Ljósmyndasíða Rikka Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana |
|
10.10.2011 22:57Brandur, HúsavíkBrandur ÞH 21, 5439
Skrifað af Rikki R. 09.10.2011 22:17Gosi ÞH 9Hér er einn gamall frá Húsavík, Gosi ÞH 9. Biggi Lúlla stendur í hurðinni á stýrishúsinu. Í Íslensk skip, bátar 1. bindi, bls. 153 kemur eftirfarandi fram. Smíðaður á Akureyri 1963. Eik og fura. 3 brl. 14 ha. Sabb vél. Eigandi Bjarni Þorvaldsson Akureyri, frá 27. september 1963. Báturinn hét Rúna EA 41, 5432. Bjarni seldi bátinn 5. júní 1968 Steingrími Árnasyni Húsavík, hét Palli ÞH 9. Seldur 4. febrúar 1971 Birgi Lúðvíkssyni Húsavík. Báturinn hét Gosi ÞH 9 og er skráður á Húsavík 1997. Ég man vel eftir Bigga Lúlla á þessum bát. Áhuginn lá að vísu ekki í bátum á þeim tíma, en ég vann þó neðan við bakkann og sá alla þessa báta. Man ekki hvenær ég tók þessa mynd en það getur verið að ég geti fundið það út og þá set ég það hér inn.
Skrifað af Rikki R. 09.10.2011 22:105010 Húni AK 124Fann þessa mynd sem ég tók árið 2002. Myndin er tekin í Djúpuvík af bátnum 5010 Húna AK 124. Mundi ekkert eftir þessari mynd en var að fletta albúmum og þá rak ég augun í myndina. 5010 Húni Ak 124 ex Sæljón AK 2. Var smíðaður í Bátastöð Akraness af Inga Guðmonssyni bátasmið árið 1954. Eik og fura. 5,23 brl. 29. ha. Lister vél. Aðalmál bátsins eru: Lengd 9.68 metrar, breidd 2.59 metrar, dýpt 1.10 metrar. Eigandi Magnús Vilhjálmsson, Efstabæ og Ólafur Finnbogason, Geirmundarbæ, Akranesi, frá 1954. Seldur 7. maí 1986 Karli Hallbertssyni, Akranesi, sem gerði bátinn út frá Ströndum. Báturinn heitir Húni AK 124 og er skráður á Akranesi 1997. Karl gaf safninu bátinn til varðveislu árið 1999. Báturinn hefur verið endurgerðu og er nú til sýnis inn á Safnasvæði Akraness Fékk nánari upplýsingar frá Jóni Allanssyni Safnasvæði Akraness. Safnið eignaðist bátinn af síðasta eiganda, Karli Hallbertssyni þann 19. mars 1999 en hann hefur búið á Akranesi í mörg ár en gerði út frá Djúpuvík. Þegar safnið eignaðist bátinn þá var farið í rannsóknarvinnu varðandi uppruna hans og fengum við þær upplýsingar að báturinn hafi haft einkennisstafina AK 24 en það sem skráð er í bókina Íslensk skip þ.e. AK 2 er ekki rétt. Báturinn kemur til safnsins í júlí 2002 og var geymdur inni á safnasvæðinu til ársins 2003 er byrjað var að endurgera hann. Báturinn var síðan gerður upp eins og hann var upprunalega og var ýmsu breytt frá því hann var gerður út frá Djúpuvík. Þegar safnið fékk bátinn þá var búið að fjarlægja vélina svo að ég veit ekki hvaða vél var í honum þegar bátnum var síðast lagt. Báturinn var síðan fluttur í geymsluhúsnæði safnsins á Akranesi árið 2003 og gerður þar upp og var smiður Benjamín Kristinsson ættaður frá Dröngum á Ströndum, Guttormur Jónsson, smiður Byggðasafnsins að Görðum og Friðbjörn Bjarnason frá Akranesi. Skipið var allt endurgert á tveimur árum og síðan flutt inná Safnasvæðið Görðum, þar sem þar er til sýnis. Sendi með sem viðhengi mynd sem tekin var í kringum 1966 af Sæljóninu og fyrsta eiganda þess Magnúsi Vilhjálmssyni frá Efstabæ, Akranesi.
