Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

29.12.2016 21:32

Ester EA ex Páll Helgi ÍS

Ester EA ex Páll Helgi ÍS

Smíðaður í Smíðastöð Jóns Ö. Jónssonar í Reykjavík 1977.  Eik og fura.  21 brl. 265 ha. Cummins díesel vél.

Eigandi Guðmundur Rósmundsson, Benedikt Guðmundsson og Páll Guðmundsson, Bolungarvík og Hólmsteinn Guðmundsson, Reykjavík, frá 27. júlí 1977.  Báturinn var seldur 28. september 1978 Pétursvör hf, Bíldudal, báturinn hét Hringur BA 165.  Seldur 22. febrúar 1980 Hringi sf, Skagaströnd, báturinn hét Hringur HU 3.  Seldur 19. desember 1983 Rækjuveri hf, Bíldudal, bátuirnn heitir Pétur Þór BA 44 og er skráður á Bíldudal 1988.

Sá bátinn við bryggju við Slippstöðina á Akureyri 06. ágúst 2016.  Í skipaskrá kemur fram að báturinn heitir Ester EA3 og útgerðin Selló ehf.

Nöfn: Páll Helgi ÍS 142, Hringur BA 165, Hringur HU 3, Pétur Þór BA 44, Ester EA 3

Upplýsingar

Íslensk skip, bók 2, bls. 88, 1491 Páll Helgi ÍS 142


Ester EA 3 ex Páll Helgi ÍS 142.  Akureyri 06. ágúst 2016

29.12.2016 21:07

Von ÞH 54

Von ÞH 54, 1432

Smíður á Neskaupsstað árið 1975. Stærð 6,98 brl. Fura og eik. Súðbyrðingur. Þilfarsbátur. Vél 42 ha. Marna.
Vél frá 1983 73 ha. GM.
Báturinn var smíðaður fyrir Haraldur Jörgensen, Neskaupstað sem átti hann í þrjú ár frá 03. júlí 1975. en seldi þá til Þórshafnar. Hét Þórey NK 13.
Seldur 8. júní 1977, Jóhanni Guðmundssyni, Þórshöfn. Frá 1978 hét báturinn Þórey ÞH-11, Þórshöfn.
Seldur 14. maí 1982 Guðjóni Jónssyni, Siglufirði.
Seldur 14. maí 1982 Hreiðari Jósteinssyni, Húsavík, hét hann Vilborg ÞH-11, Húsavík.
Árið 1983 var sett í bátinn 73. Ha. GM vél.
Seldur 15. apríl 1991 Sigurðir Kristjánssyni, Húsavík.
Báturinn heitir Von ÞH-54.

Upplýsingar:
Aba.is, http://www.aba.is/Default.aspx?modID=1&id=44&vId=400
Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar, http://skipamyndir.123.is/page/2067/


20.10.2016 19:19

Seaflower VE 8

1430 Seaflower VE 008 ex Birta VE

Smíðaður  hjá Vör hf, Akureyri 1975.  Eik.  Stokkbyrðingur.  28.8 brl. Vél 295 ha. Volvo Penta 1989.

Smíðatími var 14.585 klst. en þar af fóru 6.722 klst. í járnsmíði, frágangs vélbúnaðar og siglingatækja eða 46% heildartímans.

Báturinn var smíðaður fyrir Ægi hf. Grenivík en að útgerðarfélaginu stóðu Guðjón Jóhannsson, Jóhann Ingólfsson, Sævar Sigurðsson, Pétur Eyfjörð og Gísli Árnason. 
Báturinn var í eigu þessara aðila í tæp átta ár, eða til ársins 1983, er hann var seldur til Húsavíkur þar sem hann hélt nafni sínu og einkennisstöfum. 
Frá Húsavík fór báturinn til Sandgerðis árið 1993 og fékk þar nafnið Erlingur GK-212 en árið 1996 er einkennisstöfum breitt í GK-214. 
Árið 1996 fékk báturinn nafnið Dagný GK-91 með heimahöfn í Vogum en tveimur árum seinna, eða 1998, var hann kominn til Vestmannaeyja og hét þar María Pétursdóttir VE-14.
 
