Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

09.04.2011 22:01

Litlanesbáturinn

Litlanesbáturinn fékk aldrei formelgt nafn, en var og er alltaf bara kallaður Litlanesbáturinn.  Það var Valdimar Ólafsson (1906-1939) skipasmiður í Hvallátrum sem smíðaði bátinn, líklega um 1937-1939 fyrir Júlíus Sigurðsson (1876-1961).

Hilmir Bjarnason, sonur Bjarnar Sigurjónssonar, er að gera Litlanesbátinn upp á Akranesi. 

Meira síðar................


Litlanesbáturinn

09.04.2011 21:53

Jón á ellefu

Báturinn "Jón á ellefu" var hannaður og smíðaður af Jóni Erni Jónassyni árið 1953 úr þunnum og léttur lerkiviði og var sérhannaður til vatnarannsókna.  Pétur M. Jónasson vatnalíffræðingur notaði bátinn í áratugi við rannsóknir á lífríki Þingvallavatns.
Pétur, sem er bróðir Jón Arnar, sagði að báturinn hafi verið svo léttur að tveir menn gátu borið hann á milli sín.  Báturinn er 5,5 m. að lengd og 1,82 m. að breidd.

Að lokinni smíði var báturinn fluttur til Danmerkur, þar sem hann var notaður við rannsóknir í 20 ár.  Að þeim tíma loknum var hann fluttur aftur til Íslands árið 1973.  Við þá flutninga laskaðist báturinn töluvert.  Þar sem viðunandi lerkiviður fékkst ekki var annar efniviður notaður til viðgerðanna.  Þær viðgerðir sem nú munu frama fram á bátnum miða að því að koma honum í upprunalegt ástand.

Pétur segir að nafn bátsins "Jón á ellefu" hafi jafnframt verið viðurnefni bátasmiðsins Jón Arnar Jónssonar sem kenndur var við Framnesveg 11.

Það óvenjulega við lag bátsins er hversu flatbotna hann er og segir Pétur að hann hafi komið að sérstaklega góðum notum sem rannsóknarbátur, því í honum rúmaðist mikið af tækjum.
Pétur segir að lag bátsins hafi hentað sérstaklega vel til þess að taka sýni og mælitæki um borð.  

Heimildir af vef Landsvirkjunar: http://www.landsvirkjun.is/frettir/frettasafn/nr/374

Jón á ellefu er nú í skúrnum hjá Jóni Ragnari Daðasyni og bíður þess að röðin komi að honum. 

Jón á ellefu.

19. janúar 2013
Það er Agnar Jónsson sem hefur verið að gera við Jón á Ellefu.  Agnar hefur lagfært talsvert af bátnum eins og sjá má á þessum myndum.


Lagfæringar ganga vel.  19. janúar 2013


Séð inní bátinn.  19. janúar 2013









08.04.2011 23:11

Forni

Samkvæmt Jóni Ragnari Daðasyni þá er eigandi þessa báts ungur að árum.  Hann byrjaði að brenna utan af honum og skrapa. 

Ekkert hefur verið unnið við bátinn síðan ég fór að venja komur mínar á þennan stað.

Fann ljósmynd þar sem JRD kallar þennan bát Forna.

Meira síðar...................


Forni, Reykjavík 03. mars 2011

08.04.2011 22:19

Baldur

Baldur var smíðaður í Hvallátrum árið 1936 af  Valdimari Ólafssyni fyrir Þórð Benjamínsson í Hergilsey, síðar Flatey.  Upphaflega var sett í bátinn 2 cyl. Albin vél en í dag er í honum 1 cyl Sabb.
Árið 1947 var sett í bátinn 14. ha. Albin vél.  Þórður seldi bátinn 1971 Daníel Jónssyni, Dröngum Skógarströnd.  1973 var sett í bátinn 10. ha. Sabb vél.

Varðandi byggingarárið þá hef ég bæði séð 1936 og 1938, Hafliði getur vonandi leyst úr þessu.

