Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

03.03.2011 21:34

Svalan

Loksins gaf ég mér tíma til að kíkja á Jón Ragnar Daðason og bátinn hans, Svöluna.  Jón Ragnar hefur verið að gera bátinn upp en hann er að læra bátasmíðar og lærimeistari hans er Hafliði Aðalsteinsson. 

Svalan var smíðuð 1906 af Rögnvaldi Lárussyni skipasmið í Stykkishólmi.  Rögnvaldur þessi er langa-langafi Jóns Ragnars.  Í upphafi var Svalan árabátur en síðar var sett í hann vél.  Við hlið Svölunnar bíður Albin 0-1, 5 hestafla, sem sett verðu í bátinn fljótlega.  Það er nánast búið að skipta um allt í bátnum en Jóni tókst að nota tvö borð og afturstefnið á bátnum.
Útlit bátsins er eins og margir bátar á Breiðafirðinum voru, þ.e. að tvö efstu umförin eru máluð og öll neðri eru tjörguð.

Það vantar talsvert í sögu bátsins og mun Jón Ragnar verða rukkaður um hana.  Meira síðar.


Svalan og Albin vélins sem fer í hana.  Reykjavík 3. mars 2011


Jón Ragnar með lærimeistara sínum við Svöluna.  Reykjavík 3. mars 2011

01.03.2011 10:25

Sigrún RE 303

Sigrún RE 303 kom siglandi inn í Reykjavíkurhöfn þegar ég var að mynda fuglalífið þar.  Auðvitað var ekki hægt að láta hana fram hjá sér fara.  Þetta er farið að vera slæmt, áður fyrr hefðu bátarnir fengið að fara framhjá en ekki fuglarnir, nú virðist þetta vera að snúast eitthvað við.  Neeee... það er ekki alveg rétt.  Meðan myndirnar af Sigrúnu urðu 7 þá urðu myndirnar af skörfunum 400 svo fuglarnir hafa ennþá yfirhöndina.


Sigrún RE 303 siglir inn í Reykjavíkurhöfn 27. febrúar 2011


Sigrún RE 303, Reykjavíkurhöfn 27. febrúar 2011

01.03.2011 09:12

Reykjavíkurhöfn

Lífið í Reykjavíkurhöfn er mikið þessa dagana.  Á efstu myndinni má sjá lítið brot af þeim skörfum sem voru í Reykjavíkurhöfn 27. febrúar s.l.  Mest allt voru þetta dílaskarfar en þó sá ég tvo-þrjá toppskarfa svo eitthvað var af þeim líka.  Það var gaman að fylgjast með skörfunum.  Greinilegt að það er fiskur í höfninni því það var hægt að fylgjast með fiskitorfunni eftir því hvar skarfarnir voru.  Þegar fiskitorfan kom inn í höfnina þá komu skarfarnir líka og þeir fylgdu torfunni eftir.  Ég tók margar myndir og þá var ég svolítið að eltast við að ná dílaskarfinum á flugi.  Það tókst bærilega og eru myndir inni í albúmi.  ef þið smellið á myndirnar þá er það bein leið inní albúmið.


Fuglalíf í Reykjavíkurhöfn 27. febrúar 2011


Dílaskarfur, 27. febrúar 2011


Komið inn til lendingar, 27. febrúar 2011

26.02.2011 12:39

Útsvar

Ég horfi stundum á spurningaþáttinn Útsvar.  Haf gaman af að sjá þessa viskubrunna svara.  Sumir þeirra virðast vita allt.  Svo koma spurningar eins og í gær að sýnd var mynd af fuglum.  Þetta var mitt áhugasvið og svaraði strax og ég beið eftir svari þeirra sem áttu að svara en, nei, þau gátu þetta ekki.
Kíkjum aðeins á þetta.  Hér er myndin sem var sýnd í sjónvarpinu, að vísu var textinn ekki en þessi mynd er af vef Jóns Baldurs Hlíðberg http://www.fauna.is/

Hér er myndin sem þeir sýndu í sjónvarpinu.  Flott teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg af hávellupari.  Karlfuglinn er framar, með langar stélfjaðrir og þarna í sumarbúningi.  Ég man ekki hvort liðið var á undan en svar fyrra liðsins var Urtönd.  Rangt.


