Á ferð minni um síðustu helgi rak ég augun í þennan bát. Báturinn stendur við tjaldstæði við Kaffi Langbrók í Fljótshlíð. Ég skoðaði bátinn og það var ekkert sem sagði mér hvaða bátur þetta var svo ég varð að ræða við starfsfólk á staðnum.
Í ljós kom að þetta er Æskan VE 222. Sóttir voru pappírar um bátinn sem geymdir eru á staðnum og tók ég myndir af einum þeirra. En þá er það saga bátsins, hver er báturinn.
1174 Æskan VE 222
Smíðaður á Siglufirði 1971 í skipasmíðastöð Hauks Freysteinssonar á Siglufirði. Fura og eik. Vélin var Powamarine 79 kW, árgerð 1971. Lengd 11,60, breidd 3,25. 8.81 brl. Hlaut nafnið Dröfn SI 67 frá Siglufirði. Seldur og hlaut nafnið Særún EA 202 og var gerður út frá Hauganesi og síðar Akureyri. Næsti viðkomustaður var á Grenivík og fékk hann nafnið Æskan EA 202. Þá fór hann aftur til Akureyrar og hét Æskan EA 11. Þá fór báturinn á Reykjanesið n.t.t. Sandgerði og hélt nafninu en var GK 222. Þá var báturinn keyptur til Vestmannaeyja stuttu eftir síðust aldamót frá Sandgerði, hélt nafni en fékk VE 222 númerið.
Samkvæmt þeim pappírum sem ég myndaði þá er afsal dags. 22.04.2005, þá er eigandi Útgerðarfélagið Góa ehf, Áshamri 65, Vestmannaeyjum. Síðasti viðkomustaður bátsins er svo hér í Fljótshlíðinni.
Í Fréttablaðinu 11. mars 2007 er sagt frá hreinsunarátaki hjá bæjaryfirvöldum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Þar er sagt frá því að báturinn Æskan VE 222 verði tekinn á land til niðurrifs.
Æskan VE 222. Fljótshlíð 11. ágúst 2013
Nú eru menn misjafnlega ósáttir við að bátar séu geymdir á þurru landi þar sem við vitum að þeir grotna niður með tímanum. Þá eru einnig skiptar skoðanir á því hvaða eigi að gera við þessa báta. Ég er á því að alla trébáta eigi að varðveita og það á sjá og halda þeim við. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að það er ekki hægt. Þá er það spurninginum að Pollýönnuleikinn. Er ekki betra að bátar sem vitað er að eigi að rífa séu settir einhversstaðar niður fólki til ánægju? Okkur finnst það slæmt að sjá á eftir þessum bátum vera settir á bálið, vera rifnir niður, vera eytt á einhvern annan máta. Er það að setja þá á land eitthvað annað en gert er á sjóminjasöfnum, þar standa bátar á landi, eru málaðir reglulega en fara aldrei í sjó og verða jafn ónýtir þar eins og þeir sem eru eins og Æskan t.d. á þessu tjaldstæði. Um þetta er hægt að ræða endalaust og við fáum mörg svör og misjafnar skoðanir. Þarna er illa farið með fallegan bát en þar sem átti að rífa hann þá vil ég frekar að hann sé fólki til ánægju. Honum er haldið við eins og hægt er sýnist mér.