Árið 2001 fékk báturinn nafnið Birta VE-8, Vestmannaeyjum og er eigandi hans skráður TT Luna ehf., Vestmannaeyjum. 
Skemmdir urðu á bátnum í Keflavíkurhöfn í mars 2010 en 10. nóvember 2010 fékk báturinn nafnið Víðir EA-212, Grenivík. 
Þrátt fyrir nafnbreytingu var eigandi áfram skráður TT Luna ehf. 
Í upphafi árs 2011 lá báturinn í Reykjavíkurhöfn og beið þar viðgerðar en 8. febrúar 2011 er nafnið Birta VE-8, Vestmannaeyjum komið á hann aftur og eigandi enn þá skráður TT Luna ehf. 
Ekki er betur vitað seinni hluta árs 2011 en að búið sé að gera við skemmdir á bátnum og hann sé því góðu lagi. 
Skráður eigandi frá því í febrúar 2012 er Svörfull ehf. Vestmannaeyjum og nafnið Birta VE-8 ber hann enn árið 2015. 
Eftir því sem best er vitað liggur báturinn í Hafnafjarðarhöfn á haustdögum árið 2015.

Í apríl 2016 er báturinn enn í Hafnarfjarðarhöfn og verið að vinna við hann.  Eigandi er Þorvaldur Jón Ottósson, báturinn heitir Seaflower VE-008.  Þorvaldur vinnur við að gera bátinn upp í dag og fljótlega mun hann fara með bátinn upp á Akranes í slipp, í skverun.  Þorvaldur er búinn að koma vélinni í lag og gengur hún fínt að hans sögn.  Þorvaldur kvaðst hugsa sér að nota bátinn í hvalaskoðun og sjóstöng þegar hann hafi gert hann sjófæran.

Upplýsingar:

Aba.is http://www.aba.is/Default.aspx?modID=1&id=44&vId=68

Sax.is http://www.sax.is/?gluggi=skip&id=1430

Viðtal við eiganda bátsins, Þorvald Jón Ottósson.


1430 Seaflower VE 8, í Hafnarfjarðarhöfn 21.06.2016

20.10.2016 19:00

5501 Stefán EA 114

5501 Stefán EA 114

Smíðaður í Hrísey 1959.  Eik og fura.  2.39 brl. 16 ha. SABB vél.

Eigandi Þorsteinn Júlíusson og Axel Júlíusson, Hrísey, frá 12. Maí 1959.  Seldur 19. Júní 1965 Haraldi Jóhannssyni, Borgum Grímsey, sama nafn og númer.  Seldur í september 1970 Árna Sigurðssyni Húsavík, hét Stefán ÞH 151.  Seldur 10. September 1977 Tryggva Ingimarssyni, Hrísey, hét Stefán EA 57.  Seldur 1982 til Ólafsfjarðar og fékk einkennisstafina ÓF 57 en hélt enn Stefáns nafninu.   Seldur 1988 Helga Haraldsslyni, Grímsey.  Helgi endurgerði bátinn og gerði frambyggðan.  Báturinn heitir Elín Þóra EA 54 og er skráður í Grímsey 1997.  Árið 1998 keypti Stefán Björnsson, Hrísey bátinn og fékk hann þá aftur nafnið Stefán EA.  Frá árinu 1999 er báturinn skráður í Kópavogi undir nafninu Stefán KÓ en frá árinu 2003 heitir hann Stefán HU og með heimahöfn á Blönduósi 2013.

Árið 2003 var vélin endurnýjuð og í bátinn sett 42 ha. Status Marine.

Þann 09. Desember 2015 tók ég myndir af bátnum þar sem hann stóð innan girðingar úti á Granda.  Ef þið hafið meiri upplýsingar um þennan endilega sendið mér línu.

 

Heimildir:

Íslensk skip, bátar, bók 1, bls. 162, Stefán EA 114 5501.

Aba.is


5501 Stefán EA 114 innan girðingar úti á Granda, Reykjavík, 09.12.2015.

23.09.2016 20:52

5334 Margrét HU 22

Þennan bát myndaði ég í Hafnarfjarðarhöfn þann 20. ágúst 2016.  Kannaðist ekki við að hafa séð hann áður en sá númer á bjarghringnum sem vísaði mér á að þetta væri Margrét Jóhannsdóttir ÓF 49.  Það sem ég veit um þennan bát er ekkert og því leitaði ég í Íslensk skip, bátar og á vef aba.is.  Ég held að einhver sé byrjaður að gera bátinn upp ég get mér þess til að sá hinn sami hafi sett á flot til að þétta bátinn.  Meira síðar..........


5334 Margrét HU 22 í Hafnarfjarðarhöfn 20. ágúst 2016.


Margrét Jóhannesdóttir ÓF-49.     ( 5334 )

Stærð: 3,50 brl. Smíðaár 1974. Fura og eik.  Súðbyrðingur með lúkarskappa. Afturbyggð trilla. 
Vél 22 ha. SABB.

