Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2012 Mars

31.03.2012 00:08

Álftanes 30. mars 2012

Sólin braust í gegnum skýjabakkann og þokusúldin hörfaði.  Flott byrta á þeim tíma.  Vildi svo vel til að ég var á ferðinni.  Á meðan gömlu útihúsin spegluðu sig í vatninu þá hlóðust skýin upp yfir Hallgrímskirkju.  Hvað merkir það?


Spegill, spegill, Álftanes 30. mars 2012


Skýjabakkinn hörfar, hlóðst upp fyrir ofan Hallgrímskirkju.  30. mars 2012

31.03.2012 00:02

Skipslíkön

Þessi skipslíkön eru á sjóminjasafni Reykjavíkur og helstu upplýsingar um líkönin.  Flottir gripir og gaman væri að gera gert svona. 















24.03.2012 23:00

Fermingin afstaðin

Ferming dótturinnar var í dag.  Elín Hanna fermdist í dag, 24. mars 2012, sem jafnframt er afmælsidagurinn hennar og hún 14 ára.  Athöfnin í Garðakirkju var falleg og tókst mjög vel.  Veislan var haldin í Skátaheimilinu í Hafnarfirði og tókst í alla staði vel.  Á matseðlinum var gúllassúpa og brauð og í eftirrétt var ísterta og súkkulaðikaka.  Held að gestirnir hafi ekki farið svangir heim.  Nú verður slakað á, sunnudagurinn verður haldinn heilagur.
Setti albúm inn, Ferming EHR, endilega kíkið á það.




Fermingarstúlkan Elín Hanna


Kammerhópur, Auður, Þórey, Hafrún Birna, Iðunn og Elína Hanna tóku lagið fyrir veislugesti

21.03.2012 20:41

Ferming framundan

24. mars 2012 verður merkisdagur fyrir heimasætuna.  14 ára afmælið verður haldið með pompi og prakt, með heilli fermingarveislu.  Já, Elín Hanna okkar fermist þann 24. mars og það er líka afmæli og verður 14 ára.  Það er í mörg horn á líta fyrir okkur öll.  Ein mynd af fermingarbarninu:-)


Elín Hanna í Flekkuvík.

14.03.2012 21:41

Húsavíkurbær

Ég komst að því þegar ég flutti frá Húsavík að ég átti ekki mikið af myndum af húsum á Húsavík.  Þetta snérist að hluta um að ég hafði kanski ekki áhuga á að mynda húsin.  En það kom sem sagt í ljós að þegar ég ætlaði að sýna myndir frá Húsavík þá voru afskaplega fáar til í mínum fórum. 
Ég tók saman myndir sem ég á af húsum á Húsavík og setti í myndaalbúm sem ég nefni Húsavíkurbær. 


Klemma


Gamli Landsbankinn

14.03.2012 20:54

Silla ex Kópur

6140  Silla HF 21 ex Kópur HF 17
Smíðaður af Eyjólfi Einarssyni í Hafnarfirði 1980.  Eik og fura.  3,74 brl. 30 ha. Yanmar vél.
Hét Kópur HF 17, eigandi Bjarni Bjarnason Hafnarfirði frá 22. ágúst 1980.  Bjarni seldi bátinn 29. október 1986, Sævari Hannessyni, Garðabæ.  Báturinn heitir Silla HF 21 og er skráður í Hafnarfirði 1997.
Í dag er búið að úrelda bátinn.  Hann er farinn að láta talsvert á sjá eins og sjá má.  Man ekki hvað núverandi eigandi heitir?

