Sigurður Bergþórsson sendi mér þessa mynd af Björk, en myndin er úr safni afa hans Sigurðar F. Þorsteinssonar sem var bróðir Gunnar frá Litlu Hlíð sem báturinn var smíðaður fyrir. Myndin er tekin á Litlu Hlíðar árum bátsins. Mig langar til að þakka Sigurði fyrir myndina og set hana hér inn.
Björk á Litlu Hlíðar árunum. Mynd úr safni Sigurðar F. Þorsteinssonar.
Björk var smíðuð í Hvallátrum 1936 af Valdimar Ólafssyni bátasmið fyrir Gunnar Þorsteinsson bóndason frá Litlu-Hlíð á Barðaströnd, sem heimilisbátur.
Um 1970 eignaðist Guðbjartur Þórðarson frá Patreksfirðir bátinn. Næsti eigandi var Aðalsteinn Guðmundsson frá Patreksfirðið sem átti Björkina í smá tíma.
Núverandi eigandi, Eggert Björnsson eignaðist bátinn fyrir um 10 árum síðan.
Í upphafi var sett í bátinn 1 cyl. Sleipnir vél og var hún í bátnum til 1970 er hún var tekin úr bátnum. Margar vélar hafa síðan verið í bátnum en gamli Sleipnirinn var gerður upp. Þegar Eggert eignaðist Björkina þá setti hann upprunalegu vélina í bátinn aftur og er hún enn í honum og slær ekki feilpúst.
Í dag er verið að laga Björkina á Reykhólum. Eggert talaði um að í raun væri nánast ekkert eftir af upprunalega bátnum nema eitt þverband.
Björk á siglingu í Hafnarsundi, Flatey á bátadögum 03. júlí 2010