Urtönd

Hitt liðið fékk nú tækifæri til að svara.  Ekki voru það neitt skárra og svar þeirra var Straumönd.  Rangt.


Straumönd

Ég verð nú að segja fyrir mitt leiti að ég varð fyrir svolitlum vonbrygðum með bæði þessi lið.  Þau geta svarað hvað allir stjórnmálamenn heita hvar í heiminum sem þeir búa.  Þeir geta svarað öllu varðandi Íslendingasögurnar, goðafærðina og hvað þetta heitir nú allt saman.  En þegar mynd af, eigum við að segja íslenskum fugli kemur þá......................ekkert svar.
Þetta minnir mig að atriði í bíómynd sem ég sá eitt sinn.  Maður sem tók þátt í spurningakeppni í útvarpi og það var alveg sama hverju hann var spurður að, hann gat svrað öllu.  Svo lagði hann verðlaunaféið undir fyrir næsta þátt og hann var búinn að safna svo miklu að stöðin færi á hausinn ef hann tæki þetta út.  Þá datt einum í hug að leggja fyrir hann spurningu um hann sjálfan, þ.e. hvert nafnnúmerið hans væri?  Hann gat ekki svarað því, snéri tölum við og þar með tapaði hann.  Kæru þáttakendur lítið ykkur nær:-)
Svo ég hætti nú að gera lítið úr þessum þátttekendum þá finnst mér þeir frábærir og vitneskjan er alveg með ólíkindum.  Það er bara þetta, þegar loksins kom spurning sem ég, kvartvitinn, vissi svarið við þá stóðu þau á gati:-)

26.02.2011 01:56

5057 Orion

Orion X Hamar SH hefur staðið við Kópavogshöfn.  Ég smellti einni mynd af honum þar sem hann stóð á hafnarbakkanum. 

Það mun hafa verið Þráinn Arthúrsson sem gerði upp trébátinn Orion sem að er 4,5 tonn smiðaður í Bátasmiðastöð Breiðfirðinga árið 1955.  Fyrsta vél i þessum bát var af gerðinni Polyter og var aðeins 10 hp. Árið 1975 var sett í bátinn Volvo Penta og aftur var skipt um vél 1980 og þá sett Sabb 30 hp.

Mjög skemmtileg umfjöllun er hér http://blogg.visir.is/tengill/2008/04/09/hamar/ þar sem Gunnar Th. slær á takkaborðið og lýsir helstu breytingum á bátnum.
Hér má sjá myndir af Orion http://thorgeirbald.123.is/blog/record/409156/

Í Íslensk skip, bátar eftir Jón Björnsson, bók 3 bls. 150 er sagt um þennan bát.
Smíðaður í Hafnarfirði 1955.  Eik og fura.  3,8 brl. 20. ha. Sabb vél 1980.
Eigandi Sigurður S. Sigurjónsson og Guðmundur Sigurðsson, Hellissandi, frá 18. júlí 1961, þegar báturinn var fyrst skráður.  Frá 19. mars 1969 var skráður eigandi Guðmundur S. Sigurjónsson, Hellissandi.  Seldur 15. júní 1989 Pétri Sigurjónssyni í Grundarfirði.  Báturinn hét Hamar SH 18 og var skráður í Grundarfirði 1997.  Hamar var einnig SH 170, hvort það var á undan eða eftir veit ég ekki.


Orion, Kópavogur 20. febrúar 2011

26.02.2011 01:08

5613 Örkin RE31

Þessi bátur er við bryggju í Snarfarahöfninni.  Framan á stýrishúsinu stendur Aldan en báturinn mun víst heita Örkin RE 31.  Ég leitaði á netinu og fann frásögn af þessum bát á síðunni http://aba.is og læt ég hana hér inn óbreytta með samþykki eiganda aba.is og þakka ég kærlega fyrir afnotin.  Upphaflega hét báturinn Jón Valdimarsson, sjá nánar hér að neðan.


5613 Örkin RE 31, Snarfarahönf 20. febrúar 2011


Örkin RE31 X Jón Valdimarsson NS-123.    ( 5613 )  

Stærð: 3,60 brl. Smíðaár 1972. Fura og eik. Opinn súðbyrðingur.