Upplýsingar:
Íslensk skip, bátar.  2. bindi bls. 36, Kópur HF 17, 6140


6140 Silla HF 17, Hafnarfjörður 04. mars 2012

14.03.2012 20:21

7295 Fákur ÍS

Þegar ég fór að leita mér upplýsinga um þennan bát þá kom upp smá árekstrar með þeim upplýsingum sem ég fann.  í ljós kom á svo virðist sem þessi bátur hafi borið tvö skipaskrárnúmer, 5955 og 7295.  Þá er stærð þessara "tveggja" báta ekki sögð sú sama en á því geta verið skýringar.  Gunnar Th. sem eitt sinn átti Fák segir þetta sama bátinn og eftir gagngerar lagfæringar hafi báturinn verið endurskráður og fengið nýtt skipaskrárnúmer.  Gunnar sendi mér eftirfarandi upplýsingar: Skoðaðu hjá honum Jóni Páli. Hann birti mynd af Fáknum og í framhaldi sendi ég honum upplýsingar. Ég átti þennan bát á undan Tryggva og þá hafði hann allt annað skskrnr. (5955) Ruglingurinn varð þegar báturinn var endurskráður.

Hér fyrir neðan getiði lesið allt um þetta.

Í 2. bindi Íslensk skip, bátar kemur eftirfarandi fram, þar virðist talið að um tvo báta sé að ræða:
5955 Fákur ÍS 5
Smíðaður á Horni 1930 af Frímanni Haraldssyni.  Eik og fura.  2,13 brl. 5 ha. Skandia vél.  Eigandi Frímann Haraldsson og Kristinn P. Grímsson, Horni, Sléttuhreppi frá 1930.  Báturinn var seldur 9. júní 1953 Kjartani Guðjónssyni og Gústaf Ólafssyni, Bolungarvík, sama nafn og númer.  Um 1954 var settí bátinn 12 ha. Falcon vél.  Seldur í júní 1956 Þolkeli Sigmundssyni og Eggerti Haraldssyni, Bolungarvík, sama nafn og númer.  Hann var gefinn til Ísafjarðar fyrir nokkrum árum og er þar óskráður 1997. 
(Sjá bls. 89 í Íslensk skip, bátar)

7295 Fákur ÍS 162
Smíðaður á Horni 1933 af Frímanni Haraldssyni.  Eik og fura.  2.76 brl. 11 ha. Lister vél.  Eigandi Tryggvi Sigtryggsson, Ísafirði frá 17. september 1990, þegar báturinn var fyrst skráður.  Ekki er getið um eigendur fyrir þann tíma.  Báturinn er skráður á Ísafirði 1997. 
(Sjá bls. 90 í Íslensk skip, bátar)

Á síðu Jóns Páls kemur eftirfarandi fram:
Fékk póst frá Gunnari Th. sem sagði að báturinn er eða var Fákur ÍS (7295) sem áður fyrr var Fákur ÍS (5955) og var frá Bolungarvík. Hann var smíðaður 1930 af Frímanni Haraldssyni á Horni.

Á síðu aba.is kemur eftirfarandi fram:
Fákur ÍS-5
Stærð: 2,76 brl.  Smíðaár 1930.  Fura og eik.  Afturbyggður súðbyrðingur.  Vél 5 ha. Skandia.  Báturinn smíðaði Frímann Haraldsson til eigin nota er hann bjó á Horni.  Ragnar Jakobsson, Reykjafirði telur að Kristinn Grímsson, bóndi á Horni hafi staðið að smíðinni með Frímanni. Er Kristinn flutti til Ísafjarðar 1946 tók hann bátinn með sér og seldi hann 1953 Kjartani Guðjónssyni, Bolungarvík. Árið 1956 er eigandi bátsins Þorkell Sigmundsson, Bolungarvík en frá árinu 1990 Tryggvi Sigtryggsson, Ísafirði og hjá honum fær báturinn einkennisstafina ÍS-162 og fastanúmerið 7295.

