Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2012 Desember

30.12.2012 17:32

Flatey á Breiðafirði

Er staddur í Flatey á Breiðafirði.  Kom hér út í talsverðum sjógangi og 14 metrum á sek. af norðaustan.  Fyrir landkrabba eins og mig var það talsvert.  Svo kom fyrsta nóttin og næsti dagur og þá var arfabrjálað veður.  Slidda og stormur. Sem betur fer þá vorum við innandyra og höfðum það notarlegt.en þó vitað um þrennt sem skemmst hefur.  Fjarskiptamastur er við það að falla en hangir á en vonandi reddast það á morgun.  Bátskél sem notuð hefur verið við fjárflutninga slitnaði upp og skorðaðist á eyði við Hafnarey.  Þá var einhver girðing sem fauk hjá við Krákuvör. Litlar skemmdir hafa orðið hér í Flatey  Í dag er talsverður vindur og ég skrapp og tók nokkrar myndir.


Hér má sjá símamastrið í Flatey, 30. desember 2012

Þegar þetta kemur inn þá er búið að rétta mastrið við, en Magnús bóndi í Krákuvör og Helgi í Grænagarði fóri í morgun, 31.12. og réttu það við.  Ég ætlaði að vera klár á myndavélinni en ákvað að kúra mig undir sæng.

Fuglalífið hér hefur komið mér á óvart þ.e. ég hef séð meira af fuglum en ég átti von á.  Hér er talsvert af æðarfugli, teisu hef ég séð, toppskarfa, svartbaka, hvítmáfa, talsvert af hröfnum, um 30 snjótittlinga, einn fálka og einn auðnutittling.  Þessir tveir síðustu komu mér mest á óvart.  Ég hef í raun ekkert verið að leita eftir fuglum þar sem veður hefur verið snarvitlaust ef svo má að orði komast. 

Kæru ættingjar, vinir og kunninjar vona að þið eigið ánæguleg áramót.

28.12.2012 10:43

Stykkishólmur

Hér má sjá fimm báta sem geymdir eru í Maðkavíkinni í Stykkishólmi.  Stykkishólmskirkja trónir yfir þeim sem útvörður þeirra.  Þarna má sjá bátana Þyt, Bjartmar, Farsæl en það rétt sér í stefnið á honum, þá er Hrímnir og sá síðasti þessi rauði veit ég ekki hvað heitir "enda plastari":-)


Úr maðkavíkinni í Stykkishólmi.  Mynd Rikki R, 27. desember 2012

25.12.2012 21:59

Síldin í Kolgrafarfirði

Kíkti í Kolgrafarfjörðinn á Þorláksmessu.  Flóð var og því kanski sást minna af síld en þegar við ókum vestantil í firðinum þá var þar talsvert af síld á landi n.t.t. við bæinn Eiði.  Þarna mátti sjá "garða" af síld, eins og henni hafi verið rakað í garða.  Tók nokkrar myndir svona rétt til að sanna að ég hafi verið þarna:)  Geri mér grein fyrir að miklu meira sjáist af síld þegar það er fjara.




Síld í fjörunni við bætinn Eiði, 23. desember 2012

22.12.2012 13:38

Hátíðarkveðjur

Kæru ættingjar, vinir og velunnarar síðunnar.  
Gleðileg jól og farsælt nýtt ár.  
Heyrumst hress á nýju ári með nýjar myndir og fréttir.


Kálfatjarnarkirkja, Vatnsleysuströnd.  25. nóvember 2012


Blíðfari GK, Vatnsleysuströnd.  25. nóvember 2012

09.12.2012 22:11

Máninn hátt á himni skýn

Fór eitt kvöldið og tók þessar myndir.  Ákvað að skella þeim saman.  Finnst þetta koma sæmilega út en veita að þessi mynd er ekkert sérstök.  Hún varð full dökk bæði af borginni og einnig af tunglinu.  Þess vegna ákvað ég að fara þessa leið.


