Keyrði upp að Hafravatni 10. september og rak þá augun í þennan bát sem ég tók myndir af. Veit ekkert um hann en vonast til að geta haft upp á eigandanum fljótlega. Báturinn ekki í góðu standi. Ég mun kalla hann Hafravatnsbátinn svo ég finni hann aftur í skránum mínum.
Eigandi bátsins heitir Sveinn Guðmundsson húsgagnasmiður. Báturinn er smíðaður í Noregi og var fluttur inn um 1965 með Arnarfellinu. Sveinn hefur alla tíð átt bátinn. Hann sagði mér að báturinn hafi verið smíðaður sem seglbátur og sé fantagóður sem slíkur. Hann kvaðst auðvita geta sett á hann utanborðsmótor þar sem hann væri með gafli en kvaðst aldrei hafa gert það.
Varðandi skemmdir á bátnum sagði Sveinn að hann hafi verið í geymslu sem líklega hafi verið of þétt og lítið loftað um bátinn. Þá hafi líklega komist smá vatn í hann og því hafi hann skemmst. Sveinn kvað meininguna að gera bátinn upp. Hvenær það yrði væri ekki ljóst. Hann kvaðst hafa áhuga á að fá timbur frá Noregi.
Frá því báturinn kom til landsins hefur hann alla tíð verið á Hafravatni og Sveinn kvaðst hafa siglt honum mikið. Þar sem báturinn hefur ekkert nafn þá ætla ég að halda nafninu sem ég gaf honum, Hafravatnsbáturinn.
Hafravatnsbáturinn, 10. september 2011