Hafliði kom með Baldur með sér frá Reykhólum um mánaðarmótin febrúar/mars til að geta notað lausan tíma til að halda viðgerðum áfram.

Núverandi eigandi Baldurs er Bátasafn Breiðafjarðar.

Upplýsingar:
Hafliði Aðalsteinsson, munnlegar upplýsingar.
Íslensk skip, bátar eftir Jón Björnsson.


Baldur, Kópavogur 05. mars 2011

08.04.2011 18:42

Helgi Nikk og ?

Þessir tveir urðu á vegi mínum í dag.  Hef oft séð þá en núna var yfirbreiðslan af Helga Nikk farin svo ég ákvað að mynda.  Á eftir að taka fleiri myndir af honum.  Sá rauði var þarna líka en ég veit ekkert um hann, veit þó nafnið á hinum.  Einhver?


Helgi Nikk HF, Hafnarfjörður 08.04.2011


? Rauður frambyggður, Hafnarfjörður 08.04.2011

06.04.2011 10:59

Prammi

Þann 31. mars s.l. sá ég þennan pramma utan við skúrinn hjá Ólafi Gíslasyni.  Var ekki búinn að benda ykkur á að þessar myndir væru komnar inn.  Set þetta hér því það virðist einna mest vera að gerast í kringum Ólaf þessa dagana, nýr bátur á hverjum degi ef svo má segja.
Sagan kemur síðar.

Alla vegna þá finnst mér þessi nokkuð sérstakur í laginu, öðruvísi.


Prammi ?


Prammi ?

05.04.2011 00:47

Páskaeggjaleikur Freyju

Nú hefur staðið yfir páskaeggjaleikur Freyju.  Þeir földu gullegg nr. 40 og við Elín Hanna ákváðum að freista gæfunnar s.l. sunnudag, 3. apríl.  Vísbending hafði komið um að eggið sem við leituðum að væri í Heiðmörk og fyrir utan skóginn.  Þar sem Heiðmörkin er frekar "lítið" landsvæði þá skruppum við þangað.  Það var nokkuð margt um manninn víða um Heiðmörkina.  Sumir óðu um allt í leit að egginu en aðrir tóku því með ró og óku bara um svæðið, enn aðrir notuðu tækifærið og gengu um og voru varla að leita heldur bara að hreyfa sig. 


Elín Hanna gengur í Heiðmörk.

Við tókum okkur göngutúra, völdum svæðin að kostgæfni með hliðsjón að vísbendingunum.  Eftir því sem leið á daginn þá fannst okkur með ólíkindum að eggið væri ekki fundið svo við ákváðum að keyra í gegnum alla Heiðmörkina.  Ég stoppaði svo við Rauðhóla.


Rauðhólar.  03. apríl 2011

Eins og þið getið séð þá var veðrið hreint út sagt frábært.  Ég smellti af nokkrum myndum og við  Elín Hanna réðum ráðum okkar.  Við ákváðum að fara aftur til baka.


Elín Hanna gengur rétt hjá Maríuhellum.

Þegar við vorum að nálgast Maríuhella þá veittum við því athygli hvað það voru margir bílar á þessu svæði og fólk út um allt.  Talsvert var af fólki og bílum þarna við Maríuhelli.  Við vildum meina að þessi fjöldi af fólki, á þessu litla svæði í kringum Maríuhelli, að það hafi komið önnur vísbending um að þetta væri á þessu svæði.  Við röltum því um svæðið og leitðum líka.  Við höfðum rétt fyrir okkur með vísbendingu því við sáum það síðar.  Leitin hélt áfram.


Hluti af bílum og fólki sem voru á svæðinu.

Þegar ég var að taka þessa mynd og við þá orðin nokkuð þreytt og uppgefin á labbinu og vorum að yfirgefa svæðið ákvað ég að smella nokkrum myndum af öllum bílunum.  Ég smellti þessari mynd af og næsta mynd sýnir stráka koma með páskaeggjakassann.  Við vorum því á réttum stað en heppnin var ekki okkar megin.