Reykjavík 

09.12.2012 21:30

Sumrungur KÓ

Sigurður Bergsveinsson sendi mér grein um bátinn Sumring KÓ sem ég set inn hér á eftir.  En fyrst vil ég setja smá fyrirspurn frá honum til ykkar allra sem lesið þetta. 
 
Sigurður fór að spá í innfellda stefnið eins og sést í greininni. Gaman væri ef menn sem þekktu til vildu tjá sig um það. Hvar voru bátar með svona stefni smíðaðir annarsstaðar en hjá Skipasmíðastöð KEA og Bátasmíðastöð Breiðfirðinga og í Látrum ?
 
Pabbi og Aðalsteinn Aðalsteinn í Látrum voru vinir (og frændur) og það er ekki útilokað þó ég viti ekkert um það að stefnin á Draupni og Farsæli séu tilorðin fyrir áhrif frá pabba.
 
kv,
sb

Sumrungur KÓ

Saga báts 

Faðir minn Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason, skipa- og bryggjusmiður, byrjaði að læra skipasmíði árið 1938 hjá Valdimar Ólafssyni frænda sínum í Hvallátrum í Breiðafirði. Þá voru þar einnig við nám Einar B. Sturluson og Þorbergur Ólafsson sem seinna stofnuðu ásamt fleirum Bátasmíðastöð Breiðfirðinga, sem seinna hlaut nafnið Bátalón. Valdimar dó aðeins 34 ára gamall vorið 1939 og faðir minn lauk því sínu námi hjá skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1945.


Strax að loknu námi hóf faðir minn að vinna við bryggjusmíði hjá Vita- og hafnarmálastofnun og varð það hans helsti starfsvettvangur í áratugi. Eftir að Þorbergur og Einar stofnuðu sitt fyrirtæki árið 1947 vann faðir minn oft hjá þeim á veturna þegar hlé var á bryggjusmíðum. Vann hann gjarnan við að teikna báta ásamt smíðum o.fl.


Veturinn 1955 teiknaði faðir minn bát sem hann smíðaði síðan um vorið. Byrjað var á smíðinni 1. apríl og 19. apríl var lokið við að byrða bátinn. Þann 28. maí er báturinn sjósettur og gaf dr. Broddi Jóhannesson bátnum nafnið - Sumrungur. Athygli vekur hvað menn voru snöggir að smíða svona bát. Þetta var um tveggja mánaða ferli.


Sumrungur var 8,72 m á lengd, 2,9 m á breidd og 1,09 m á dýpt. Hann mældist 5,26 brl. og vélin var 16 ha Lister. Skipaskrárnúmer 1257.


Eins og sést á myndunum svipar Sumrungi mjög til DAS happdrættisbátanna sem smíðaðir voru á sama tíma hjá Bátasmíðastöð Breiðfirðinga. Faðir minn vann við að teikna þá báta og því ekki skrýtið að Sumrungur líktist þeim. Sumrungur var með innfelldu stefni eins og flestir happdrættisbátarnir. Hjá KEA voru flestir bátar smíðaðir með innfellt stefni eins og sjá má á Húna II á Akureyri. Ekki er ólíklegt að faðir minn hafi haft áhrif á að margir bátar sem smíðaðir voru hjá Bátasmíðastöð Breiðfirðinga voru með slíku stefni.

 

Sumrungur á Skerjafirði

Samkvæmt dagbók þá siglir faðir minn Sumrungi til Reykjavíkur þann 17. júní. 1955 Ekki kemur fram hvert erindið var en næsta mynd gæti verið tekin við það tækifæri.


Sumrungur fyrir utan Reykjavík.


Faðir minn notaði bátinn til fiskveiða og réri frá Kópavogi þar sem við áttum heima. Róið var með handfæri, þorsk-,  ýsu- og hrognkelsanet og einnig var byssan ævinlega með og fugl skotinn ef færi gafst. Ég fór nokkrum sinnum með og hafði gaman af.


