Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

09.12.2012 21:30

Sumrungur KÓ

Sigurður Bergsveinsson sendi mér grein um bátinn Sumring KÓ sem ég set inn hér á eftir.  En fyrst vil ég setja smá fyrirspurn frá honum til ykkar allra sem lesið þetta. 
 
Sigurður fór að spá í innfellda stefnið eins og sést í greininni. Gaman væri ef menn sem þekktu til vildu tjá sig um það. Hvar voru bátar með svona stefni smíðaðir annarsstaðar en hjá Skipasmíðastöð KEA og Bátasmíðastöð Breiðfirðinga og í Látrum ?
 
Pabbi og Aðalsteinn Aðalsteinn í Látrum voru vinir (og frændur) og það er ekki útilokað þó ég viti ekkert um það að stefnin á Draupni og Farsæli séu tilorðin fyrir áhrif frá pabba.
 
kv,
sb

Sumrungur KÓ

Saga báts 

Faðir minn Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason, skipa- og bryggjusmiður, byrjaði að læra skipasmíði árið 1938 hjá Valdimar Ólafssyni frænda sínum í Hvallátrum í Breiðafirði. Þá voru þar einnig við nám Einar B. Sturluson og Þorbergur Ólafsson sem seinna stofnuðu ásamt fleirum Bátasmíðastöð Breiðfirðinga, sem seinna hlaut nafnið Bátalón. Valdimar dó aðeins 34 ára gamall vorið 1939 og faðir minn lauk því sínu námi hjá skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1945.


Strax að loknu námi hóf faðir minn að vinna við bryggjusmíði hjá Vita- og hafnarmálastofnun og varð það hans helsti starfsvettvangur í áratugi. Eftir að Þorbergur og Einar stofnuðu sitt fyrirtæki árið 1947 vann faðir minn oft hjá þeim á veturna þegar hlé var á bryggjusmíðum. Vann hann gjarnan við að teikna báta ásamt smíðum o.fl.


Veturinn 1955 teiknaði faðir minn bát sem hann smíðaði síðan um vorið. Byrjað var á smíðinni 1. apríl og 19. apríl var lokið við að byrða bátinn. Þann 28. maí er báturinn sjósettur og gaf dr. Broddi Jóhannesson bátnum nafnið - Sumrungur. Athygli vekur hvað menn voru snöggir að smíða svona bát. Þetta var um tveggja mánaða ferli.


Sumrungur var 8,72 m á lengd, 2,9 m á breidd og 1,09 m á dýpt. Hann mældist 5,26 brl. og vélin var 16 ha Lister. Skipaskrárnúmer 1257.


Eins og sést á myndunum svipar Sumrungi mjög til DAS happdrættisbátanna sem smíðaðir voru á sama tíma hjá Bátasmíðastöð Breiðfirðinga. Faðir minn vann við að teikna þá báta og því ekki skrýtið að Sumrungur líktist þeim. Sumrungur var með innfelldu stefni eins og flestir happdrættisbátarnir. Hjá KEA voru flestir bátar smíðaðir með innfellt stefni eins og sjá má á Húna II á Akureyri. Ekki er ólíklegt að faðir minn hafi haft áhrif á að margir bátar sem smíðaðir voru hjá Bátasmíðastöð Breiðfirðinga voru með slíku stefni.

 

Sumrungur á Skerjafirði

Samkvæmt dagbók þá siglir faðir minn Sumrungi til Reykjavíkur þann 17. júní. 1955 Ekki kemur fram hvert erindið var en næsta mynd gæti verið tekin við það tækifæri.


Sumrungur fyrir utan Reykjavík.


Faðir minn notaði bátinn til fiskveiða og réri frá Kópavogi þar sem við áttum heima. Róið var með handfæri, þorsk-,  ýsu- og hrognkelsanet og einnig var byssan ævinlega með og fugl skotinn ef færi gafst. Ég fór nokkrum sinnum með og hafði gaman af.


Þann 30. nóvember 1956 slitnaði Sumrungur í vestan roki upp frá legufærum sínum þar sem nú er höfnin í Kópavogi og rak upp í fjöru þar sem nú er Bakkabraut. Faðir minn vann þá við að lengja gömlu bryggjuna í Kópavogi og hægt var að bregðast strax við og hífa bátinn á land. Skemmdir urðu litlar. Það var fjör hjá okkur strákunum að fylgjast með þessum atburði.


Í maí 1957 selur faðir minn Sveinbirni Samsonarsyni frá Þingeyri bátinn. Sveinbjörn nefnir bátinn Svan ÍS 28. Sveinbjörn réri bátnum til fiskveiða frá Þingeyri. Hann dekkar bátinn og setur í hann 35 ha Volvo Penta vél.


Í nóvember 1967 kaupir Þorsteinn Stefánsson smiður á Tálknafirði bátinn af Sveinbirni og greiðir honum 210.000 kr. fyrir. Bátinn nefndi hann Otur BA 27. Þorsteinn réri bátnum til ársins 1973 og að hans sögn var þetta listabátur og fiskaðist oft vel á hann. Mesti afli í róðri var um 4 tonn.


Otur BA 27 á Tálknafirði. Myndir í eigu Þorsteins Stefánssonar


Samkvæmt Íslensk skip I bls. 64 er saga bátsins eftir þetta sem hér segir.

 

  • 9. júlí 1973, eigandi Tyrfingur Agnarsson, Reykjavík, Otur RE 150
  • 16. mars 1974, eigandi Guðmundur Friðriksson, Vestmannaeyjum, Sigursæll VE 17
  • 10. júní 1975, eigendur Hlöðver Helgason og Gunnar og Sævar Hlöðverssynir, Reykjavík, Kópur RE 86
  • 31. maí 1977, eigendur Agnar R. Snorrason Húsavík og Snorri Agnarsson Reykjavík, Kópur RE 86. Árið 1978 er gert við bátinn í Bátalóni og þá er sett í hann 38 ha Thornycroft vél.
  • 1. des. 1981, Báturinn er talinn ónýtur og tekinn af skrá.

 

Sigurður Bergsveinsson, desember 2012.

Heimildir:

  • Dagbækur og myndasafn Bergsveins Breiðfjörð Gíslasonar
  • Viðtöl við Þorstein Stefánsson
  • Íslensk skip, eftir Jón Björnsson
  • Gögn í Þjóðskjalasafni frá Siglingastofnun ríkisins
  • Eigin minningar

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 312
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 681406
Samtals gestir: 52701
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:24