Fyrst Jón sendi mér þessa mynd af Sæljóninum leyfi ég mér að setja líka inn myndina af Sæljóninu eins og það lítur út í dag á Safninu.
Íslensk skip, bátar, 1. bindi bls. 25. Safnasvæðið á Akranesi
Skrifað af Rikki R. 09.10.2011 01:42Graff í FlekkuvíkÉg og Elína Hanna skruppum að Flekkuvík á Vatnsleysiströnd. Þarna er flott hús sem einhverjir hafa heimsótt og graffað í. Við tókum nokkrar myndir með unglingnum og graffinu.
Skrifað af Rikki R. 07.10.2011 21:51Steingrímur EA 644Tók myndir af þessum bát þegar ég var á Húsavík. Vissi ekkert um hann og reyndar spurðist ekkert fyrir um hann. Nú veit ég þó ýmislegt um hann eftir að hafa rekist á frásögn um bátinn á vef Árna Bjarnar Árnasonar, www.aba.is Þessi frásögn finnst mér mjög góð og segir mikið um bátinn að mínu mati. Þar sem við Árni Björn höfum nú verið í ágætu sambandi þá hefur hann leyft mér að nota frásafnir sínar á þeim bátum sem hann hefur á sinni síðu. Þakka ég Árna Birni fyrir mig. Steingrímur EA-644. ( 5424 ) Smíðaður árið 1933 af Steingrími Hallgrímssyni, Látrum. Stærð: 1,43 brl. Fura og eik. Opinn súðbyrðingur. Fiskibátur. Trilla. Smíðaður til eigin nota. Steingrímur átti bátinn í rúm tvö ár. Að smíði bátsins með Steingrími vann Stefán Björnsson, Litla Svæði Grenivík.
Hér að neðan verður rakin sigling bátsins, eins og hún er best vituð, í mikið hamfaraveðri sem gekk yfir landið laugardaginn 14. desember 1935. Veðrið olli stórfelldum mannskaða og fjártjóni víða á landinu og við strendur landsins. Áður en óveðrið skall á fóru feðgarnir á Látrum á Látraströnd, Steingrímur Hallgrímsson og sonur hans Hallur á trillunni Steingrími EA-644 inn að Grímsnesi og hefur verið almælt að þangað hafi þeir farið gagngert til að sækja kind, sem þeir áttu þar. Steingrímur Jónsson, seinasti ábúandi á Grímsnesi, flutti til Dalvíkur 1938 tjáði nábúa sínum á Dalvík, Kristjáni Þórhallssyni, þá þessa atburði bar á góma að ekki væri rétt með farið að feðgarnir hafi gert sér ferð eftir kindinni. Sannleikurinn væri sá að feðgarnir hefðu að morgni dags farið í verslunarferð til Hríseyjar en til Látra komnir aftur hefði komið í ljós að gleymst hafði að kaupa olíu fyrir heimilið. Þeir hefðu því rennt á bát sínum inn að Grímsnesi gagngert til að fá lánaða olíu. Hitt væri svo aftur annað mál að kind sína, sem þvælst hafði saman við féð á Grímsnesi, tóku þeir einnig um borð í því augnamiði að koma henni til síns heima. Er báturinn kom aftur út að Látrum var landtaka ófær vegna brims og stórviðris. Heimilisfólkið á Látrum var komið í fjöru til að taka á móti bátnum en þegar hann hvarf þeim sjónum taldi fólkið hann genginn undir og þá feðga tínda skammt frá landi. Síðar kom í ljós að svo var ekki því að báturinn hélst ofansjávar frá Látralendingu og inn að Knarrarnesi neðan Víkurskarðs. Sigling bátsins þótti með miklum ólíkindum og er nokkuð ljóst að þarna hefur farið saman góð hönnun og smíði á bátnum svo og frábær stjórnun hans. Svo ótrúleg sem siglingin á þessari smáskel inn allan Eyjafjörð í hamfaraveðri og stórsjó verður að teljast þá hefur ekkert getað bjargað bátnum á land upp annað en kraftaverk. Óskemmdum komu þeir feðgar bátnum í fjöru "utan á Knarrarnesi, sem er skammt utan við Garðsvík á Svalbarðsströnd" eins og Dagur orðar það 19. desember 1935. Við nesið er fremur aðgrunnt og brýtur því all langt norður og út af því.