Þann 30. nóvember 1956 slitnaði Sumrungur í vestan roki upp frá legufærum sínum þar sem nú er höfnin í Kópavogi og rak upp í fjöru þar sem nú er Bakkabraut. Faðir minn vann þá við að lengja gömlu bryggjuna í Kópavogi og hægt var að bregðast strax við og hífa bátinn á land. Skemmdir urðu litlar. Það var fjör hjá okkur strákunum að fylgjast með þessum atburði.


Í maí 1957 selur faðir minn Sveinbirni Samsonarsyni frá Þingeyri bátinn. Sveinbjörn nefnir bátinn Svan ÍS 28. Sveinbjörn réri bátnum til fiskveiða frá Þingeyri. Hann dekkar bátinn og setur í hann 35 ha Volvo Penta vél.


Í nóvember 1967 kaupir Þorsteinn Stefánsson smiður á Tálknafirði bátinn af Sveinbirni og greiðir honum 210.000 kr. fyrir. Bátinn nefndi hann Otur BA 27. Þorsteinn réri bátnum til ársins 1973 og að hans sögn var þetta listabátur og fiskaðist oft vel á hann. Mesti afli í róðri var um 4 tonn.


Otur BA 27 á Tálknafirði. Myndir í eigu Þorsteins Stefánssonar


Samkvæmt Íslensk skip I bls. 64 er saga bátsins eftir þetta sem hér segir.

 

  • 9. júlí 1973, eigandi Tyrfingur Agnarsson, Reykjavík, Otur RE 150
  • 16. mars 1974, eigandi Guðmundur Friðriksson, Vestmannaeyjum, Sigursæll VE 17
  • 10. júní 1975, eigendur Hlöðver Helgason og Gunnar og Sævar Hlöðverssynir, Reykjavík, Kópur RE 86
  • 31. maí 1977, eigendur Agnar R. Snorrason Húsavík og Snorri Agnarsson Reykjavík, Kópur RE 86. Árið 1978 er gert við bátinn í Bátalóni og þá er sett í hann 38 ha Thornycroft vél.
  • 1. des. 1981, Báturinn er talinn ónýtur og tekinn af skrá.

 

Sigurður Bergsveinsson, desember 2012.

Heimildir:

  • Dagbækur og myndasafn Bergsveins Breiðfjörð Gíslasonar
  • Viðtöl við Þorstein Stefánsson
  • Íslensk skip, eftir Jón Björnsson
  • Gögn í Þjóðskjalasafni frá Siglingastofnun ríkisins
  • Eigin minningar

05.12.2012 21:31

Ellefu tindar

Nú er ég búinn að setja inn allt sem ég hef fundið um tindana, til þessa.  Á eftir að finna meira síðar en vildi koma þessu frá mér.
Við þessa vinnu þá hef ég hugsað, stundum fullmikið en kanski var ekki þörf á þegar á allt er litið.

Ég skrifaði um Fleyg ÞH 301 ex Svan GK.  Þar segi ég að Fleygur sé forveri DAS bátanna.  Þetta er ég farin að efast um.  Tindarnir eru smíðaðir frá 1954-1958.  Fyrsti bátur dregin út í janúar 1955.  Fleygur var smíðaður 1955, spurning hvenær árs hann fór á flot, smíðin gæti hafa fylgt DAS bátunum, en forveri veit ég ekki. 
Ég talaði við annan eiganda bátsins, sem þá hét Svanur GK, Þórodd Vilhjálmsson sem viðurkenndi að hafa sagt einhverjum að þetta væri DAS bátur.  Það sagðist hann hafa gert því honum þótti vænt um bátinn og vildi ekki að honum yrði fargað.


