Ég fékk upplýsingar um lítinn vaðfugl á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi í dag. Skrapp eftir vinnu til að sjá hvort heppnin yrði með mér og ég gæti séð fuglinn og myndað. Ég hef aldrei séð þessa tegund áður. Þess má geta að þetta er aðeins í annað sinn sem þessi tegund sést hér á landi.
Þessi litli vaðfugl heitir bakkatíta og eins undarlegt og það hjólmar þá var hann á Bakkatjörn. Fuglinn hlaut ekki nafn sitt eftir því hvar hann fannst heldur hefur borið þetta nafn lengi.
Fyrsta bakkatítan sást í Grímsey þann 7. júní 2007. Það var breskur fuglaáhugamaður, Richard White sem sá fuglinn. Bakkatíta er evrópskur vaðfugl sem hefur vetursetu í Afríku og suðaustanverðri Asíu.
Ég byrjaði að mynda kl. 17:13 og hætti að mynda kl. 17:31 og þá voru myndirnar orðnar 300. Ég hef hent mörgum og á ekki "nema" 114 eftir. Til að þið sjáið að þetta hafi ekki verið neitt einsdæmi þá var þarna ungur maður sem taldi sig hafa verið þarna í tvær klukkustundur og hann hafði tekið um 1900 myndir, að vísu af fleiri fuglum en þessum eina. Hér getur svo að líta fyrirsætuna. Margar myndir til viðbótar í albúmi.
Bakkatíta á Bakkatjörn, 18. október 2012
Bakkatíta á Bakkatjörn, 18. október 2012