyrir Vinfast og nýtt albúm fyrir Sæbjörgu sem var þarna með.  Vantar upplýsingar um Vinfast og Sæbjörgu.


Vinfastur á Húsavík 22. júlí 2008


Björk á Húsavík 22. júlí 2008


Sæbjörg, 22. júlí 2008

25.09.2010 23:01

Þytur

Breiðfirðingurinn Þytur var sjósettur 17. júní 2009 eftir endurbætur undanfarin ár.  Það voru Gunnlaugur Valdimarsson Rúfeyingur og Erlendur mágur Þórarins Sighvatssonar núverandi eiganda sem gerðu bátinn upp en Þórarinn sá um efniskaupin.  (Viðtal við Gunnlaug Valdimarsson jan. 2011)

Þytur var smíðaður í Elliðaey af Steinþóri Magnússyni smið.  Ekki vitað með vissu hvaða ár það var en Steinþór flutti í Stykkishólm árið 1884 þá 24 ára.  Steinþór hafði þá þegar smíðað Þyt.  Þytur telst vera stór fjóræringur eða lítill sexæringur en hann var að sjálfsögðu án vélar í fyrstu, enda smíðaður vel áður en fyrsta vélin var sett í bát hérlendir en það var árið 1902. 

Eigandasaga Þyts er ekki alveg kunn en þó er vitað að Lárentsínus M. Jóhannsson átti bátinn um tíma.  Þytur fór síðan aftur út í Elliðaey og var þar 1957-1959 og fór þaðan út í Öxney og hefur verið í eigu Öxneyinga síðan.  Jónas Jóhannsson Öxney keypti bátinn 1954 og báturinn hefur verið í ættinni síðan.  Þytur bar einkennisstafina SH 39, 6127.  Báturinn var fyrst skráður 27. júní 1980 og var eigandi þá skráður dánarbúið í Öxney.  Báturinn talinn ónýtur og tekinn af skrá 18. maí 1989.
Núverandi eigandi bátsins, Þórarinn Sighvatsson er langafabarn Jónasar. 

Þytur var notaður í siglingar milli Öxneyjar og Stykkishólms.  Upphaflega smíðaður sem skúta þar sem engar vélar voru komnar í báta hér á landi þá.  Þytur er í upprunlegri mynd fyrir utan vélina sem sett var í bátinn í upphafi.  Sú vél, Sleipnir var skipt út 1978 fyrir Yanmar vél.  Árið 2009, um vorið, var sett nýr Sleipnir 3,5 ha. í bátinn fyrir bátadaga 2009.

Viðurinn sem var í bátnum í upphafi var norsk rauðfura, mjög seinsprottinn.  Við að skoða viðinn var meira eins og að lemja í gler en timbur og viðurinn sprakk frekar í sólinni heldur en að fúna.  Enn í dag er sagt að það séu þrjú borð upprunaleg í bátnum.

Síðustu 15 árin hefur Þytur verið inni í skúr þar sem Þórarinn hefur unnið að endurbótum á bátnum og gerði hann sjóklárann á ný.

Endursagt eftir grein í Stykkishólmpóstinum í júní 2009 og eftir viðtal við Þórarinn 2010.  Hér fyrir neðan getiði lesið greinina sem birtist í Stykkishólmspóstinum 25. júní 2009.  Í fyrirsögnina hjá þeim vantar að vísu Þ-ið, en þið áttið ykkur á því.  Hinn báturinn sem talað er um í upphafi greinarinnar er Valtýr, skútan eða víkingaskipið.


Þytur við bryggju í Stykkishólmi 28. júní 2009.