Fleygur ÞH 301, smíðaður 1955, 5,38 brl.  Mynd Hafþór Hreiðarsson

Þá hefur verið minnst á Guðmund Jón SI 22.  Talað hefur verið um að hann væri einn af DAS bátunum en svo er ekki.  Báturinn hefur alla tíð heitið Guðmundur Jón.  Hann var smíðaður í Hafnarfirði 1953 og hafi hann verið smíðaður í Bátasmiðju Breiðfirðinga þá er hann líklega forveri DAS bátanna, því gæti ég trúað.  Mér datt fyrst í hug hvort hann væri hinn glataði Kofratindur en sá var smíðaður 1958 svo það stenst ekki.  Og fyrst Guðmundur Jón var smíðaður 1953 þá var ekki byrjað að smíða Tindana, nema kanski þann fyrsta Heklutind.  Ef Guðmundur Jón er báturinn sem sagt er frá hér í greininni að neðan, að hann hafi verið settur upp við Hrafnistu í Reykjavík fékk ég þær fréttir frá stjórnarmönnum DAS að líklega hafi báturinn bara grotnað niður þar.  Þó virðist ekkert vera vitað af því hvort báturinn hafi verið settur upp við Hrafnistu.  Ég velti fyrir mér hvort sama væri upp á teningnum með Guðmund Jón og Fleyg.  Að það hafi verið sagt að þetta væri einn af DAS bátunum bara til að varðveita hann.  Alla vegna, Guðmundur Jón var smíðaður ári á undan DAS bátunum.




Guðmundur Jón SI 22.  Mynd af Siglfirska fréttavefnum,  http://157.157.96.74/gamli/2005-04-.htm 

05.12.2012 21:15

Klukkutindur var síðastur

5925 Klukkutindur RE 211

Smíðaður í Bátalóni í Hafnarfirði 1958.  Eik og fura.  4,63 brl. 48 ha. sagður með Torneycroft vél en allar vélar sem settar voru í upphafi voru Lister díesel vélar og líklegt að skipt hafi verið um vél.  
Sá ellefti og síðasti af svokölluðu DAS bátum.  Hét upphaflega Klukkutindur RE 211, 5925.
Klukkutindur var dreginn út hjá happdrættinu þann 03. maí 1958 og kom á miða nr. 19420, eigandi miðans var 17 ára stúlka, Hulda Kristinsdóttir, Reykjavík sem þá var jafnframt fyrsti eigandi bátsins.



Hulda Kristinsdóttir við stýrið.  Mynd úr afmælisriti DAS.


Hulda Kristinsdóttir um borð í Klukkutindi.  Mynd úr safni DAS.

Eiganda er ekki getið fyrr en 1962 en báturinn mun hafa verið skráður í Reykjavík.  Seldur 31. október 1962 Sigurði Runólfssyni, Hlíð, Hellissandi, hét Klukkutindur SH 102.  Seldur 28. nóvember 1994 Krossi hf, Stöðvarfirði.  Báturinn heitir Klukkutindur SU 102 og er skráður á Stöðvarfirði 1997.

Eftirfarandi auglýsing var birt í Tímanum, laugardaginn 26. maí 1962.



31. október 1962 er báturinn seldur Sigurði Runólfssyni, Hlíð, Hellissandi, hét Klukkutindur SH 102.  Seldur 28. nóvember 1994 Krossi hf., Stöðvarfirði.  Báturinn heitir Klukkutindur SU 102 og er skráður á Stöðvarfirði 1997.


Morgunblaðið 22. ágúst 1997 um Klukkutind en þar er sagt að hann fari á safn. 

Klukkutindur fer á safn


Ólafsvík - Í sumar var trébáturinn Klukkutindur staðsettur í sjómannagarðinum á Hellissandi, en þar er Sjóminjasafn Hellissands. Sjómannadagsráð Hellisands hefur veg og vanda af safninu og er með einn starfsmann á sumrin sem sér um að upplýsa ferðamenn.

Klukkutindur er einn af happdrættisbátum DAS, smíðaður árið 1958 og var hann dreginn út í happdrættinu það sama ár. Eftir því sem næst verður komist var það kona sem var svo heppin að fá bátinn. Báturinn var talinn mikil happafleyta en hann er síðasti báturinn sem reri frá Krossavík við Hellissand en Krossavík var lokað 1989. Þá gerði Sigurður Runólfsson frá Hellissandi hann út.

Morgunblaðið Wíum KLUKKUTINDUR /Guðlaugur í Sjómannagarðinum á Hellissandi.