Báturinn var smíðaður fyrir Garðar Jónsson, Bakkagerði, sem átti hann í fjögur ár.
Árið 1976 keypti Árni Ólason. Hauganes bátinn og gaf honum nafnið Trausti EA-102.
Frá Árna fór báturinn til Þórhalls Einarssonar, bílasala á Akureyri og fékk þar nafnið Svalan EA-778 og frá Þórhalli til bróður hans Hilmars Einarssonar, Sólbakka Bakkafirði.
Árið 1978 keypti Benedikt Hallgrímsson, Akureyri bátinn og bar hann nafnið Svalan EA-778 í hans eigu.

Haukur Vésteinn Gunnarsson, Grenivík keypti bátinn árið 1983 og þá bar hann, samkvæmt skráðum gögnum, nafnið Svalan ÞH-230 en Haukur vill þó meina að báturinn hafi borið EA einkennisstafi er hann keypti hann. 

Haukur Vésteinn gaf bátnum nafnið Alda ÞH-230 en það nafn er þó ekki á hann skráð hjá Siglingastofnun fyrr en hann er seldur Magnúsi Andréssyni, Húsavík árið1986.
Bátnum var gert ýmislegt til góða á Grenivík og smíðaði tengdafaðir Hauks, Hörður Gíslason, bróðir Jóns Gíslasonar, skipasmiðs Akureyri, meðal annars á hann stýrishús en fram að þeim tíma hafði báturinn verið opinn.
Sem fram hefur komið þá seldi Haukur Vésteinn bátinn Magnúsi Andréssyni, Húsavík árið1986.
Á Húsavík bar báturinn nafnið Alda ÞH-230 en árið 1991 breyttist það í Alda ll ÞH-135, Húsavík.
Frá Húsavík fór báturinn árið 1992 til Sandgerðis þar sem hann hélt Öldu nafninu en fékk einkennisstafina GK-232.
Báturinn hét Alda GK-232 er hann var tekinn úr rekstri og af skipaskrá 24. nóv. 2003. 
Með afskráningunni hefði saga bátsins átt að vera öll en svo var þó ekki því að aftur er hann kominn á spjöld sögunnar með skráningu í skipaskrá frá 25. júní 2010 og heitir nú Örkin RE-31, Reykjavík og er skráður eigandi Baldvin Elíasson.
Vitað er að eigandi númer tvö að bátnum, Árni Ólason, Hauganesi, horfir nú löngunaraugum suður yfir fjöll til bátsins í þeirri von að koma höndum yfir hann aftur. 
Heimildir. Siglingastofnun. "Íslensk skip". Haukur Vésteinn Gunnarsson, Grenivík. Árni Ólason, Hauganesi.

24.02.2011 21:25

Þrír trébátar

Hér eru þrír sem ég á kanski eftir að eltast við betur og safna upplýsingum um.  Við sjáum til með það.  Varðandi þessa gömlu trébáta sem ég eltist svolítið við þá er ég að fá ný og ný verkefni ef svo má segja.  Hef reyndar ekki komist yfir að mynda þessa báta sem ég veit um. 
Ég kíkti til Ólafs Gíslasonar til að sjá hvernig gengi með Kára.  Það sem mætti mér var að Kári var kominn út í horn, ef svo má segja og annar talsvert mikið minni kominn í staðinn.  Ólafur kvað þetta vera verkefni sem hann hafi lofað að gera fyrir margt löngu síðan.  Nú væri ágætt aðeins og breyta til og hvíla Kára aðeins og snúa sér að öðru.  Ég mun svo rukka Ólaf um sögu þessa báts.


Einn gamall, frásögn síðar.  Hafnarfjörður 23. febrúar 2011


Orion, Kópavogur 20. febrúar 2011


Aldan RE 13, Snarfarahöfn 20. febrúar 2011

24.02.2011 21:10

Samtals rúmlega aldargamlir

Fyrst ég hef nú aðeins verið að mynda báta- og skipaflotann verður maður að standa sig á því sviðinu.  Í þessum mánuði hef ég náð myndum af tveimur öðlingum sem eru árinu eldri en ég og enn í fullu fjöri, annað en ég:-).  Þessir slá lítið af og miðað við það sem ég hef verið að skoða á síðum ykkar sjóhundanna þá eru menn sammála um að hér fari tvö af fallegri skipum flotans.  Ég er að tala um Sigurður VE 15 og Víkingur AK 100, systurskipin fædd 1960 svo það sé á hreinu.