Frásögn "Dags" um að báturinn hafi tekið land utan eða norðan á Knarranesinu er sennilega til komin vegna ókunnugleika greinarhöfundar á staðháttum. Framan á nesinu eru breiðar klappir og út frá þeim ganga Ytri- og Syðri Knarranesboðar. Í miklu brimróti er þar engu fleyi fært. Góð lending er í þröngri vör innan á nesinu meðan ekki brýtur af innri boðanum fyrir hana. Til vitnis um að báturinn lenti innan á nesinu er Anna Axelsdóttir, Finnastöðum Látraströnd sem hefur það eftir foreldrum sínum, en móðir Önnu var dóttir Steingríms og systir Halls, svo og eftir dóttur Halls að lendingarstaðurinn hafi verið innan á Knarranesi. Leiða má líkum að því að fjaran innan á nesinu hafi verið eini hugsanlegi lendingarstaðurinn við Eyjafjörð, sem einhver möguleiki var a að koma bát óbrotnum á land í því brimróti og veðurham, sem þarna var við að etja. Á sunnudagsmorgni fann bóndinn í Miðvík bátinn á Knarrarnesinu og í honum Steingrím örendan. Var hann með áverka á höfði og lagður til í bátnum. Strax á mánudagsmorgni leituðu 15 menn frá Svalbarðsströnd Halls en fundu ekki. Daginn eftir var sendur bátur frá Akureyri með fjölda leitarmanna til aðstoðar leitarmönnum frá Svalbarðseyri. Leituðu 80 manns þann dag allan en árangurslaust. Álitið var að Hallur hefði hrakist í sjóinn en svo reyndist ekki því að hann fannst um vorið og þá nokkuð langt til fjalla. Til marks um veðurhaminn þá hefur Aðalgeir Guðmundsson sagt skrásetjara að faðir hans Guðmundur Jóhannsson, útvegsbóndi í Saurbrúargerði, hafi komið innan af Svalbarðsströnd í þessu veðri. Þrátt fyrir að Guðmundur þekkti hvern stein í Ystuvíkurhólunum þá treyst hann sér ekki yfir hólana vegna veðurofsa en þræddi þess í stað sjávarbakkann þar til hann vissi sig kominn niður af bænum. Þar kleif hann nyrsta rinda hólanna og komst við illan leik til síns heima.
Það er aftur á móti af Steingrími EA-644 að segja að hann komst í eigu Valgarðs Sigurðs-sonar, Hjalteyri og er á hann skráður 1940 og síðan endurskráður á sama mann 1985. Báturinn datt út af skipaskrá í fjögur ár en ekki er vitað á hvaða tímabili það var.
Árið 1990 seldi Valgarður bátinn Haraldi Jóhannessyni, Borgum, Grímsey. Mestan tíma sinn í Grímsey var báturinn inni í skúr hjá Haraldi þar sem skoðunarmaður Siglingastofnunar var tregur til að gefa honum skoðunarvottorð nema að undangengnum einhverjum lagfæringum.
Þegar báturinn hafði dvalið í þrjú ár í Grímsey var hann tekinn af skipaskrá 1993 og gefinn Sjóminjasafninu á Húsavík þar sem hann ber nú hönnuði sínum og smiðum verðugt vitni.