Á ferðalagi um Snæfellsnes 18. maí 2012 fékk ég upplýsingar um að Klukkutindur væri í malarnámu við Rif.  Ég kíkti á bátinn og verð að segja að það fari ekkert vel um hann þar sem hann er.  Klukkutindur er orðinn fúinn, snúinn og mjög lúinn.  Líklega verður ekkert gert með Klukkutind, ekki miðað við ástand hans.  Til gamans, eða frekar sorglegt, má geta þess að ég greip í járn aftan á bátnum.  Það rifnaði nánast af án átaka, svo fúinn er báturinn orðinn.  Ef þetta sem kemur fram í grein morgunblaðsins er rétt og báturinn fór á safn þá er nokkuð ljóst að menn hafa gefist upp á bátnum, líklega vegna ástands.  Of dýrt yrði að gera hann upp.  Báturinn er ónýtur og þyrfti að smíða hann allan upp að mínu mati, smíða nýjan bát.  Margar fleiri myndir af bátnum í albúmi, smellið á mynd til að skoða þær.


Séður að aftan virðist báturinn nokkuð réttur.  Rif 18. maí 2012


Að framan má sjá hve undin báturinn er.  Rif 18. maí 2012


Klukkutindur.  Rif 18. maí 2012

05.12.2012 20:53

Sólartindur er tíundi

5433 Sólartindur RE 61


Smíðaður í Bátalóni í Hafnarfirði 1958.  Eik og fura.  4,5 brl. 32 ha. Lister vél.




Báturinn er 10. Happdrættisbáturinn frá DAS.  Hann var dreginn út 3. mars 1958 og kom á miða nr. 55571 í eigu Kjartans Guðmundssonar, Ströndum, sem jafnframt er þá fyrsti eigandi bátsins.

Þegar báturinn er fyrst skráður er eigandi bátsins Benjamín Sigurðsson, Reykjavík, frá 17. apríl 1968.  Ekki er getið um eigendur fyrir þann tíma.  Benjamín selur bátinn 15. október 1974 Guðmundi Hólm Sigurðssyni, Þórshöfn, hét Sólartindur ÞH 11.  Seldur 18. júlí 1976 Jóhanni Guðmundssyni, Þórhsöfn.  Seldur 13. desember 1976 Guðmundi L. Guðmundssyni, Bala, Miðneshreppi, heitir Sólartindur GK 382.  Seldur 28. september 1984 Jóhannesi Daða Halldórssyni og Haraldi Hinrikssyni, Keflavík, sama nafn og númer.  Báturinn er skráður í Sandgerði 1997.

Ofangreindar upplýsingar eru fengnar í Íslansk skip, bátar en í yfirliti í þeirri bók koma fram tvær skráningar í viðbót við þessar þ.e. Sólartindur KE 18 og Sólartindur GK 382 aftur.

Í skipaalmanaki á veraldarvefnum má finna að Sólartindur er afskráður að beiðni eiganda 25. mars 2003.


Heimildir:

Íslensk skip, bátar.

Tímarit.is



Hér er mynd sem er í eigu Kristjáns Kristjánssonar og er á síðu Markúsar Karls Valssonar http://krusi.123.is/blog/2011/10/20/547594/ en myndin var sett inn á síðuna 20.10.2011.



Þessa mynd fann ég á heimasíður Arnbjörns Eiríkssonar sem tekin var 1990 http://stafnes.123.is/blog/2010/01/31/430854/




Á þessum myndum sem ég fann á heimasíðu Þorgeirs Baldurssonar http://thorgeirbald.123.is/blog/2009/07/28/391008/ og teknar voru af Emil Páli sést Sólartindur.  Svona leit hann út í júlí 2009 en búið er að rífa hann mikið, setja á hann annað stýrishús og breyta á ýmsa vegu.  Hvað verður svo um bátinn?

 

Meira síðar........................

05.12.2012 20:45

Keilistindur átti að vera níundi

Keilistindur


Smíðaður í Bátalóni í Hafnarfirði 1957.  Eik og fura.  Um 4,5 brl. 18 ha. Lister vél.