25.09.2010 22:26

Vantar aðstoð

Ég ákvað, í samráði við Hafþór Hreiðarsson að setja inn allar myndir af þeim gömlu bátum sem ég hef tekið og hafði jafnframt hugsað mér að finna sögu þeirra.  Slóðin á myndir af þessum bátum er að finna hér hægra megin á síðunni undir Gamlir bátar.  Ef þið þekkið sögu þeirra þætti mér vænt um að fá smá aðstoð.  Reyndar veit ég að sögur sumra þeirra eiga eftir að skila sér til mín en samt sem áður ef þú veist eitthvað endilega póstaðu þeim upplýsingum til mín, t.d. hvað þeir heita, hver er eigandinn o.s.frv. svo ég komist af stað.  Þessir bátar sem ég leita eftir núna eru:
Afi Flatey,
Bjargfýlingur Flatey eigendur Ólafur A Gíslason og Þorgeir Kristófersson Bjargi Flatey, í vinnslu.
Björg,
Hafdís frá Reykhólum,
Hringur úr Flatey eigandi Bjarni Sigurjónsson Bergi, í vinnslu.
Máni frá Patreksfirði,
Ólafur frá Hvallátrum,
Rúna ÍS 174,
Selma frá Húsavík eigendur Þráinn og Ölvar Þráinssynir, í vinnslu Komið að hluta
Trilla á Húsavík gömul mynd,


Einhver trilla á Húsavík.  Myndin tekin fyrir um 20 árum síðan, veit ekkert um hana.

23.09.2010 23:01

Húsavík 2010

Við fjölskyldan vorum á Húsavík 8 og 9 ágúst og auðvitað í frábæru veðri.  Alltaf sól á Húsavík segir einhversstaðar.  Ég fór tvær ferðir upp á Húsavíkurfjall til að taka myndir.  Í fyrra skiptí var heiður himinn, ekki skýhnoðri á himni (mynd 1.).  Í seinna skiptið þá kom þoka inn að kvöldi.  Ég sá hvað verða vildi og tók dótturina með til að sýna henni flottheitin.  Húsavíkurfjall, sem er nú ekki það hæsta á landinu, stóð uppúr þokunni.  Svolítið sérstakt að stana á toppi Húsavíkurfjalls og þokan fyrir neðan mann og í blankalogni.  Það bærðist ekki hár á höfði þarna á toppnum.  Ekki oft sem ég hef verið á toppnum í logni.  Setti slatta af myndum í nýtt albúm, Húsavík 2010.


Húsavík 08. ágúst 2010


Húsavíkurfjall 09. ágúst 2010.  Þokan gerir tilraun til að læðast yfir fjallið en það tókst ekki.


Þokan kominn inn þann 09. ágúst 2010.  Eitt gat var á þokunni og sást niður í bæinn.


Þokan þekur Skjálfandann, 09. ágúst 2010. 


Elín Hanna pósar með fyrir ofan þokuna á toppi Húsavíkurfjalls. 09. ágúst 2010


Mastrið á Húsavíkurfjalli 09. ágúst 2010

20.09.2010 23:34

19. september 2010

Fór og kíkti sérstaklega eftir bátum.  Tel mig hafa verið nokkuð heppinn því þegar ég ók við Sundahöfn sá ég hvar Gustur SH 172 var á siglingu í átt að Snarfarahöfninni.  Ég komst í veg fyrir Gust og tók myndir, þær má sjá í myndaalbúmi Gustur og þá er kominn inn frásögn um Gust.  Ætla ekki að setja mynd af Gusti hér enda honum gerð góð skil hér á síðunni.  Ég rakst á aðra trillu sem ég þarf smá hjálp við.  Kópur AK 46 er í eigu Karls Benediktssonar og hef ég fengið smá upplýsingar hjá honum og held að hann sé enn að leita fyrir mig.  Mig vantar meiri upplýsingar um bátinn ef einhver þarna úti þekkir til væru upplýsingar vel þegnar.  Þessi gæti hafa heitið Teista áður og gerður út í Hafnarfirði þar sem hann var jafnframt smíðaður um 1970. 

Það sem ég hef núna er eftirfarandi: Mig grunar að báturinn hafi verið smíðaður hjá Bátalóni í Hafnarfirði upp úr 1970. Hann hafi verið gerður út þaðan fyrstu árin og hafi þá borið nafnið Teista. Þetta sögðu mér tveir menn sem ég rakst einhvern tímann á þar sem þeir voru að dytta að samskonar bát við Hafnarfjarðarhöfn. Ég lýsti mínum fyrir þeim og þeir þóttust kannast við hann. Hef ekki fengið þetta staðfest. Og annar mannanna ("Helgi bátasmiður") taldi sig meira að segja hafa breytt skutnum á sínum tíma. 