Strákarnir koma með páskaeggjakassann.

Þarna var stór hópur af fólki sem tók á móti strákunum. Þeir heppnir að finna kassann.  Þar með var allri leit lokið af okkar hálfu enda eggið fundið.  Við fórum þá bara og skoluðum af bílnum í staðinn.


Elín Hanna skolar af bílnum.

Langar að láta það koma skýrt fram að hér er ekki um barnaþrælkun að ræða, Elín Hanna óskaði eftir að fá að skola af bílnum.  Það var slatti af helgidögum sem þurfti að laga.

04.04.2011 17:03

Hafnarfjarðarhöfn 3. apríl 2011

Þegar ég kíkti niður að Hafnarfjarðarhöfn þá hitti þannig á að björgunarskipið Einar Sigurjónsson var að koma með 7472 á hliðinni til hafnar.  Greinilegt var að það var gaman hjá þeim því heyra mátti hlátrasköllin og einnig að þeir veltu fyrir hvort það væru einhverjir áhorfendur og myndavélar á bryggjunni.  Þegar þeir komu síðan aðeins nær mátti heyra, "Jú, þeir eru þarna." og svo var hlegið hátt og mikið.  Þá fljótlega á eftir komu fleiri inn í höfnina.


Einar Sigurjónsson kom með 7472 á hliðinni til hafnar, 03. apríl 2011


7253 Ólöf Eva KÓ 58


7661 Álfur SH 214 rennir inn í Hafnarfjarðarhöfn, 03. apríl 2011

01.04.2011 00:37

Geir

Við Reykjavíkurhöfn í gær, 31. mars 2011, var þessi við bryggju.  Ekki kann ég nein deili á þessum en finnst nafnið nokkuð íslenskt, Geir.  Að vísu sé ég að hann flaggar norsku flaggi svo ég segi bara, heja Norge. Hvaða dallur er þetta nú strákar?  Er þetta bara norskur dallur og ekkert meira um það að segja?

Það má finna svarið við þessari spurningu minni á síðu Þorgeirs Baldurssonar, smellið á slóðina og sjáið myndir o.fl.  http://thorgeirbald.123.is/blog/record/514461/ 


M-123-H Geir,  Reykjavíkurhöfn 31. mars 2011

31.03.2011 11:47

Óskar Matthíasson

Auðunn Jörgensson er eigandi Óskars Matthíassonar og ræddi ég smávegis við hann.  Óskar Matthíasson var smíðaður 1969 í Noregi. Auðunn kvaðst hafa eignast Óskar í maí 2009 og gert hann upp, báturinn hafi nánast verið ónýtur.  Hann kvaðst hafa keypt bátinn af manni sem heitir Kristján, man ekki meira um þann mann.

Auðunn er sjálfur að vinna í að finna sögu bátsins en hann hefur m.a. sent fyrirspurn til Noregs til að leita að sögu Óskars.  Ef þetta hefst hjá honum þá mun sagan koma hér síðar.


Flottasti handfærabáturinn, Óskar Matthíasson í Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011

Óskar Matthíasson gæti verði notaður til að sigla með túrista, veiða nokkra fiska og koma með þá og elda á einhverjum veitingastaðnum við höfnina.  Ef þessi tilgáta mín er röng þá er þetta bara einfaldlega skrautlegasti handfærabátur sem ég hef séð fyrr og síðar. 

30.03.2011
Ég fann á heimasíðu Þorgeirs Baldurssonar smá frásögn um Óskar Matthíasson frá því 11. 08.2009, færsla eftir Emil Pál:  Sjómaður Íslands nr. 1 Auðunn Jörgensson frá Vesmannaeyjum á þennan bát. Heitir báturinn Óskar Matthíasson og heitir hann eftir frænda hans þekktum útgerðamanns úr eyjum sem meðal annars átti Leó og síðar Þórunni Sveinsdóttir. Auðunn er búinn að vera að skvera bátinn upp í sumar og er hann núna við bryggju í Reykjavík, en mun fara fljótlega til Vestmannaeyja.