Aðeins um bátasmiðinn
Steingrímur Hallgrímsson, Látrum Látraströnd. ( 1874 - 1935 ) Steingrímur Hallgrímsson, sem bjó á Skeri og á Látrum, Látraströnd fékkst töluvert við bátasmíðar en heimildir nafngreina fáa þeirra. Ljóst má þó vera að árabáta hefur hann smíðað svo sem flestir, sem lögðu bátasmíðar fyrir sig en slík iðja var stunduð á öðrum hverjum bæ Látrastrandar.
Vitað er um einn ónafngreindan árabát, sem Steingrímur smíðaði fyrir Árna Jónsson, Syðriá Kleifum Ólafsfirði svo sem frá er greint í "Byggðin á Kleifum" eftir Friðrik G. Olgeirsson.
Telja má nokkuð víst að bátar sem skráðir eru smíðaðir í Grýtubakkahreppi og tengjast nafni Skers eða Steingrímur séu smíðaðir af honum. Skrifað af Rikki R. 05.10.2011 21:40Freydís SH 18, 5808Myndaði Freydísi á bátadögum 2011, 02. júlí 2011, en þá var farið í hópsiglingu úr Stykkishólmi í Rúfeyjar og Rauðseyjar á Breiðafriði. Í fyrstu sigldu karlarnir í hringi svo hægt væri að mynda þá. En hvað veit ég um Freydísi: 5808 Freydís SH 18 ex Freydís NS 42. Smíði nr. 445 frá Bátalóni 1977 í Hafnarfirði 1977. Eik og fura. 3,61 brl. 30. ha. Sabb vél. Eigandi Stefnir Einar Magnússon, Bakkafirði, frá 17. mars 1977. Báturinn er skráður á Bakkafirði 1997. Stefnir Einar mun síðan hafa látið frænda sinn fá bátinn, en sá átti bátinn stutt. Næst eignaðist Benjamín frá Eyjum á Ströndum bátinn. Þórarinn Sighvatsson er eigandi bátsins í dag og fékk hann bátinn frá Benjamín. Skrifað af Rikki R. 04.10.2011 20:57Ársæll ÞH 280Ársæll var í Húsavíkurhöfn í júlí 2011 þegar ég var þar á ferð. Smellti myndum af honum svona mér til gamans. Þið fyrirgefið sensorskítinn á myndunum. Skrifað af Rikki R. 04.10.2011 20:44Ársæll VE ex Ársæll ÞHAlltaf finnur maður eitthvað sem vekur áhuga manns í þessu myndafargani sem maður hefur tekið í gegnum tíðina. Eftir að ég eignaðist bækurnar Íslensk skip, bátar hefur upplýsingastreymið aukist til muna. Nú rak ég augun í myndir af bát sem ég myndaði árið 2006 og er gamall Húsavíkingur. Þessar myndir hafa bara verið í safninu mínu og ég held ég hafi ekki sett þær inn hér áður. 5452 Ársæll VE 4 ex Ársæll ÞH 46. Smíðaður á Húsavík 1958. Eik og fura. 2,5 brl. 10 ha. Sabb vél. Eigandi Hreiðar Friðbjarnarson, Húsavík, frá 15. maí 1961. Hreiðar seldi bátinn 27. febrúar 1981 Viðari Þórðarsyni, Húsavík. Seldur 3. febrúar 1983 Sigurjóni Skúlasyni, Húsavík. Seldur 1. desember 1985 Jóhanni Þórarinssyni, Húsavík. Jóhann seldi bátinn 18. febrúar 1988 Kristni V. Magnússyni og Svavari Steingrímssyni, Vestmannaeyjum, hét Þrasi VE 20. 