Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2008 Október

22.10.2008 15:46

Gamlar myndir ?

Hef haft svolítið gaman af að taka myndir þar sem tíminn er ekki alveg sýnilegur, ef svo má að orði komast.  Hér eru tvær, önnur af seglskútu á leið út á Skjálfanda og á hinni eru tveir litlir bátar sem eru með segl uppi.  Þessir tveir eru vélarlausir og því eins og bátarnir voru í gamla daga.  Nei, þetta eru ekki gamlar myndir, þær voru teknar um Mærudagana á Húsavík.





15.10.2008 10:43

Er myndin rétt?

Þegar maður skoðar myndir sér maður oft að þær halla.  Hér er ein mynd sem ég tók í Austurríki.  Eins og sjá má þá hallar myndin, það er eins og sjórinn halli inn að húsunum.  Þetta er auðvitað hægt að laga með því að skoða hvað þú ert að mynda eða snúa henni í tölvunni og klippa utanaf henni, en svona á ekki að koma fyrir nema þá þú gerir það vísvitandi og þá kemur það strax í ljós. Þessar þrjár myndir sem ég set inn hér halla allar til vinstri, kanski er það eitthvað vandamál hjá mér, þarf að skoða það nánar.


Sjóndeildarhringurinn hallar til vinstri.  Þarna hef ég horft á staðsetningu Elínar Hönnu og klettsins en gleymt sjóndeildarhringnum.

Það er eins og þessi bátur sé að sigla niður brekku!

14.10.2008 10:14

Skjálfandi

Hér koma aftur þrjár myndir sem sýna allar það saman.  Norðurendinn á Kinnafjöllunum.  Fyrsta myndin er tekin ofan af Húsavíkurfjalli, önnur tekin frá Gónhól sem er norðan við Húsavík og sú síðasta af Laxamýrarleitinu, sunnan við Húsavík. 



14.10.2008 09:18

Viltu blása?

Þegar ég fletti í gegnum myndirnar mínar þá eru alltaf nokkrar sem maður stoppar við til að skoðar betur.  Þessar þrjár myndir eru einmitt þannig fyrir mig.  Myndefnið er alltaf það sama, biðukolla.  Ég vona að þið njótið þessara mynda á þessum umhleypingatímum.


13.10.2008 12:47

EItthvað sem truflar ?

Þegar teknar eru myndir af fólki t.d. í veislum eða ferðalögum þá þarf alltaf að hafa í huga hver bakgrunnurinn er.  Þetta litla dæmi sýnir að það þarf lítið til að eitthvað sé á myndinni til að trufla aðalefni myndarinnar. 


Hér er mynd sem EDE tók af mér og Elínu Hönnu í Danmörku.  Góð mynd af okkur, finnst mér, en þó er alltaf eitt sem truflar mig þegar ég skoða þessa mynd og það er andlit konunnar sem rammast svo skemmtilega inn af höfðinu á mér og hnakkanum á manninum fyrir aftan mig. 


Hér tók ég mynd af tengdaföður mínum og Elínu Hönnu í Saltzburg.  Þau komu sér fyrir við þennan riddara.  Rétt áður en ég smellti af kom þarna maður til að skoða í gluggann.  Veit ekkert hver hann er en að mínu mati skemmir hann þessa mynd.  Ég man ekki eftir að hafa tekið eftir þessum manni þegar ég tók myndina, horfði bara á þau tvö.


Hér er mynd af Steinþóri mági mínum tekin á þrettándanum 2008.  Frekar léleg mynd af honum.  Ég ætlaði að ná myndinni þegar henn kveikti á litlu kökunni, en þarna er hann að bakka frá og þá gerðist það flotta við þessa mynd.  Flugeldaprikið sem er bak við Steinþór, það er eins og prikið sé.........já ekki meira um það.

Ef þið eigið möguleika á því þá hugsið um hvað kemur til með að sjást á myndunum sem þið takið.  Ekki bara miða og skjóta.




12.10.2008 00:10

Óvissuferð með vinnufélögum

Ég fór í óvissuferð með vinnufélögum þann 03. október s.l.  Það var snjór eins og sést á myndunum en veðrið var frábært.  Ég setti inn nokkrar myndir frá þessari ferð.  Ekki sést mikið af vinnufélögunum en þó glittir í þá á sumum myndunum.  Við fórum í Selvog og Strandarkirkju, borðuðum svo kjötsúpu í T-Bæ. 
Þessa mynd klippti ég út úr annarri mynd því þetta er eina myndin af mér sem ég tók sjálfur.  Ég er sem sagt þessi vinstra megin, með myndavélatöskuna dinglandi utaná mér og myndavélina í andlitinu.  Fleiri myndir má sjá í albúmi sem ég kalla Óvissuferð.........

