Alltaf finnur maður eitthvað sem vekur áhuga manns í þessu myndafargani sem maður hefur tekið í gegnum tíðina. Eftir að ég eignaðist bækurnar Íslensk skip, bátar hefur upplýsingastreymið aukist til muna.
Nú rak ég augun í myndir af bát sem ég myndaði árið 2006 og er gamall Húsavíkingur. Þessar myndir hafa bara verið í safninu mínu og ég held ég hafi ekki sett þær inn hér áður.
5452 Ársæll VE 4 ex Ársæll ÞH 46.
Smíðaður á Húsavík 1958. Eik og fura. 2,5 brl. 10 ha. Sabb vél. Eigandi Hreiðar Friðbjarnarson, Húsavík, frá 15. maí 1961. Hreiðar seldi bátinn 27. febrúar 1981 Viðari Þórðarsyni, Húsavík. Seldur 3. febrúar 1983 Sigurjóni Skúlasyni, Húsavík. Seldur 1. desember 1985 Jóhanni Þórarinssyni, Húsavík. Jóhann seldi bátinn 18. febrúar 1988 Kristni V. Magnússyni og Svavari Steingrímssyni, Vestmannaeyjum, hét Þrasi VE 20.
1974 var sett í bátinn 16 ha. Sabb vél. Hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 14. nóvember 1986.
Talinn ónýtur og svo mynda ég hann við Hafnarfjarðarhöfn 23. mars 2006 og greinilegt að báturinn hefur verið í notkun þá. Spurning hvort hann var endurskráður.
Ársæll VE 4 ex Ársæll ÞH 46, Hafnarfjörður 23. mars 2006