Upp við vegg á Bátasafni Breiðafjarðar stendur hvítur bátur upp á endann. Þetta er jullan Dísa. Á bátasafninu má lesa eftirfarandi um Dísu.
Jullan Dísa var smíðuð í Hvallátum af bátasmiðnum og síðar bryggjusmiðnum kunna Aðalsteini Aðalsteinssyni, að líkindum á árabilinu 1950-56. Hún var smíðuð fyrir Sigurgeir Tómasson á Reykhólum og ber nafn eiginkonu hans.
Dísa var alla tíð notuð sem skjöktbátur á Reykhólum. Nú er hún í eigu afkomenda Sigurgeirs en hefur ekki verið notuð síðustu árin.
Á Hlunnindasýningunni á Reykhólum má sjá Dísu á gamalli ljósmynd, líklega frá miðbiki sjöunda áratugar liðinnar aldar. Þar eru hálfbræðurnir Sigurgeir Tómasson og Þorsteinn Þórarinsson á leið í land úr selveiðiferð á vélbát með Dísu í togi en um borð í henni er pilturinn Hugo Rasmus.
Jullan Dísa, 31. júlí 2011