Hrefna ST 41
Þessi bátur varð á vegi mínum þann 23. apríl 2013, þar sem hann stóð innan girðingar úti á Granda. Ekki hef ég hugmynd um hvaða bátur þetta er og þætti mér vænt um að ef einhver veit eitthvað um hann að senda mér línu.
Fleiri myndir í albúmi. Smellið á myndina.
Meira síðar..........................
Magnús Ólafur Hansen skrifaði í athugasemdir: Hef óljósan grun um að þessi bátur hafi verið smíðaður af Jörundi Gestssyni frá Hellu í Steingrímsfirði, hann smíðaði marga báta með gafli og málaði þá mjög gjarna gula eins og sést undir hvítu málningunni
Eftirfarandi fann ég á síðunni aba.is.
Hrefna ST-41
Stærð: 1,76 brl. Smíðaár 1942. Fura og eik.
Súðbyrðingur. Trilla. Vél óþekkt.
Smíðaður fyrir Einar Hansen, Hólmavík. Um 1950 lengdi Jörundur bátinn og borðhækkaði hann um eitt umfar. Báturinn mældist eftir þessa breytingu 3,00 brl.
Lífssigling bátsins er móðu hulin en árið 2013 tók Ríkarður Ríkarðsson meðfylgjandi mynd af báti sem að áliti Magnúsar Ólafs Hansen gæti verið Hrefna ST-441.
Skrásetjari telur að þarna sé rétt til getið enda leynir bátslagið ekki handbragði Jörundar. Vélin sem í bátnum var þá myndin var tekin er af gerðinni SABB. Hvað um bátinn varð eftir myndatökuna er óþekkt.
Heimild: Vígþór Jörnudsson, Hellu Selströnd.
Hrefna ST-41, Reykjavík 23. apríl 2013
Framhald: Þegar ég keyrði um Hafnarfjarðarhöfn 19.04.2017 rak ég augun í græna trillu sem mér fannst ég eiga að kannast við. Þrír karlar voru þarna, tveir af þeim eigendur bátsins, Samúel Ingi Þórisson og Víðir.
Samúel taldi bátinn vera norska smíði, það væri upprunaleg vél í honum SABB 10ha.
Þeir keyptu bátinn sumarið 2016. Þeir eru búnir að vera að vinna við að gera bátinn upp m.a. hafa þeir skipt um lunningar, skipt um hluta af báðum síðum, negldu hann upp fyrir sjólínu, skiptu um öll bönd, skiptu um þóftubönd, skiptu um þóftur, ný sæti undir vélina, nýtt stýri, ný plitti.
Þessi bátur stóð úti á Granda, Örfriseyjarsvæðinu. Þar rakst ég á bátinn og myndaði 23.apríl 2013. Nafnið á bátnum, Hrefna, kemur frá Tálknafirði, var gamla nafnið á bát Víðis sem hann átti og er nafn frænku Víðis.
Heimild: Munnlegar upplýsingar frá Samúel Inga Þórissyni annars eiganda bátsins 2017.
Þann 09.mars 2021 skrapp ég í bryggjuferð og þá var Hrefna að koma siglandi inn í höfnina. Ég smellti af og fór svo og ræddi við skipstjórann og eiganda bátsins. Báturinn var sjósettur s.l. laugardag og var í smá prufutúr í dag. Breyting var á útliti bátins, smíðaður var hvalbakur á bátinn s.l. vetur. Vélin í bátnum er SABB árgerð 1970. Eigandinn taldi að það hafi verið Eyjólfur Einarsson bátasmiður, eða eins og hann orðiði það að sá sem smíðaði bátinn hafi verið gamli bátasmiðurinn í Hafnarfirði sem átti bátinn við Byggðasafnið.
Hrefna á siglingu í Hafnarfjarðarhöfn, 09.mars 2021. Ljósmynd: Ríkarður Ríkarðsson