Fleiri voru á ferli m.a. Ýmir en greinilegt var að honum lá eitthvað á blessuðum skippernum, en þrátt fyrir hraðann þá gat ég fryst hann líkt og Kóp sem fór talsvert hægar.  Hvalaskoðunarbátar komu og fóru og voru myndaðir.  Þá voru einhverjir bundnir við bryggju sem náðist að kubbsetja.  Fleiri myndir í myndaalbúmi Skip og bátar 2010 nr. 2


Kópur AK 46.  Sundahöfn 19. september 2010


Kópur AK 46.  Sundahöfn 19. september 2010


Ýmir.  19. september 2010


Andrea kemur úr hvalaskoðunarferð, 19. september 2010

20.09.2010 22:47

Gustur SH 172

Sigurður Bergsveinsson, einn af eigendum Gusts, sendi mér eftirfarandi upplýsingar um sögu Gusts og myndir sem ég setti inn í greinina.  Ég set hér fyrst eina mynd af Gusti sem ég tók 19. september við Sundahöfn þar sem Sigurður var á ferð.


Gustur SH 172 við Sundahöfn, 19. september 2010

Gustur SH 172 - Skipaskrárnúmer 6872
Saga bátsins

Gustur, sem er breiðfirskur súðbyrðingur, er teiknaður um 1975 af Bergsveini Breiðfjörð Gíslasyni, skipa- og bryggusmið.
 
Bergsveinn fæddist 22. júní 1921 í Rauðseyjum á Breiðafirði. Hann lést 26. júlí 2002. Hann ólst upp við eyjabúskap í Breiðafirði (Rauðseyjum, Akureyjum, Fagurey og Ólafsey) en á uppvaxtarárum hans var mikil byggð við Breiðafjörð. Forfeður hans höfðu búið í og við Breiðafjörð um aldir. Margir af forfeðrum og frændum Bergsveins voru afkastamiklir skipasmiðir. Þeir búskaparhættir er þar voru stundaðir eru nú liðnir undir lok að mestu og eyjar og jarðir flestar í eyði. Þetta líf mótaði Bergsvein og hafði áhrif á framtíðarstarf hans sem var við skipasmíðar og hafnargerð. Bergsveinn hóf nám í skipasmíði hjá Valdimar Ólafssyni frænda sínum í Hvallátrum haustið 1938 en þeir Valdimar voru bræðrasynir. Valdimar dó vorið 1939 einungis 34 ára að aldri og var það öllum harmdauði. Eftir dauða Valdimars komst Bergsveinn á samning hjá Gunnari Jónssyni skipasmíðameistara á Akureyri og lauk þar námi 1945. Bergsveinn vann við skipasmíðar í Landssmiðjunni og í Bátalóni í Hafnarfirði. Hann réðst sem teiknari til Vita- og hafnamálastofnunar 1947. Hann varð síðan verkstjóri hjá stofnuninni við hafnarframkvæmdir víða um land og því starfi gegndi hann þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1993, að undanskildum þrem árum er hann var m.a. sveitarstjóri í Stykkishólmi, 1966-69.
 
Bergsveinn fékk Hafliða Aðalsteinsson frænda sinn frá Hvallátrum til að smíða Gust og var unnið að smíðinni í Kópavogi 1979-1980. Hafliði rak á þessum árum skipasmíðastöð við Smiðjuveg í Kópavogi, með honum var Páll bróðir hans. Bergsveinn tók töluverðan þátt í smíðinni og frágangi bátsins. Gustur var síðan sjósettur í apríl 1980.
 
Gustur er smíðaður úr furu og eik og er 7,1 metrar á lengd, 2,1 metrar á breidd og 0,91 metar á dýpt og mælist 2,57 brúttórúmlestir. Báturinn var upphaflega með 20 hestafla BUKH vél.
 
Myndir  1 og 2 sýna vel hvernig Gustur var í upphafi, með u.þ.b. 2m löngu húsi sem náði frá miðum bát og 2 metra fram. Hægt var að ganga fram úr húsinu. Bergsveinn átti bátinn einn í upphafi en 1983 keypti Kristinn Breiðfjörð bróðir hans helminginn í bátnum og gerði hann út á grásleppu og handfæraveiðar frá Stykkishólmi í rúm 10 ár.


