Skektan
Myndaði þennan litla bát í tvígang og setti inn mynd í mars 2013. Saga bátsins kemur hér. En hér má sjá eina af myndunum sem ég tók af bátnum. Sigurður Bersveinsson stendur við hliðina á bátnum.
Skektan, 05. mars 2013,
Skekta - sagan
Ljósm. tekin við Bessastaðanes (Seylunni) í apríl 1963. Sigurður um borð í Skektunni.
Báturinn/skektan er smíðaður á Ísafirði veturinn 1963 í skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar af Jakobi Falssyni skipasmið eftir norskri skektu sem Marselíus mun hafa flutt inn. Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason skipa- og bryggjusmiður gefur syni sínum (undirituðum) skektuna í fermingargjöf vorið 1963. Árið 1966 kaupir Alexander Guðbartsson á Stakkhamri í Staðarsveit á Snæfellsnesi bátinn. Seinna eignaðist Bjarni sonur Alexanders skektuna en hann var bóndi á Stakkhamri 1961-2003. Báturinn var notaður sem hlunnindabátur á Stakkhamri við selveiðar og æðarvarp o.fl. Um 2010 eignast Þorbjörg dóttir Alexanders og hennar maður Kristinn Jón Friðþjófsson skipstjóri og útgerðamaður á Rifi bátinn og eiga þau hann í dag. Árið 2011 framkvæmir Ólafur Gíslason Skáleyjum viðgerð á bátnum fyrir þau hjónin, skiptir um afturstefni og mörg bönd o.fl. Báturinn er 5 metrar á lengd, 1,5 metrar á breidd og um 51 cm á dýpt. Báturinn er fjórróinn og með mastur. Jakob mun hafa smíðað fjölda svona skekta og voru þær algengar á sjávarjörðum við Djúp og víðar um Vestfirði. Árið 2013 málsettum við Hafliði Aðalsteinsson bátinn og á grundvelli hennar voru smíðuð skapalón sem hafa verið notuð á námskeiðum FÁBBR þar Hafliði hefur kennt smíðar á súðbyrðingum og á námskeiðunum hefur verið smíðaður bátur sem tekur mið af þessum báti. Í vetur var unnið töluvert í smíðinni sem er langt komin og verður væntanlega kláruð í haust. Myndir af skektunni má sjá inn á vefnum hjá RikkaR http://rikkir.123.is/photoalbums/201691/ og einnig af nýsmíðinni t.d. hér: http://batasmidi.is/photoalbums/254622/
Sigurður Bergsveinsson
22.7.2016