Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

14.11.2011 09:04

Síldveiðar í Breiðafirði

Þó ég hafi skroppið í Stykkishólm nokkrum sinnum á undanförnum árum þá hafði ég aldrei orðið svo heppinn að verða vitni af því þegar síldveiðiskipin, loðnuskipin o.fl. eru að veiða uppi í landsteinunum.  Þetta breyttist í gær, 13.11.2011.  Ég kíkti á þau skip sem voru við síldveiðar.  Ég keyrði út í Ögur.  Þar inni í "stofu" var Júpíter að dæla út nótinni.  Ég segi svona, því rennan milli Kiðeyjar og Ögurs er ekki mjög breið. 
Þá voru fleiri bátar þarna, sá þrjá aðra en myndaði þá ekki.  Smellti þó tveimur fjarskafríðum myndum af tveimur saman á heimleiðinni.  Tel mig þekkja þá en þið leiðréttið ef rangt er.


Júpíter innan við Kiðey, Ögur 13. nóvember 2011


Júpíter við dælingu, Ögur 13. nóvember 2011


Þeir voru þarna fleiri við veiðar en ég náði bara svona fjarskafagri mynd af þeim:)  Er ekki viss um hverjir þetta eru en gætu verið Vilhelm Þorsteinsson EA og Beitir NK?  Var lengi að leita.

09.11.2011 20:06

Svanur, Reykjavík

Svanur var í Snarfarahöfninni í sumar og nú er búið að taka hann á land.  Engar upplýsingar hafði ég í upphafi þar til Teddi benti mér á réttu leiðina.  Takk fyrir það Teddi.  Eina sem ég vissi var að báturinn hafi alltaf heitið Svanur.

Svanur BA 306 var smíðaður veturinn 1941-42 af Gísla Jóhannssyni í Bíldudal fyrir Árna Magnússon Kolbeinsskeið (kallað Skeiði) í Selárdal.  Árni eignaðist bátinn vorið 1942.  Smíðaður úr eik og furu.  1,5 brl.  4 ha. Sleipner vél.  Báturinn hefur alltaf heitið Svanur og var opinn í upphafi.

Árið 1995 var báturinn endurbyggður.  Endurbygging hófst 20. mars og lauk 30. maí 1995.  Í fyrstu voru böndin höfð í bátnum meðan skipt var um byrðinginn.  Síðan var skipt um böndin.  Sett var á bátinn stýrishús, að aftan.

Árið 2001 var báturinn tekinn aftur í gegn en þá var skipt um stýrishús og það sett að framan.  Það eina sem eftir er af upprunalega bátnum er stýrissveifin, sagði Bergsveinn.  Í dag er 8 ha. Sabb díselvél í bátnum.

Til gamans má geta þess að ein "smá" kvöð fylgdi bátnum þegar synir Árna fengu bátinn.  Það er að þegar synirnir hætta að nota bátinn þá á að farga honum.
Núverandi eigendur eru Bergsveinn, Jón og Sveinn Árnasynir.  Sveinn sagðist þó vera búinn að draga sig út úr þessu og tæki ekki þátt lengur.

Framtíð Svans er nokkuð óráðin að sögn Bergsveins en báturinn er kominn upp á land og spurning hvað gerist næsta vor.

Upplýsingar
Sveinn og Bergsveinn Árnasynir, munnlegar upplýsingar.
Íslensk skip, bátar - 1. bindi bls. 77.


Svanur, Snarfarahöfn 23. október 2011

09.11.2011 19:59

Hrólfur x Ötull

Myndaði þennan við höfnina í Kópavogi 5. nóvember 2011.  Núverandi eigandi heitir Þorvaldur Hermannsson, ég gef honum orðið.


Bátinn smíðaði Ragnar Jörundsson á Hellu við Steingrímsfjörð árið 1984 fyrir mann að nafni Henrý Níelsen, Drangsnesi. Henrý seldi Hrólfi Guðmundssyni bátinn nokkrum árum síðar.  Ég fékk síðan bátinn sumarið 2009 en hann hafði verið geymdur á bak við gömlu fiskimjölsverksmiðjuna á Hólmavík í nokkur ár. Hann var í mjög slæmu ástandi, gisinn og ljótur. Báturinn hét Ötull í eigu Henrýs en ég hef nefnt hann Hrólf í höfuðið á fyrrum eiganda. Ég læt fylgja tvær myndir með en önnur er af bátnum þar sem hann liggur undir vegg fyrir endurbætur og  hin eftir endurbætur.