Bersveinn við lokafrágang á Gusti vorið 1980


Gustur í Geitareyjum árið 1984

Upphaflega húsið og umgjörðin(borðstokkurinn) var orðið það illa farið að rétt fyrir árið 2000 rífur Bergsveinn, sem þá var aftur orðinn einn eigandi bátsins, það og smíðar minna hús á bátinn. Mynd 3 sýnir hvernig báturinn leit út með það hús.


Gustur í Grýluvogi í Flatey á Breiðafirði á Bátadögum 2009 í hægra horninu

Við andlát Bergsveins árið 2002 eignast Freyja dóttir hans og maður hennar Guðlaugur Þór Pálsson bátinn og áttu hann til 2009 er Sigurður sonur Bergsveins og Helga Bárðardóttir kona hans kaupa helminginn í bátnum á móti Freyju og Guðlaugi. 

Ákveðið var að ráðast í endurbætur á bátnum veturinn 2010.   Hafliði Aðalsteinsson tók að sér að framkvæma breytingarnar sem eru eftirfarandi:
 
Húsið og annað tréverk inna skrokks var rifið úr bátnum ásamt vélbúnaði og öllum lögnum. Við skoðun kom í ljós að skipta þurfti um 3 bönd og var það gert. Því næst var smíðað nýtt hús á bátinn, sem nær frá miðjum báti og alveg fram á stafn. Báturinn var borðhækkaður fyrir aftan hús, gólfi var lift þannig að innra rýmið stækkaði verulega og breidd bátsins nýtist betur. Sett var í bátinn ný vél, 40 hp.Yanmar. Skrúfubúnaður, stefnisrör, lagnir og allt rafkerfi er einnig nýtt svo og flest stjórntæki. Nýr Garmin dýptarmælir og GPS leiðsögutæki með kortaplotter var einnig settur í bátinn. Framkvæmdum lauk í lok júní 2010 og báturinn fór í fyrstu sjóferð eftir breytingar á Bátadögum Bátasafns Breiðafjarðar í byrjun júlí 2010.
 
Segja má að breytingarnar hafi heppnast vel og handverk Hafliða er mjög gott.
 
Ljóst er að Gustur á eftir í breyttri mynd að nýtast eigendum og fjölskyldum þeirra vel um mörg ókomin ár.     
 
Mynd 4 sýnir Hafliða Aðalsteinsson við Gusti 3.júní 2010 en þá vann hann við lokafrágang breytinganna.


Hafliði Aðalsteinsson við lokafrágang á breytingum á Gusti 3.6.2010

16.09.2010 21:11

1743 Sigurfari GK 138

Það eina sem ég sá til að mynda í dag, þegar ég skrapp til Grindavíkur, var þessi bátur að koma inn,  Sigurfari GK 138.  Ætlaði að mynda einhverja fugla en sá enga til að mynda, enda var ég frekar seint á ferðinni, myndin er tekin um kl. 18:30.  Fleiri myndir af Sigurfara í myndaalbúmi, skip og bátar 2010 2. 


1743 Sigurfari GK 138, Grindavík 16. september 2010

12.09.2010 23:49

Björk

Sigurður Bergþórsson sendi mér þessa mynd af Björk, en myndin er úr safni afa hans Sigurðar F. Þorsteinssonar sem var bróðir Gunnar frá Litlu Hlíð sem báturinn var smíðaður fyrir.   Myndin er tekin á Litlu Hlíðar árum bátsins.  Mig langar til að þakka Sigurði fyrir myndina og set hana hér inn. 


Björk á Litlu Hlíðar árunum.  Mynd úr safni Sigurðar F. Þorsteinssonar.

Björk var smíðuð í Hvallátrum 1936 af Valdimar Ólafssyni bátasmið fyrir Gunnar Þorsteinsson bóndason frá Litlu-Hlíð á Barðaströnd, sem heimilisbátur.
Um 1970 eignaðist Guðbjartur Þórðarson frá Patreksfirðir bátinn.  Næsti eigandi var Aðalsteinn Guðmundsson frá Patreksfirðið sem átti Björkina í smá tíma.
Núverandi eigandi, Eggert Björnsson eignaðist bátinn fyrir um 10 árum síðan.
 