Smíðaður fyrir Pál J. Guðmundsson, Ólafsfirði, sem átti bátinn frá 25.júlí 1974, en hann átti bátinn í tuttugu og þrjú ár en ekki allan tímann undir sama nafni, því að frá 19. desember 1990 hét hann Margrét ÓF-49. 
Páll seldi bátinn 06.maí 1997 Sigurði Ómari Jónssyni, Reykjavík.  Báturinn hét Margrét ÓF 49 og var hann gerður út af nýjum eigendum frá Ólafsfirði sem skemmtibát.
 
Til Hvammstanga kom báturinn árið 1998 og fékk þar nafnið Margrét HU-22. 

Rétt er að geta þess að skrokk bátsins smíðaði Þorgrímur Hermannsson vestur á Hofsósi en þaðan var hann fluttur til Akureyrar á bátaverkstæði Birgis Þórhallssonar þar sem gengið var endanlega frá smíðinni og báturinn vélvæddur.

Nýir eigendur komu að bátnum 2008 og er ekki annað vitað en árið 2012 sé heimahöfn bátsins á Hvammstanga og nafn hans enn Margrét HU-22.

Upplýsingar

Aba.is http://www.aba.is/Default.aspx?modID=1&id=44&vId=101

Íslensk skip, bátar, bók 2, bls. 265, Margrét Jóhannsdóttir ÓF 49 5334.

20.08.2016 20:46

Skektan

Skektan


Myndaði þennan litla bát í tvígang og setti inn mynd í mars 2013. Saga bátsins kemur hér. En hér má sjá eina af myndunum sem ég tók af bátnum. Sigurður Bersveinsson stendur við hliðina á bátnum.



Skektan, 05. mars 2013,


Skekta - sagan


Ljósm. tekin við Bessastaðanes (Seylunni)  í apríl 1963. Sigurður um borð í Skektunni.



Báturinn/skektan er smíðaður á Ísafirði veturinn 1963 í skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar af Jakobi Falssyni skipasmið eftir norskri skektu sem Marselíus mun hafa flutt inn.   Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason skipa- og bryggjusmiður gefur syni sínum (undirituðum) skektuna í fermingargjöf vorið 1963. Árið 1966 kaupir Alexander Guðbartsson á Stakkhamri í Staðarsveit á Snæfellsnesi bátinn. Seinna eignaðist Bjarni sonur Alexanders skektuna en hann var bóndi á Stakkhamri 1961-2003. Báturinn var notaður sem hlunnindabátur á Stakkhamri við selveiðar og æðarvarp o.fl. Um 2010 eignast Þorbjörg dóttir Alexanders og hennar maður Kristinn Jón Friðþjófsson skipstjóri og útgerðamaður á Rifi bátinn og eiga þau hann í dag. Árið 2011 framkvæmir Ólafur Gíslason Skáleyjum viðgerð á bátnum fyrir þau hjónin, skiptir um afturstefni og mörg bönd o.fl. Báturinn er 5 metrar á lengd, 1,5 metrar á breidd og um 51 cm á dýpt. Báturinn er fjórróinn og með mastur. Jakob mun hafa smíðað fjölda svona skekta og voru þær algengar á sjávarjörðum við Djúp og víðar um Vestfirði. Árið 2013 málsettum við Hafliði Aðalsteinsson bátinn og á grundvelli hennar voru smíðuð skapalón sem hafa verið notuð á námskeiðum FÁBBR þar Hafliði hefur kennt smíðar á súðbyrðingum og á námskeiðunum hefur verið smíðaður bátur sem tekur mið af þessum báti. Í vetur var unnið töluvert í smíðinni sem er langt komin og verður væntanlega kláruð í haust. Myndir af skektunni má sjá inn á vefnum hjá RikkaR http://rikkir.123.is/photoalbums/201691/ og einnig af nýsmíðinni t.d. hér: http://batasmidi.is/photoalbums/254622/



Sigurður Bergsveinsson

22.7.2016


17.07.2016 10:23

Blöndi ÞH 25

5440 Blöndi ÞH 25

Smíðaður á Akureyri 1972.  Eik og fura.  3.06 brl. 8 ha. Petter vél.  Afturbyggður súðbyrðingur með lúkar.  Smíðanúmer 39.