Hrólfur áður en Þorvaldur og Hermann gerðu hann upp. 
Mynd í eigu Þorvaldar Hermannssonar, tekin 14. júní 2009

Ég og faðir minn Hermann smíðuðum  hvalbak á bátinn, við bjuggum til nýja plitti (gömlu voru alveg ónýtir), skröpuðum alla gamla málningu af, kíttuðum mikið og máluðum allan bátinn frá a-ö. Einnig styrktum við bátinn aðeins. Öll járnvinna var gerð af pabba mínum (er járnsmiður), statíf undir handfærarúllu (gömul Hellurúlla), keifar o.fl.. Við erum síðan með gamlan Johnson mótor, sea horse 20 hö árgerð ´73, sem gengur eins og klukka. Einnig var smíðuð kerra undir hann. Við höfum verið með bátinn í Kópavogshöfn undanfarin tvö sumur en stefnum á að fara með hann aftur á æskustöðvarnar og róa á honum frá Hólmavík. Hann nýtur sín best á Steingrímsfirði. Áður en það gerist þarf að skipta um fjögur borð í skrokknum, laga flest böndin, kítta , mála og betrum bæta plittina.


Nýuppgerður, mynd í eigu Þorvaldar Hermannssonar, tekin 09. febrúar 2010


Hrólfur, Kópavogur 05. nóvember 2011

06.11.2011 22:17

Myndlistasýning

Kíkti á myndlistasýningu í dag sem opnuð var í Kaffihúsinu á Álfossi, Álafosskvosinni.  Þarna voru þær Ásdís Gígja og Fanný Jónmundsdóttir að sýna verk sín.  Ásdís sýndi vatnslita- og olíumálverk en Fanný var með íkonamyndverk.
Ég smellti mér með myndavélina á svæðið og tók myndir af verkunum.  Sá reyndar að þegar ég var að setja myndirnar inn þá gleymdi ég að taka myndir af öllum íkonamyndverkunum hennar Fannýar. 

Ég hafði gaman af þessari sýningu og mæli með að menn líti á þessa sýningu og geti þá fengið sér kaffi í leiðinni.


Fanný og Ásdís við hluta verka sinna.  6. nóvember 2011


Þrjú verka Ásdísar. 6. nóvember 2011


Tvö af íkonhandverkum Fannýar, 6. nóvember 2011

06.11.2011 00:48

Drekinn hans Hjartar

Á ferð minni í gær rak ég augun í Hjörtur og félaga þar sem þeir voru með drekana sína við Hlíðsnesið.  Ég smellti nokkrum myndum af Hirti þar sem hann var á fullri ferð.  Hér má sjá tvær þeirra.


Hjörtur á fullri ferð, 05. nóvember 2011

Hjörtur á fullri ferð, 05. nóvember 2011

05.11.2011 21:32

Vífilsstaðir

Oft þegar ég keyri framhjá Heiðmörkinni og stefni í átt að Vífilsstöðum þá er alltaf eitthvað sem nær athygli minni varðandi þetta hús, Vífilsstaði.  Þegar sólin skín á húsið er það eitthvað svo tignalegt.  Rétt eftir að ég smellti af þessari fyrri mynd þá dró fyrir sólu.  Seinni myndin sýnir þetta greinilega, skuggi er að dragast yfir vesturenda hússins (frá vinstri).


Vífilsstaðir 05. nóvember 2011


Dregur fyrir sólu 05. nóvember 2011

05.11.2011 21:20

Fólk í Stykkishólmi

Nokkrar myndir úr Stykkishólmi á árinu 2011, af fólki við leik og störf.  Er að fjölga myndum í albúmi: Fólk í Stykkishólmi. 