183 Sigurður VE 15, Hafnafjörður 20. febrúar 2011


220 Víkingur AK 100, Akranes 05. febrúar 2011

21.02.2011 20:47

Fermingar framundan

Nú fer tími ferminga að renna í garð.  Þá er ekki úr vegi að rifja upp mína eigin fermingu.  Ekki ætla ég að skrifa mikið en get þó sagt að það var eftirmynnilegur dagur, eins og hjá flestum held ég.  Hér er fermingarmyndin mín, tekin af Pétri Jónassyni ljósmyndara á Húsavík.  Þegar hann tók þessa mynd voru liðin mörg ár frá því hann byrjaði að mynda og hann er enn að.  Tja, þessi slaufa maður, stærri en andlitið á manni:-) - Tískuslys eða hvað?  Svona var þetta í þá daga, réttlætir það ekki eitthvað?

Aftasta röð: Lárus, Rabbi, Hreinsi, Ég, Hákon, Jónas Reynir, Jónas Óskars, Sibbi, Jóhanna Sigurbjörns., Eyþór, Bendi, Palli, Kiddi Eiðs.
Miðju röð: Dóra, Kaja, Villa, Ragga, Inga Hjálmars, Aðalbjörg Ívarsd, Júlla.
Fremsta röð: Begga, Sigga, Inga Helga, Sr. Björn H. Jónsson, Magga, Sigrún Arnórsd, Sigrún Jónsd.


Fermingarbörn í Húsavíkurkirkju 1975.  Ljósmynd: Pétur Jónasson ljósmyndari

21.02.2011 20:31

Fjöður

Oft er það svo að ég rek augun í eitthvað sem mér finnst "myndvænt".  Ef ég ætla ekkert að gera í málinu þá truflar þetta mig rosalega.  Oft er þetta þá eitthvað mótíf sem er ekki neitt neitt en eitthvað þó.  Hér er ein af þessum myndum.  Ég sá þessa fjöður sem hékk á grein og blakti þar í vindinum.  Ég sá fyrir mér myndina og þetta endaði á ég lét sækja myndavélina fyrir mig og smellti þessari mynd af.  Eins og ég sagði, ekki neitt neitt en þó eitthvað.  Einfaldleikinn er flottur að mínu mati.  Þegar ég horfi á þessa mynd færist ró yfir mig.  Ekki má ég nú við því þar sem menn segja að það renni nú varla í mér blóðið...................... Alla vegna, hér er þessi mynd og vona ég að hún færi ykkur sömu ró og mér.  Ekki get ég nú sagt til um af hvaða fugli þessi fjöður er en miðað við staðsetningu og stærð þá væri grágæs líklegust.


Fjöður.  Kópavogur 20. febrúar 2011

20.02.2011 22:04

Áhöfn Sigurðar VE 15

Tók nokkrar myndir af áhafnarmeðlimum Sigurðar VE 15.  Veit ekkert hverjir þeir eru en vænti þess að einhverjir hér inni þekki til þeirra og sendi línu.  Ásþór Sigurgeirsson sem er í áhöfninni og á einni myndanna kom með nöfnin og ég setti þau inn við réttu myndirnar.


Jón Hafliðason (Bakki) frá Bakkafirði


Ásþór Sigurgeirsson og Oddgeir Eyjamaður


Oddgeir Eyjamaður og Maggi


Bóbi junior og fleiri framá.  Hafnarfjörður 20. febrúar 2011

20.02.2011 21:40

Sigurður VE 15

Svo ég sýni nú smá áhuga á þessum bátamyndum, þá held ég að ég geti sagt að það hafi borið vel í veiði í dag þegar þessi ungi öldungur sigldi inn í Hafnarfjarðarhöfn í morgun kl. 10:00.  Siglt var beint inn í stóru flotkvína og stoppað tiltölulega stutt.  Hvað þeir voru að gera?  Ég sel það ekki dýrara en ég stal því að þá var verið að setja sínk á botninn, þeir hafi ekki fengið haffærni vegna þessa.  En þeir lögðu af stað aftur kl. 17:00.  Eins og sést þá var birtan mun betri þegar þeir fóru, alla vegna til myndatöku.