Í 16. hefti ritraðar vestfirska forlagsins "Mannlíf og saga fyrir vestan" á bls. 10, í grein sem Hlynur Þór Magnússon færði í letur, segir Arnór Stígsson, Horni svo frá: "Frímann heitinn á Horni, föðurbróðir, smíðaði Fák en Jakob Falsson kom norður um tíma og aðstoðaði hann við smíðina. Þegar báturinn var fullsmíðaður var honum rennt á sjó niður brekkuna. Það var stór viðburður og mér afar minnistæður".  
Hjá Siglingastofnun er báturinn afskráður 29. ágúst 2002 vegna stórviðgerðar.
Endurgerð bátsins var unnin í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp árið 2005 af hagleiksmanninum Guðfinni Jakobssyni frá Reykjarfirði nyrðri. 
Í Morgunblaðinu 4. júní 2008 kemur fram að báturinn sé aftur kominn á skrá og heiti nú Fákur ÍS-5. Hann er þá í eigu Þorkels Sigmundssonar, Bolungarvík og að einhverju leyti gerður út frá Horni þar sem hann var byggður.

Sjá má af neðanskráðu að á siglingu sinni við Hornstrandir hefur báturinn borið fleira að landi en hann í upphafi var smíðaður til.
Ein af hrikalegust sjóorrustum seinni heimsstyrjaldarinnar var háð á hafinu á milli Íslands og Grænlands 24. maí 1941 . Þar sökkti þýska orrustuskipið Bismarck, 35.000 smálesta stórt, enska orrustuskipinu Hood, 42.000 smálesta skipi, með einu skoti sem hæfði skotfærageymslu skipsins. Hood sprakk í loft upp og með því 1300 manna áhöfn. Golfstraumurinn olli því að lík enskra sjóliða tók að reka á Hornströndum. Að beiðni yfirvalda fóru menn á Fáki ÍS-5 og söfnuðu saman líkum, sem á reki  voru eða komin í fjöru og flutti báturinn þau að landi. Þar var smíðað utan um þessa ógæfusömu einstaklinga og þeim komið í vígða mold í kirkjugarði Furufjarðar.  Mörgum árum seinna grófu Bretar upp fimm líkanna og fluttu heim til Englands en það sjötta var talið af frönskum manni og um það hirtu breskir ekki. 

Ath.
Í ritinu "Íslensk skip. Bátar" 2. hefti á bls. 90 er Fákur ÍS-162 (7295) skráður.
Báturinn er sagður smíðaður á Horni 1933.  Ljóst er að þarna er um Fák ÍS-5 (5955) að ræða og er Ragnar Jakobsson, Reykjafirði sannfærður um að svo sé. Þrátt fyrir að mismunur sé á stærðartölum þessara báta þá segir það ekki alla söguna því alþekkt er að þessar tölur geta breyst frá einni mælingu til annarrar.

Upplýsingar: 
Íslensk skip, bátar, 2. bindi bls. 89 og 90.
Síða Jóns Páls.
aba.is


Svona gæti þá mín útgáfa verið:-)
5955 Fákur ÍS 5 og 7295 Fákur ÍS 162
Smíðaður á Horni 1930 af Frímanni Haraldssyni en Jakob Falsson kom norður um tíma og aðstoðaði hann við smíðina.  Eik og fura.  2,13 brl. 5 ha. Skandia vél.  Eigandi Frímann Haraldsson og Kristinn P. Grímsson, Horni, Sléttuhreppi frá 1930.  Báturinn var seldur 9. júní 1953 Kjartani Guðjónssyni og Gústaf Ólafssyni, Bolungarvík, sama nafn og númer.  Um 1954 var settí bátinn 12 ha. Falcon vél.  Seldur í júní 1956 Þolkeli Sigmundssyni og Eggerti Haraldssyni, Bolungarvík, sama nafn og númer.  Gunnar Th. eignast bátinn og selur hann síðan Tryggva Sigtryggssyni.

Hjá Siglingastofnun er báturinn afskráður 29. ágúst 2002 vegna stórviðgerðar. Endurgerð bátsins var unnin í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp árið 2005 af hagleiksmanninum Guðfinni Jakobssyni frá Reykjarfirði nyrðri. 
Eftir gagngerar lagfæringar endurskráði Tryggvi Sigtryggsson bátinn, nú sem 7295 Fákur ÍS 162.  Hann hefur verið endurmældur og mældist þá 2.76 brl. þá hefur verið skipt um vél og sett í hann 11 ha. Lister vél.  Eigandi Tryggvi Sigtryggsson, Ísafirði frá 17. september 1990, þegar báturinn var endurskráður.  Ekki veit ég um núverandi eiganda af Fák.