Í upphafi var sett í bátinn 1 cyl. Sleipnir vél og var hún í bátnum til 1970 er hún var tekin úr bátnum.  Margar vélar hafa síðan verið í bátnum en gamli Sleipnirinn var gerður upp.  Þegar Eggert eignaðist Björkina þá setti hann upprunalegu vélina í bátinn aftur og er hún enn í honum og slær ekki feilpúst.
 
Í dag er verið að laga Björkina á Reykhólum.  Eggert talaði um að í raun væri nánast ekkert eftir af upprunalega bátnum nema eitt þverband.


Björk á siglingu í Hafnarsundi, Flatey á bátadögum 03. júlí 2010

12.09.2010 23:04

Elín Hanna

Má til með að setja hér fleiri myndir af Elínu Hönnu frá því í sumarfríinu.  Önnur tekin í júlí og hin í ágúst.  Eins og ég hef áður sagt þá má segja að hún sé fyrirsætan mín.  Ég hef alltaf jafn gaman af að taka myndir af henni, þá á ég við svona myndir í fjölskyldualbúmið.  Ég er ekki stúdíókarl.


Elín Hanna við Hamar í Hamarsfirði 15. ágúst 2010


Elín Hanna á Þingvöllum 17. júlí 2010

11.09.2010 19:11

9. september

Sögufrægur dagur í dag en ég lét það ekki á mig fá og kíkti á Reykjanesið í dag.  Kíkti eftir fuglum við Garðskaga og Sandgerði, sá mikið af þúfutittlingum, steindeplum, vaðfuglum og máfum.  Náði að taka myndir af steindeplum.  Í Sandgerði var sama upp á teningnum hvað fugla varðar.  Þá sá ég Sæljós GK 2 koma siglandi inn og náði að festa það á kubb.  Nýjar myndir eru inni í myndaalbúmum, skip og bátar 2010, Steindepill og Ísland.


1315 Sæljós GK 2, Sandgerði 09. september 2010


Steindepill, Sandgerði 09. september 2010

09.09.2010 23:37

Rita

Rita var smíðuð í Bátasmíðastöð Breiðarfjarðar í Hafnarfirðir (síðar Bátalón hf.) um 1950 fyrir bændur í Örlygshöfn.  Var smíðaður sem árabátur.  Báturinn var notaður til mjólkurfluttninga, ferja mjólkina úr eyjunum í stærri bát.
 
1970 eignaðist Sigurjón Árnason Patreksfirði bátinn.
 
1974 keypi Gestur Karl Jónsson bátinn.  Gestur Karl setti vél í bátinn, Penda tvígengisvél.
1985 var skipt um vél, sett var í bátinn Albin 4-5 hestafla vél sem er í honum enn í dag.
1986 voru gerðar breytingar á bátnum. Settur var nýr afturendi á bátinn, settur hástekkur o.fl.  Þá var settur seglbúnaður á bátinn sem Jón, faðir Gestar Karls útbjó.

Gestur Karl er búinn að gefa vilyrði fyrir myndatöku með seglbúnaðinn uppi.  Skoða það næsta sumar þegar ég verð í Flatey.
 
Ef fleiri upplýsingar berast verður þeim bætt inní þessa frásögn.


Gestur Karl siglir Ritu í Hafnarsundinu í Flatey.

09.09.2010 00:27

Svali

Svali er smíðaður 1936. Er með Breiðfirðingalaginu.  Núverandi eigendur eru Sigvaldi Þórðarson Djúpavogi og Jón Halldór Gunnarsson Hafnarfirði.
 
Báturinn hét áður Kópur.  Hann var notaður sem póstbátur milli Neskaupsstaðar og Mjóafjarðar.  Eftir að hafa verið póstbátur var hann í Jökulsárhlíðinni og var notaður við selveiðar.

