Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

13.09.2011 23:46

Varðandi brúna

Varðandi brúna þá er smá misskilningur á ferðinni.  Sá sem sagði mér að brúin væri á Kóngsveginum var að tala um aðra brú, ruglaðist á brúm.  Kóngsvegurinn liggur að vísur þarna rétt hjá en er ekki þarna.  Leiðrétti þetta á færslunni um brúna.  Þessi brú er líkast til byggð af breska hernum og er ég að láta skoða það fyrir mig.  Vonast til að fá upplýsingar fljótt.

Varðandi staðsetningu brúarinnar þá er hér loftmynd sem sýnir hvar brúin er, en þarna er Suðurlandsvegurinn, bærinn Hólmur og svo brúin þarna neðst til vinstri á myndinni.  Ég var á ferðinni um kl. 09:30 og þá lýsti sólin um hlið brúarinnar.  Svo á ég eftir að kíkja seinnipartinn og fá hina hliðina upplýsta.




Myndir úr Borgarvefsjá.

13.09.2011 20:58

Þessi er flottur

Ég vil meina að ég hafi verið nokkuð duglegur við að mynda gamla báta og jafnvel finna sögu þeirra.  Ég rakst á einn núna fyrir nokkrum dögum og verð að segja að þessi er með þeim betri sem ég hef séð.  Þetta er árabátur af bestu gerð, hver smiðurinn er veit ég ekki.  Hins vegar er handbragðið mjög fagmannlegt.  Eigandinn hefur tekið negluna úr, fyrir þó nokkru síðan, til að láta bátinn þétta sig "aðeins".  Þá má sjá að eigandinn er með einkabryggju og því gott að leggja upp að og landa.  Enn er ekki kominn löndunarkrani en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.  Lifi einkaframtakið!


Árabátur af bestu gerð.  10. september 2011

11.09.2011 21:51

5420, Freyr KÓ 47

Báturinn var smíðaður af Magnúsi Þorsteinssyni á Borgarfirði eystra 1972.  Eik og fura, 3.01 brl. 22 ha. Thornycroft vél.
Eigendur frá 9. maí 1972 voru Gunnar Arason og Helgi Björnsson, Dalvík.  Seinna eignaðist Gunnar bátinn einn en selidi hann 23. maí 1980 Bjarna Elíassyni, Akureyri.  Seldur 2. maí 1983 Guðjóini Björnssyni frá Gerði, Vestmannaeyjum, hét Gaui gamli VE 6.  Seldur 10. september 1985 Gunnari Þór Þorbergssyni, Vestmannaeyjum, hét Ari VE 42.  Seldur 16. október 1985 Rúnari Gunnarssyni, Akranesi.  Seldur 22. nóvember 1985 Bjarna Elíassyni, Mýrum, Kaldrananeshreppi, og Magnúsi Guðjóni S. Jónssyni, Hafnarfirði.  Báturinn hét Hafrún ST 144, skráður á Drangsnesi.  Seldur 3. nóvember 1989 Ágústi G. Kristinssyni, Skipholti, Vatnsleysustrandarhreppi.  Báturinn bar saman nafn og númer og heimahöfn var Drangsnes.  Seldur 8. nóvember 1990 Skagstrendingi hf. Höfðahreppi.  Seldur 21. nóvember 1991 Ágústi G. Kristinssyni, Skipholti.  Frá 14. febrúar 1992 heitir báturinn Kristín GK 73 og er skráður í Vogum 1997.

Þessar upplýsingar koma úr Íslensk skip, bátar, eftir Jón Björnsson, 1. bindi bls. 136, 5420 Kópur EA 400.

Það sem ég veit til viðbótar er að þessi bátur hét Maggi Þór GK 515 í maí 2010.  Í dag heitir báturinn hins vegar Freyr KÓ 47 og hefur verið í Hafnarfjaðarhöfn.  Í skipaskrá er sagt að vélin í bátnum sé Sabb 1973 módel.  Hvort það sé rétt má reikna með að skipt hafi verið um vél, nema skráning í Íslensk skip hafi ekki verið rétt?


5420 Freyr KÓ 47, Hafnarfjarðarhöfn 11. september 2011

11.09.2011 21:12

Hrísastelkurinn

Hrísastelkurinn er enn í Hafnarfirði.  Ég komst nú talsvert nærri honum í dag eða í um 6-7 metra færi.  Tók slatta af myndum af fyrirsætunni sem var þokkalega róleg.  Hér má sá nokkrar myndir og fleiri eru í albúmi.  Smellið á myndirnar.


Standa rétt..........11. september 2011


Gæsagangur...........11. september 2011


Moonað.............11. september 2011


Hrísastelkur, 11. september 2011

11.09.2011 01:42

Kobbi

Jón Ragnar er kominn með enn einn bátinn inn hjá sér.  Þessi heitir Kobbi.  Jón Ragnar verður að segja mér nánar frá þessum næst þegar ég hitti hann. 

Meira síðar.................