Upplýsingar:
Dregið saman úr upplýsingunum að ofan, Íslensk skip, bátar, Heimasíða Jóns Páls og heimasíða aba.is, upplýsingar frá Gunnari Th.


7295 Fákur ÍS 162, Reykjavík 13. mars 2012


Þrátt fyrir að málið hafi verið yfir númerið má enn lesa út úr því 7295

12.03.2012 21:30

Nótan 2012

Nótan uppskeruhátíð tónlistarskólanna.  Sameiginlegir tónleikar tónlistarskóla í Reykjavík voru haldnir laugardaginn 10. mars 2012 í sal FÍH.  Tvennir tónleikar voru haldnir, þ.e. kl. 11:00 voru tónleikar í grunn- og miðnámi og kl. 13:00 voru tónleikar í framhaldsnámi.  Kynnir á tónleikunum var Pétur Grétarsson tónlistarmaður.

Valnefnd skipuðu þau Sigrún Eðvaldsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson og Kjartan Valdimarsson.

Allegro Suzuki tónlistarskólinn, sem Elín Hanna er í, tók þátt.  Þetta voru 10 stúlkur sem spiluðu Perpetual Motion eftir Carl Bohm og Elín Hanna var ein af þeim.

Nú er svo komið að hægt er að sjá atriði stúlknanna á Youtube, en atriði þeirra tókst mjög vel að mínu mati.  Slóðin er hér, http://www.youtube.com/watch?v=qq4ltCvXY4Y ef þetta virkar ekki þá er hægt að opna youtube.com, slá inn í leitarstikuna:  notan_allegroA.avi  þá getiði skoðað og hlustað á þetta frábæra lag sem þær spiluðu.  Því miður komust þær ekki áfram en úrslit Nótunnar fara fram í Hörpu n.k. sunnudag.


Stúlkurnar úr Allegro Suzuki tónlistarskólanum, 10. mars 2012


Valnefndin.

11.03.2012 00:14

Nýr bátur, Fríða Dagmar

Á ferð minni í dag sá ég nýjan bát í Hafnarfjarðarhöfn, Fríða Dagmar.  Hef svo lesið á síðunni hjá Grétari Þór  http://gretars.123.is/  að þessi bátur var sjósettur 6. mars 2012.  Ég er sem sagt alltaf fyrstur með fréttirnar, eða þannig:-)


2817 Fríða Dagmar ÍS 103, Hafnarfjörður 10. mars 2012

05.03.2012 21:46

Fleiri í Hafnarfjarðarhöfn

Flott birta á milli élja í gær, 04. mars.  Máni var að landa þegar ég kom niður að höfn og þá smellti ég myndum af Rússunum við bryggjuna.


Máni GK var að landa í Hafnarfirði 04. mars 2012


Rússarnir eru alltaf við bryggjuna í Hafnarfirði, 04. mars 2012

05.03.2012 21:15

Kristján HF 100

Sá Kristján koma að landi þann 04. mars 2012 og landa.  Ég smellti nokkrum myndum af ferlinu og setti í albúm hér.  Sjáum til hvernig þetta leggst í mannskapinn.  Set hér inn nokkrar myndir, sagan í stuttu máli og myndum.  Aflinn mun hafa verið 4,934 kg samkvæmt því sem ég kemst næst.


Kristján HF 100 rennir inn í ytri höfnina í Hafnarfirði 04. mars 2012

Kristján gengur þokkalega sýnist mér.


Kominn að bryggju, löndun að hefjast.


Löndun hafin, aflinn mun hafa verið 4.934 kg.


Það þurfti aðeins að laga aflann til.


Ýsa var það heillin......


og steinbítur líka.......ekki er hann tannfríður blessaðu.  04. mars 2012
  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681637
Samtals gestir: 52725
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:40:24