Dittað að krana um borð í Baldri, 23. janúar 2011


Elín Hanna og Einar afi taka til flöskur, Stykkishólmur 23. janúar 2011


Ungar snótir í Stykkishólmi, 02. júlí 2011


Þrjár frænkur og ein vinkona á balli hjá Páli Óskari, Stykkishólmur 13. ágúst 2011


Fjörugir krakkar í Hólminum, Stykkishólmur 13. ágúst 2011


Þeir frændur, Raggi og Einar Stein velta himingeimnum fyrir sér, Stykkishólmur 02. júlí 2011

05.11.2011 21:11

Snarfarahöfn

23. október 2011 var mjög fallegt veður eins og sést vel á myndunum hér að neðan.  Ég tók nokkra ramma við Snarfarahöfnina en þar var sjórinn spegilsléttur.  Ég vona að ykkur líki þessar myndir svona til að létta ykkur þessa úrkomudaga sem eru núna.  Við eigum eftir að fá svona verður aftur.


Sumar af snekkjunum í Snarfarahöfn, 23. október 2011


Speglun í Snarfarahöfn, 23. október 2011


Speglun í Snarfarahöfn, 23. október 2011


Frá Snarfarahöfn 23. október 2011

30.10.2011 16:41

Eins og pabbi

Eftir mikinn eril í vinnunni náði ég að kíkja aðeins út með myndavélina mína í dag.

Ég leit inn í Bátastöðina og þar voru feðgar að smíða.  Sá litli ætlaði að verða eins og pabbi þegar hann yrði stór.  Hér að neðan eru tvær slóðir sem ég er með á Sumarliða.  Annars vegar er það saga bátsins og hins vegar dagbókin sem ég held í þau skipti sem ég fer og kíki og mynda viðgerðina.

Sumarliði, dagbókin mín http://rikkir.123.is/blog/2011/09/03/540868/
Sumarliði, saga bátsins http://rikkir.123.is/blog/record/508937/



Eins og pabbi..... Bátastöðin 30. október 2011

23.10.2011 22:04

Gráhegri

Á ferð minni í dag kíkti ég m.a. í Hvaleyrarlón í Hafnarfirði.  Þar sá ég einn ungan gráhegra í rennunni en svo flaug hann inn í lónið.  Náði að smella af myndum svona rétt til að staðfesta fuglinn.




Gráhegri í Hvaleyrarlóni, 23. október 2011

23.10.2011 21:43

Á drekaslóðum

Var á ferðinni í dag og rak augun í þrjá dreka.  Já, ég sagði dreka.  Ég var staddur út við Gróttu og þar voru sem sagt þrír karlar á sjóbrettum sem létu dreka draga sig áfram.  Þarna fóru þeir fram og til baka, stukku upp í loftið og léku listir sínar.  Reyndi að fanga þetta á myndir, set hér inn tvær.  Setti nokkrar inn í albúm. 




Við Gróttu, 23. október 2011

21.10.2011 21:32

Máfar

Skrapp í Stykkishólm 15.-16. október og skrapp á bryggjuna.  Þarna sá ég talsvert af stórum máfur og þá datt mér í hug að setja hér inn nokkrar myndir af þessum elskum.  

Vargfugl segja flestir.  Ég sé máfana ekki sem neina vargfugla, þetta eru að mínu mati "ryksugur" hirða upp ruslið eftir okkur mennina.  Þegar hungrið sverfur að þá eiga þeir til að reyna hvað þeir geta til að bjarga sér með að stela af grillum landsmanna, kallast það ekki sjálfsbjargarviðleitni. 

Hér eru myndir af helstu máfum sem eru þekktastir hér á landi fyrir utan bjartmáfinn.


Svartbakur, Hafnarfjörður 17. október 2010


Sílamáfur, Hafnarfjörður 23. júní 2011


Hvítmáfur, Stykkishólmur 16. október 2011


Silfurmáfur, Húsavík 1993


Stormmáfur, Bakkatjörn 23. apríl 2004


Rita, Flatey 20. júlí 2004


Hettumáfur, Bakkatjörn 19. apríl 2009

18.10.2011 21:20

Súla og selur

Var að prófa nýja græju.  Fékk mér 2x extender eða framlengingu á stóru linsuna mína, þetta kemur þá út sem að linstan mín sem er 70-200 mm verður 140-400 mm.  Þetta var mín fyrsta tilraun og hún tókst ekki of vel.  Þessi mynd af súlunni kom þokkalega út að mér finnst, súlan rétt að birja dýfu.  Náði ekki að fylgja henni eftir og ná stungunni.  Þá kíkti þessi selur á mig.  Búin að klippa vel utanaf myndinni.  Kemur sæmilega út, þokkalega skýr.  Æfingar munu halda áfram.