Keilistindur er níundi happdrættisbáturinn og var dregin út á miða nr. 52311 sem var óseldur miði og rennur því báturinn aftur til happdrættisins.


Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá DAS þá rann báturinn til Bátalóns aftur.  Hvað varð um hann eftir þetta er ekki gott að segja.  Upplýsinga verður leitað áfram.


Mér dettur helst í hug að báturinn hafi fengið annað nafn og skráður sem slíkur.  Þá er ég að leita að bát sem var smíðaður í Hafnarfirði 1958 og hefur þetta DAS útlit......................einhver?

Meira síðar...................

05.12.2012 20:33

Snætindur var áttundi

1024 Snætindur ÞH 120

Smíðaður í Bátalóni í Hafnarfirði 1957.  Eik og fura.  6 brl. 18 ha. Lister díesel vél.

Snætindur er áttundir happdrættisbátur DAS og var dregin út 03. mars 1957 og kom á miða nr. 23351 sem var í eigu Jón Sig. Jónsson,  netagerðarmanns á Akranesi, sem er þá fyrsti eigandi Snætinds.  Til gamans má geta þess að Snætindur var 200 báturinn sem Bátalón í Hafnarfirði hafði smíðað.


Snætindur.  Tíminn 06.03.1957



Snætindur til sölu, MBL 16. mars 1957


Jón selur bátinn strax.  Næsti eigandi er Þorgrímur Kjartansson, Þórshöfn, Langanesi frá 6. Maí 1957.  1972 var sett í bátinn 31 ha. Lister díesel vél.  1979 var sett í hann 45 ha. Volvo Penta díesel vél.  Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 21. mars 1985.

 

 

Númer 200


Tíminn 06.03.1957

Bátalón í Hafnarfirði hefir smíðað 200 báta, hinn síðasti er Snætindur.

Bátasmíðastöðin Bátalón í Hafnarfirði, sem áður hét Bátasmíðastöð Breiðfirðinga, hleypti nýlega af stokkunum 200. bátnum, sem stöðin smíðar. Hefir stöðin nú starfað í tíu ár. Þessi bátur var happdrættisbátur DAS og nefnist Snætindur, og var dregið um hann í fyrradag.

Báturinn var til sýnis við Austurstræti um helgina og varð mörgum starsýnt á þennan fríða farkost. Bátar þeir, sem stöðin hefir smíðað, eru flest nótabátar og trillubátar, en sex þilfarsbátar eru þó einnig í þeim hópi. Stjórn stöðvarinnar skipa nú Þorbergur Ólafsson, Jóhannes Gíslason, Einar Sturluson, Sigmundur Bjarnason og Magnús Bjarnason.


 

Þjóðviljinn 17.02.1973



Tíminn 17.02.1973


Tíminn 17.02.1973

Stærstu bátar Þórshafnarbúa upp í fjöru, smábátur sokkinn:

"ÖLDURNAR RISU EINS OG FJÖLL YFIR HAFNARGARÐINN"  þegar menn brutust við mikinn háska út í bátana, sem eftir voru.

Þórshöfn varð fyrir þungu  áfalli i norðanveðrinu i byrjun vikunnar. Tvo stærstu bátana rak upp i fjöru, og er hætt við, að þeir séu gerónýtir, auk þess sem litill bátur sökk. Öðrum bátum, sem lágu við bryggju, tókst að bjarga með miklu áræði og harðfengi. Skarðið, sem höggvið hefur verið i bátaflotann, er mjög tilfinnanlegt, og mun meðal annars hafa i för með sér mikla atvinnuskerðingu á Þórshöfn i vetur.

Svo er sagt frá því að Snætindur hafi sokkið við bryggju á Þórshöfn, báturinn sé um sex lestir, eigandi Þorgrímur Kjartansson.  

02.12.2012 22:10

Hólmatindur var sjöundi

Hólmatindur RE 71, 5483

Smíðaður í Bátalóni í Hafnarfirði 1956.  Eik og fura.  4,67 brl. 18 ha. Lister vél.