1974 var sett í bátinn 16 ha. Sabb vél. Hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 14. nóvember 1986. Talinn ónýtur og svo mynda ég hann við Hafnarfjarðarhöfn 23. mars 2006 og greinilegt að báturinn hefur verið í notkun þá. Spurning hvort hann var endurskráður. Skrifað af Rikki R. 02.10.2011 18:33KríanÞessi var til sýnis á Húsavík á Sail Húsavík. Í bátnum var blað með upplýsingum um bátinn og koma þær hér að neðan. Nordlansbat smíðaður um aldamótin 1900. Báturinn kom fyrst til Grímseyjar og var skilinn þar eftir af skipverjum á erlendu skipi, notuðu þeir hann til að lesta skipið. Færeyingur sigldi bátnum með seglum til Akureyrar þar sem hann var um tíma. Jónas Jónsson (f. 1893 d. 1974) frá Ólafsfirði kaupir hann þar árið 1930. Þar setur hann í hana vél af gerðinni Solo sem er 1,5 hestafl og er sennilega frá því í kringum 1897. Báturinn er síðan í notkun í Ólafsfirði fram undir 1970. Afkomendur létu gera bátinn upp í kringum 1975, það verk vann Jón Samúelsson (f. 1924 d. 2005) frá Færeyjum en hann hafði lært bátasmíði á Akureyri. Bátur Jónasar nefndist Krían. Skrifað af Rikki R. 01.10.2011 21:34ViðbæturVar að líta á Sumarliða og hvernig verkið þar gengur. Myndir og frásögn má finna ef þið smellið á slóðina hér til hliðar, Sumarliði. Set hér inn eina mynd sem ég tók af myndavél sem fannst í Sumarliða. Skrifað af Rikki R. 22.09.2011 17:51Rikka tjörnNú þegar ákveðin áfangi er að nást í mínu lífi varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að fá ákveðið landsvæði nefnt eftir mér. Jú, alveg satt. Sjáiði bara:
Ég vil þakka öllum þeim sem gerðu þetta kleift. JD, HR, SJ, AA og ÁÖG fá öll sérstakar þakkir. Þá vil ég geta þess að ÁÖG sá um myndatökuna. Enn og aftur, takk fyrir mig og ég er grátklökkur...............................sennilega..................:) E.s. Ef einhver veit betur varðandi nafn á þessari tjörn er hann vinsamlega beðinn um að halda því út af fyrir sig. Skrifað af Rikki R. 18.09.2011 21:22ScandiaÞessi hefur þjónað sínum tilgangi og er orðin þreytt eins og sjá má. Mörgum gæti þótt þessi gripur eigulegur þrátt fyrir allt. Þessi eldavél er af gerðinni Scandia. Þegar ég sá hana fannst mér ástæða til að mynda hana. Það var eitthvað við þetta sem mér fannst flott.
Skrifað af Rikki R. 16.09.2011 22:38Hreifi ÞH 775466 Hreifi ÞH-77
Baldur Pálsson smíðaði bátinn árið 1973. Fura og eik. Stærð: 1,50 brl. Afturbyggður opinn súðbyrðingur. Smíðaður fyrir Héðinn Maríusson sem átti bátinn í tólf ár, báturinn hefur alltaf verið á Húsavík. Núverandi eigandi er Héðinn Helgason, barnabarn Héðins.
Báturinn hefur frá upphafi heitið Hreifi ÞH-77.
Skrifað af Rikki R. 16.09.2011 22:04Framfari frá LöndumÁ göngu minni um hafnarsvæðið á Húsavík rak ég augun í hann þennan, Framfari frá Löndum. Á víðnetinu sló ég inn nafninu og datt inn á aba.is. Þar má finna allt um bátinn og ég tók mér leyfi til að setja þá frásögn hér inn Um bátasmiðinn segir Árni Björn m.a.: Þorgrímur Hermannsson, Hofsósi. ( 1906 - 1998 )
Þorgrímur Hermannsson var sjálfmenntaður í skipasmíðum. Hann stundaði útgerð frá Hofsósi yfir sumarmánuðina en notaði veturna til smíða. Í upphafi smíðaferils síns annaðist hann viðgerðir á bátum en fór í framhaldi af því að fást við nýsmíðar. Báta sína byggði Þorgrímur í gömlu rafstöðinni á Hofsósi og uppi á lofti í samkomuhúsi staðarins, Skjaldborg. Sæfaxi SK-80. Stærð: 3,25 brl. Smíðaár 1960. Fura og eik. Súðbyrðingur.
