Það kom mér verulega á óvart þegar ég heyrði hvaða bátur Júlli var en hann er gamli Kristján ÞH5. Hafþór hafði sent mér mynd af Júlla frá Húsavík, við í sameiningu sögðum þetta ekki sama Júllann en við höfðum rangt fyrir okkur.
Júlli x Kristján ÞH 5, 5430
Smíðaður á Húsavík 1966 af Jóhanni Sigvaldasyni skipasmið á Húsavík. Eik og fura. 2 brl. 10 ha. Thornycroft vél. Afturbyggður opinn súðbyrðingur.
Smíðaður fyrir Helga Kristjánsson Setbergi á Húsavík frá 18. mars 1966. Helgi átti bátinn í 27 ár eða til ársins 1993. Frá því ári var báturinn skráður á Höfða hf. Húsavík. Seldur 27. ágúst 1996 Kristjáni Ásgeirssyni Húsavík.
Aðalsteinn Júlíusson á Húsavík eignast bátinn í kringum 1999-2000. Hann náði að eignast bátinn rétt áður en gefa átti hann á leikvöll á Húsavík. Báturinn var frekar lúinn en Aðalsteinn tók bátinn í gegn og gerði hann upp, skipti um nafn og kallaði bátinn Júlla. Aðalsteinn seldi bátinn til Reykjavíkur um 2003-2004.
Núverandi eigendur eru Kristján Atli Hjaltalín og Guðmundur Sighvatsson en þeir keyptu bátinn af Aðalsteini. Kristján kvaðst hafa gert lagfæringar á bátnum, m.a. hafi hann skipt um stýrishús, stækkað það lítillega og smíðaði kassa aftan við stýrishúsið því plássið sem þar var hafi nýst illa. Þá hafi hann sett mahogníhurð og mahogní í kringum gluggana.
Kristján sagði það vera þrjú ár sem Júlli hafi ekki farið í sjó og þetta væri spurningin um að gera eitthvað núna í vor ef báturinn ætti ekki að eyðileggjast.
Heimildir
www.aba.is
Íslensk skip, bátar, 4 bindi bls. 141
Kristján Atli Hjaltalín, munnlegar upplýsingar
Júlli, Reykjavík 01. maí 2011
Júlli á Húsavík. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 18. ágúst 2001