Kobbi, 10. september 2011

11.09.2011 01:27

Hafravatnsbáturinn

Keyrði upp að Hafravatni 10. september og rak þá augun í þennan bát sem ég tók myndir af.  Veit ekkert um hann en vonast til að geta haft upp á eigandanum fljótlega.  Báturinn ekki í góðu standi.  Ég mun kalla hann Hafravatnsbátinn svo ég finni hann aftur í skránum mínum.

Eigandi bátsins heitir Sveinn Guðmundsson húsgagnasmiður.  Báturinn er smíðaður í Noregi og var fluttur inn um 1965 með Arnarfellinu. Sveinn hefur alla tíð átt bátinn.  Hann sagði mér að báturinn hafi verið smíðaður sem seglbátur og sé fantagóður sem slíkur.  Hann kvaðst auðvita geta sett á hann utanborðsmótor þar sem hann væri með gafli en kvaðst aldrei hafa gert það.

Varðandi skemmdir á bátnum sagði Sveinn að hann hafi verið í geymslu sem líklega hafi verið of þétt og lítið loftað um bátinn.  Þá hafi líklega komist smá vatn í hann og því hafi hann skemmst.  Sveinn kvað meininguna að gera bátinn upp.  Hvenær það yrði væri ekki ljóst.  Hann kvaðst hafa áhuga á að fá timbur frá Noregi. 

Frá því báturinn kom til landsins hefur hann alla tíð verið á Hafravatni og Sveinn kvaðst hafa siglt honum mikið.  Þar sem báturinn hefur ekkert nafn þá ætla ég að halda nafninu sem ég gaf honum, Hafravatnsbáturinn.


Hafravatnsbáturinn, 10. september 2011

11.09.2011 00:33

Brú

Ég sagði hér að þessi brú væri líklega síðan á stríðsárunum.  Ég hef reyndar ekkert fyrir mér í því, og þó.  Ég spurði mér fróðari menn um þessa brú og var sagt að þessi brú væri á svonefndum Kóngsvegi og væri því líklega frá 1907.  Mjög líklega hefði herinn svo lagfært brúna.

Við skoðun á brúnni þá tel ég nokkuð ljóst að þessi brú er ekki frá því 1907, þetta er bara mín skoðun.  Undir brúnni, á brúargólfinu eru nokkrar fjalir sem eru með merkingum.  Brúarstæðið gæti verið frá þeim tíma en ekki þessi brú.  Brúin er farin að láta verulega á sjá.  Steyptu veggirnir við endana á brúnni eru að grotna niður.  Stál farið að ryðga talsvert. 

Við nánari skoðun í dag, 13. september kom í ljós að smá ruglingur hafði orðið, brúin er ekki á svokölluðum Kóngsvegi.  Kóngsvegurinn liggur þarna rétt hjá.  Brúin er líkast til byggð á stríðsárunum og vonast ég eftir svari frá breska sendiráðinu um það fljótlega.

Ég mun halda áfram að gramsa og reyna að finna eitthvað um þessa brú, mér og vonandi öðrum til ánægju.

09. janúar 2012 fékk ég símhringingu.  Þar var maður sem sagði að þessi brú hafi verið smíðuð af hernum árið 1941.  Herinn hafi verið með aðsetur þarna fyrir ofan og í fyrstu hafi þeir ekið þarna um vað en síðan byggt þessa brú.  Hann mundi ekki hvort það var Breski eða Bandaríksi herinn sem smíðuðu brúna.  Þá sagði hann mér að þessi á héti ekki Hólmsá heldur mynnti hann að hún héti Suðurá.

Ég verð að þakka einum manni.  Jóhann Davíðsson vinnufélagi minn, þú ert lang bestur.  En ykkur hinum til fróðleiks þá var það Jói sem vísaði mér á brúna.  Hann hefur jafnframt vísað mér á nokkra aðra staði sem ég hafði ekki hugmynd um að væru til.  Enn og aftur, Jói Davíðs, þakka þér, vinur minn.




Brú, 10. september 2011


Brú, 10. september 2011


John Thompson 1940, 10. september 2011


Dekkið á brúnni er boltað saman, 10. september 2011

10.09.2011 23:49

Hlið

Á ferð minni í dag þá varð þetta hlið á vegi mínum eins og margt annað.


Þetta hlið varð á vegi mínum.  10. september 2011

10.09.2011 23:39

Nágrennið

Ég tók smá rúnt í morgun um nágrenni Reykjavíkur.  Margt skemmtilegt að sjá og mynda.  Birtan ágæt þrátt fyrir öskumistur en það var hægt að komast hjá því að mestu.  Hér eru nokkrar myndir frá því í dag og fleiri í albúmi.  Smellið á myndirnar.


Gate to heaven.  10. september 2011


Þessi er orðinn lúinn.  10. september 2011


Þetta hús er að hrynja,..........  10. september 2011


eins og sjá má.  10. september 2011

08.09.2011 22:00

Bátastöð

Ég legg oft leið mína í Bátastöðina til að taka myndir af bátum sem verið er að gera upp.  Þar hef ég hitt á margan manninn og fleiri báta.  Helstu menn eru, Hafliði Aðalsteinsson, Jón Ragnar Daðason, Agnar Jónsson og Hilmar Thorarensen.  Helstu bátar: Svalan, Hanna ST, Kári, Sumarliði, Gautur og margir fleiri.  Nú er búið að flíkka uppá Bátastöðina og skreyta.  Húsnæðið tekur sig betur út núna með því litla sem gert var.  Myndir af því síðar en hér er ein af skreytingunum á gólfi hússins.