Afturbyggð trilla með lúkar. Smíðaður fyrir Steinþór Jónsson, Barða Steinþórsson og Jón Steinþórsson, Hofsósi og áttu þeir bátinn í sex ár en seldu hann þá til Grímseyjar þar sem hann fékk nafnið Sæfaxi EA-56.
Nafngiftina á bátnum má rekja til þess að bræðurnir Steinþór og Geirmundur Jónssynir áttu lengi bát, sem Kristján Þorsteinsson, Naustum á Höfðaströnd smíðaði og hét sá Sæver SK-35 og er fyrrihluti nafnsins þaðan ættaður. Seinnihluti nafnsins er komið frá hestinum Faxa, sem þjónaði búi þeirra bræðra að Grafargerði og var í miklu uppáhaldi hjá öllu heimilisfólki.
Ekki er nákvæmlega vitað hvað á dag bátsins dreif eftir að hann fór frá Grímsey né hvað hann hafði langan stans í eyjunni. Sennilegast er þó að frá Grímsey hafi hann farið beint austur fyrir land til Kristjáns Þorsteinssonar frá Löndum í Stöðvarfirði. Hjá Kristjáni hét báturinn Framfari SU.
Árið 2010 var bátinn að finna í Sandgerðisbót á Akureyri en úr höfninni sigldi hann þetta ár til Húsavíkur þar sem hann er nú staðsettur. Báturinn mynnist enn við dætur Ránar og heitir nú "Framfari frá Löndum" og eru eigendur bræðurnir Guðmundur og Halldór Guðmundssynir og Björn Axelsson, Akureyri.
Einn af fyrstu eigendum bátsins Barði Steinþórsson hefur staðfest að "Framfari frá Löndum" sé sami bátur og Sæfari SK-80.
Sama sinnis er Vilhjálmur Geirmundsson, sem eitt sinn var skipsverji á Sæfara en býr nú að Eyri í Sandgerðisbót á Akureyri og hefur bátinn daglega fyrir augunum.
Ef huganum er rennt að nafngiftinni "Framfari frá Löndum" þá ætti hún ein og sér að duga bátnum til siglinga um öll heimsins höf.
Skrifað af Rikki R. 16.09.2011 21:49Pési á HúsavíkÞennan sá ég á Húsavík þegar ég gékk um hafnarsvæðið á Sail Húsavík. Einar Þorgeirsson í Grímsey kaupir síðan bátinn af Vilhjálmi. Báturinn er lögskráður 1990 og þá á nafni Óttars Þórs Jóhannssonar, Grímsey, tengdasonar Einars. Báturinn er felldur af skrá 9. desember 1992. Að sögn Júrunnar, ekkju Einars, hafi nafnið á bátnum verið Litli Latur þegar hann kom til Grímseyjar. Jórunn hafi sagt að báturinn hafi komið einhversstaðar af austan til Grímseyjar, líklega frá Þórsöfn á Langanesi. Jórunn seldi bátinn suður. Kaupandi var Gunnar Kristjánsson slökkviliðsmaður. Hann hafi verið með bátinn við Selvatn við Reykjavík. Þar hafi báturinn verið tekinn á land og fúnað að ofan. Vélin í bátnum var Petter. Upplýsingar: Skrifað af Rikki R. |
Málsháttur dagsins Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !clockhere Rikki R Nafn: Ríkarður RíkarðssonFarsími: 862 0591Tölvupóstfang: rikkirikka@gmail.comAfmælisdagur: 24. septemberHeimilisfang: Breiðvangi 3, 220 HafnarfjörðurStaðsetning: HafnarfjörðurHeimasími: 565 5191Um: Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.Eldra efni
Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is