Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

09.08.2013 11:26

Ferðasaga, Norðurland 2013, fyrsti hluti

Fjölskyldan skrapp í smá ferðalag norður í land til að m.a. að heimsækja ættingja og vini.  Ætlunin var svo að halda áfram austur á bóginn og hitta vinafólk okkar þar en það breyttist.  Eftir að hafa skoðað framhaldið ákváðum við að halda svipaða leið til baka nema að fara Dalsmynni, Flateyjardal, út Eyjafjörð og skoða helstu þéttbýlisstaði eins og Hjalteyri, Dalvík, Ólafsfjörð, Siglufjörð og fl.  
Ég er að hugsa um að lýsa þessari ferð í máli og myndum.

Í upphafi ferðar var ekið sem leið lá frá Hafnarfirði til Húsavíkur.  Á Húsavík vorum við í nokkra daga.  Gistum á heimili bróður míns en hann fór með sína fjölskyldu á höfuðborgarsvæðið og héldu til í okkar íbúð.

Frá Húsavík 02. ágúst 2013

Ég fór að sjálfsögðu niður á bryggju og ræddi þar við nokkra karla og tók myndir.  Hér er hefðbundin mynd tekin við Húsavíkurhöfn.  Báturinn Jónas Egilsson í forgrunni.  Þá daga sem við stoppuðum á Húsavík var veðrið ekkert sérstakt.  Hiti í kringum 8 stig, skýjað, rigning suma daga og þoka aðra. En við létum það ekki á okkur fá.

Við kíktum út á Mánárbakka.


Húsið Þórshamar var á Húsavík en var flutt út á Mánárbakka og er safn þar.  
Mánárbakki 04. ágúst 2013


Elfa Dögg inni í Þórshamri, innan um dót sem hún elskar.


Stóru stytturnar eru tálgaðar af Ólafi Guðmundssyni (Óla galdramanni eins og hann var kallaður).
Leirstytturnar fjórar vinstra megin eru íslenskar en Alli vissi ekki eftir hvern, ef einhver veit eitthvað endilaga láta vita.


Þetta hús smíðaði Alli.

Þegar við komum á Mánárbakka tók Alli á móti okkur og bauðst til að leiðbeina okkur um safnið sitt.  Fyrst fórum við inn í Þórshamar.  Þórshamar stóð rétt sunnan við Sjúkrahúsið á Húsavík hér á árum áður en var flutt út á Mánárbakka fyrir margt löngu síðan.  Alli notar það sem hluta af safni sínu sem er mjög flott.  Öllum hlutum haganlega komið fyrir.  Gaman var að skoða þetta safn og ekki spillti fyrir að hafa Alla sem leiðsögumann sem gat frætt okkur um hvar hann hafi fengið þennan og hinn hlutinn.  Merkingar eru oft við hlutina og hæt að lesa um þá.
Á kommóðu í Þórshamri eru nokkrar styttur.  Fjórar stórar tálgaðar styttur eftir Ólaf Guðmundsson (blessuð sé minning hans) eða Óla galdramann eins og hann var nú oft kallaður.  Ólafur var mjög fær í höndum, smíðaði, skar út, málaði og ég held að hann hafi getað allt sem hann langaði til.  Ég fylgdist oft með Óla þegar hann kenndi handavinnu í skólanum, frábær.
Við hliðina á styttum Óla voru fjórar leirstyttur.  Íslenskar að sögn Alla en hann kvaðst ekki vita eftir hvern.  Þetta er stytta af bónda að draga í dilka, maður að taka í nefið, maður að taka tappa úr flösku og smaladrengur.  Ef einhver þekkir þessar styttur endilega láta Alla vita eða sena mér línu og ég kem þeim upplýsingum til Alla.
Torfbær er hluti af safninu, Alli smíðaði húsið sjálfur, ekki eftir neinni fyrirmynd.

Þegar við fórum svo frá Húsavík þá var förinni heitið inn Dalsmynni, lengri leiðin til Akureyrar.  Á miðri leið, eða við Þverá ákváðum við að keyra aðeins leiðina inn Flateyjardal.  Þá leið höfum við aldrei farið og höfðum við gaman af.  


Á leið inn Flateyjardal.

Hér sést vel hvað það er fallegt á þessari leið.  Eftir myndatöku snérum við til baka en þá var talsverð leið út að sjó. Seinni hluti leiðarinnar verður farinn síðar þegar við höfum meiri tíma.


Elín Hanna leikur sér í snjóskafli.

Á leiðinni til baka urðum við að stoppa við einn af þeim snjósköflum sem voru við hliðina á veginum og Elín Hanna tók smá flipp fyrir hann afa sinn.  Talsverður snjór er enn í fjöllum fyrir norðan eins og sjá má.

Næsta stopp var Laufás.


Laufás í Eyjafirði 05. ágúst 2013

Við guðuðum á glugga og litum inn í kirkjuna.  Elfa Dögg tók nokkur lög en ég rölti um að tók myndir.  Ég hef oft ekið þarna framhjá en aldrei stoppað fyrr en nú. Fallegur staður og ekki spillti veðrið.

Akureyri var næst á dagskrá.  Þó ég hafi nú oft komið það eins og gefur að skilja þá verð ég að segja að það er margt sem breytist með tímanum.  Ég þoldi ekki Akureyri og Akureyringa á mínum yngri árum.  Annað er upp á teningnum í dag.  Ég hef gaman af að koma til Akureyrar og skoða mig um.  Já, tímarnir breytast og mennirnir með.

Leiðbeiningarskilti á Akureyri

Þetta skilti sýnir að við vorum kanski svolítið svona þ.e. vegir liggja til allra átta og hvaða leið eigum við að fara.  En við tókum þá ákvörðun að fara út Eyjafjörðinn og til Siglufjarðar með stoppum á helstu þéttbýliskjörnum á leiðinni.


Hjalteyri 06. ágúst 2013

Við kíktum á Hjalteyri.  Myndvænn staður eins og sagt er.  Fyrir utan þessa hálfgerðu loftmynd þá voru þessi fallegu gömlu hús sem ég myndaði en læt þessa mynd duga.  Þá fann ég þarna einn bát sem ég myndaði í bak og fyrir.


Sól á Hjalteyri.

Stubb fann ég á Hauganesi og smellti myndum af honum.


Stubbur á Hauganesi.

Við komun líka við á Árskógsandi.  Að fara í þessi litlu þorp er gaman en sorglegt að mörgu leiti.  Þarna standa sum hún mannlaus og sum illa hyrt.  Það er oftast snyrtilegt í þessum bæjum en þessi sumarhúsabragur sem kominn er á þessa litlu bæi er sorglegur að mínu mati.

Dalvík var næstur á ferð okkar.  Þeir á fullu að undirbúa Fiskidaga.


Skreyting fyrir Fiskidaga á Dalvík.


Ingeborg var nýbúin að landa þegar ég smellti þessari mynd af henni.

Dalvíkinigar voru í óða önn að undirbúa fiskidaginn.  Skreytingar um allan bæ og ratleikurinn hjá þeim hafinn.  Ekki var mikið af fólki komið í bæinn.  Við hins vegar ákvæðum að stoppa ekki lengi.  Eftir smá næringur var haldið af stað.

Læt þetta duga í bili.  Meira síðar.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 620
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 2750
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 344146
Samtals gestir: 31925
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 23:59:51