Eigandi, Ingvar Baldursson og Haraldur M. Sigurðsson, Akureyri, frá 23. nóvember 1972, hét Höfrungur EA 303.  Báturinn var seldur 3. mars 1974 Jóhannesi Straumland, Húsavík, hét Höfrungur ÞH 22.  Seldur 1. apríl 1982, Þormóðir Kristjánssyni og Kristjáni Ásgeirssyni, Húsavík, hét Blöndi ÞH 25.  Frá 18. desember 1986 var Kristján einn skráður eigandi.  Seldur 16. október 1987, Sveini Ríkarðssyni og Ríkarði Ríkarðssyni, Húsavík.  Seldur 16. júní 1990 Halldóri Reimarssyni, Akureyri, hét Blöndi EA 596.  Seldur 6. mars 1991 Sigurði Óskarssyni og Kristni Arnbjörnssyni, Kópaskeri, hét Mardís ÞH 278.  Báturinn talinn ónýtur og tekinn af skrá 7. júlí 1995.

 

Upplýsingar:

Íslensk skip, bátar.  Bók 1, bls. 128-129, Höfrungur EA 303.

Aba.is, http://www.aba.is/Default.aspx?modID=1&id=44&vId=67


Blöndi ÞH 25 siglir út úr Húsavíkurhöfn.  Myndin tekin á tímabilinu 1987-1990. Ljósm. RikkiR

17.07.2016 09:26

6677 Petrea EA 24 ex Ingeborg SI 60

6677 Ingeborg EA 24 ex SI 60

Smíðaður á Siglufirði 1985.  Eik og fura.  4.66 brl. ( á öðrum stað er hann sagður vera 5,6 brl.)  52 ha. Mitsubishi vél.  Frambyggður opinn súðbyrðingur.

Bátinn smíðuðu þeir feðgar Jóni G. Björnssyni og Birni Jónssyni til eigin nota í svonefndum Ísfirðingabrakka á Siglufirði og áttu bátinn til ársins 2005, en þá er hann skráður á félagið Björn Jónsson ehf.

Eigandi Jón G. Björnsson og Björn Jónsson Siglufirði frá 27. ágúst 1985.  Báturinn er skráður á Siglufirði 1997.

Frá 2008 er báturinn skráður á Björn Má Björnsson og Lárus Hinriksson og var heimahöfnin Sandgerðisbót á Akureyri.

Frá árinu 2009 er Mummi ehf. Dalvík skráður eigandi bátsins sem hélt nafni sínu og einkennisstöfum allt fram á árið 2012 en þá fékk hann einkennisstafina EA-24 og eru þetta sömu einkennisstafir og aflaskipið Loftur Baldvinsson bar á sínum tíma.

Árið 2013 hét báturinn Ingeborg EA-24 með heimahöfn á Dalvík.
Árið 2014 keypti Gunnar Anton Jóhannsson bátinn ásamt sonum sínum hvers nöfn eru Gunnar Anton Njáll og Guðni Már. 
Hjá þeim feðgum fékk báturinn nafnið Petrea EA-24 og á hann sína heimahöfn á Hauganesi. 

Heimild. Björn Jónsson, Siglufirði. Siglingastofnun. Gunnar Anton Jóhannsson, Hauganesi.

Önnur nöfn: Ingeborg SI 60, Ingeborg Ea 24, Petrea EA 24.


Upplýsingar:  Íslensk skip, bátar.  Bók 3, bls. 196, Ingeborg SI 60.

Skipamyndir. http://skipamyndir.123.is/blog/yearmonth/2015/07/2/

aba.is.  http://www.aba.is/Default.aspx?modID=1&id=44&vId=214

Petrea EA 24 í Dalvíkurhöfn 06. ágúst 2013 

09.07.2016 16:31

Baldur

Hér koma nokkrar myndir af Baldri við Flatey á Breiðafirði, að koma eða fara.  Þannig er það öllum stundum.


Skarfurinn blessar för Baldurs, sem stefnir inn í þokuna.  Flatey 25. júní 2016


Baldur í þokunni.  Flatey 25. júní 2016


Baldur leggur af stað úr Flatey til Brjánslækjar.  Flatey 26. júní 2016


Baldur siglir vestan við Klofning á leið í Flatey.  Flatey 29. júní 2016


Baldur kemur til Flateyjar á fullri ferð.  Flatey 29. júní 2016

15.06.2016 23:11

Reykjavíkurhöfn og Hafnarfjarðarhöfn

Hér eru þrjár teknar núna nýlega.  Fyrir sjómannadaginn skrapp ég að Reykjavíkurhöfn og smellti nokkrum myndum og þann 13. júní var það Palli ÞH 57 en skráður sem KÓ 57.