Hólmatindur er sjöundi happdrættisbáturinn og hann var dregin út 03. ágúst 1956 og kom á miða nr. 7253, eigandi miðans og fyrsti eigandi Hólmatinds var Páll Beck, Kópavogi, blaðamaður á Vísi.  Páll er að öðrum þræði sjómaður.  Þess má til gamans geta að Páll er alinn upp í Reyðarfirði undir hlíðum Hólmatinds.  Páll selur bátinn fljótlega.

Eggert Bjarni Kristjánsson, Reykjavík kaupir bátinn 24. febrúar 1957.  Eggert selur bátinn 29. des. 1960,  Geir Ágústssyni, Raufarhöfn, hét Hólmatindur ÞH 103.  Seldur 2. septeber 1972 Gunnlaugi Óskarssyni, Sæbergi, Presthólahreppi.  Frá 2. september 1979 voru Gunnlaugur Óskarsson og Jón Jóhannsson, Njarðvík, skráðir eigendur bátsins, sem hét þá Hólmatindur GK 203.  Seldur 20. júlí 1980 Hauki Reyni Ísakssyni, Kópavogi.  Seldur 2. júlí 1982 Grétari Sigurðssyni og Guðmundi Valdimarssyni, Keflavík, en þeir seldu bátinn sama dag Halldóri Grímssyni og Skúla Halldórssyni, Akranesi.  Báturinn er ekki umskráður.  Seldur 9. mars 1983 Skúla Berg Halldórssyni, Patreksfirði, hét Hólmatindur BA 203.  Seldur 21. mars 1985 Gunnari Stefánssyni og Svavari Matthíassyni, Akranesi, hét Ölver AK 82.  Seldur 4. júní 1985 Hreini Gíslasyni, Grenivík, hét Ölver ÞH 146.  Seldur 12. janúar 1986 Hallgrími S. Gunnþórssyni, Borg, Grenivík, hét Hugrún ÞH 240.  Seldur 5. desember 1991 Guðbjörgu Herbertsdóttur, Grenivík, sama nafn og númer.  Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 29. janúar 1997.

Dagar Hólmatinds eru ekki taldir.  Ég fann grein í Brimfaxa síðan í júní 2010.  Greinina getiði séð alla hér http://brimfaxi.goggur.is/brimfaxi/1.tbl.2010.pdf en þar kemur m.a. fram.  Flestir þessara báta hafa týnt tölunni, fæstir ef nokkrir á sjó í dag en einn heillegastur er bátur sem er á Grenivík og stendur þar uppi við hlið Útgerðarminjasafnsins á Grenivík.  Þetta er Hugrún ÞH 240, sem upphaflega hét Hólmatindur RE 71, vinningur í happdrætti DAS í ágústmánuði 1956.  Báturinn kom til Greinvíkur frá Akranesi 1986, þá í eigu Hreins Gíslasonar, en var ósjófær.  Þá fær hann nafnið Ölver ÞH 215.  Bátinn eignaðist síðan Svavar Gunnþórsson og setti í hann 82 ha. Ford Mermade-vél en árið 1996 er hann úreltur og síðan gefinn Útgerðarsafninu á Greinivík.  Svavar gerði hann upp fyrir hreppsfélagði.


Hugrún ÞH 240 ex Hólmatindur RE 71.  Mynd úr Brimfaxa, 2010.


Mynd sem Jóhannes Guðnason tók, mynd af síðu Emils Páls.


Heimild:

Íslensk skip, bátar

Brimfaxi, júní 2010

Tímarit.is

02.12.2012 21:49

Búlandstindur var sjötti

Búlandstindur

Smíðaður í Bátasmiðju Breiðfirðinga í Hafnarfirði 1956.  Eik og fura.  4.67 brl. 18 ha. Lister vél.

Búlandstindur er sjötti happdrættisbáturinn í röðinni og var dregin út 03. mars 1956, kom á miða nr. 27642 sem var í eigu Þorleifs Sigurbrandssonar, Reykjavík, og er hann því fyrsti eigandi bátsins.  Þorleifur hefur ákvðið að selja bátinn strax.