Þetta var þá, nú 29. mars 2011 er Óskar aftur kominn í Reykjavíkurhöfn og hvort hann er kominn til að vera eða bara vor í lofti er ekki gott að segja.  En líklega voru getgátur mínar frá því í gær rangar.  Þetta er einfaldlega flottasti handfærabáturinn:-).

Meira síðar.

29.03.2011 23:55

Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011

Fann mér tíma eftir vinnu til að skreppa niður að Reykjavíkurhöfn og kíkja þar á lífið.  Lítið var um fugla en því meira af bátum.  Þeir stóru voru í blárri kantinum.  Ásmundur Halldórsson SF 250 var í höfn.  Hann fór síðan út fyrir höfnina, dansaði þar í smá stund og vatt sér inn aftur.  Hvað hann var að gera veit ég ekki? 


2774 Kristrún RE 177, Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011


2780 Ásgrímur Halldórsson SF 250, Reykjavíkurhöfn 29. mars 2011

28.03.2011 21:31

Hafnarfjarðarhöfn 28.03.2011

Leit við í Hafnarfjarðarhöfn í dag, 28. mars 2011.  Tók frekar lítið af myndum.  Hér má þó sjá tvær þeirra.


Þessi "félagi" var á leið út úr Hafnarfjarðarhöfn í dag.


Grunnvíkingur var á bryggjukantinum.

28.03.2011 13:45

Viðbætur og breytingar

Hér til hliðar eru nú tenglar á Skip og bátar Rikka R, það eru myndir af flest öllum bátum sem ég hef tekið myndir af fyrir utan kanski þessa gömlu, þeir fá sértengla.


Tveir á innleið til löndunar í Stykkishólmi. Getum við sagt flýta sér mishægt?

Þá hafa kanski einhverjir séð að á síðunni um Sumarliða voru komnar tvær myndir af bæklingi sem eigendur bátsins létu búa til.


Bæklingur um Sumarliða. Hægt að fá hann útprentaðan hjá Jóni Ragnari Daðasyni

Þá koma inn nokkuð reglulega nýjar færslur á Kára frá Skáleyjum og lagfæringunum á honum.


Kári frá Skáleyjum

Þá er saga Hönnu frá Gjögri komin inn, að hluta alla vegna.  Það sem komið er fann ég á veraldarvefnum.  Geti menn bætt við söguna þá endilega sendið póst.


Hanna frá Gjögri

Þetta er svona það helsta núna og það nýjasta. 

25.03.2011 01:06

13 ára snót

Þó 24. mars sé liðinn má ég til með að setja hér inn tvær myndir af Elínu Hönnu.  Hún átti afmæli í gær, 24. mars og varð 13 ára gömul.  Að sjálfsögðu er hún ljúfust allra og pabbi gamli mjög stoltur af dótturinni dýru.  Hér eru tvær myndir af Elínu Hönnu með 12 ára millibili.


Elín Hanna í nóvember eða desember 1998, 9 mánaða.


Elín Hanna 12 ára, 09. október 2010

25.03.2011 00:45

Fjórir í viðbót

Hér koma fjórir síðustu bátarnir sem ég myndaði í húsnæði Jóns Ragnars Daðasonar.  Engin saga er ennþá en myndirnar koma hér inn engu að síður.  Ég setti inn kenninöfn fyrir mig til að finna bátana aftur og þið takið viljan fyrir verkið.  Hér til hliðar eru bátarnir undir þessum skrítnu nöfnum, þá er hægt að smella á myndirnar hér fyrir neðan og þá opnast á myndasafnið af hverjum og einum.  Sögurnar koma síðar.


Bátur, fær grænu vélina ?


Blái báturinn ?


Brúni báturinn ?


Stóri ómálaði ? Reykjavík 03. mars 2011

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681637
Samtals gestir: 52725
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:40:24