Þegar Jón og Sigvaldi eignuðust bátinn hét hann Kópur, eins og áður hefur komið fram.  Þegar þeir komu með bátinn þá var annar bátur á staðnum sem hét Kópur.  Þeir skiptu um nafn.  Af hverju Svali?  Upphaflega átti að gera við bátinn en að endingu var hann allur gerður upp, fjöl fyrir fjöl.  Svali lítur þó eins út og í upphafi, ef einhver breyting þá væri það helst vélarhúsið sem væri aðeins stærra.  Við uppbyggingu bátsins var yfirsmiðurinn kallaður Stebbi svali, þaðan kom nýja nafnið á bátinn.  Eftir viðgerðir var Svali sjósettur um 1994, það væru alla vegna um 14-15 ár síðan.
Ný vél er í bátnum.  Upphaflega var bensínvél í bátnum (?) en sett var ný vél í hann, Deutz vél, 16 hestafla og Rank gír. 

Ef fleiri upplýsingar koma verður þeim bætt inní strax.


Svali á Djúpavogi,

08.09.2010 00:15

Bátar

Setti inn bátamyndir héðan og þaðan.  Myndaði Sedov eins og þorri borgarbúa.  Tók myndir í Hafnarfjarðarhöfn og það var mjög hásjáfað.  Ekki oft sem maður nær að taka mynda af miðlungsstórum bát yfir bryggjuna svo hann sjáist allur, fyrir utan botninn.  Það eru helst stóru togararnir sem maður nær yfir bryggjuna.


Sedov í Reykjavíkurhöfn 04. september 2010


1204 Jón Gunnlaugs ÁR 444, Hafnarfjarðarhöfn 07. september 2010

07.09.2010 23:51

2635 Birta HF 35

Í dag fór ég niður að Hafnarfjarðarhöfn og tók nokkrar myndir.  Einn bátinn horfði ég á nokkuð lengi, Birtu HF 35 og fannst eitthvað undarlegt við hana.  Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvað það var sem pirraði mig.  Birta er útbúinn fjórum DNG tölvuvindum, þrjár á borðstokknum og ein uppi á stýrishúsi.  Þetta truflaði mig svolítið þegar ég horfði á bátinn en var smá  tíma að átta mig.  Velti fyrir mér hvort vinnuaðstaðan við þessa fjórðu rúllu sé góð?  Setti nokkrar myndir í myndaalbúmið Skip og bátar nr. 2.


2635 Birta HF 35 í Hafnarfjarðarhöfn 07. septembere 2010


Birta er útbúin fjórum DNG rúllum.


Fjórða DNG rúllan.

06.09.2010 23:57

Færeyingur á Bíldudal

Fékk þessar myndir sendar frá Gunnari Th. í sumar með fyrirspurn um hvort þetta gæti verið Óli Sofus FD 151.  Gunnar var reyndar búinn að átta sig á að svo var ekki, en hann kvaðst hafa tekið myndirnar á Bíldudal.  Ég hins vegar hafði uppá eiganda bátsins.

Samkvæmt upplýsingum frá núverandi eiganda, Jóni Þórðarsyni sem búsettur er á Bíldudal var báturinn smíðaður í Hafnarfirði árið 2000 af færeyskum manni.  Þessi bátur væri eins og sjá mætti með færeysku lagi.  Jón vildi meina að þessi bátur hafi verið hjá Víkingahótelinu í Hafnarfirði, hann hafi verið notaðir við einhverja kvikmyndatöku eða eitthvað svoleiðis. 

Næsti eigandi var maður að nafni Haraldur á Eyri við Kollafjörð.  Jón kvaðst svo hafa keypt bátinn af Haraldi.

Báturinn ber ekkert nafn ennþá.  Jón sagði bátinn hafa staðið stutt á landi í sumar, einmitt þegar Gunnar var þar á ferð.  Fór fljótt á flot og hefur verið það í allt sumar.  Jón kvað hægt að fá bátinn lánaðan til að róa honum um svæðið.

Að endingu bætti Jón því við að hann kvaðst vita af einum Færeying ennþá á Patreksfirði fannst mér hann segja.  Þið sem eruð á ferðinni kíkið endilega eftir honum.


Færeyingur á Bíldudal, 2010.  Mynd Gunnar Th.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 5570
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 1020
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 339231
Samtals gestir: 31738
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 22:29:09