11.10.2008 23:16

Hvar í myndfletinum?

Hér er ein mynd sem mig langar til að sýna ykkur.  Myndin er í þremur útfærslum, fyrsta myndin er sú rétta.  Það sem mig langar til að sýna ykkur er hvernig ein mynd getur breyst eftir því hvernig viðgangsefnið er á myndinni.
Á fyrstu myndinni sést steindepillinn elta flugu (flugan sést þarna framan við fuglinn).  Mér finnst þessi mynd nokkuð skemmtileg en vandamálið við hana er að fuglinn er vinstra megin í myndfeltinum og það er eins og hann sé að fljúga út úr myndinni.



Á þessari mynd færði ég fuglinn og fluguna alveg til hægri.  Hér má sjá að fuglinn er að fljúga inn í myndina. 


Hér setti ég fuglinn og fluguna fyrir miðri mynd.  Nú getiði skoðað hvaða mynd ykkur finnst best.  Það er ekkert í bakgrunninum sem truflar og því gott að nota þessa mynd til að skoða þessa þrjá möguleika.  Þetta þarf svolítið að hafa í huga þegar myndir eru teknar hvar aðal viðfangsefnið á að vera staðsett í myndfletinum.

11.10.2008 22:13

Flatnefur

Skrapp í dag, við annan mann, austur í Höfðabakka í Mýrdal til að skoða einn fugl.  Ekki gekk okkur vel að finna fuglinn.  Fuglinn einfaldlega var ekki á "réttum" stað.  Við leituðum því víða á svæðinu en allt kom fyrir ekki.  Rétt áður en við ákváðum að halda heim á leið fórum við aftur á upphafspunktinn og hvað haldiði, þarna var vinurinn mættur og lá við að hann gerði grín af okkur.  Náðum að smella af nokkrum myndum.  Þessi fugl heitir flatnefur.  Frekar stór vaðfugl eins og sjá má.  Hér eru tvær myndir af fuglinum góða og fleiri má finna í fuglaalbúminu.


Flatnefurinn sest rétt hjá álftum.

Hér getiði séð hvernig goggurinn er flatur að framan, líkur skeið.  Myndirnar teknar 11.10.2008.

10.10.2008 10:58

Ljósmyndir. Hvað má betur fara?

Datt í hug að það gæti verið gaman að ræða aðeins um ljósmyndir þ.e. að skoða uppbyggingu þeirra, hvað mætti betur fara og svo framvegis.  Ég veit að ég er ekki sá besti til að leiðbeina fólki en ég hef mínar skoðanir og ég held að þær séu oft á tíðum ekkert verri en annarra. 

Þegar fuglar eru myndaðir þá reyna menn oftast að ná mynd þannig að fuglinn sjáist allur.  Þá er það mjög algengt að fugl á mynd sé fyrir miðri mynd.  Miðjujafnaðar myndir geta verið leiðigjarnar en þó er það oft þannig að annað er ekki hægt. 

Þessi mynd af glókolli er miðjujöfnuð.  Þetta er ekki góð mynd af fuglinum sem slíkum þar sem hann sést ekki nógu vel.  Hins vegar er ég mjög sáttu við þessa mynd í heild sinni þ.e. að glókollur er mjög kvikur og felugjarn oft á tíðum.  Þessi mynd er tekin inní grenitré eins og vel sést og því mikið af greinum sem gátu skyggt á hann.  Mér finnst þessi mynd lísa atferli fuglsins mjög vel, svona er glókollur, felugjarn oft á tíðum.   Hér má velta fyrir sér hvort ég hefði getað fært mig aðeins til hægri og myndin þá orðið betri.  Hefði ég fært mig þá hefði fuglinn í fyrstu verið farinn, í öðru lagi þá hefðu greinarnar tvær sem eru óskýrar framan við fuglinn farið fyir hann, bæði höfuð og miðjan búk.  Í þessu tilfelli hefði ég ekki náð betri mynd en þá er alltaf að reyna aftur síðar.



Þessi mynd er ekki miðjujöfnuð eins og þið sjáið.  Starinn er aðeins til vinstri á myndinni.  Ég er ánægður með þessa mynd og hefði ekki viljað hafa hana neitt betri.  Hér má sjá að á miðju myndarinnar er ekkert nema blár sjórinn.  Miðjan rammast inn af jörðinni, fuglinum, flugunni (svarti punkturinn) og hvönninni.