Súla, Vatnsleysuströnd 08. október 2011


Selur, Vatnsleysuströnd 08. október 2011

14.10.2011 22:13

Hrafnkell

Þennan bát sá ég 25. mars 1996 á Reykjanesi, n.t.t. móts við Norðurkot við Sandgerði.  Tók myndir af honum en leitaði ekkert eftir sögu hans.  Fékk vísbendingu um að þessi bátur væri kallaður Rafnkelsstaðabáturinn og var mér bent á að tala við Sigurð í Norðurkoti.  Eftirfarandi kom fram í frásögn Sigurðar.

Hrefnkell
Báturinn heitir Hrafnkell.  Smíðaár ekki vitað og ekki vitað hver smíðaði bátinn.  Upphaflega smíðaður sem fjóræringur og er smíðaður með svonefndu Engeyjarútliti.  Einar Gestsson, fæddur í Bjarghúsum í Garði sagðist hafa keypt bátinn af Guðmundi á Rafnkelsstöðum um 1930-35.

Sigurður K. Eiríksson Norðurkoti kvaðst hafa farið að velta fyrir sér hvers vegna báturinn héti Hrafnkell.  Þá kom í ljós að Rafkelsstaðir hétu áður Hrafnkelsstaðir.  Báturinn var allur endursmíðaður af Einari Gestssyni Bjarghúsum.  Sigurður kvaðst hafa farið á sjó með Einari og þetta væri hörkuskip.  Sigurður vildi meina að bátnum hafi verið lagt um 1990.

13. apríl 2013 fór ég að kíkja eftir bátnum.  Þarna á staðinn er komið íbuðarhús frá því ég var þarna síðast og báturinn hafði verið færður upp að gömlu húsunum sem sjá má á myndinni hér að neðan með grænu þökunum.  Báturinn sjálfur hefur lítið breyst annað en að það sér meira á honum.  Helstu breytingar á húsunum er að það hefur verið skipt um þak á fremra húsinu og sett tréþak, jarni tekið af og þakið málað svart.  Hitt húsið er enn með bátujárni en það málað svart.  Set eina nýja mynd hér með og fleiri myndir í albúmi.

Heimildir:
Sigurður K. Eiríksson, Norðurkoti, munnlegar heimildir.
Ferlir.is http://www.ferlir.is/?id=3624  og http://www.ferlir.is/?id=17100


Hrafnkell 25. mars 1996

 

Hrafnkell 13. apríl 2013

10.10.2011 23:18

Maggi ÞH 68

Maggi ÞH 68 ex Farsæll ÞH 68, 5459
Smíðaður, af Jóhanni Sigvaldasyni skipasmið, á Húsavík 1961.  Eik og fura.  4,4 brl. 30. ha. Perkins vél.  Eigandi Bessi Guðlaugsson, Húsavík frá 2. maí 1961, hét Farsæll ÞH 68.  Seldur 29. september 1972 Kristjáni Helgasyni, Húsavík, hét Gæfa ÞH 68.  1973 var sett í bátinn 73 ha. Petter vél.  Seldur 1. janúar 1977 Þorgeiri Þorvaldssyni, Húsavík, hét Maggi ÞH 68.  Frá árinu 1993 hét báturinn Maggi ÞH 338, Húsavík og það nafn bar hann þar til honum var fargað.  Báturinn var tekinn af skrá 14. nóvember 1994.

Man ekki hvaða ár það var en þessi bátur endaði á áramótabrennu.

Heimildir:
Íslensk skip, bátar, eftir Jón Björnsson.  4 bindi, bls. 121.
aba.is http://aba.is/?modID=1&id=65&vId=105



Maggi ÞH 68, Húsavík

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681637
Samtals gestir: 52725
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:40:24