Sigurður Bergsveinsson, einn af eigendum Gusts, sendi mér eftirfarandi upplýsingar um sögu Gusts og myndir sem ég setti inn í greinina. Ég set hér fyrst eina mynd af Gusti sem ég tók 19. september við Sundahöfn þar sem Sigurður var á ferð.
Gustur SH 172 við Sundahöfn, 19. september 2010
Gustur SH 172 - Skipaskrárnúmer 6872
Saga bátsins
Gustur, sem er breiðfirskur súðbyrðingur, er teiknaður um 1975 af Bergsveini Breiðfjörð Gíslasyni, skipa- og bryggusmið.
Bergsveinn fæddist 22. júní 1921 í Rauðseyjum á Breiðafirði. Hann lést 26. júlí 2002. Hann ólst upp við eyjabúskap í Breiðafirði (Rauðseyjum, Akureyjum, Fagurey og Ólafsey) en á uppvaxtarárum hans var mikil byggð við Breiðafjörð. Forfeður hans höfðu búið í og við Breiðafjörð um aldir. Margir af forfeðrum og frændum Bergsveins voru afkastamiklir skipasmiðir. Þeir búskaparhættir er þar voru stundaðir eru nú liðnir undir lok að mestu og eyjar og jarðir flestar í eyði. Þetta líf mótaði Bergsvein og hafði áhrif á framtíðarstarf hans sem var við skipasmíðar og hafnargerð. Bergsveinn hóf nám í skipasmíði hjá Valdimar Ólafssyni frænda sínum í Hvallátrum haustið 1938 en þeir Valdimar voru bræðrasynir. Valdimar dó vorið 1939 einungis 34 ára að aldri og var það öllum harmdauði. Eftir dauða Valdimars komst Bergsveinn á samning hjá Gunnari Jónssyni skipasmíðameistara á Akureyri og lauk þar námi 1945. Bergsveinn vann við skipasmíðar í Landssmiðjunni og í Bátalóni í Hafnarfirði. Hann réðst sem teiknari til Vita- og hafnamálastofnunar 1947. Hann varð síðan verkstjóri hjá stofnuninni við hafnarframkvæmdir víða um land og því starfi gegndi hann þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1993, að undanskildum þrem árum er hann var m.a. sveitarstjóri í Stykkishólmi, 1966-69.
Bergsveinn fékk Hafliða Aðalsteinsson frænda sinn frá Hvallátrum til að smíða Gust og var unnið að smíðinni í Kópavogi 1979-1980. Hafliði rak á þessum árum skipasmíðastöð við Smiðjuveg í Kópavogi, með honum var Páll bróðir hans. Bergsveinn tók töluverðan þátt í smíðinni og frágangi bátsins. Gustur var síðan sjósettur í apríl 1980.
Gustur er smíðaður úr furu og eik og er 7,1 metrar á lengd, 2,1 metrar á breidd og 0,91 metar á dýpt og mælist 2,57 brúttórúmlestir. Báturinn var upphaflega með 20 hestafla BUKH vél.
Myndir 1 og 2 sýna vel hvernig Gustur var í upphafi, með u.þ.b. 2m löngu húsi sem náði frá miðum bát og 2 metra fram. Hægt var að ganga fram úr húsinu. Bergsveinn átti bátinn einn í upphafi en 1983 keypti Kristinn Breiðfjörð bróðir hans helminginn í bátnum og gerði hann út á grásleppu og handfæraveiðar frá Stykkishólmi í rúm 10 ár.
Bersveinn við lokafrágang á Gusti vorið 1980
Gustur í Geitareyjum árið 1984
Upphaflega húsið og umgjörðin(borðstokkurinn) var orðið það illa farið að rétt fyrir árið 2000 rífur Bergsveinn, sem þá var aftur orðinn einn eigandi bátsins, það og smíðar minna hús á bátinn. Mynd 3 sýnir hvernig báturinn leit út með það hús.
Gustur í Grýluvogi í Flatey á Breiðafirði á Bátadögum 2009 í hægra horninu
Við andlát Bergsveins árið 2002 eignast Freyja dóttir hans og maður hennar Guðlaugur Þór Pálsson bátinn og áttu hann til 2009 er Sigurður sonur Bergsveins og Helga Bárðardóttir kona hans kaupa helminginn í bátnum á móti Freyju og Guðlaugi.
Ákveðið var að ráðast í endurbætur á bátnum veturinn 2010. Hafliði Aðalsteinsson tók að sér að framkvæma breytingarnar sem eru eftirfarandi:
Húsið og annað tréverk inna skrokks var rifið úr bátnum ásamt vélbúnaði og öllum lögnum. Við skoðun kom í ljós að skipta þurfti um 3 bönd og var það gert. Því næst var smíðað nýtt hús á bátinn, sem nær frá miðjum báti og alveg fram á stafn. Báturinn var borðhækkaður fyrir aftan hús, gólfi var lift þannig að innra rýmið stækkaði verulega og breidd bátsins nýtist betur. Sett var í bátinn ný vél, 40 hp.Yanmar. Skrúfubúnaður, stefnisrör, lagnir og allt rafkerfi er einnig nýtt svo og flest stjórntæki. Nýr Garmin dýptarmælir og GPS leiðsögutæki með kortaplotter var einnig settur í bátinn. Framkvæmdum lauk í lok júní 2010 og báturinn fór í fyrstu sjóferð eftir breytingar á Bátadögum Bátasafns Breiðafjarðar í byrjun júlí 2010.
Segja má að breytingarnar hafi heppnast vel og handverk Hafliða er mjög gott.
Ljóst er að Gustur á eftir í breyttri mynd að nýtast eigendum og fjölskyldum þeirra vel um mörg ókomin ár.
Mynd 4 sýnir Hafliða Aðalsteinsson við Gusti 3.júní 2010 en þá vann hann við lokafrágang breytinganna.
Hafliði Aðalsteinsson við lokafrágang á breytingum á Gusti 3.6.2010