Að lokum er það sú mynd sem ég er hvað hrifnastur af, af mínum myndum.  Þegar ég skoða þessa mynd þá finnst mér ég finna að fuglinn er einmanna/einfugla, hann er að leita að einhverju.  "Hvar er Dimmalimm?" sagði góð kona við mig þegar hún sá þessa mynd.  Hér er álftin aðeins hægra megin við miðju og ég vildi að speglunin kæmi öll inn til jafn á við álftina sjálfa.

Að lokum hér ein mynd sem er skelfileg.  Það var hins vegar mómentið sem ég sá skemmtilegt við þessa mynd.  Á þessari mynd, sem er nokkurskonar felumynd, má sjá gráhegra hægra megin á myndinni og ber ljósastaurinn í gegnum fuglinn.  Það að ljósastaurinn sé þarna í bakgrunni og sé í gegnum fuglinn er ekki gott.  Hefði ég beðið aðeins lengur þá hefði fuglinn verið farinn framhjá staurnum.  Mómentið er hins vegar það að það er eins og gráhegrinn sé að elta bílinn og þess vegna hef ég leyft fólki að sjá þessa mynd.



10.10.2008 10:12

Meira um veðrið

Í síðustu tveimur bloggum hef ég sett inn nokkrar myndir af veðrinu.  Auðvitað eru myndirnar þó ekki af veðrinu sem slíku en það getur spilað stóran þátt í þeim hughrifum sem sá sem skoðar myndina verður fyrir.  Skoðum þetta aðeins nánar. 
Fyrsta myndin hér að neðan er af Reynisdröngum.  Ef horft er á hana sem slíka þá er þessi mynd ekkert sérstök af dröngunum.  Ef þú horfir á hana út frá veðrinu þá sérðu mikla þoku og segja má að þú "finnir" fyrir veðrinu og Reynisdrangar segja þér einfaldlega hvar myndin er tekin. 
Myndin af Bessastaðakirkju.  Þokkaleg mynd, sem slík, af Bessastöðum.  Ef þú tekur veðrið með í reikninginn þá sérðu að þarna er ótrúlega kalt, allt gras hrímað.  Mikið frost og logn, sem sagt mjög fallegt veður og um leið þá horfir maður á alla myndina en ekki bara Bessastaði.  Það geri ég alla vegna.  Þá má líka segja hér að Bessastaðir segja bara hvar myndin er tekin. 
Þegar þú tekur mynd þá er það spurning hverju vildu ná fram, hvaða hughrif viltu fá frá þeim sem skoðar myndina.   Prófaður þetta sjálf/ur.


Þoka í Vík.  Reynisdrangar.


Frost, logn.  Bessastaðir.


Sólsetur á Skógarsandi.  Undir Eyjafjöllum.


Flateyjarkirkja og Snæfellsjökull.


Þessi mynd er tekin aðeins seinna en myndin af Flateyjarkirkju.

09.10.2008 08:31

Veðrið

Eitt af því sem Íslendingar ræða er veðrið.  Þegar menn komast í þrot með umræðuefni og vita ekki hvað þeir eiga að segja þá tala þeir um veðrið.  Hér í Reykjavík var rok og rigning í morgun þegar ég fór í vinnuna en ég sé að það er aðeins að lægja þó það sé ekki mikið og þá finnst mér rigningin ekki alveg eins mikil en það dropar þó ennþá.  Sumir segir að veðrið á höfuðborgarsvæðinu sé eðlilegt þegar það er rok og rigning.  Kanski er þetta rétt og kanski ekki því ég man..................þarna! 
Eins og ég sagði þá er það veðrið sem er efst í huga mér þessa dagana því það eru minni umhleypingar í veðrinu en í bankamálunum, hér eru nokkrar myndir af veðri.


Brjálað rok og ausandi rigning í Reykjavík.  Hallgrímskirkja.


Fallegt haustveður á Þingvöllum.


Á haustin kemur oft mikil þoka.  Garðakirkja.


Rigningin nálgast. 


Logn á Hlíðsnesi.


Snjókoma í logni.  Hafnarfjarðarhöfn.

02.10.2008 08:29

Rólegt hjá mér

Jæja gott fólk.  Lítið hefur gerst hjá mér undanferið hér á síðunni minni.  Hef ekki gefið mér tíma en það fer vonandi að koma.  Ég á slatta af myndum sem ég þarf að gera klárar og svo set ég þær hérna inn.  Set hér inn myndir svona rétt til að rifja upp, hvað var, hvað er og hvað er framundan.


Sumarið...........er liðið.


Haustið...............er komið.


Veturinn................er framundan.

  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681637
Samtals gestir: 52725
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:40:24