Lengi hef ég séð þennan bát en aldrei látið verða að mynda hann fyrr en í dag, 15. júní 2011. Að vísu hafði ég myndað hann við sólsetur þann 30. maí 2011 en þar sést bara skuggamynd af bátnum.
5672 Óskar HF 9 var smíðaður af Eyjólfi Einarssyni skipasmíðameistara í Hafnarfirði árið 1973 fyrir Einar Ólafsson Gesthúsum á Álftanesi. Ári síða lét svo Einar breyta bátnum eins og hann er í dag. Einar hefur átt bátinn frá upphafi og á hann enn.
Einar er með nokkurskonar mynjasafn hjá sér þar sem hann hefur Óskar og fleira dót sér til gamans. Óskar hafi leyst annan bát af sem hafi verið þarna áður. Sá bátur er nú í geymslu og mun ég fjalla um hann síðar.
5672 Óskar HF 9
Óskar HF 9
Einar sagði mér eina sögu sem ég leyfi mér að segja hér og vona að ég fari rétt með.
Einar kvað þetta hafa gerst laugardag einn í júlí 1983. Það hafi ekki verið of gott í sjóinn en samt þá var Einar frekar eirðalaus. Hann fór niður í fjöru þar sem Óskar var. Á sama tíma kom nágranni Einars að landi og sagði honum að hann færi nú ekki út í þetta. Einar kvaðst nú vera sammála því en samt þar sem hann væri nú kominn þetta þá gæti hann eins farið út undur skerin og reynt að fiska eitthvað.
Þegar Einar var kominn út og var að renna fyrir fisk sá hann að nokkrar skútur voru á leið til Hafnarfjarðar, en þar var verið að halda uppá einhverja hátíð. Einar kvaðst hafa séð að lítil skúta hafði dregist afturúr og var talsvert á eftir hinum. Þar sem hann var að fiska veitti hann því athygli að skúturnar fóru allar framhjá honum nema þessi síðasta.
Einar kvaðst hafa litið eftir skútunni en ekki séð hana. Hann hafi séð einhverjar þúst í sjónum sem hann kannaðist ekki við og sigldi því í áttina. Þegar nær dró sá hann að þetta var skútan og hún á hvolfi. Tveir menn voru á kili skútunnar. Þegar Einar kom til þeirra sagði eldir maðurinn, "taktu strákinn, hann er ósyndur".
Það sem gerðist var að þessir menn, Jóhann Guðmundsson og Guðmundur Jóhannsson, höfðu ákveðið að snúa við en fara ekki til Hafnarfjarðar en þegar þeir venda þá hvoldi skútunni. Þeir hafi nú samt ekki átt að vera í erfiðleikum með að snúa skútunni á réttan kjöl aftur en þeim tókst það ekki. Einar kvaðst halda að það hafi verið farið að fjara út og endi mastursins hafi verið ofan í þaranum og þeir því ekki náð að snúa skútunni.
Einar sagði að það hafi verið greinilegt að hann hafi átt að fara á sjó þennan dag þrátt fyrir veðrið.