Sæbjörgin, Vonin og Örfirisey í Reykjavíkurhöfn 03. júní 2016


Lars í Reykjavíkurhöfn 03. júní 2016


Palli ÞH 57 siglir út úr Hafnarfjarðarhöfn 13. júní 2016

12.05.2016 22:40

Njarðvíkurhöfn

Tók myndir í Njarðvíkurhöfn 08. maí 2016 í fallegu veðri.  Nokkrir bátar spegla sig í loninu.


Úr Njarðvíkurhöfn 08. maí 2016


Aðeins nær


og enn nær

28.04.2016 00:51

Sumir koma og aðrir fara

Hef kíkt á höfnina undanfarna daga og tekið nokkrar myndir af bátum að koma og fara.  Hér má sjá nokkra þeirra.


7787 Salómon Sig ST 70.  Hafnarfjörður 25.04.2016


2068 Gullfari HF 290.  Hafnarfjarðarhöfn 25.04.2016


2499 Straumnes ÍS 240.  Hafnarfjarðarhöfn 25.04.2016


2483 Ólafur HF 200.  Hafnarfjarðarhöfn 25.04.2016


6417 Dadda HF 43.  Hafnarfjarðarhöfn 25.04.2016

16.04.2016 22:25

Saga ÍS 430 ex Tjaldur II ÍS 430

1109 Tjaldur II ÍS 430 ex Tjaldur II ÞH 294

Báturinn er smíðaður hjá Trésmiðju Austurlands hf, á Fáskrúðsfirði árið 1970, smíðanúmer 21.  Tré og fura.  15 brl. 90 ha. Kelvin dísel vél.  Teikning eftir Egil Þorfinnsson.

Eigandi Björgvin Helgason og Karl Sigurðsson Reykjavík, frá 1. júní 1970. Báturinn heitir Neisti RE 58.  Seldur 21. desember 1970 Guðmundi Jakobssyni, Ragnari Jakobssyni Bolungarvík og Jóel Stefánssyni Hnífsdal.  Báturinn heitir Neisti ÍS 218.  16. janúar 1973 seldi Jóel Stefánsson sinn hlut í bátnum þeim Guðmundi og Ragnari Jakobssonum.  Báturinn er skráður í Bolungarvík 1988.  Seldur til Patreksfjarðar, í kringum aldamótin, þar sem hann fékk nafnið Ásborg BA 84.  Árið 2009 n.t.t. 26.08. kom báturinn til Húsavíkur og var þá skráður í skipaskrá sem Tjaldur II ÞH 294 í eigu Stormur Seafood ehf.  Báturinn var svo seldur til Suðureyrar í maí 2015, heitir Tjaldur II ÍS 430.  Útgerðin heitir Snerla ehf.

Fyrri nöfn:  Neisti RE 58, Neisti ÍS 218, Ásborg BA 84, Tjaldur II ÞH 294 og núverandi Tjaldur II ÍS 430.

16.04.2016 tók ég aftur myndir af bátnum í Hafnarfjarðarhöfn en nú ber hann nafnið Saga ÍS 430.

Upplýsingar:     

Skipamyndir og skipafróðleikur Emils Páls

Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Íslensk skip, bók 3, bls. 97, Neisti RE 58.


Tjaldur II ÍS 430 í Hafnarfjarðarhöfn 05. október 2015



1109 Saga ÍS 430, Hafnarfjarðarhöfn 16. apríl 2016


10.04.2016 17:10

Smá aðstoð, hvaða bátur?

Nú vantar mig aðstoð.  Er einhver sem veit hvaða bátur þetta er?  Þessi stendur við Drafnarhúsið, Drafnarslippinn í Hafnarfirði.

Hvaða bátur er þetta?  Hafnarfjörður 10.04.2016

05.04.2016 23:06

Tvíburar

Myndaði þessa tvo við Grandagarð í kvöld.  Glæsileg skip að sjá.   Báðir smíðaðir árið 2015 í Celiktrans í Tyrklandi, þeir eru því tvíburar ekki satt.


2881 Venus NS 150, Reykjavíkurhöfn 05.04.2016


2882 Víkingur AK 100, Reykjavíkurhöfn 05.04.2016

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 53
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 2750
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 343579
Samtals gestir: 31879
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 04:20:52