Mynd úr safni DAS



Morgunblaðið laugardaginn 24. mars 1956 er sagt frá svaðilför Búlandstinds

Þeir sem áttu leið um Hafnarfjarðarveg í fyrrakvöld (fimmtudaginn 22. mars 1956), sáu hvar þessi stóri trillubátur lá úti í skurði við brúna í Kópavogi.  Verið var að flytja bátinn til Reykjavíkur frá Hafnarfirði.  Heitir báturinn Búlandstindur og var í síðasta happdrætti Dvalarheimilisins.  Hefur hann verið seldur út á land.  Þarna við brúna slitnaði vagninn, sem báturinn var á, aftan úr bílnum sem dró hann.  Fór vagninn með bátinn út í skurðinn þar sem báturinn valt af.  Ekki urðu á honum neinar skemmdir.  Með krana og tilfæringum var báturinn tekinn upp úr skurðinum og settur á vagn og fluttur síðar um kvöldið til Reykjavíkur.


Tíminn laugardaginn 14. apríl 1956, hluti úr grein

Fyrir skömmu var keyptur hingað til Þórshafnar nýr trillubátur, Búlandstindur, sem kom frá happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna.

Ekki liggur saga Búlandstinds á lausu og mun ég halda áfram að grafa upp allt sem ég finn.  Ef þið hafið einhverjar upplýsingar endilega látið þær koma.

Meira síðar.............................

02.12.2012 20:58

Fimmti var Kofratindur

Kofratindur

Smíðaður í Bátasmiðju Breiðafjarðar í Hafnarfirði 1955.  Eik og fura.

Vélbáturinn Kofratindur er fimmti happdrættisbáturinn.  Hann var dregin út 08. janúar 1956, kom á miða númer 32051 sem var í eigu  Ólafs Jakobssonar, Ísafirði, sem er þá fyrsti eigandi Kofratinds.


Lítið hef ég fundið um Kofratind nema að greinilegt er að Ólafur Jakobsson hefur ákveðið að selja bátinn strax.  Kofratindur var auglýstur til sölu  31. janúar 1956, 4. apríl 1956 og aftur 13. maí 1956.

  

Mynd af Heklutindi.

  

Mynd af Heklutindi


Enn eina söluauglýsinguna fann ég 30. maí 1958, þar heitir báturinn Sæbjörg VE 313 (áður Kofratindur).

Önnur auglýsing var í Fylkir í Vestmannaeyjum 30. maí 1958.  Þar er talað um Happdrættisbátinn Sæbjörgu (áður Kofratind). 

         

Eina sem ég get sagt er að báturinn var dreginn út og Ólafur Jakobsson Ísafirði eignast bátinn.  Hann selur hann strax eða fjótlega.  Greinilegt er að báturinn hefur svo farið til Vestmannaeyja því hann er auglýstur þar til sölu sem Sæbjörg VE 313, 30. maí 1958.  Síðan hefur ekkert til hennar spurst. 

Þetta fer að verða eins og sagan um búkollu, útgáfuna hans Ladda.

Þar sem ég hef engar upplýsingar þá get ég bara dregið áliktanir á því litla sem ég hef og þið sjáið hér.  Það er þó eitt sem ég velti fyrir mér miðað við skort á upplýsingum og það er nafnið Sæbjörg.  Í auglýsingunni er talað um "opin trillubát með bensínvél".  Ég hef þær upplýsingar að allir DAS bátarnir hafi verið með Lister vél, þó er ekkert sem segir að ekki hafi verið skipt um vél.

Ég fékk eina mynd frá DAS sem sýnir bát sem heitir Sæbjörg.  Ekki er vitað hvort þessi bátur var einn af DAS bátunum og engar upplýsingar um þennan bát hjá DAS.  Ég set þessa mynd hér inn svo þið getið skoðað hana.  Ef þið hafið einhverjar upplýsingar um þennan bát eða Kofratind þá endilega látið í ykkur heyra.


Sæbjörg.  Mynd úr safni DAS

Meira síðar  ...............

  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681637
Samtals gestir: 52725
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:40:24