Sigurður siglir inn í Hafnarfjarðarhöfn kl. 10:00, 20. febrúar 2011


Siglt var beint inn í stóru flotkvína.  20. febrúar 2011


Sigla út úr Hafnarfjarðarhöfn kl. 17:00, 20. febrúar 2011

20.02.2011 00:05

Blakmeistarar

Hér eru tvær myndir af blakmeisturum í skólablaki.  Man ekki hvaða ár, langar ekki að muna það svo langt síðan.  En þá urðum við Húsavíkingar meistarar bæði í karla- og kvennaflokki.  Ég var þarna í þessu karlaliði og á þeim tíma var ég með þokkalega sítt hár sýnist mér, tískuslys held ég.


Aftari röð:  Gísli Haraldsson, RR, Sigurbjörn Viðarsson, Emil Grímsson, Guðjón Kjartansson
Fremri röð: Jónas Helgason, Gunnar Straumland, Birgir Skúlason.


Aftari röð: Dísa Jóns, Jóhanna Ingvars, Kristín Helgad., Margrét Jónsd., Hermína Gunnarsd. Gísli H.
Fremri röð: Jóhanna Sigurbjörnsd., Jóhanna Guðjónsd., Ingibjörg Helgad., Jóna Óskarsd., Svanhvít Helgad.

Þetta voru hörkulið.  Hjá körlunum voru þetta árgangar 1960 og 61, hjá konunum vor það árgangar 1960, 61 og 62.  Þessi tvö lið voru að sjálfsögðu langbestu liðin í mótinu, ekki spurning.

19.02.2011 22:42

Húsavík fyrr á árum

Hér koma tvær myndir frá Húsavík af húsum sem eru horfin.  Ýmsar verslanir voru í Klemmu í gegnum árin og man ég m.a. eftir fata- eða íþróttavöruverslun, sjoppa og raftækjaverslun svo eitthvað væri nefnt.  Á þessu svæði sem Klemma var, er nú bílastæði að ég tel, en það sést þarna í norðausturhornið á Verbúðinni.  Fyllt var uppí þetta skarð og ofan á verbúðinni er söluskáli Norðursiglingar. 
Þegar ég var lítill fannst mér Skógargerði nánast vera uppi í sveit.  Þarna neðan við húsið var Skógargerðislækurinn.  Við lékum okkur oft við Skógargerðislækinn æskuvinirnir. 
Þið fyrirgefið en ég man ekki hvenær myndin af Skógargerði var tekin.


Klemma.  Húsavík 23. apríl 1993


Skógargerði.  Húsavík

19.02.2011 22:30

Frá Húsavíkurhöfn 1985-1992

Var að skoða gamlar myndir sem ég hafði tekið.  Rak þar augun m.a. í þessar þrjár mydnir hér að neðan.  Á þessum myndum má sjá að slatti er eftir að trábátunum árið 1992, en ef ég þekki rétt þá eru það Hrói, Gosi, Maggi og Kristinn að ég held, sem eru á efstu myndinni.  Aftan við þá koma einhverjir plastarar.  Á næstu mynd þekki ég ekki marga en nafnið á fremstu trillunni er Brandur en ég þori ekki að fara með hverjir koma næstir.  Á þeirri síðustu sér í Ösp og fjóra færeyinga.  Það hefur verið að rifjast upp fyrir mér að það liggja myndir einhversstaðar sem ég man eftir en svo er að finna þær.  Reikna með að setja inn eitthvað af gömlum myndum á næstunni og setja hér inn mér og vonandi öðrum til skemtunar.


Frá Húsavíkurhöfn 01. maí 1992


Frá Húsavíkurhöfn 1985


Frá Húsavíkurhöfn 1986

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681406
Samtals gestir: 52701
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:24