Bátastöð, 06. september 2011

06.09.2011 21:37

Við enda regnbogans er gull !

Þegar ég skoðaði freyshanann í gær þá lét þessi regnbogi sjá sig.  Fannst staðsetning hans flott og svo var ekki leiðinleg staðsetningin á honum, bein á Nesstofu.  "Við enda regnbogans er gull" segir máltækið. 


Nesstofa, 05. september 2011

05.09.2011 21:46

Freyshani

Enn einn flækingsfuglinn fannst í morgun.  Nú á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.  Ég kíkti eftir kvöldmatinn og sá dýrið. 

Þetta mun vera fimmti fuglinn fyrir landið.  Fyrsti freyshaninn sem sást hér á landi 16. september 1979, annar fuglinn sást 1992, sá þriðji sást 1995 og sá fjórði sást 23. sept. 1997.  Til gamans þá sá ég hann.  Alla vegna þá náði ég slöppum myndum af þessum í kvöld en læt þær samt koma. 

Fyrir ykkur sem viljið vita þá er freyshani frændi óðinshanans og þórshanans.


Freyshani, ungur fugl.  Bakkatjörn 05. september 2011


Freyshani 05. september 2011

04.09.2011 22:15

Keilir í baksýn

Eins og ég hef sagt áður mynda ég gjarnan Keili, eða réttara sagt hef hann í bakgrunni þegar ég er að mynda t.d. á Hlíðsnesi.  Nú í sumar þá átti ég leið um Hlíðsnesið og notaði Keili sem bakgrunn.


Hrossastóð.  Hlíðsnes 16. júlí 2011


Fleiri hross.  Hlíðsnes 16. júlí 2011


Á Hlíðsnesi 16. júlí 2011


Fleiri hross með Keili í baksýn, 16. júlí 2011

04.09.2011 21:56

Hrísastelkur

Í morgun fannst hrísastelkur við lækinn í Hafnarfirði.  Margir fuglaskoðarar mættu á svæðið til að bera dýrið augum og mynda.  Haf trú á að nokkur þúsund myndir hafi verið teknar af þessum fugli.  Mínar myndir eru slarkfærar en ég þurfti að klippa þær ansi mikið.  Hér er þó ein sem ég er sæmilega sáttur með en hann náði sér í lirfu. 


Hrísastelkur í Hafnarfirði 04. september 2011


Lirfunni lamið í pollinn, 04. september 2011

04.09.2011 14:37

Klettur

Sá þennan á bryggjunni í Hafnarfirði.  Sá að hann var frekar illa farinn.  Þessi nefur verið með húsi og er það um borð í bátnum samantekið.  Á húsinu má sjá nafnið Klettur.  Ég geri því ráð fyrir að þessi heiti Klettur.

Varðandi Klett þá er ég búin að finna út að þetta er báturinn sem var notaður í kvikmyndinni Eldfjall.  Fann nokkrar myndir á vefnum sem ég setti inn.  Fyrst sendi Teddi mér mynd úr auglýsingu þar sem Klettur lýtur nokkuð vel út.  Svo sá ég myndina á síðu Jóns Páls og þá áttaði ég mig á hvaða bátur þetta væri, þetta er báturinn sem notaður var í kvikmyndinni Eldfjall.  Nánar um sögu bátsins veit ég ekki en það kemur vonandi fljótlega.

Er einhver sem getur hjálpað mér með þennan ....................................

Fékk þessar upplýsingar frá núverandi eiganda bátsins, Páli Stefánssyni.
Þessi bátur var í Keflavík í kringum 1985 með ónýtri Guldner bensínvél.  Hafsteinn Guðmundsson á Hólmavík kaupir hann þá og setur í bátin 12 hö.Yanmarvél.  Um 1990 kaupir Sigurður Pétursson í Grundarfirði bátinn og hét hann þá Vísir, síðan eignast Kalli í Tröð bátinn, svo Daníel Jónsson í Ólafsvík.  Daníel selur bátinn til flugmanns í Borgarnesi og bar hann þá nafnið Vísir. Ég veit ekki meira um bátinn.  Ég keypti þennan bát í september í haust (2011) og er að gera hann upp. Gaman væri ef einhver vissi meira um sögu hans. 


Klettur.  Hafnarfjörður 04. september 2011


Klettur.


Mynd sem Teddi sendi mér og hann hafði séð í auglýsingu.  Klettur.


Mynd af síðu Jóns Páls.  Klettur var notaður í kvikmynd.  Af síðu Jóns Páls.


Klettur í kvikmyndinni Eldfjall.  Af vef Tímans.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 2709
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 1527
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 343485
Samtals gestir: 31872
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 21:16:15